Ferðasaga Víetnam og Kambódía

Ferðasaga Víetnam og Kambódía

 
Flug til Frankfurt

Ferðin var loksins hafin, við 14 manna hópur, vorum mætt út í Leifstöð, ánægð með það að nú væri allt stússið búið sem maður þarf alltaf að klára áður en haldið er í langferð og nú ekkert annað að gera en að láta ævintýrin gerast. Við vorum lent um hádegi í Frankfurt en því miður vantaði eina töskuna. Eftir skýrslugerð héldum við vongóð á hótelið í Darmstadt hress með það að fá nú góða hvíld áður en alvaran byrjaði. Við skruppum í bæinn í þvílíkum norðangarra að við fórum í öll fötin sem við höfðum sett í töskurnar fyrir hitabeltis ferðalagið hvert utan yfir annað sem dugði þó ekki til að klæða af sér kuldann, þar sem við vorum að koma úr vorveðrinu í Reykjavík.


Flug til Víetnam og millilending Saigon

Fluginu með Vietnam Air seinkaði töluvert eða um eina klukkustund og korter vegna ísingar. Það var misjafn hvað fólk gat sofið en þegar maður er stilltur inn á svona langt flug, flýgur tíminn líka, finnst mér - og það er gott að geta stillt sig inn á nýtt og framandi land.

2  íbúðarhús HoCíMính 27-2-2010.JPG

 
Saigon – Hanoi

Þegar komið var til Saigon höfðum við bara rúman klukkutíma til að fá vegabréfsáritun og ná í töskurnar, fara yfir á annað terminal og tékka okkur inn aftur. Það merkilega var að við þurftum að koma töskunum fótgangandi á milli húsa en þetta tókst allt mjög vel þó að smá titringur kæmi upp því tölvurnar hrundu, akkúrat þegar við vorum komin að borðinu í innritun. Er við gengum um borð í vélina sáum við að vélin hefði líklega beðið eftir okkur ef okkur hefði seinkað en það vissum við ekki þá.
Það var gott að setjast niður í flugvélinni eftir að við höfðum afrekað þessa millilendingu og kl. 09.20 var flogið norður á bóginn til höfuðborgar Víetnams, Hanoi. Leiðsögumaðurinn okkar Yen tók á móti okkur og við héldum heim á hótelið sem var á mjög fallegum stað við svokallað Vesturvatn með útsýni yfir vatnið þar sem menn voru við veiðar. Hér bættust tveir kærkomnir ferðafélagar við í þennan föngulega hóp. Götumyndin einkennist af fólki á mótorhjólum sem streyma um götur borgarinnar og götusölumönnum og við fundum strax þessa suðaustur asísku stemmningu með þægilegum hita, þó mistur væri yfir vatninu. Við hvíldumst aðeins og fórum síðan út að borða, framandi mat í framandi umhverfi.

8  Hrísgrjóna akrar.JPG

 
Höfuðborg Víetnam - Hanoi

Skoðunarferð okkar í Hanoi hófst á því að við gengum fram hjá HoChiMinh safninu og stigum inn í hið forna Búdda Hof Chua Mot, þar sem jarðaför var í gangi. Hin syrgjandi fjölskylda sat flötum beinum við bæn, allir með hvít ennisbönd. Hér er litur dauðans hvítur. Búddamúnkar leiddu fólkið í bæninni með trommuslætti og kyrjandi söng. Nokkurs konar meðhjálpari stóð við ofn til hliðar, í innigarði þar sem komið var inn í hofið. Í ofninn setti hann fagurmáluð módel af hlutum úr pappír. Trúin er að hlutirnir sem þarna eru brenndir, berist hinum látna til himna með reyknum af eldinum. Þetta voru hlutir sem gott er að hafa með sér yfir í annan heim, svo sem peningar, módel af húsi, sjónvarpi, ískáp og sitthvað fleira. En þegar við spurðum Yen hvað þessar dúkkulísur, í allt að því í mannstærð, áttu að tákna, sagði hann okkur að þetta væru tvær hjákonur sem ættingjarnir vildu að hinn látni fengi til sín, því það mætti reikna með að það tæki sinn tíma þar til eiginkona kæmi yfir. Það var óneitanlega mjög áhrifaríkt að fá að upplifa þessa athöfn. Þetta hof tengist Chua Mot Cot „Einnarsúlnuhofinu“ sem er þarna við hliðina, en það var upphaflega byggt 1029. Sagan segir að konungurinn Lý Thai Tong sem var við völd 1028 til 1054 og var barnlaus, lét byggja það eftir að gyðjan AvalokiTeshvara ( Gyðja náðarinnar) hafði í draumi fært honum son, þar sem hún sat á lótusblómi. Frakkar sprengdu það í fyrra Víetnamstríðinu og var það síðan endurbyggt 1959. Við gengum að Ba Dinh torginu þar sem grafhýsi HoChi Minhs er. En þetta torg er afar mikilvægt fyrir Víetnama. Hér lýsti HochiMinh yfir sjálfstæði landsins 2.september 1945 (en stuttu seinna byrjuðu átökin við Frakka). Við gengum framhjá höllinni sem nú er móttökuhús fyrir opinbera gesti en húsið er nú aðalsetur kommúnistaflokksins, eina flokksins í landinu. Við héldum svo í elsta hofið í Hanoi við Vesturvatn sem er nokkurn veginn á móti hótelinu okkar, Chua Tran Quoc, áður en við settumst niður á kaffihúsi. Eftir matinn fórum við í sér víetnamskt vatnabrúðuleikhús, en sú hefð þróaðist á meðal hrísgrjónabænda fyrr á öldum. Einstaklega falleg hefbundin tónlist með framandi leikbrúðum var saga landsins sögð á skemmtilegan og litríkan hátt á sviði sem var í raun tjörn. Brúðuleikararnir voru á bak við tjöld og komu fram í lok sýningar en vatnið náði þeim í mitti. Síðan vorum við keyrð um í riksjahjólvögnum og fengum góða yfirsýn yfir gamla bæjarhlutann, en röltum síðan um verslunarhverfið og götumarkað og gengum síðan fram með Hoan Kiem vatninu. Þar sáum við hina þekktu rauðu TheHue brú sem er stundum kölluð brú hinnar rísandi sólar eða friðarbrúin. Stutta hvíld á hótelinu fengum við áður en haldið var í kvöldmat sem var ótrúlegt hlaðborð með óendanlegu og framandi úrvali matar.

