Haustblær í Aþenu

Aþena, höfuðborg Grikklands, er borg andstæðnanna. Annars vegar er borgin vestræn nútímaborg en hins vegar minnir hún á lítið þorp þar sem mjóar götur og aldagömul hús keppast við að ná athygli vegfarandans. Saga borgarinnar nær aftur um þúsundir ára, eins og hin fögru hof uppi á Akrópólishæð bera vitni um. Fallegar nýklassískar byggingar eru einnig áberandi í borginni og þar er helst að nefna gömlu konungshöllina, fornminjasafnið, háskólabyggingarnar og Zappeion sýningarhöllina. Ekki má gleyma marmaraleikvangnum Kallimarmaro sem reistur var fyrir fyrstu ólympíuleika nútímans. Elsta og merkasta hverfið í Aþenu liggur í hæðinni fyrir neðan Akrópólis og ber heitið Plaka. Farið verður í dagsferð til Delfí þar sem hin fræga véfrétt sat í hofi Apollós og spáði fyrir gestum og gangandi til forna. Einnig förum við til fornu borgarinnar Mýkenu sem Agamemnon konungur gerði fræga og til Sounion þar sem hof Poseidons stendur ásamt því að koma við í fallega strandbænum Vouliagmeni.

Verð á mann 389.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 103.900 kr.


Innifalið

 • 6 daga ferð.
 • Flug með PLAY og flugvallaskattar.
 • Ferðir milli Aþenu flugvallar og hótels.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður.
 • Tveir hádegisverðir
 • Tveir kvöldverðir.
 • Skoðunarferð um miðbæ Aþenu.
 • Skoðunarferð til Delfí.
 • Skoðunarferð til Pelópsskagans.
 • Skoðunarferð til Sounion og Vouliagmeni.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, klaustur og fornminjar. 
 • Hádegis- og kvöldverðir aðrir en undir innifalið.
 • Leiga á heyrnatólum fyrir skoðunarferðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

21. október | Flug til Aþenu

Brottför frá Keflavík kl. 06:45. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Við lendum í Aþenu kl. 15:35 að staðartíma. Fararstjóri tekur á móti hópnum úti á flugvelli og síðan verður keyrt inn til Aþenu. Við komum okkur fyrir á vel staðsettu 5* stjörnu hóteli og dveljum þar næstu fimm nætur. Í eftirmiðdaginn förum við í stuttan göngutúr inn í elsta og merkasta hverfi borgarinnar, Plaka, sem liggur við rætur Akrópólis hæðar. Þar er alltaf mikið líf jafnt á degi sem nóttu. Á nýtískulegum eða hefðbundnum kaffihúsum, börum og veitingastöðum má finna allt það helsta sem borgin hefur upp á að bjóða í mat og drykk. Grísk hönnun og minjagripir eru áberandi í verslunum í gamla bænum og þar ættu allir að geta nælt sér í eitthvað sem hjartað girnist. Í Plaka borðum við kvöldverð og hlustum á gríska tónlist á veitingastað undir hlíðum Akrópólis. 

22. október | Aþena & Akrópólishæð

Eftir morgunverð höldum við af stað með rútu til þess að skoða allt það helsta sem gaman er að sjá í borginni, þ.á m. Syntagmatorg, gömlu konungshöllina og skiptingu varðanna, nýklassísku háskólabyggingarnar, marmaraleikvanginn, hof Seifs og hlið Hadríans. Áfram höldum við upp á Akrópólis þar sem við segjum skilið við rútuna og göngum upp á Akrópólis til að skoða hofin sem þar hafa staðið í 2500 ár. Þau eru hof sigurgyðjunnar vængjalausu, Erekþeifshofið og hið fræga Parþenonhof. Við göngum að hótelinu okkar og eftirmiðdagurinn er frjáls. Kvöldverður á eigin vegum. 

23. október | Delfí

Við tökum daginn snemma og höldum af stað í rútuferð til Delfí. Þar sat hin fræga véfrétt í hofi Apollós og spáði fyrir gestum og gangandi til forna. Á leiðinni tökum við kaffistopp og stöldrum við í skíðaþorpinu Arachova sem hangir í 900 metra hæð í hlíðum Parnassus fjallsins þar sem Delfí er einnig staðsett. Þegar við komum til Delfí skoðum við heilaga veginn, fjársjóð Aþenu, hof Apollós og leikhúsið og göngum síðan inn að safninu þar sem við skoðum dýrgripina sem fundust við uppgröftinn í Delfí. Eftir skoðunarferðina keyrum við inn í bæinn í Delfí þar sem við borðum hádegismat. Við komum til baka til Aþenu í eftirmiðdaginn. Kvöldverður á eigin vegum.

Opna allt

24. október | Pelópsskaginn

Árla morguns höldum við af stað í ferð til Argolishéraðsins á Pelópsskaganum. Við byrjum á því að stoppa við Kórinþuskurðinn sem grafinn var á síðari hluta 19. aldarinnar. Höldum svo áfram inn á Pelópsskagann þar sem við heimsækjum fyrst útileikhúsið í Epidárus en það er frægt fyrir að hafa besta hljómburð af öllum fornum leikhúsum í heiminum. Næst keyrum við að ströndinni í Tolo þar sem við borðum hádegisverð og keyrum síðan til bæjarins Nafplion en gamli bærinn er frá tímum Feneyjamanna og Tyrkja og er einn af fallegustu bæjum í Grikklandi. Áfram höldum við til fornu borgarinar Mýkenu sem Agamemnon konungur gerði fræga og þar skoðum við hið fræga ljónahlið og býkúpugröf Atreifs frá 16. öld. f.kr. Við komum til baka til Aþenu seint í eftirmiðdaginn. Kvöldverður á eigin vegum.

25. október | Hof Poseidons í Sounion & Vouliagmeni

Morguninn er frjáls en eftir hádegi keyrum við til Sounion þar sem hof Poseidons stendur. Við keyrum fallega strandleið eftir Aþenu rivíerunni framhjá fallegum ströndum og litlum strandbæjum. Þegar við komum til Sounion göngum við upp að hofi Poseidons sem stendur á sérlega fallegum stað. Á leiðinni heim stoppum við í aðlaðandi strandbænum Vouliagmeni og borðum sameiginlegan kvöldverð. 

26. október | Heimferðardagur

Eftir yndislega daga í Aþenu og nágrenni verður ekið út á flugvöll. Við leggjum af stað um kl. 07:00 og brottför vélar er kl 10:20. Lending í Keflavík kl. 13:20 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Hótel

Cocomat Athens BC

Við gistum í miðborg Aþenu á 5* hóteli, Cocomat Athens BC, í fimm nætur. Hótelið er í nánd við skemmtilega göngugötu þar sem er mikið af kaffihúsum og veitingahúsum. Á ská á móti hótelinu er Akrópólissafnið og Plaka, elsta og mest sjarmerandi hverfið í Aþenu, er í stuttri göngufjarlægð. Á hótelinu er lítil heilsulind.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790
Póstlisti