Gengið í fjallasölum Madonna

Trentino hérað á Ítalíu er paradís göngumannsins. Fyrir þau sem vilja njóta alpafegurðar að sumarlagi er hér af nægu að taka en svæðið er þekkt skíðasvæði á veturnar. Útsýnið er heillandi yfir úfna jökla og tinda, fjallavötn, gróna dali, græn engi með litskrúðugum villiblómum, hlíðar með stöku fjallakofum, þétta greniskóga og skoppandi læki og ár. Við gistum í bænum Madonna di Campiglio sem stendur í Rendena dalnum, milli Brenta Dólómítafjallanna og Adamello-Presanella Alpanna. Á sumrin breytist þetta þekkta skíðasvæði í yndislega náttúruperlu. Það eru um 400 kílómetrar af merktum gönguleiðum í Rendena dalnum og við munum svo sannarlega nýta okkur þær allra áhugaverðustu í þessari skemmtilegu ferð. Við göngum um dal fossana, Genova, í Adamello-Brenta þjóðgarðinum og sjáum Nardis fossana sem renna úr Presanell jöklinum. Við komum að fjallavatninu Malghette sem stendur mitt í náttúrufegurð Brenta Dólómítanna. Við ferðumst með kláfi upp á tindinn Grostè þar sem er stórkostlegt útsýni yfir fjallahringinn um kring. Vallesinella fossarnir verða á vegi okkar og Vötnin fimm, Ritorto, Lambin, Serodoli, Gelato og Nambino. Við förum í dagsferð í Nambrone dalinn og göngum hringleið á einu fallegasta svæði Presanella fjallgarðsins en á henni sjáum við hin fögru Cornisello vötn sem mynduðust við framskrið jökla á svæðinu. Í þessari yndislegu ferð göngum við í stórkostlegu umhverfi ítölsku Alpanna, öndum að okkur ferska fjallaloftinu og njótum staðar og stundar. 

Verð á mann 359.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.900 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Ferðir til og frá flugvelli.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hóteli.
  • Akstur í gönguferðum þar sem við á.
  • Göngudagskrá í 5 daga. 
  • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn á söfn, hallir og kirkjur. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. reglulega upp að Steini í Esjunni. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

24. ágúst | Flug til Mílanó & Madonna di Campiglio

Brottför frá Keflavík kl. 08:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:30 að staðartíma. Við keyrum sem leið liggur norður til Dólómítafjalla til litla bæjarins Madonna di Campiglio í Rendena dalnum en hann tilheyrir sjáflstjórnarhéraðinu Trentino. Trentino stendur í ítölsku Ölpunum en þar eru mikilfengleg fjöll, ár, dalir og vötn.

25. ágúst | Ganga um Genova dalinn & Nardis fossarnir

Á þessum fyrsta göngudegi göngum við í Genova dalnum í Adamello-Brenta þjóðgarðinum. Hann er gjarnan kallaður dalur fossana, hér er mikilfengleg alpafegurð, þéttir skógar með furu, þin og greni, beljandi ár og fallegir fossar. Við göngum meðfram Sarca ánni sem fellur frá jöklinum í fjallinu Adamello en hann er talinn sá stærsti í ítölsku Ölpunum. Hér og hvar má sjá falleg alpaengi með litríkum blómum. Við komum að Nardis fossunum sem eru um 130 metrar á hæð en þeir renna úr Presanell jöklinum. Við göngum til baka í þessu fallega umhverfi og stöldrum við í bænum Pinzolo þar sem útsýnið yfir Adamello-Presanella Alpana er heillandi.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Hækkun 300 metrar
  • Létt til miðlungs ganga.
Opna allt

26. ágúst | Fjallavatnið Malghette

Nú kynnumst við náttúrufegurð Brenta Dólómítanna. Við hefjum gönguna frá Campo Carlo Magno svæðinu og njótum þess að ganga í gegnum alpaskóga í fersku fjallalofti. Eftir því sem ofar dregur sjáum við betur yfir ægifagra Brenta Dólómítanna með sína háu tinda og hrikalegu klettabelti. Í þessu hrikalega en fallega landslagi höldum við ferð okkar áfram eftir grónum fjallastígum þar til við komum að fjallavatninu Malghette. Það má með sanni segja að það standi í fjallasal í 1900 metra hæð og allt um kring er fallegur barrskógur. Við höldum ofar og komum að fjallaskálanum í Vigo fjalli þar sem við stöldrum við um stund. Við tökum síðan kláf aftur niður til Campiglio.

  • Göngutími: u.þ.b. 5 klst.
  • Hækkum 450 m
  • Miðlungs erfið ganga

27. ágúst | Frjáls dagur í Madonna di Campiglio

Í dag gefst hverjum og einum tækifæri til þess að njóta þess að dvelja á þessum fallega stað. Hægt er að láta líða úr sér og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða. Einnig er urmull gönguleiða um svæðið í kring, meðal annars að vatninu Nambino. Fyrir áhugasama er lítill golfvöllur í Madonna di Campiglio svo eitthvað sé nefnt. 