 23 í Hoi-An.JPG
 
Hanoi - Sigling á Halong flóa

Það var gaman að keyra um sveitirnar og sjá bændur og búalið að störfum. Nú var verið að grisja útsæðið og planta hrísgrjónaplöntunni út. Allir akrar voru krökktir af fólki sem stóðu í vatni upp á kálfa. Þetta er tveggja vikna tímabil sem svona mikið er um að vera, því allt er plantað með höndunum en akrarnir eru plægðir með vatnabuffulum. Víetnam er orðið eitt af stærstu hrísgrjóna útflutningslöndum heims, komið fram úr Thailandi. Á mörgum öðrum sviðum hafa orðið ótrúlega miklar framfarir síðustu tuttugu til þrjátíu árin, síðan landið opnaðist gagnvart frjálsum markaðslögmálum hefur hagvöxtur verið 7-9% flest árin.
Þegar komið var að Halong flóa tókum við lítinn bát út í nokkuð stórt og glæsilegt skip. Við sigldum um flóann í mjög framandi landslagi en þar eru að sögn u.þ.b. 3.000 eyjur. Við nutum siglingarinnar í þessu fallega umhverfi sem var mjög áhrifaríkt. Einstakir klettar, litlar eyjar, hellar og víkur, mótaðar úr hafsbotni frumhafsins sem urðu að fellingafjöllum, veðruðust og mótuðust á hundruð milljónum ára. Þjóðsagan segir að eyjarnar séu drekahnúðar og að hann sé hér til að verja landið, en sofi þess á milli. Ekki tókst það nógu vel hjá honum á 20. öldinni því hann svaf af sér þrjú stríð. Um borð fengum við hádegisverð og héldum síðan á litlum báti í gríðastóran og stórfenglegan dropahelli á einni eynni. Eftir að við vorum komin aftur í litla bátinn vorum við nokkur sem létu ferja okkur yfir í aðra eyju og þar gengum við upp á toppinn og sáum yfir flóann og þessar ótal eyjar. Þegar kvöldaði og dulúðleg þokan setti eina og eina sæng að fótlagi sumra eyjanna var eins og við værum komin inn í einhvert ævintýraland. Við enduðum daginn með heillandi kvöldverði með útvöldu víetnömsku sjávarfangi sem beið okkar í skipinu.

