Hjólað í Toskana & Cinque Terre
18. -25. maí - 2025 (8 dagar)
Í þessari töfrandi hjólaferð verður hjólað um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Hjólaðar verða fallegar leiðir í gegnum sveitahéruð þar sem við upplifum fagurt landslagið með öllum skilningarvitum. Á vegi okkar verða frjósamir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um fornar byggingar og huggulega strandbæi. Við munum hjóla eftir aldagömlum virkisveggjum miðaldaborgarinnar Lucca og njóta útsýnis frá Lerici yfir Skáldaflóann. Kynnumst heillandi bæjunum Luni og Sarzana og hjólum með fram fornum og tignarlegum sýprustrjám að Bolgheri kastalanum í fallega bænum Bolgheri. Toppum svo þessa dásamlegu ferð með heimsókn í Cinque Terre þjóðgarðinn einstaka en hann er á heimsminjaskrá UNESCO sökum einstakra menningarminja. Þema ferðarinnar er að njóta hins ljúfa lífs og það getum við sannarlega gert á hótelinu sem er staðsett nálægt ströndinni á einum vinsælasta sumardvalarstað Ítalíu. Hvenær sem er í ferðinni er hægt að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum.