Töfrandi Toskana

Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft ítölsku rivíerunnar, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í Forte dei Marmi sem er með þekktustu ferðamannabæjum strandarinnar. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Vernazza, Monterosso og Portovenere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við komum til Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum og eigum góða stund hjá vínbónda í nágrenninu. Einnig heimsækjum við Flórens, eina glæsilegustu lista- og menningarborg landsins. Einnig verður staldrað við í Pisa og skakki turninn, basilíkukirkjan og skírnarkapellan skoðuð. Í þessari töfrandi og skemmtilegu ferð verður jafnframt hægt að slaka á og njóta þessa heillandi svæðis við Miðjarðarhafið.

Verð á mann 318.800 kr.

33.500 kr. aukagjald fyrir einbýli.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á öllum hótelum.
 • Sigling frá Rapallo til Portofino.
 • Sigling við Cinque Terre ströndina.
 • Heimsókn og snarl hjá vínbónda. 
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.
 • Forfalla- og ferðatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðgangur í kirkjuna og skírnarkapelluna í Pisa u.þ.b. € 18.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

23. maí | Flug til Mílanó & Piacenza

Brottför frá Keflavík kl. 08:30 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:45 að staðartíma. Þaðan verður ekið á hótel í Piacenza þar sem gist verður fyrstu nóttina. 

24. maí | Rapallo, Portofino & Forte dei Marmi

Í dag liggur leið okkar að Versilíaströndinni í Toskanahéraði, nánar tiltekið til strandbæjarins Forte dei Marmi þar sem gist verður í sex nætur á hóteli sem er í um 2 mínútna göngufjarlægð frá ströndinni. Á leiðinni til Forte dei Marmi verður stoppað í bænum Rapallo við ítölsku rivíeruna. Þar verður farið í skemmtilega siglingu með fram Portofino skaganum sem dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. Upplagt að fá sér hressingu þar og kanna líf bæjarbúa sem er litríkt og skemmtilegt.

25. maí | Forte dei Marmi & frjáls tími

Við hefjum daginn á góðum morgunverði og njótum þess að vera á þessum fagra stað sem er einn af glæsilegustu ferðamannstöðunum við Versilíaströndina og er þekktur fyrir lúxusverslanir, -veitingastaði og -villur. Nú ætlum við að rölta saman inn í miðbæ Forte dei Marmi og kanna líf bæjarbúa. Eftir það er hægt að líta inn í fínar verslanir, á kaffihús og veitingastaði.

Opna allt

26. maí | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Cinque Terre svæðið fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Siglt verður til Portovenere, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum vel völdum bæjum strandarinnar. 

27. maí | Ferð til Lucca & snarl hjá vínbónda

Við heimsækjum borgina Lucca í dag. Borgin er helst þekkt sem gömul virkisborg en á 13. og 14. öld var hún ein af valdamestu borgum Evrópu. Mikilfenglegir virkisveggir hennar frá miðri 17. öld eru enn uppistandandi. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og er húsið sem hann fæddist í safn í dag. Við höldum í skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni verður vínbóndi sóttur heim þar sem boðið verður upp á smá snarl og auðvitað vín bóndans.

28. maí | Dagur í Flórens

Nú er komið að einum hápunkti ferðarinnar. Það eru fáar borgir sem komast í hálfkvisti við Flórens. Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli en allir mörkuðu þeir sögu borgarinnar. Flórens er höfuðborg Toskanahéraðs og liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin. Farið verður í skoðunarferð og að henni lokinni gefst fólki tækifæri til að upplifa borgina eftir eigin hentisemi, skoða áhugaverð kennileiti enn frekar, fara á söfn eða kynna sér framboð fjölmargra verslana eða veitingastaða borgarinnar.

29. maí | Pisa & Kraftaverkatorgið

Það er alltaf svo yndislegt að koma til borgarinnar Pisa sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173 og var þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Við höldum í góða skoðunarferð um svæðið en eftir það er tími til að kanna staðinn á eigin vegum og fá sér hressingu.

30. maí | Heimferð frá Mílanó

Við kveðjum Toskana eftir dásamlega ferð og ökum á flugvöllinn í Mílanó. Brottför kl. 15:45 og lending í Keflavík kl. 18:00 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Marianne Eiríksson

Marianne fæddist 1964 í Schaffhausen í Sviss, við landamæri Þýskalands. Hún er menntaður ferðamálafræðingur en kom til Íslands í fyrsta skipti árið 1985 og dvaldist þá á sveitabæjum í nokkra mánuði. Síðan 1992 hefur Marianne búið á Íslandi með íslenskum eiginmanni sínum. Hún er útskrifuð frá leiðsöguskólanum og starfar m.a. sem leiðsögumaður.
Marianne segist sjálf vera orðin meiri Íslendingur en Svisslendingur en hún talar þýsku, ensku, frönsku, ítölsku og að sjálfsögðu reiprennandi íslensku.
Áhugamál Marianne eru ferðalög, tungumál og hestamennska.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00
Póstlisti