Hjólað í Toskana & Cinque Terre

Í þessari töfrandi hjólaferð verður hjólað um Toskanahéraðið á Ítalíu sem svo marga dreymir um að heimsækja. Hjólaðar verða fallegar leiðir í gegnum sveitahéruð þar sem við upplifum fagurt landslagið með öllum skilningarvitum. Á vegi okkar verða frjósamir vínakrar, heiðgrænir ólífulundir og önnur dásamleg gróðursæld innan um fornar byggingar og huggulega strandbæi. Við munum hjóla eftir aldagömlum virkisveggjum miðaldaborgarinnar Lucca og njóta útsýnis frá Lerici yfir Skáldaflóann. Kynnumst heillandi bæjunum Luni og Sarzana og hjólum með fram fornum og tignarlegum sýprustrjám að Bolgheri kastalanum í fallega bænum Bolgheri. Toppum svo þessa dásamlegu ferð með heimsókn í Cinque Terre þjóðgarðinn einstaka en hann er á heimsminjaskrá UNESCO sökum einstakra menningarminja. Þema ferðarinnar er að njóta hins ljúfa lífs og það getum við sannarlega gert á hótelinu sem er staðsett nálægt ströndinni á einum vinsælasta sumardvalarstað Ítalíu. Hvenær sem er í ferðinni er hægt að taka daginn rólega og njóta aðstöðunnar á hótelinu eða kanna umhverfið á eigin vegum. 

Verð á mann 419.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 28.900 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Ferðir á milli flugvallarins í Mílanó og hótelsins í Toskana.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði. 
  • Morgunverðarhlaðborð alla daga á hóteli.
  • Þriggja rétta kvöldverður alla daga á hóteli.
  • Leiga á rafhjóli í 6 daga.
  • Hjóladagskrá. 
  • Rútuferðir til baka frá stöðum samkvæmt prógrammi. 
  • Vínsmökkun með léttu snarli.
  • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Leiga á hjólatösku 4.900 kr.
  • Leiga á hjálmi 2.900 kr. 
  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Hótel

  • Hotel Villa Barsanti í Marina di Pietrasanta

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 27 -50 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillaga að dagleiðum

Hjalti Kristjánsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir fimm hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt ásamt því að breyta eða bæta við stöðum. Gert er ráð fyrir einum frídegi.

1. Montemarcello & Lerici

Fyrsti hjólaleggurinn leiðir okkur til Montemarcello þjóðgarðsins en þaðan er einstakt útsýni yfir Ligurian ströndina og Portovenere. Við hjólum áfram í rólegheitum til Lerici við Golfo dei Poeti flóann, eða Skáldaflóa eins og hann kallast á íslensku. Hér prýða borgina glæstar byggingar og kastalavirki frá veldi Pisa- og Genúabúa. Við dveljum hér nokkra stund og njótum bæði hádegisverðar og útsýnis áður en haldið verður til baka á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 27 km
  • Hækkun: u.þ.b. 390 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið
Opna allt

2. Lucca

Nú höldum við af stað áleiðis til bæjarins Lucca. Leið okkar liggur upp eftir einum hinna fornu vega sem lágu til Rómar. Við komum að sögulegu þorpi, Pietrasanta, en hér er tilvalið að líta á San Martino dómkirkjuna frá 14. öld. Höldum því næst áfram hluta hins forna pílagrímsvegar, Via Francigena, til Lucca sem er gömul virkisborg og var á 13. og 14. öld ein af valdamestu borgum Evrópu. Við munum hjóla eftir virkisveggjunum frá miðri 17. öld og njóta stórkostlegs útsýnis yfir borgina ásamt því að fara í stutta skoðunarferð fótgangandi um hana. Ekið verður til baka á hótelið í rútu.

  • Vegalengd: u.þ.b. 50 km
  • Hækkun: u.þ.b. 480 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið 

3. Luni & Sarzana

Þennan dag hjólum við af stað eftir Versilíaströndinni til Luni sem nú er þorp en var eitt sinn kunn hafnarborg. Luni er þekkt fyrir fornar rústir rómversks hringleikahúss. Þaðan er svo farið í annan heillandi, gamlan bæ, Sarzana. Hér skoðum við okkur um, röltum eftir notalegum, litlum strætum og kíkjum svo á kastala umluktan varnarveggjum sem hafa varðveist ótrúlega vel. Dagurinn endar á vínsmökkun þar sem hægt er að bragða á afurðum héraðsins. Ekið verður til baka á hótelið í rútu.

  • Vegalengd: u.þ.b. 51 km
  • Hækkun: u.þ.b. 180 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

4. Frídagur

Þennan dag er tilvalið að láta hugsanlegar harðsperrur líða úr sér og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða, slappa af við sundlaugina eða kynna sér nágrennið á eigin vegum. Hjólin eru til staðar ef einhverjir vilja skreppa í hjólaferð á eigin vegum.

5. Cinque Terre

Í dag munum við heimsækja Cinque Terre þjóðgarðinn en hann er á heimsminjaskrá UNESCO sökum einstakra menningarminja. Þorpin í þjóðgarðinum eru staðsett í miklu brattlendi og því verður aðeins hjólað á milli tveggja þeirra af fimm. Við höldum af stað með rútu til bæjarins Monterosso, sem er stærsta þorpið og það eina með sandströnd. Við hjólum áfram og njótum útsýnis yfir sjóinn, vínekrur og ilmandi Miðjarðarhafsgróður þangað til við komum að Manarola sem tekur á móti okkur með sinni fallegu litlu höfn en þaðan liggur Stígur ástarinnar eða Via dell’Amore yfir til bæjarins Riomaggiore. Við höldum áleiðis til bæjarins La Spezia, en rútan bíður okkar skammt frá bænum og flytur okkur aftur á hótelið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 33 km
  • Hækkun: u.þ.b. 900 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið til krefjandi

5. Bolgheri & vínleiðin

Í dag munum við hjóla í gegnum dásamlegt landslag Toskana héraðsins til fallega bæjarins Bolgheri. Til að komast þangað hjólum við í gegnum hinn þekkta Viale dei Cipressi, eða Sýprus veginn, sem afmarkast af fornum en tignarlegum sýprustrjám sem leiða okkur að Bolgheri kastalanum. Frá Bolgheri höldum við áfram eftir vínleiðinni sem er hlaðin vínekrum með girnilegum vínberjum og silfurlituðum ólífutrjám að fallegu bæjunum Bibbona og Casale Marittimo. Lokaspotti dagsins leiðir okkur niður að sjó þar sem við getum notið vel verðskuldaðrar hvíldar á ströndinni. Ekið verður til baka á hótelið í rútu.

  • Vegalengd: u.þ.b. 48 km
  • Hækkun: u.þ.b. 380 m
  • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Flugið

Flogið verður með Icelandair til til Mílanó þann 18. maí. Brottför frá Keflavík kl. 08:00
en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:10 að
staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó á gististað er um 300 km akstur. Á heimleið 25. maí flytur rúta okkur til Mílanó en þaðan verður flogið kl. 15:10. Lending á Íslandi kl. 17:25 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti