29. nóvember - 6. desember 2022 (8 dagar)
Aðventan í Prag í Tékklandi og Nürnberg í Þýskalandi er yndisleg. Ljósadýrðin á þessum tíma er töfrum líkust og mikil jólastemning ríkjandi. Við ætlum að byrja þessa ljúfu ferð á að dvelja í gullborginni Prag. Þar setja menning, listir og dulúð miðaldasvip sinn á þessa dýrðlegu borg og eru glæstar byggingar hvarvetna, þ. á m. Karlsbrúin, Hradčany kastalinn og gamla ráðhúsið með stjörnuklukkunni frægu. Á aðventunni er borgin einstaklega heillandi, lífleg aðventustemning um alla borg og óskaplega margt að skoða og upplifa. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í gömlu ríkis- og virkisborginni Nürnberg þar sem er að finna elsta jólamarkað landsins. Þar lætur dýrðin ekki á sér standa og ilmurinn af jólaglöggi og ristuðum möndlum er áberandi. Það er margt að skoða og njóta hér í borg en margir Þjóðverjar telja að jólin komi ekki fyrr en þeir eru búnir að koma til Nürnberg á aðventunni og fá sér steikta pylsu og jólaglögg.