Leyndar perlur Austur-Þýskalands

Á slóðum fyrrum Austur-Þýskalands er sagan okkur svo nálæg en þó mörgum óþekkt. Í ferðinni upplifum við hinar sögulegu perlur, Dresden og Leipzig, sem eftir fall múrsins hafa loks aftur náð fyrri dýrð. Við heimsækjum þjóðgarðinn Sächsische Schweiz og lítum þar mikilfenglegt landslag sorfinna kletta, ásamt huggulegum þorpum og fornum kastölum. Við líðum á gondólum eftir síkjum hins græna skógarsvæðis Spreewald sem stundum hefur verið kallað bakgarður Berlínar. Ferðinni lýkur svo í heimsborginni Berlín þar sem menning og listir blómstra sem aldrei fyrr enda borgin kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima. Í Berlín sjáum við ýmis kennileiti borgarinnar eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið.

Verð á mann í tvíbýli 255.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 36.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar og vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling á Saxelfi u.þ.b. € 20.
  • Sigling í Spreewald u.þ.b. € 10.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

13. ágúst | Flug til Berlínar & ekið til Leipzig

Brottför frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Berlín kl. 13:10 að staðartíma. Frá Berlín verður ekið til Leipzig og gist þar fjórar nætur á góðu hóteli miðsvæðis.

14. ágúst | Leipzig skoðuð

Stórskáld Þjóðverja, Johann Wolfgang von Goethe, kallaði Leipzig sína litlu París. Miðbærinn er einstaklega heillandi og í skoðunarferð verður farið um alla helstu sögustaði borgarinnar. Við skoðum m.a. Tómasarkirkjuna þar sem Johann Sebastian Bach var lengst af organisti og tónlistarstjóri. Lítum á mikilfenglega minnisvarðann Völkerschlacht Denkmal um bardagann mikla milli hers Napóleons annars vegar og Rússa og Prússlands hins vegar. Nikolai kirkjan, sem var miðstöð andstöðuhreyfingarinnar, verður heimsótt en þar er áhugavert að skoða ýmsa muni sem minna á dagana fyrir fall múrsins.

15. ágúst | Þjóðgarðurinn Sächsische Schweiz

Sächsische Schweiz þjóðgarðurinn státar af einstöku landsvæði sorfinna kletta með fram ánni Elbe eða Saxelfi. Stefnt er á siglingu eftir fljótinu í þessu undurfagra landslagi. Á leið okkar sjáum við hina sérstöku sandsteinakletta, hugguleg þorp og hallir allt frá miðöldum. Við skoðum Königstein-virkið, ótrúlegt mannvirki sem gnæfir yfir Saxelfurdalnum en þaðan er útsýni í allar áttir svo langt sem augað eygir. Landslagið í Sächsische Schweiz hefur í gegnum aldirnar heillað landslagsmálara en það eru margir sem telja þetta svæði til fallegustu staða á jörðinni.

Opna allt

16. ágúst | Dagsferð til Dresden

Dresden var nánast þurrkuð út í sprengjuárásum í lok seinni heimstyrjaldarinnar en hægt og rólega hefur tekist að endurbyggja borgina í sinni upprunalegu mynd. Miklum menningarverðmætum hafði verið komið í skjól áður en allt var sprengt í loft upp og er Dresden þekkt fyrir stórkostleg listasöfn, hallir og hið fræga óperuhús Semper. Við skoðum markverðustu byggingarnar og listaverk í skoðunarferð um borgina en síðan gefst frjáls tími til að kanna umhverfið og njóta lífsins.

17. ágúst | Spreewald og Berlín

Eftir morgunverð kveðjum við Leipzig og höldum til Berlínar. Rétt utan við borgina er náttúruverndarsvæðið Spreewald. Þetta friðsæla svæði er þakið grænum skógi og engjum sem skerast af fjölmörgum áveituskurðum. Til að upplifa svæðið eins náið og hægt er, er tilvalið að fara í gondólasiglingu á síkjunum frá bænum Lübbenau. Í Berlín gistum við í þrjár nætur á hóteli við Alexanderplatz sem fyrir ekki alls löngu var miðbær Austur-Berlínar.

18. ágúst | Berlín

Hin sögufræga höfuðborg Berlín hefur verið aðsetur þjóðhöfðingja allt frá því hún var stofnuð á 13. öld og er í dag stærsta borg Þýskalands. Á ferð okkar um borgina munum við líta nokkur kennileiti með sterka tilvísun í umhleypingasama sögu borgarinnar á síðustu öld, eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið. Arkitektúr borgarinnar er mjög áhugaverður, bæði fornar byggingar og nýjar, eins og t.d. þinghúsið Reichstag og tónlistarhúsið Berliner Philharmonie.

19. ágúst | Frjáls dagur í Berlín

Þennan dag gefst hverjum og einum tími til að kanna borgina nánar á eigin vegum. Mögulega skoða eitthvað betur sem bar fyrir augu í skoðunarferð gærdagsins en einnig er upplagt að rölta um borgina, fara á söfn, setjast inn á kaffihús og horfa á mannlífið. Borgin er kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima, enda menning og listir í hávegum hafðar. Þetta endurspeglast í listalífi borgarinnar og safnaflóru.

20. ágúst | Heimferðardagur

Þá er komið að lokum þessarar frábæru ferðar. Eftir morgunverð verður haldið út á flugvöll en brottför er kl. 14:15 og áætluð lending í Keflavík kl. 15:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Sól Ólafsdóttir

Sigrún Sól Ólafsdóttir er fædd árið 1968 á Selfossi þar sem hún ólst upp, en lagðist snemma í ferðalög víða um heim og býr nú ýmist í Berlín eða á Íslandi ásamt þremur sonum sínum. Sigrún er leikkona, leikstjóri og leiðsögumaður að mennt og starfaði við leiklist í mörg ár. Hún lauk mastersnámi í Hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands árið 2012 og fór í framhaldsnám í menningarsamskiptum til Berlínar í Þýskalandi árið 2012 - 2013. Hún rekur nú eigið fyrirtæki sem sérhæfir sig í námskeiðahaldi og leikaravali fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Sigrún starfar einnig sem leiðsögumaður á Íslandi og á Grænlandi, bæði með ensku- og þýskumælandi ferðamenn.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00

 

Tengdar ferðir