22. - 29. september 2023 (8 dagar)
Í þessari ferð höldum við á vit ævintýranna í Salzburgerlandi í Austurríki þar sem fegurð fјallanna umlykur okkur. Ferðin hefst í München en ekið verður til fjallaþorpsins Filzmoos sem verður okkar samastaður í ferðinni. Farið verður í hrífandi dagsferðir, m.a. til Dachstein og með kláfi upp á Dachstein jökulinn, þar sem við skoðum íshelli, lítum ótrúlegar höggmyndir og njótum þaðan stórkostlegs útsýnis. Við heimsækjum tónlistarborgina Salzburg sem er ein af perlum Austurríkis. Ólýsanleg náttúrufegurð tekur á móti okkur í Hallstatt við Hallstättersee sem er með fallegustu stöðum Salzkammergut en bærinn og einstakt landslagið umhverfis hann eru varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO. Í keisaraborginni Bad Ischl upplifum við konunglega fortíð hennar en hún var á sínum tíma hjarta heimsborgara í Austurríki. Við gefum okkur líka tíma til að slaka á og njóta lífsins í Filzmoos og fara í skemmtilega hestakerruferð upp í Unterhofalm selið. Ekið verður yfir Postalm næststærstu hásléttu Evrópu og komið niður að vatninu Wolfgangsee sem er eitt þekktasta stöðuvatnið í Salzkammergut héraði, rómað fyrir fegurð. Við það stendur bærinn Wolfgangsee en þaðan verður farið í siglingu yfir til bæjarins St. Gilgen.