Hjóla- & gönguævintýri í Víetnam

Víetnam er hrífandi og fjölbreytt land þar sem stórbrotin náttúra, lífleg borgarmenning og rík menningararfleið mætast á heillandi hátt. Þar má finna allt frá háum fjallstindum og grænum hrísgrjónaökrum til iðandi götumarkaða og kyrrlátra flóa. Ferðalagið okkar hefst í hjarta Víetnam, Hanoi, þar sem við kynnumst líflegum götum og dýrindis víetnömskum mat áður en við höldum norður á bóginn – þar sem ævintýrin taka á sig nýjar myndir á hverjum degi. Við hjólum og göngum um afskekkt fjallaþorp, meðfram hrísgrjónaökrum, siglum niður róleg fljót og njótum samvista við heimamenn úr ólíkum frumbyggjahópum. Á leiðinni verður okkur boðið í heimahús, við smökkum á staðbundnum réttum og fræðumst um hefðir og lífshætti þessara litríku samfélaga. Eftir virka daga í fjöllum og dölum tekur við kyrrð og fegurð Bai Tu Long-flóans þar sem við siglum meðal kalksteinskletta, förum á kajökum um friðsæl lón og slökum á í faðmi stórbrotinnar náttúru. Í þessari ferð mun náttúran, matarmenningin og mannleg samskipti fléttast saman í djúpstæða upplifun sem aldrei mun gleymast.

Verð á mann 799.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 108.900 kr.


Innifalið

  • 16 daga ferð.
  • Áætlunarflug: Keflavík – Kaupmannahöfn – Hanoi – Kaupmannahöfn -  Keflavík.
  • Flugvallaskattar fyrir alla ferðina. 
  • Allur akstur til og frá flugvelli í Hanoi. 
  • Gisting í eina nótt ásamt morgunverði í tveggja manna herbergi með baði á flugvallarhóteli í Kaupmannahöfn.
  • Gisting í 12 nætur á eftirfarandi stöðum í Víetnam:
  • 3 nætur á hóteli í Hanoi.
  • 1 nótt í heimagistingu hjá Nung fjölskyldunni.
  • 2 nætur á gistiheimili í bænum Mường Khương.
  • 1 nótt á hóteli í Sapa.
  • 1 nótt í næturlest frá Lao Cai til Hanoi.
  • 2 nætur um borð í skipi á Halong flóa.
  • 2 nætur á Topas Ecolodge.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður skv. ferðalýsingu.
  • Flutningar á fólki, farangri og hjólum samkvæmt ferðalýsingu.
  • Leiga á fjallahjólum ásamt hjálmum og hönskum.
  • Kajakferðir ásamt viðeigandi útbúnaði.
  • Innlend staðarleiðsögn.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

  • Þjórfé fyrir erlenda staðarleiðsögumenn og rútubílstjóra.
  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Aðgangseyrir á söfn o.fl. 
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Þetta er miðlungserfið hjóla- og gönguferð. Hjóladagleiðirnar spanna um 40 - 60 km og göngudagleiðirnar um 9 – 14 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber.
Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu göngu- og hjólaformi en besti undirbúningurinn er að ganga og hjóla reglulega. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara reglulega t.d. upp að Steini í Esjunni. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Erfiðleikastig 3-4 af 6.

14. október │ Flug til Kaupmannahafnar

Flug seinnipartinn til Kaupmannahafnar og gist eina nótt á flugvallarhóteli.

15. október │ Flug til Hanoi

Fljúgum frá Kastrup flugvelli til Hanoi í Víetnam.

Opna allt

16. október │ Hanoi - hjarta Víetnam

Komum til Hanoi í Víetnam þar sem víetnamski leiðsögumaðurinn tekur á móti okkur. Gist verður á notalegu fjölskyldureknu hóteli í miðbæ Hanoi. Hótelið er staðsett í gamla hverfinu sem iðar af lífi með sínum þröngu og þéttbýlu götum. Hér keppa götusalar við líflega umferðina um athygli okkar. Við snæðum kvöldverð á veitingastað og hefjum kynni okkar við heimsfrægan og ljúffengan víetnamskan mat. 