15   á Halong-flóa.JPG

 
Sigling á Halong flóa – Hanoi

Á skipinu gistum við eina nótt en næsta dag var komið við í þorpi sem er á syndandi flekum þarna í flóanum. Við stigum í litla árabáta og konur réru með okkur í gegnum gat á einni eyjunni inn í lón sem þar var, alveg aflokað, mjög fallegt og sérkennilegt. Við snérum aftur í skipið og sigldum um stund í átt að ströndinni áður en okkur var skilað í land á litlum bátum. Hádegisverð fengum við, við ströndina í Hal Long borg. Á leiðinni til Hanoi var komið við í keramikverksmiðju og í „kirkjugarði“ þar sem við fengum að heyra um hefðirnar tengdar greftrunum, við höfðum jú upplifað útför tveim dögum áður. Hér er fólk jarðað tvisvar, fyrst er tekin gröf í rauninni fyrir utan kirkjugarðinn. Hún er skreytt blómum og er bara eins og ílangur hóll. Eftir þrjú ár, er líkið grafið upp á ný og beinunum nú komið fyrir í lítilli kistu, ekki meira en meters langri, sem er jörðuð í leiði með fallegri umgjörð. Segja ættingjarnir að þeir séu þá búnir að byggja hús fyrir hinn látna þegar leiðið er tilbúið og er þá sorgarferlinu lokið. Þegar keyrt er um sveitirnar sér maður mikið af gröfum sem eru í jaðri akranna. Kirkjugarðar eru bara fyrir borgarbúa. Þegar komið var á hótelið voru fagnaðarfundir við töskuna sem saknað hafði verið en hún hafði tekið smá krók til Ósló. Stuttu seinna læddist út úr elsta ferðafélagnum okkar að vísindamenn væru nú búnir að finna út úr því úr hverju hringirnir sem sveimuðu í kringum Satúrnus væru, þetta væri óskila flugfarangur.

 
Hue konungsborgin

Að morgni flugum við til Hue sem er gamla konungsborgin. Við vorum komin til Suður- Víetnam, en 1954 var landinu skipt við 17. Breiddargráður. Annars vegar í Norður- Víetnam sem var kommúnistískt og HoChiMinh var leiðtogi þeirra. En hins vegar í Suður- Víetnam sem var hægrisinnað og hin kaþólski Ngo Dinh Diem var forseti þeirra. Fyrst snæddum við hádegismat áður en við héldum í skoðunarferð og tókum síðan stefnu á konungsborgina. Hér var búið frá 1687 fram til 1954, þegar Frakkar hurfu á brott eftir ósigurinn í Dien Bien Phu. Konungurinn missti völdin 1883 til Frakka en sat þó sem nokkurs konar forseti áfram til 1945 þegar lýðveldinu var lýst yfir. Þessi glæsilega konungshöll, sem byggð er í svipuðum stíl og keisarahöllin í Peking, var þó ekki byggð fyrr en 1802. Það var eftir að Tay Son uppreisninni (1771-1802) lauk sem var í raun borgarastyrjöld. Lét þá, hinn eini eftirlifandi afkomandi konungsættarinnar gömlu, reisa nýja höll. Höllin lét mikið á sjá í Vietnamstríðinu þegar Bandaríkjamenn gerðu árás 1968 á Víetkong skæruliðana, sem höfðu komið sér þar fyrir. Nú er verið að gera við þessar glæsilegu byggingar (heimsminjaskrá UNESCO) sem eftir eru, en af 74 eru bara 28 uppistandandi. Við stoppuðum stutt á Dongba þorpsmarkaðinum þar sem allt er hægt að fá. Hossuðumst svo upp í sveit, á hattagerða- og reykelsis verkstæði, sem var í þorpi einu sem ég kann ekki að nefna. Hér vorum við komin á mjög hefðbundið lítið verkstæði þar sem hinir týpísku Víetnömsku sól- og regnkeiluhattar voru gerðir og reykelsi sem allstaðar eru notuð við hvaða tækifæri sem er. Konurnar sem vinna afurðirnar, geta framleit 20 keiluhatta úr pálmalaufum á dag. En 2000 reykelsi sem eru gerð úr myrru, kanel og einhverri blöndu af trjákvoðu sem einskonar deig er gert úr. Gaman að sjá þetta handverk og einstakt að fá líka að sjá þessa moldarsveitavegi og húsin meðfram veginum sem gátu ekki talist meira en kofar. Á leið okkar inn og út úr borginni keyrðum við í gegnum fátækrahverfi. Loksins var komið á hótelið eftir viðburðarríkan dag og við vorum fegin að hvílast ögn áður en haldið var í konunglegan kvöldverð. Við kusum okkur konung og drottningu og kusum engan minni en fyrrverandi bóndann frá hinu konunglega Látrbjargi og hans frú. Fagurlega skreyttur matur var á boðstólum og Víetnamskir tónlistarmenn fluttu ýmis lög á hefðbundin Víetnöms hljóðfæri.

