25. ágúst - 1. september 2023 (8 dagar)
Í þessari þægilegu og skemmtilegu ferð um Skotland njótum við stórkostlegrar náttúru þessa grannríkis okkar í suðri. Skotland er sömuleiðis ríkt af menningu og sögu. Við förum um holt og heiðar, fjörur og fjallgarða og allt þar á milli og stöldrum við í blómlegum bæjum og grösugum sveitum. Við sjáum stærsta stöðuvatn Skotlands, Loch Lomond, eyðum heilum degi á ævintýralegu eyjunni Skye, skimum eftir hinu lífsseiga Loch Ness skrímsli og heimsækjum hinn einstaka Urqhart kastala. Við dveljum í höfuðborg Hálandanna, Inverness, heimsækjum Dunrobin höllina og sjáum hvernig „vatn lífsins“, viskíið, er búið til í einu af fjölmörgum brugghúsum Hálandanna. Við röltum um Ness eyjarnar, smáeyjar í ánni Ness sem rennur í gegnum Inverness og við heimsækjum hinn sögufræga orrustuvöll, Culloden. Við stöldrum við í snotru bæjunum Pitlochry og Perth á leið okkar til Edinborgar. Í höfuðborginni gefum við okkur góðan tíma til að njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Í Edinborg skoðum við Holyrood höllina, röltum eftir Royal Mile að Edinborgarkastala sem gnæfir yfir borgina og gleymum okkur á Princess street. Þeir sem eru í stuði geta síðan rölt upp á eldfjallið Arthurs Seat. Þessi stórskemmtilega ferð er góð blanda af sveit og borg, hálöndum og láglöndum.