  • Kvöldverður

17. október │ Skoðunarferð um Hanoi

Í dag skoðum við nánar hin ýmsu sögulegu kennileiti höfuðborgar Víetnam. Hanoi er svo sannarlega heillandi borg og andrúmsloftið einkennist bæði af gömlum hefðum og miklu lífi. Við skoðum fallegar götur og helstu kennileiti á borð við grafhýsi Ho Chi Minh sem oft er kallaður faðir þjóðarinnar en hann var fyrsti forseti lýðveldisins Víetnam. Einnig verður haldið í bókmenntahof fyrsta háskóla Víetnam sem byggður var árið 1070. Síðdegis er frjáls tími til að skoða borgina á eigin spýtur og kaupa síðustu nauðsynjar áður en haldið verður norður á bóginn. Innlendi leiðsögumaðurinn mun mæla með söfnum, áhugaverðum stöðum eða einfaldlega besta staðnum til að njóta kaffibolla frá heimamanni. Þá er líka viðeigandi að smakka á hinum þekkta Bia Hoi bjór sem er léttur, ferskur bjór sem bruggaður er á litlum brugghúsum og er afar einkennandi fyrir víetnamska menningu. Um kvöldið tökum við lest norður til Lao Cai, sem er við kínversku landamærin, en þangað verðum við komin snemma næsta morgun. 

  • Morgunverður

18. október │ Hjólað milli þorpa

Við komum snemma til landamærabæjarins Laoi Cai og byrjum á því að borða morgunmat á veitingastað í nágrenninu. Eftir það gerum við okkkur klár fyrir hjóladagana. Næstu daga munum við heimsækja hin ýmsu litlu þorp og litríka markaði en erfitt er að segja nákvæmlega til um dagskrá þar sem ferðin verður aðlöguð að hverjum hóp, eftir veðri, með tilliti til markaðsdaga og ekki síst viljum við hafa rými fyrir spuna ef við verðum vör við spennandi viðburði á svæðinu. Sem ferðalangar á hjóli erum við í frábærri aðstöðu til að upplifa daglegt líf landsbyggðarinnar í Víetnam og verður þetta án efa einstök upplifun. Í dag hjólum við til þorpsins Coc Ly en þar fara hjólin um borð í fljótabáta og við siglum saman niður hina fallegu Chay á. Förum frá borði í þorpinu Truong Do þar sem Tay frumbyggjahópurinn býr. Við ökum til Bac Ha sem er þekkt fyrir litríkan sunnudagsmarkað. Í bænum skoðum við fyrrum H‘Mong konungshöllina áður en við förum til þorpsins Na Hoi þar sem við gistum hjá Nung fjölskyldunni.

  • Dagleið: u.þ.b. 50 km
  • Tími á hjólinu: u.þ.b. 6 klst.
  • Sigling á báti: u.þ.b. 1,5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. +1100/-1000 m
  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

19. október │ Hjólað við hrísgrjónaakra & blómaþorp

Eftir morgunmat kveðjum við Nung fjölskylduna og hjólum af stað til bæjarins Si Ma Cai. Leiðin þangað liggur yfir tvær stórar hæðir (um 30 km leið). Á leiðinni förum við í gegnum þorpið Can Cau og nokkur önnur fjallaþorp sem öll liggja meðfram hlykkjóttum fjallveg og á leiðinni höfum við útsyni yfir stórbrotið landslag fjallanna í kring. Við komum til Si Ma Cai um hádegið og snæðum þar hádegisverð á veitingastað. Áfram verður svo haldið niður um 15 km brekku í átt að fljótinu Chay. Þar fáum við far með bíl og ökum í um klukkustund að Pha Long, sem er á afskekktu svæði við landamæri Kína. Hér er stófenglegt útsýni yfir há fjöll og djúpa dali. Frá Pha Long hjólum við aftur niður eftir löngum hlykkjóttum fjallvegi en um það bil 15 km síðar komum við til bæjarins Mường Khương þar sem við gistum á gistihúsi og snæðum kvöldverð á veitingastað.