 
Hue – Hoi An

 í Hoi-An.JPG

Eftir að hafa tékkað okkur út og komið dótinu í rútuna, gengum við niður að ánni Xiangjiang „Á ylmsins“ og gengum um borð í drekabát sem sigldi með okkur upp ána til Thien Mu Pagódunnar (Pagóda hinnar Himnaesku móður) sem er eitt að aðalsmerkjum Hue borgar. Turninn er kallaður „uppspretta hamingjunnar“ en hann er 7 hæðir sem er heilög tala hjá búddatrúarmönnum. Við inngang múnkaklaustursins eru ófrínilegar styttur en þetta eru verðir sem varna illum öndum inngang. Klaustrið er nú hvað þekktast fyrir það að hér bjó múnkurinn Thich Quang Ducsem. Hann fórnaði sér til að vekja athygli á harðstjórn Ngo Dinh Diem sem ofsótti búddista og kommúnista á hrottalegan hátt. Það var þann 11. Juni 1963 sem hann keyrði á bíl til Saigon og kveikti í sér á einu af stærstu torgum borgarinnar. Atburðurinn vakti heimsathygli og það varð til þess að Bandaríkjamenn hættu að stiðja Diem og honum varð steypt af stóli. Þrátt fyrir þessa sorglegu sögu finnum við mikla ró og góða strauma í þessu klaustri og hér eru margir sem biðja um frið og jafnvægi fyrir Víetnam og heimsbyggðina alla. Við gengum aftur um borð í drekabátinn og sigldum áfram í átt að Ming Mang konungsgröfunum. Hitinn er orðinn mikill um 36 stig í skugga og Yen segir okkur að þeir sem vilja heldur hvíla sig í rútunni geti gert það. Ég kveð ferðafélagana sem ætla að sitja kyrrir og segi „við förum í gröfina og svo hittumst við hinumeginn“. Þetta varð til þess að sumir vildu kveðjast alveg sérstaklega vel að skilnaði. Það er mikill glæsileiki sem þessar konunsgrafir hafa yfir sér. Konungurinn Lang Minh Mang lét byrja að leita að stað fyrir gröfina um leið og hann varð gerður að konungi. Það var með svokallaðri Geomantik aðferð sem er nokkurnvegin það sama og Feng-Shui nema að það er tengist jörðinni og straumum hennar beint. 1840 deyr konungurinn en sonur hans kláraði að láta gera gröfina. Hjákonur hins látna konungs, 103 að tölu, þurftu að búa í gröfinni í þrjú ár eftir andlát hans, tryggðin hélst yfir gröf og dauða.
 
Við snæddum miðdegisverð á veitingarhúsi í frumskóginum sem var heillandi. Mörg lítil hús og allt afar einfalt en framúrskarandi smekklegt með fallegu handverki. Yen hvatti okkur að ganga svolítið um eftir matinn en þó ekki að fara of langt því enn væru hér svæði sem ekki væri búið að hreinsa af jarðsprengjum eftir stríðið.
Síðan var haldið af stað yfir hið svokallaða „Skýja skarð“ til borgarinnar Hoi An (140 km). Leiðin er ótrúlega falleg og þetta voru í raun þrjú skörð sem við fórum yfir. Við vorum sérlega heppin, útsýnið var stórbrotið snarbrött fjöll sem steyptust beint í sjó fram, algerlega heiðskýrt og engin ský í Skýjaskarði. Komum í gegnum Da Nag og vorum ótrúlega fegin að komast á hótelið í Hoi An eftir langan dag. Fórum eftir stutt stopp inn í gömlu borgina sem er svo skemmtilega lýst á kvöldin með öll sín gömlu hús og skrautlegu ljóskerum.

 
Hoi An

Hoi An var á 17. – 19. öld ein mikilvægasta hafnarborg suðaustur Asíu og eru áhrif frá Kína, Japan og Portúgal mjög einkennandi fyrir borgina enn í dag. Fyrst héldum við í silkiverksmiðju og síðan gengum við um gömlu borgina sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrst var það Japanska brúin sem við skoðuðm sem var byggð á 16. öld og tengir kínverska og japanska hverfið. Síðan litum við inn á Kínverkst heimili þar sem sama fjölskyldan hefur búið í 200 ár, næst stöldrum við í keramiksafni eins og það er kallað þar sem verslunarleiðirnar um allan heim, til og frá Hoi An eru sýndar. Við enduðum í Fujian samkomuhúsinu sem var byggt af Kínversku kaupmönnunum sem settust hér að. Svolítinn frjálsan tíma fengum við að lokum til að skoða markaðinn og ganga aðeins um götur þessarar gömlu heillandi borgar sem hefur varðveist svo vel, áður en hádegismatur var snæddur. Eftir það var haldið á ströndina við hótelið okkar sem var frábær hvíld. Um kvöldið var snætt inn í borginni og eftir matinn fengum við okkur svolítinn göngutúr í mannmergðinni á skemmtilega lýstri markaðsgötunni.

