Leyndar perlur Austur-Þýskalands
13. – 20. ágúst 2023 (8 dagar)
Á slóðum fyrrum Austur-Þýskalands er sagan okkur svo nálæg en þó mörgum óþekkt. Í ferðinni upplifum við hinar sögulegu perlur, Dresden og Leipzig, sem eftir fall múrsins hafa loks aftur náð fyrri dýrð. Við heimsækjum þjóðgarðinn Sächsische Schweiz og lítum þar mikilfenglegt landslag sorfinna kletta, ásamt huggulegum þorpum og fornum kastölum. Við líðum á gondólum eftir síkjum hins græna skógarsvæðis Spreewald sem stundum hefur verið kallað bakgarður Berlínar. Ferðinni lýkur svo í heimsborginni Berlín þar sem menning og listir blómstra sem aldrei fyrr enda borgin kraumandi suðupottur fjölmargra menningarheima. Í Berlín sjáum við ýmis kennileiti borgarinnar eins og leifar af Berlínarmúrnum, minnismerki um helförina og Brandenborgarhliðið.