28. ágúst | Vallesinella fossarnir

Framundan er spennandi dagur en hann hefst á skemmtilegri ferð með kláfi upp á tindinn Grostè sem er einn sá glæsilegasti í Brentafjallgarðinum, um 2550 m á hæð. Úr kláfinum er fallegt útsýni yfir fjöllin um kring, gróðursæla dali og þétta skóga. Héðan eru fjölmargar gönguleiðir og við veljum eina þá vinsælustu sem liggur að Vallesinella fossunum. Hér er mikil fjölbreytni í undirlagi, malarstígar, skóglendi og víðáttumikil engi. Vallesinella fossarnir steypast um 60 m niður af stöllum en í kring eru barrskógar og alpaengi. Við höldum göngu okkar áfram og komum í Tuckett fjalakofann þar sem áð verður um stund. Við ferðumst til baka með strætisvagni sem gengur til Madonna di Campiglio.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Hækkun 600 m
  • Miðlungs erfið ganga

29. ágúst | Vötnin fimm

Í dag bíður okkar ógleymanleg upplifun í hjarta Brenta Dólómítanna. Við göngum leið þar sem við sjáum fimm falleg fjallavötn, Ritorto, Lambin, Serodoli, Gelato og Nambino. Við fáum okkur far með kláfi upp að Fimm vatna kofanum og fylgjum þaðan fallegum stíg sem leiðir okkur að vötnunum. Við komum fyrst að Ritorto vatni en það er þekkt fyrir tærleika og á góðum degi er hægt að sjá fallega spegilmynd fjallanna um kring. Við höldum ferð okkar áfram og komum að Lambin vatni sem er heldur minna en engu síður fallegt. Næst komum við að hinu dimmbláa Serodoli vatni sem er aðeins úr hefðbundinni gönguleið og því er þar oft einstaklega friðsælt. Við höldum áfram og þá verður á vegi okkar Gelato vatn sem gjarnan er líkt við ís sökum þess að við ákveðnar aðstæður í sólskini glitrar það eins og ís eða kristall. Að lokum komum við að Nambino vatni sem stendur lægst af vötnunum fimm. Hér er gróðursælt og vatnið er gjarnan stillt og þá er hægt að sjá fallega spegilmynd af fjallahringnum umhverfis. Við ferðumst aftur til Madonna di Campiglio með kláfi.

  • Göngutími: u.þ.b. 6 klst.
  • Hækkun 500 m
  • Miðlungs erfið ganga

30. ágúst | Dagsferð til Val Nambrone

Leið okkar liggur í Nambrone dalinn í Adamello Brenta þjóðgarðinum en garðurinn er stærsta verndarsvæðið í Trentino héraði. Við göngum fallega hringleið á einu fallegasta svæði Presanella fjallgarðsins en á henni sjáum við hin fögru Cornisello vötn sem mynduðust við framskrið jökla á svæðinu. Það rennur í vötnin frá tindum Presanella en jökulvatnið gefur þeim fallega blágrænan blæ, samt sem áður er vatnsyfirborðið tært. Umhverfi vatnanna þykir eitt það ósnortnasta þar um slóðir, hér er friðsæld og fallegt útsýni, meðal annars til tinda Presanella og yfir til toppanna á Brenta Dólamítunum. Svæðið í kring um vötnin er vel gróið og þar má sjá úrval villiblóma, maríuvendi, alparósir og ýmsan háfjallagróður.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Hækkun 150 m
  • Létt til miðlungs erfið ganga

31. ágúst | Heimflug frá Mílanó

Nú er komið að heimferð eftir viðburðaríka göngudaga. Við tökum daginn snemma og ökum aftur til Mílanó. Brottför er þaðan kl. 15:30. Áætluð lending í Keflavík kl. 17:45 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

Hotel Cristal Palace í Madonna Di Campiglio

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Perla Magnúsdóttir

Perla Magnúsdóttir er ung og lífsglöð útivistarkona sem kemur úr Hafnarfirðinum. Hún er menntaður leiðsögumaður og ferðamálafræðingur sem hefur starfað í íslenskri ferðaþjónustu undanfarin 13 ár. Í dag starfar hún aðallega við alls konar leiðsögn og fararstjórn auk þess að vera nemandi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Perla hefur óbilandi áhuga á útiveru og ferðalögum. Hún hefur ferðast mikið hérlendis sem og víðs vegar um heiminn. Ferðalögin eiga það öll sameiginlegt að hafa aukið víðsýni hennar, sjálfsbjargarviðleitni og þakklæti. Það er í raun ekkert sem nærir hana meira heldur en útivera í fallegu umhverfi, með góðu fólki og stemmningu.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti