10 góð ráð fyrir ferðalög í heimsfaraldri

10 góð ráð fyrir ferðalög í heimsfaraldri

Heimsfaraldur setur óneitanlega strik í reikninginn þegar ferðalög eru annars vegar, sérstaklega þegar stefnan er tekin út fyrir landsteinana. Rísandi smittölur valda ótta, áfangastaðir eiga það til að loka, flug og ferðir eru felld niður og þessu öllu fylgir mikil óvissa. Ef við ætlum að læra að lifa með faraldrinum þurfum við þó líka að kunna að njóta lífsins í honum miðjum og læra nýjar ferðavenjur.

Við höfum því tekið saman nokkur góð ráð um ferðalög í heimsfaraldri sem hjálpa þér að vera betur undirbúin/n næst þegar þú leggur land undir fót.

1. Fylgstu með þróun smita

Gott er að fylgjast með þróun smita og velja mögulega áfangastaði út frá því. Ef þú vilt fara varlega er gott að velja áfangastað þar sem smittölur eru í lágmarki og faraldurinn undir góðri stjórn. Við mælum síður með því að ferðast til staða þar sem mikið ris er í smitum eða sóttvarnaraðgerðir ekki í góðu ferli.

Þú getur til dæmis fylgst með þróun smita hér.

2. Kannaðu hvert þú mátt ferðast

Hvert ríki hefur sínar reglur varðandi hvaða ferðamönnum er hleypt inn í landið. Skoðaðu vel hvort Íslendingar megi ekki örugglega ferðast til landsins sem þig langar til.

Vörður
Vörður sem skoðar bólusetningarvottorð og neikvæðar niðurstöður úr sýnatöku

3. Talaðu við tryggingafélagið þitt

Athugaðu hvort þú ert með ferðatryggingu og hvað hún dekkar ef þú smitast eða lendir í sóttkví. Kannaðu vel þinn rétt ef þetta gerist fyrir ferð og þú kemst ekki í ferðina og líka hvar þú stendur ef þetta gerist í ferð.

4. Prentaðu gögnin út ef þú átt ekki snjallsíma

Flest sóttvarnargögn á borð við bólusetningarvottorð, niðurstöður sýnatöku og fleira er hægt að geyma í snjallsíma. Jafnframt er hægt að framvísa gögnunum í símanum.

Ef þú átt ekki snjallsíma eða treystir þér ekki til að halda utan um gögnin þar, þá mælum við með því að þú prentir öll gögnin út fyrir ferð og framvísir þeim á blaði.

5. Kynntu þér hvaða reglur gilda á landamærum

Reglur á landamærum geta verið ólíkar milli landa og geta líka breyst hratt. Nýttu dagana fyrir ferð til að kynna þér vel hvaða reglur gilda á þínum áfangastað og hvort þú stenst þær ekki örugglega.

  • Reglur varðandi sóttkví
  • Þarf að framvísa bólusetningarvottorði?
  • Þarf að framvísa neikvæðu PCR-prófi?
  • Þarf að skrá sig inn í landið?
  • Er eitthvað annað sem þarf að huga að?

Förum að reglum
Virðum sóttvarnarreglur

6. Skoðaðu hvaða reglur gilda á áfangastaðnum

Kynntu þér vel hvaða sóttvarnarreglur eru í gangi á áfangastaðnum þínum. Sum ríki eru með ýmis forrit sem auðvelda þér að halda utan um sóttvarnargögnin þín og það einfaldar lífið að skoða þau og setja upp fyrir ferð.

  • Er útgöngubann eða ferðabann?
  • Er grímuskylda?
    • Hvar og hvenær?
    • Þarf sérstakar grímur? (Í Þýskalandi þarf gríman að vera FFP2 vottuð).
  • Þarf að framvísa neikvæðri niðurstöðu sýnatöku?
    • Hvar og hvenær?
    • Hversu lengi gilda niðurstöðurnar?
    • Hvar kemst ég í próf?
    • Hvernig skrái ég mig í próf og hvernig fæ ég niðurstöðurnar?
  • Er eitthvað sem er lokað vegna aðstæðna?


Beðið eftir covid prófi.jpgBeðið eftir að komast í sýnatöku

7. Taktu með þér grímur, spritt og hanska

Við erum almannavarnir og því er mikilvægt að vera vel búin/n á ferðalaginu. Taktu með þér nægilega margar grímur og spritt í handhægum brúsa sem þú getur verið með í vasanum eða veskinu. Einnig er gott að taka með sér hanska til að nota í morgunverðarsalnum á hótelinu eða öðrum stöðum sem hafa marga sameiginlega snertifleti.

Gættu líka vel að fjarlægðarmörkum hvar sem þú ert.

8. Vertu alltaf með gögnin þín tilbúin

Mikilvægt er að vera alltaf með öll sóttvarnargögn reiðubúin hvar sem þú ert og hvert sem þú ferð. Þú gætir alltaf þurft að framvísa þeim. Oft er líka beðið um skilríki til að sannreyna hver þú ert og að gögnin séu þín.

  • Bólusetningarvottorð
  • Neikvæðar niðurstöður úr sýnatöku
  • Vegabréf

9. Sýndu þolinmæði

Ferðalög í heimsfaraldri eru öðruvísi en ferðalög í venjulegu árferði. Þess vegna er mikilvægt að sýna þolinmæði og skilning og gera ráð fyrir því að hlutirnir taka lengri tíma og ákveðnar ferðatakmarkanir geta átt við á tilteknum stöðum og ákveðnum tímum.

10. Mundu að skrá þig inn í Ísland á leiðinni heim

Þegar þú kemur aftur heim til Íslands þarftu að skrá þig inn í landið á heimkoma.covid.is en það gerir þú í fyrsta lagi 72 klst fyrir heimkomu. Þegar þú hefur fyllt skráningarformið út færð þú strikamerki í tölvupósti. Þú gætir þurft að framvísa strikamerkinu á flugvellinum á leið heim og þú sýnir það líka í Leifsstöð við heimkomu og þegar þú mætir í sýnatöku við komu.

  • Þú fyllir út eyðublaðið
  • Framvísar strikamerki
  • Ferð í sýnatöku innan 48 klst frá heimkomu

 

Tengdar ferðir




Póstlisti