Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
30. apríl           Flug til München & SalzburgSalzburg

Brottför frá Keflavík kl. 7.20. Mæting í Leifsstöð um 2 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13.05 að staðartíma. Þaðan verður ekið inn í miðborg München, en hún er höfuðborg Bæjaralands og oft kölluð borgin með hjartað vegna þess hve vel hún hefur haldið sínu gamla útliti og sjarma. Borgin er ekki mjög stór en einstaklega falleg, gömul konungsborg og ein af lista- og menningarborgum Þýskalands. Við munum aka um borgina og m.a. fram hjá Ólympíuleikvanginum ásamt ógrynni glæsilegra og sögufrægra bygginga, brunna og kirkna, en turnar Frúarkirkjunnar eru einmitt tákn borgarinnar sem og ráðhúsið sem stendur við torgið fagra Marienplatz. Tími gefst til að fá sér hressingu og kanna miðbæinn örlítið áður en ekið verður til tónlistarborgarinnar Salzburg þar sem gist verður í 5 nætur á hóteli í miðborginni.

 
 
1. maí          Skoðunarferð um Salzburg & frjáls tímiSkoðunarferð um Salzburg

Fjallafegurð umvefur Salzburg en borgin er þekktust sem fæðingarborg Mozarts sem og sögusvið kvikmyndarinnar Söngvaseiðs eða Sound of Music. Borgin er afar hrífandi og hafa barrokkbyggingar hennar varðveist vel. Salzburg, ásamt stórfenglegu umhverfi Alpanna í kring, laðar til sín fjölda ferðamanna ár hvert. Borgin hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1997.Við byrjum á að fara í skemmtilega skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabell-garðinn og göngum eftir Getreidegasse sem er með elstu og þekktustu götum borgarinnar, en þar er mjög áhugavert Mozartsafn. Komið verður að Mozart torginu þar sem tónlist Mozarts hljómar kl 7, 11, og 18, en stöldrum einnig við hjá Dómkirkjunni. Tími gefst til að kanna iðandi mannlíf borgarinnar, en áhugasamir geta farið upp í kastalann Hohensalzburg upp á fjallinu Mönchsberg, en þaðan gefur að líta glæsilegt útsýni yfir borgina og Salzburgerland.

 
 
2. maí           Arnarhreiðrið & Königsee vatniðKönigsee vatnið

Töfrandi dagur er framundan, nú verður ekin fögur leið til Berchtesgaden í Þýskalandi, en Arnarhreiður Hitlers stendur þar á tindinum Kehlstein í 1.834 m hæð. Húsið var hannað af Martin Bormann, en Hitler fékk það í 50 ára afmælisgjöf frá flokknum. Á leiðinni til baka verður stoppað við vatnið Königsee sem státar af einstakri náttúrufegurð, en vatnið er þekkt fyrir að vera sérlega tært og því hafa rafknúin farþegaskip, hjóla- og árabátar aðeins verið leyfðir á vatninu síðan árið 1909. Hægt verður að fara í skemmtilega siglingu út að helsta aðdráttarafli svæðisins, kapellunni St. Bartholomä frá 12. öld, en þeir sem vilja sjá hana þurfa að sigla eða ganga eftir göngustígum í bröttum fjallshlíðum, því engir akvegir liggja umhverfis vatnið.

 
 
3. maí          Frjáls dagur & Salzburg á eigin vegum

Frjáls er dagurinn í dag til að kanna Salzburg á eigin vegum. Óteljandi margt er í boði, skemmtileg söfn, þar á meðal Mozart safnið, Rezidens höllin gamla og nýja, eða jafnvel taka því bara rólega í Mirabell garðinum. Borgin iðar af mannlífi og alltaf er jafn gaman að sitja á einu af fjölmörgum kaffihúsum borgarinnar og fylgjast með litskrúðugu mannlífinu.

 Wolfgangsee vatnið
 
4. maí           Wolfgangsee vatnið & sigling

Skemmtilegur dagur að Wolfgangsee vatninu sem er eitt þekktasta vatn í Salzkammergut héraði. Við hefjum daginn á því að aka til yndislega bæjarins St.Gilgen sem er þekktur sem fæðingarbær móður Amadeus Mozart. Þar gefum við okkur tíma fram að hádegi, en þá höldum við í siglingu á vatninu yfir til St. Wolfgang. Bærinn og hótelið Weißes Rössl urðu heimsfræg vegna óperettu sem Ralph Benatzkys skrifaði, Im Weißen Rössl am Wolfgangsee. Þar gefum við okkur góðan tíma til að kanna bæinn, en upplagt er að fá sér hádegishressingu á einhverju skemmtilegu veitinga- eða kaffihúsi bæjarins og njóta náttúrufegurðarinnar við vatnið.

 
 
5. maí           Regensburg & sigling á Dóná til WeltenburgSigling á Dóná til Weltenburg

Árla morguns kveðjum við Austurríki og leggjum af stað í átt að Regensburg í Bæjaralandi, gamallar rómverskrar borgar sem býr yfir 2.000 ára sögu. Þar hefur dulúð miðaldanna markað borgina og sögu hennar, enda hefur hún verið á heimsminjaskrá UNESCO um árabil. Á leiðinni verður ekið til Kehlheim þar sem farið verður í töfrandi siglingu á Dóná að Weltenburg klaustrinu. Þar er eitt elsta bjórbrugghús landsins, veitingastaður og mjög falleg klausturkirkja. Klaustrið stendur við ána og hér er upplagt að fá sér hressingu og njóta fegurðar svæðisins við ána. Síðan kemur rútan og ekur okkur til Regensburg þar sem gist verður síðustu 2 nætur ferðarinnar.

 
 
6. maí           Skoðunarferð um Regensburg & frjáls tími

Farið verður í áhugaverða skoðunarferð um borgina, gengið að gamla ráðhúsinu, Haidplatz torginu með gistihúsinu Goldenes Kreuz frá 13. öld þar sem konungar og keisarar dvöldu á ferðum sínum. Við lítum á gamlar miðaldabyggingar, nokkur af gömlu turnhúsum aðalsmannanna, sjáum Golíat húsið og ekki má gleyma frægu steinbrúnni. Regensburg státar af einu aðalverki gotneskrar byggingarlistar í Bæjaralandi, Dómkirkjunni, en þar er starfandi einn frægasti drengjakór landsins Regensburger Domspatzen.

 
 
7. maí           Heimferð frá München

Eftir indæla og skemmtilega ferð verður ekið til München. Brottför þaðan kl. 14.05 og er lending í Keflavík kl. 16.00 að staðartíma.

 
 
Fararstjóri getur fært milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

 
  
 
Verð: 174.700 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 28.900 kr.

 
 Matur í þýskalandi
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar og vínsmökkun. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Aðgangseyrir Arnarhreiðrið ca. € 16, sigling á Wolfgangsee ca. € 10, tannhjólalest upp til Hohensalzburg kastalans ca. € 11, aðgangur í Hohensalzburg kastalann ca. € 12 og sigling til Weltenburg ca. € 8.

 

 
 
Ferðaskilmálar Bændaferða

 

 

Tengdar ferðir