 
Hoi An – Da Nang – Saigon (Ho Chi Mihn City)

Fyrst var keyrt til Da Nang, en þar gengu Bandaríkjamenn á land 8 mars 1965. Við litum inn á steinverkstæði eða öllu heldur búð, en aðal áfangastaður okkar þar var safn um hina Hindúísku hámenningu Chamríkis sem ríktu hér og stóð frá 5.- 15.aldar. Því næst héldum við út á flugvöll því það er komið að því að við fljúum til Saigon sem í dag heitir Ho Chi Minh borg. Strax og við komum inn í borgina er auðséð að við erum komin inn í iðandi líf stórborgar. Hér búa meira en 8 milljónir og það er auðséð að hér er allt að gerast. Lífið á sér stað út á götunum og suðræn stemmning svífur yfir vötnunum. Það er ótrúlegt að sjá staumur mótorhjólafólks á strætunum, líkt og þykkfljótandi grautur, sem flýtur sinn veg án afláts. Samt eru engin slys eða óhöpp að sjá þó aldrei stoppi neinn og allt sé í einni kássu. Mótorhjólafólkið bara krækir sér inn í þvöguna eða víkur fyrir þeim sem koma á móti án þess að stoppa. Hér finnur maður hið suðræna temprament sem er allt öðruvísi en í norðurhéruðunum. Við stoppuðum til að skoða lakkverkstæði og dáðumst af þessu forna handverki sem barst hingað frá Kína fyrir u.þ.b. 2000 árum. Kíktum síðan við í Notre Dam kirkjunni (1880), þar sem verið var að messa og stór hópur fólks stóð úti fyrir framan kirkjuna, eða sat á mótorhjólunum sínum og tók þátt í messunni. Við skruppum yfir götuna á pósthúsið (1891) og héldum síðan á hótelið. Kvölverðurinn var í fallegum innigarði með evrópskri tónlist.

 
Saigon – My Tho – Saigon

Nú héldum við til borgarinnar My Tho við árósa Mekong sem er um 70 km suður af Saigon. Ungur maður tók á móti okkur við bryggjuhúsið, en það var staðarleiðsögumaðurinn okkar í bátsferðinni um árósa Mekong fljótsins sem framundan var. Við heimsóttum litla eyju sem heitir Thoi Son og sáum hvernig kókosmjólkin og kókosmjölið er notað til að búa til sælgæti. Eins var verið að þurrka ávexti og baka pönnukökur úr kókosmjólk þarna á staðnum og boðið til sölu. Síðan gengum við í gegnum ávaxtagarða sem líktus frumskógi og keyrðum á asnakerru smá spöl og fengum síðan að smakka á ferskum suðrænum ávöxtum og hunangi. Síðan var róðið með okkur á þröngum síkjum sem eru umlukt kókospálmasefi. Þessi síki liggja út frá einum af þessum níu örmum Mekong fljótsins sem mynda árósa hennar. Á einum af þeirra vorum við búin að vera að sigla á „Móðurfljótið“ eins og það er kallað hér, sem er 4350 km og er níunda stærsta fljót í Asíu og hvorki meira né minna en 60 milljón manns sem eru háðir vatnasvæði þess. Hádegismaturinn var ekki af lakara taginu og þjónustustúlkurnar sýndu okkur hvernig við áttum að borða hann. Á bakaleiðinni í bátnum fengum við ferskar kókoshnetur með röri til að drekka ferskan safan úr. Þegar komið var í land stoppuðum við í Musteri í My To sem tilheyrir Cau Dahi söfnuðinum, en þar er öllum trúarbrögðum blandað saman á litríkan hátt. Yen kallar þessa trúarhreyfingu “blandaða ávexti“ eða „Tutti frutti“. Söfnuðurinn var stofnaður um 1925 eftir að maður nokkur, Ngo Van Chieu að nafni, fékk vitrun og honum var sagt að nú væri kominn tími til að öll trúarbrögð næðu saman og yrðu sameinuð. Nú er þessi söfnuður orðin 2 milljónir manna víðsvegar um Víetnam. Á heimleiðinni stoppuðum við við veginn, þar sem unnið var við uppskeru á hrísgrjóna ökrunum. Hér er svo frjósamt að bændur fá fjórum sinnum uppskeru af ökrum sínum, sem er mun meira en í norðurhéruðunum. Þegar við komum aftur til Saigon er passlegt að fara í kvöldverð sem var um borð í skipi sem sigldi með okkur á Saigonfljótinu. Það var gaman að sjá borgina í mikilli ljósadýrð frá skipinu. Þetta var nokkurskonar kveðjukvöldverður þar sem við áttum að kveðja Yen daginn eftir.

