21. - 26. október 2024 (6 dagar)
Aþena, höfuðborg Grikklands, er borg andstæðnanna. Annars vegar er borgin vestræn nútímaborg en hins vegar minnir hún á lítið þorp þar sem mjóar götur og aldagömul hús keppast við að ná athygli vegfarandans. Saga borgarinnar nær aftur um þúsundir ára, eins og hin fögru hof uppi á Akrópólishæð bera vitni um. Fallegar nýklassískar byggingar eru einnig áberandi í borginni og þar er helst að nefna gömlu konungshöllina, fornminjasafnið, háskólabyggingarnar og Zappeion sýningarhöllina. Ekki má gleyma marmaraleikvangnum Kallimarmaro sem reistur var fyrir fyrstu ólympíuleika nútímans. Elsta og merkasta hverfið í Aþenu liggur í hæðinni fyrir neðan Akrópólis og ber heitið Plaka. Farið verður í dagsferð til Delfí þar sem hin fræga véfrétt sat í hofi Apollós og spáði fyrir gestum og gangandi til forna. Einnig förum við til fornu borgarinnar Mýkenu sem Agamemnon konungur gerði fræga og til Sounion þar sem hof Poseidons stendur ásamt því að koma við í fallega strandbænum Vouliagmeni.