4. - 9. desember 2024 (6 dagar)
Það er jólalegt í Róm, höfuðborg Ítalíu, í aðdraganda hátíðarinnar þegar ilmurinn af ristuðum kastaníuhnetum tekur að berast frá götugrillum borgarinnar. Á fegursta torgi borgarinnar, Piazza Navona, er aðaljólamarkaðurinn en hver gata eða verslunarhverfi bæjarins hafa sínar sérstöku skreytingar. Það er jólalegt í verslunum bæjarins og ljósadýrðin gleður vegfarendur. Í byrjun nóvember kemur ítalska rauðvínið, vino novello á markað og gefur það tóninn fyrir komandi aðventu. Engin borg í heiminum er eins rík af fornminjum og Róm og hér verða margir áhugaverðir staðir skoðaðir, meðal annars Kapítólhæðin, Forum Romanum, Palatínhæðin, Pantheon og Colosseum. Við upplifum iðandi mannlíf Rómarbúa hjá Trevi gosbrunninum sem er eitt af helstu kennileitum borgarinnar en einnig vel þekkt í nútímamenningu vegna kvikmyndar Fellínís, La dolce vita. Við dáumst einnig að öðru kennimerki Rómar, Spænsku tröppunum, þar sem sjá má eitt þekktasta Maríu líkneski Rómar. Við sækjum Péturskirkjuna heim og förum inn á safn Vatíkansins sem er eitt stærsta og mikilvægasta menningar- og listasafn í heiminum.