 
Saigon – Siem Reap (Angkor)

Í dag leggjum við ekki af stað fyrr en í seinna lagi. Við tékkum okkur ekki út af hótelinu fyrr en um kl.10.00 og sumir fóru í sundlaugina en aðrir hvíldu sig bara. Við höfum daginn til að skoða okkur um í Saigon, sem stundum er sögð vera leynileg höfuðborg landsins og byrjum á því að heimsækja TianHau hofið þar sem sjávargyðjan er tilbeðin því hún bjargaði kínversku flóttamönnunum sem flúðu hingað undan nýjum keisara á miðri 17.öld. Í kínverska hverfinu Cho Long gerum við stutt stopp á nokkurskonar heildsölumarkaði. Við herðum upp hugann til að fara á „Stríðsminjasafnið“ sem segir sögu Víetnamstríðsins eða um þátttöku USA 1965-1973 í þessu stríði. Því lauk ekki fyrr en NorðurVíetnamar og suðurvíetnömsku skæruliðarnir Víetcon tóku Saigon, 30. April 1975 og sigruðu þar með Suður-Víetnama. Það er ótrúlegt hvað þessi þjóð hefur þurft að þola í raun samfleytt í þremur stríðum; seinni heimstyrjöldinni, fyrra Víetnamstríði með þátttöku Frakka og seinna Víetnamstríðið með þátttöku Bandaríkjamanna. Hér er ekkert sagt frá hreinsunum og flótta sem byrjaði eftir að kommúnistar unnu stríðið og leiddi m.a.til þess að Víetnamarnir „Boot People“ komu til Íslands. Kommúnistaflokkurinn situr jú enn við völd þó mikið breyttur sé. Nú hefur frjáls markaður fengið að blómstra í meir en þrjátíu ár, sem hefur haft í för með sér mikinn hagvöxt og fátæktin hefur minnkað hlutfallslega um meira en helming á þessum tíma. Enda finnur maður svo greinilega bjartsýnina sem ríkir í landinu. Nú er komið að kveðjustund við skiljum Yen eftir við innganginn á flugvellinum og þökkum honum góða leiðsögn og skemmtilega samveru. Við fljúum til Siem Reap (Angkor Wat) í Kambódíu og spennt að vita hvað í vændum er. Strax þegar við stígum út úr flugvélinni og göngum, í heitum kvöldblænum, af flugbrautinni, inn í þessa fallegu flugstöð sem tekur á móti okkur erum við komin í nýjan heim. Siem Reap er lítil borg 140.000 og hún er við jaðar frumskógarins og hiti er mikill. Við byrjum á því að fá vegarbréfsáritun og allt gengur fljótt fyrir sig. Allir eru kallaðir sérstaklega upp þegar vegabréfin er tilbúin og það vekur kátínu landamæravarðarins og ekki síður okkar hvernig nöfnin eru borin fram. Leiðsögumaðurinn okkar BunSarng tekur á móti okkur með skilti “Inga Group” sem okkur fannst mjög spaugilegt, líklega hefur “Ferðaþjónusta bænda“ verið of flókið. Hann rétti okkur trefla í velkomin-gjöf og síðan höldum við í kvöldmat. Staðurinn heillaði með ótrúlega fallegum mat og borðbúnaði þó allt væri einfalt og mikill sjarmi yfir öllu. Síðan höldum við á hótelið þar sem við munum gista það sem eftir er ferðar.