  • Dagleið: u.þ.b. 60 km
  • Tími á hjólinu: u.þ.b. 5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. +1100/-2200 m
  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

20. október │ Hjólað frá Muong Khuong til Ban Phiet

Við hefjum daginn á því að upplifa daglegt líf íbúa í Mường Khương en hjólum því næst eftir hlykkjóttum vegum niður í átt að Ban Khuong-brúnni. Frá brúnni hjólum við upp til þorpsins Ta Then, þar sem Flower H’Mong fólkið býr. Við höldum áfram til þorpsins Ban Lau, þar sem við heimsækjum Nung-frumbyggjana og förum að Napao-fossunum. Á leiðinni snæðum við hádegismat og hjólum svo áfram í gegnum rólegt sveitalandslag, þar sem hrísgrjónaakrar og hefðbundnir víetnamskir sveitabæir mynda friðsæla umgjörð. Við hjólum áfram til Ban Phiet, þar sem við höfum útsýni yfir lágreist fjöll og endalausar grænar teplantekur. Frá Ban Phiet verður ekið á bíl í um 1,5 klst að hóteli.

  • Dagleið: u.þ.b. 40 km
  • Tími á hjólinu: u.þ.b. 5 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. +400/-1000 m
  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

21. október │ Gönguferð að afskekktu þorpi

Nú ætlum við að leggja hjólunum og fara þess í stað í gönguferð. Gangan hefst við bæinn Sapa en fljótlega förum við inn á malarstíga sem liggja í gegnum matjurtagarða og við hrísgrjónaakra heimamanna. Við göngum niður í botn dalsins að á sem liggur í gegnum dalinn. Við fylgjum ánni að þorpinu Y Linh Ho, sem er heimili Black H’Mong frumbyggjanna. Hádegisverður er borðaður í Lao Chai San. Eftir hádegismat göngum við dýpra inn í Muong Hoa-dalinn. Á leiðinni förum við í gegnum þorpin Lao Chai, sem tilheyrir Black H’Mong fólkinu, og Ta Van, sem byggt er af Giay frumbyggjunum. Við gistum á heimili í Ta Van.

  • Gönguvegalengd: u.þ.b. 14 km
  • Göngutími: u.þ.b. 6 klst.
  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

22. október │ Gönguferð með einstöku útsýni yfir há fjöll & djúpa dali

Í þessari frábæru gönguleið dagsins fáum við einstakt útsýni yfir há fjöll og djúpa dali. Við göngum í dag til þorpanna Giang Ta Chai og Su Pan og yfir fjallið Silverstone að þorpinu Lech Mong. Á leiðinni hittum við íbúa úr Black H’Mong frumbyggjahópnum sem búa í litlum húsum og lifa aðallega á ræktun hrísgrjóna og maís, auk þess að ala upp svín, kjúklinga og endur. Seinni partinn göngum við niður að þorpinu Lech Dao, sem byggt er af Red Dao fólkinu. Við endum gönguferðina við Topas Ecolodge hótelinu sem er staðsett á fjallstindi. Öll húsin þar bjóða upp á stórkostlegt útsýni yfir svæðið og Sapa-dalinn. Hægt er að fá sér sundsprett í óendanlegri sundlauginni (infinity) þar sem útsýnið er líka dásamlegt áður en við borðum ljúffengan kvöldverð á Topas Ecolodge.

  • Gönguvegalengd: u.þ.b. 14 km
  • Göngutími: u.þ.b. 6 klst.
  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

23. október │ Gönguferð & fræðsla um frumbyggja svæðisins

Við byrjum daginn á því að aka inn í Hoang Lien þjóðgarðinn. Gönguferð dagsins hefst í þorpinu Sin Chai, sem liggur utan almennra ferðamannaleiða. Á leiðinni njótum við stórkostlegs útsýnis yfir há fjöll, fossa og djúpa dali. Göngustígurinn leiðir okkur til Nam Nhiu, þorps Red Dao-hópsins. Þar kynnumst við heimamönnum, heimsækjum heimili þeirra og fræðumst um daglegt líf þeirra sem bændur. Eftir heimsóknina göngum við áfram eftir malarstíg inn í dal fullan af bambushýsum, þar sem bændurnir gista á uppskerutímanum. Áfram verður gengið til þorpsins Nam Cang sem er staðsett í ysta hluta Sapa-dalsins og þar snæðum við hádegisverð í heimahúsi. Konurnar í þorpinu tilheyra Red Dao frumbyggjahópnum en þær klæðast litríkustu og fjölbreyttustu þjóðbúningunum í Víetnam. Red Dao konurnar eru þekktar fyrir notkun sína á jurtum til lækninga og fallegum útsaum. Við skoðum þorpið þeirra í fylgd með leiðsögumanni og sjáum hvernig þau framleiða meðal annars pappír, silfurmuni og litríkar útsaumsvörur. Eftir heimsóknina förum við með rútu aftur á hótel.

