Á Íslendingaslóðum í Vesturheimi

Á Íslendingaslóðum í Vesturheimi

Dag einn um hávetur árið 2019 fengum við hjónin tölvupóst frá frænku Jóns, eiginmanns míns, Maxine Ingalls, sem býr ásamt manni sínum á eyjunni Heclu í Manitoba, Kanada. Ísland er þessari konu afar kært og kemur hún og fjölskylda hennar oft í heimsókn til gamla landsins. Í póstinum var boð á ættarmót sem halda átti í ágúst. Við höfðum ekki verið með á dagskrá að heimsækja Íslendingaslóðir en þarna kviknaði smá áhugi. Við nánari skoðun og samræður við aðra, sem fengu boðið, sáum við að best væri að fara í ferð með Bændaferðum, sem við þekktum að góðu og fara ekki á eigin vegum, heldur fá almennilega leiðsögn þarna vestur frá.


Skrifstofa Bændaferða hafði verið með ferðir til Vesturheims áratugum saman og við höfðum heyrt að alltaf hafi verið uppselt í þessar ferðir. Við athugun þarna í febrúar voru einungis örfá sæti eftir í skipulagða ferð þeirra í ágúst og náðum við að tryggja okkur þau ásamt öðrum hjónum úr fjölskyldunni en fram kom að í hópnum yrðu 33 í hópnum með fararstjóranum Jónasi Þór. Fleiri í fjölskyldu okkar fóru á biðlista en komust því miður ekki með.


Ferðin gekk í alla staði vel og sannarlega annað að koma á þessa staði en að fræðast um þá í ræðu og riti eða í sjónvarpi. Við urðum afskaplega hissa að sjá íslensk bæjarnöfn og íslenska fánann hvar sem við komum í Manitoba og Dakota. Það var líka gott að fá frásagnir fararstjóra um þá staði þar sem landar okkar settust að, fólkið okkar sem neyddist til að yfirgefa Ísland á erfiðum tímum og mátti sannarlega og lengi vel strita fyrir viðurværi sínu þarna vestra.

Frá ÍslendingahátíðFrásögn mín verður samt aðeins frá einu atviki í ferðinni sem verður okkur ógleymanlegt. Við fjögur, sem tilheyrðum fjölskyldu Ingalls höfðum verið að fylgjast með árlegu „skrúðgöngunni“ í litla bænum Gimli sem var í alla staði skemmtileg en tók langan tíma og nú langaði okkur til að setjast niður einhvers staðar og fá hressingu. Ekki var að sjá mörg veitingahús en við tókum eftir að á einum stað var að sjá fólk úti á nokkurs konar upphækkaðri verönd við hús og við gengum þangað. Við sáum enga uppgöngu og giskuðum á að það þyrfti að fara inn í húsið til að komast á þessa verönd sem reyndist rétt. Það var yfirfullt af fólki þarna og ekkert borð laust. Við sáum þó fáein sæti við eitt borðið hjá tveim pörum og spurðum hvort við mættum setjast þarna hjá þeim. Það var alveg sjálfsagt og þá tókum við eftir að önnur konan var með íslenska fánann framan á bol sem hún var í. Þarna upphófst fjörugt spjall og sú með íslenska fánann var svo glöð að geta lagt inn orð og orð á íslensku.


Við fengum að vita að þessi fjögur, öll á eftirlaunaaldri, hittast hvert sumar fyrsta mánudag í ágúst til að vera á Íslendingahátíðinni í Gimli. Annað parið býr í Vancouver en hitt í litlum bæ fyrir utan Hollywood. Vinskapur þeirra hófst þegar mennirnir tveir höfðu verið í flugnámi í Kanada og kynnst þar konum sínum sem báðar voru af íslenskum ættum. Önnur konan Pat Guttormsson var listmálari og hafði verið tvisvar með sýningu á Íslandi, annað skiptið á Hofsósi. Hin konan Carol reyndist vera skyld Stefaníu ferðafélaga okkar og urðu þær harla glaðar með þá uppgötvun. Carol brá sér frá og kom til baka með tvær bækur eftir föðurbróður sinn, David Arnason, og gaf okkur, en hann er vel þekktur blaðamaður og rithöfundur þar vestra. David var í viðtali hjá Agli Helgasyni á þeim tíma sem Egill ferðaðist í Manitoba á vegum Sjónvarpsins fyrir einhverjum árum. Í spjalli við þetta skemmtilega fólk komumst við einnig að því að önnur hjónin voru tengdaforeldrar sonar Rosalindar og Einars Vigfússonar, fuglaskurðarmanns á bænum Drangey í Árborg, Manitoba. Hjónin í Drangey hafa verið gestgjafar ferðalanga frá Íslandi í marga áratugi og töluðu íslensku prýðilega. Hópurinn okkar frá Bændaferðum í ágúst sl. er líklega sá síðasti sem fékk að heimsækja þessi heiðurshjón í en listamaðurinn Einar lést aðeins mánuði eftir heimsókn okkar. 


Allt gekk að óskum í þessari ferð. Það var mikil akstur á endalausum sléttum en svo margt að sjá og fræðast um. Við vorum ánægð með fararstjórann og samferðamenn, sem voru bæði frá Reykjavíkursvæðinu og utan af landi. Ingalls hjónin náðu að heilsa upp á okkur, frændfólk sitt og hópinn, á veitingahúsi á eyjunni Heclu, sem segja má að sé eitt fallegasta landsvæðið á Íslendingaslóðum vestra og það urðu fagnaðarfundir. Þessi ferð með Bændaferðum stóð svo sannarlega vel undir væntingum og skilur eftir góðar minningar.


Margrét Örnólfsdóttir

 

Tengdar ferðir




Póstlisti