Hjóla- & gönguævintýri í Víetnam
14. - 29. október 2026 (16 dagar)
Víetnam er hrífandi og fjölbreytt land þar sem stórbrotin náttúra, lífleg borgarmenning og rík menningararfleið mætast á heillandi hátt. Þar má finna allt frá háum fjallstindum og grænum hrísgrjónaökrum til iðandi götumarkaða og kyrrlátra flóa. Ferðalagið okkar hefst í hjarta Víetnam, Hanoi, þar sem við kynnumst líflegum götum og dýrindis víetnömskum mat áður en við höldum norður á bóginn – þar sem ævintýrin taka á sig nýjar myndir á hverjum degi. Við hjólum og göngum um afskekkt fjallaþorp, meðfram hrísgrjónaökrum, siglum niður róleg fljót og njótum samvista við heimamenn úr ólíkum frumbyggjahópum. Á leiðinni verður okkur boðið í heimahús, við smökkum á staðbundnum réttum og fræðumst um hefðir og lífshætti þessara litríku samfélaga. Eftir virka daga í fjöllum og dölum tekur við kyrrð og fegurð Bai Tu Long-flóans þar sem við siglum meðal kalksteinskletta, förum á kajökum um friðsæl lón og slökum á í faðmi stórbrotinnar náttúru. Í þessari ferð mun náttúran, matarmenningin og mannleg samskipti fléttast saman í djúpstæða upplifun sem aldrei mun gleymast.