 
Siem Reap

Það kemur á skemmtilega á óvart hvað Kambódía er mikið öðruvísi en Víetnam. Menningin er mjög tengd Indlandi og Tailandi en landið er eitt af fátækustu löndum í heimi. Aðal áfangastaðurinn hér er hin forna borg Angkor, sem var stærst allra borga í heiminum á 9. öld þegar við Íslendingar vorum rétt að klára landnámið. Fleiri en 1.milljón íbúa bjuggu hér í Ankor, á meðan að London, þá stærst í Evrópu, náði rétt 70.000. Hér er stærsta safn helgra hofa (1000 hof á 200 km² svæði) sem vitað er um í heimi, en hún er byggð á meðan ríki Khmerannna stóð í blóma frá því á 9. öld fram á 15. öld. Hún skiptist í mörg svæði og er einstök vegna þess hvað Hindúisminn og Búddisminn eru hér nátengdir. Byggingarstíllinn hefur sín séreinkenni með sandsteinshlöðnum byggingum þar sem þökin eru líka hlaðin. Þær eru skreyttar óteljandi höggmyndum og stíllinn er alveg einstakur. Árið 1992 var borgin tekin á heimsminjaskrá UNESCO. Fyrst héldum við til Angkor Thom sem er borg útaf fyrir sig byggð af JayaVaramann Vll og umkringd borgarmúrum sem eru 9 km að lengd og hefur fimm hlið. Við gengum inn um sigurhliðið sem er best varðveitti inngangur inn í borgina en röð af 22 styttum sem eru sitthvoru megin fram við hliðið. Annars vegar illilegir verðir og hinsvegar Bodhisattvas góðir verndarar og er öllum styttunum ætlað að verja borgina. Fyrst skoðuðu við Bayon hofin, þar sem á öllum turnum hofsins, príða fjögur andlit Búdda. Eitt andlit í hverja átt í yfirstærð, á hverjum turni, mjög sérstakt og tilkomumikið. Hofið er á mörgum hæðum og turnarnir, sem eru fleiri metrar á hæð gnæfa yfir hlaðnir úr stórfenglega úthöggnum sandsteini. Sumir halda því fram að Jayjavaramann Vll (1150-1218) sem byggði hofið, hafi séð sjálfan sig sem persónugerðan Búdda eða endurborinn, Bodhisattvas Avalokitesvara og þetta sé því mynd af honum sjálfum. Á neðri hæðunum eru lágmyndir sem segja frá daglegu lífi Khmeranna og orustum sem þeir háðu við nágranna sína Chamþjóðina. Fjöldi Aspsara hofdansmeyja skreyta hofin, en þær höfðu sambærilega stöðu og prestar í trúarlífinu í þá daga. Við gengum að hinni svokölluðu BaPuong fílaveröndinni, sem er einskonar heiðurssvið þar sem konunungur lét hilla sig. Á bak við hana er vitað að höll konungs hafi verið sem var byggð úr tré og því hefur ekkert varðveist af henni. Komum fram hjá verund „konungs hinna holdsveiku“ og keyrðum fram hjá Phimeanakas „pýramídanum“. Ankor Watt frægast allra hofanna er á dagskrá eftir hádegi. Það er eldra en Ankor Tom byggt á 10.öld. af YasoVarman I. (889 – ca. 910) en það er hindúistískt. Síkið í kring um það er tákn fyrir frumhafið og hofið sjálft er tákn hins heilaga fjalls Meru, frumjarðarinna eða frumheimsins(úr Hindúismanum). Sum okkar klifu upp í hæsta turninn af fimm sem kallaður er himnaríki en þangað fékk eingöngu konungur að koma ásamt æðstu prestum.
Hitinn var lýjandi, allt að því 36 gráður sem er óvenju mikið á þessum tíma, þannig að við vorum fegin að komast í koju eftir kvöldmat og heillandi Apsaradans sýningu.

 
Siem Reap

Hofin kalla; fyrst höldum við til Ta Keo hofsins sem er líkt píramíta. Árið 1007 var það helgað guðinum Síva af konungnum JayjaVaraman V. Nú er verið að gera við það af Kínverskum fræðimönnum en alþjóðasamfélag fornleifafræðinga er mjög virkt hér í Ankor. Síðan höldum við til East Mebon, byggt um 9015 af RijaVaraman, sem er svipað að formi og byggt úr múrsteini. Það einkennist af risa fílunum sem eru á öllum fjórum hornum á ysta veggs þess. Hér eru guðir yfir dyraumgjörðum, eins og t.d regngyðjan Imbra sem ríður á þríhausafíl. Hið þekkta hof Ta Prohm sem hinn mikli JayjaVaraman Vll byggði í minningu móður sinnar er næst. Það er kallað frumskógarhofið því hér eru einkennandi frumskógartrén sem eru ógnvekjandi stór og vaxa yfir hofin eins og þau séu að gleypa þau. Songtré eins og þau heita verða 200-400 ára og eru hol að innan. Hér hittum við ungt íslenskt par sem er í hálfsárs heimsreisu og tóku þau eftir BunSarng með fánann okkar. Á leiðinni sáum við gúmmítré (einhver sérstök tegund) sem tappað er af með eldi tvisvar í viku í fimm ár. Síðan er það hvílt í fimm ár og vex börkurinn þá aftur yfir sárið. Seinni partinn nutum við þess að rölta um markaðinn og upplifa miðbæ Sin Reap. Kvöldverður á frábærlega fallegum veitingastað.

 
Siem Reap

Ferð til hins einstaka hofs, Banteay Srei, sem er í um 20 km fjarlægð frá Angkor, er á dagskrá hjá okkur dag. Á leið okkar keyrum við fram hjá tjörninni Srah Srang sem er í raun uppistöðulón og var forðabúr fyrir flókið veitukerfi þessarar fornu stórborgar. Þetta vatnsveitukerfi sem ekki var bara veitt á akrana heldur líka í húsin, var mun fullkomnara en það sem er notað í dag. Banteay Srei hofið er eitt minnsta hofið á Angkor svæðinu, en er vegna fínlegra útskorinna lágmynda eitt af þeim fegurstu. Það hefur hlotið nafnið „Konuhofið“ því að um tíma var haldið að konur væru höfundar hins fígerða útskurðs í steininn. Eftir hádegi var litið á verkstæði eða öllu heldur skóla þar sem ýmis hefbundin handverk eru kennd en síðan höfðum við frjálsan tíma. BunSarng bauð okkur að fara á kryddmarkað seinnipartinn og í lokin að njóta sólarlagsins sem mörg okkar þáðu. Markaðurinn hét „Hús ilmsins“ og auk kryddsins voru hér sápur og smyrsli unnin. Að lokum fylgdumst við með einstöku sólarlagi í Ankor Wat þar sem hiti og erill dagsins var horfinn og ró komin á og við nutum þess að sitja bara og horfa.

 
Tonle Sap-vatnið, skólinn og kveðjustund

 Ein á báti

Það er keyrt um 20 km um sveitaveg því nú er bátsferð á Tonle Sap vatni í aðsigi. Það er stærsta stöðuvatn suðaustur Asíu og fram að þessu fiskauðugusta ferskvatn í heimi. Bun San sem hefur unnið hér með fuglafræðingum í tvö ár, segir að það sé áhygguefni hversu mikil ofveið sé í vatninu og að bæði fuglalífi og lífríkinu í vatninu sé ógnað. Hér kynnumst við daglegu lífi heimamanna sem búa hér í fljótandi þorpi við einstakar aðstæður. Þeir eru með krógódílarækt og fyskirækt í netum afgitum við hús sín. Um hádegi vorum við komin í land og eftir hádegi bauð BunSarng okkur að skoða skóla sem hann hefur verið að vinna fyrir frá 2004. Sólakerfið hér í Kambódíu er í algjörum molum. Það hefur ekki náð sér eftir hinar hræðilegu útrýmingar Rauðu Khmeranna á menntamönnum sem stóðu yfir á árunum 1975-1979. Þá féll einn þriðji hluti þjóðarinnar og þar á meðal bæði afi og faðir BunSarngs. Hann segir að eina vonin fyrir Kambódíu að ástandið hér batni sé að unga fólkið geti menntast og orðið að sjálfstæðum og ábyrgum þátttakendum í þjóðlífinu. Þetta er barnaskóli upp í sveit þar sem fátækir bændur hafa ekki tækifæri til að senda börnin í skóla, því hér eru skólagjöld. Leiðin þangað var bara troðningur í gegnum frumskóginn þar sem þurrir akrarnir breiddu úr sér inn á milli. Bændur horfðu forvitnir út úr kofunum sínum um leið og við fóum um. Skólinn er þrjár litlar byggingar á einni hæð, einfaldar en hlaðnar úr múrsteini , en hér eru flest hýbýli strákofar. Það er Amerísk fjölskylda sem er aðal stuðningsaðili skólans en skólinn ber nafn hennar, „Spitler school“. Nú hefur nýverið bæst við annar skóli í næstu sveit, svo í allt eru um 500 nemendur í þessum tveimur skólum. Krakkarnir í skólanum voru í frímínútum og tóku fagnandi á móti okkur þegar við renndum í hlaðið. BunSarng ljómaði af stolti þegar hann bauð okkur inn í kennarastofuna og þá fyrst var okkur ljóst að hann er einn af frumkvöðlum skólans eins og yfirkennarinn sagði og er hann einnig í skólastjórn. Það var ótrúlega skemmtilegt að fá að kíkja síðan inn í skólastofurnar því nú voru tímarnir aftur byrjaðir. Bókasafnið var að okkur fannst til fyrirmyndar. Eftir þessa fróðlegu og einstöku heimsókn fórum við á hótelið og hvíldum okkur við sundlaugina. Seinni partinn kvöddum við tvo ferðafélaga okkar sem ætluðu áfram með rútu til Bankock. Hópurinn hafði verið svo samhentur, léttur og umhyggjusamur þrátt fyri hitann og alla menninguna sem við vorum búin að innbyrgða. Hver og einn hafði haft sitt hlutverk í hópnum sem var svo skemmtilegt. Hótelið sem kvöldmaturinn var á var líkastur höll. Nú var komið að því að kveðja Kambódíu og BunSarng sem hafði sýnt ótrúlega hógværð en reynst frábær leiðsögumaður. Við vorum ánægð að geta tékkað töskurnar alla leið til Keflavíkur og við kvöddum Kambódíu þannig að flestir hugsuðu að hingað vildu þeir koma aftur. Allir voru fegnir að snúa aftur heim til Íslands þó við þyrftum að fljúga yfir hálfan hnöttinn. Daginn eftir var lent á Keflavíkurflugvelli eftir farsæla ferð sem við munum minnast lengi.

Nánar um Ingu Ragnarsdóttir fararstjóra

 
Skoða sérferðir á framandi slóðir með Bændaferðum

 

 

Tengdar ferðir




Póstlisti