30. nóvember - 7. desember 2023 (8 dagar)
Aðventan í Prag í Tékklandi og Regensburg í Þýskalandi er yndisleg. Ljósadýrðin á þessum tíma er töfrum líkust og mikil jólastemning ríkjandi. Við ætlum að byrja þessa ljúfu ferð á að dvelja í gullborginni Prag. Þar setja menning, listir og dulúð miðaldasvip sinn á þessa dýrðlegu borg og eru glæstar byggingar hvarvetna, þ. á m. Karlsbrúin, Hradčany kastalinn og gamla ráðhúsið með stjörnuklukkunni frægu. Á aðventunni er borgin einstaklega heillandi, lífleg aðventustemning um alla borg og óskaplega margt að skoða og upplifa. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í miðaldaborginni Regensburg sem á sér meira en 2.000 ára sögu allt frá tímum Rómverja og hefur hún um árabil verið á heimsminjaskrá UNESCO. Farið verður í áhugaverða skoðunarferð um borgina, gengið að gamla ráðhúsinu og Haidplatz torginu með gistihúsinu Goldenes Kreuz frá 13. öld en þar dvöldu konungar og keisarar á ferðum sínum. Hér leggur ljúfan ilm af jólaglöggi og ristuðum möndlum yfir borgina og tendrar sanna jólastemningu í hjörtum fólks.