  • Gönguvegalengd: u.þ.b. 9 km
  • Göngutími: u.þ.b. 3-3,5 klst.
  • Morgun- & hádegisverður

24. október │ Hvíldardagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess að hvíla sig eftir göngur og hjól síðustu daga. Tilvalið er að slaka á með góða bók á hótelinu eða fara á eigin vegum í stuttan göngu- eða hjólatúr í nágrenninu. 

  • Morgunverður

25. október │ Frá fjöllunum til Hanoi

Við njótum rólegrar morgunstundar á Topas Ecolodge áður en við yfirgefum fjöllin. Þaðan liggur leiðin með rútu til Hanoi þar sem við komum okkur fyrir á hóteli í miðborginni.

  • Morgunverður

26. október │ Sigling um Bai Tu Long flóa

Fyrir morgunhressa er tilvalið að fara í gönguferð í kringum Hoan Kiem vatnið og sjá heimamenn stunda Tai Chi og aðra líkamsrækt í morgunsárið. Eftir góðan morgunverð leggjum við af stað til Halong-svæðisins þar sem næsta ævintýri bíður okkar. Bai Tu Long-flóinn, sem er hluti af hinum stórbrotna Tonkin-flóa, er eitt af náttúruundrum Víetnam. Flóinn spannar um 3800 km² og hér rísa yfir 1500 kalksteinsklettar og grænir hólmar upp úr sjónum. Við siglum um flóann á báti með sóldekki, njótum kyrrðarinnar og horfum á stórbrotnar klettamyndanir sem rísa eins og styttur upp úr vatninu. Við snæðum góðan hádegisverð með ferskum sjávarréttum og förum svo í kajaksiglingu. Ef aðstæður leyfa siglum við að fljótandi þorpi og hellum í flóanum. Við gistum um borð í bátnum, umkringd fallegum kalksteinseyjum, við einn af legustöðunum í flóanum. Þetta er fullkomin hvíld eftir virka daga í fjöllunum. 

  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

27. október │ Kajakar & hvíld

Dagskrá dagsins er sveigjanleg. Áfram býðst að sigla á kajökunum og við leitumst við að finna spennandi en friðsæl svæði til að kanna. Þá eru fjöldi eyja, hella og lóna sem bíða okkar og á kajökunum getum við komist ansi nálægt fljótandi þorpunum og perlubúgörðunum og fengið þannig frá fyrstu hendi innsýn í áhugaverðan lífsstíl íbúanna. Þeir sem vilja slaka á eftir fjöruga daga geta líka notið sóldekksins með góðri bók en kalksteinsklettarnir sem við fljótum framhjá skapa einstakt andrúmsloft. Um kvöldið er ánæjulegt að fylgjast með sólarlaginu og síðar stjörnunum frá þilfari bátsins. 

  • Morgun, hádegis- & kvöldverður

28. október │ Haldið til Hanoi

Nú er stefnan tekin aftur til lands og verður siglt í nokkrar klukkustundir á þessu fallega eyjahafi. Ef tími og aðstæður leyfa gætum við farið í síðastu kajaksiglinguna áður en við yfirgefum flóann. Áður en farið verður frá bátnum er svo borin fram máltíð með ferskum sjávarréttum. Frá Halong-flóa förum við með rútu til flugvallarins í Hanoi þaðan sem við fljúgum til Kaupmannahafnar.

  • Morgun- & hádegisverður

29. október │ Heimferð

Lending í Kaupmannahöfn. Flogið áfram til Íslands og lent í Keflavík að kvöldi dags. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er ekki fæddur á hjóli en hefur samt farið yfir 40 hjólferðir erlendis , mestmegnis með gesti Bændaferða. Bjarni er menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur og hefur frá 2011 verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi. Bjarni hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um íþróttir og útiveru, en hann hefur m.a. verið formaður Íþróttafélagsins Gróttu í 6 ár auk þess að vera virkur í margskonar öðru félagsstarfi. Hann hefur þjálfað unglinga bæði í knattspyrnu og handknattleik og auk þess farið margar ferðir sem farastjóri með íþróttahópa erlendis. Bjarni er giftur 4 barna faðir og á auk þess 5 barnabörn. Bjarni Torfi bjó lengi í Kaupmannahöfn.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti