Töfrandi Toskana

Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft ítölsku rivíerunnar, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í Marina di Pitrasanta sem er með þekktustu ferðamannabæjum strandarinnar. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við komum til Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum, og kynnumst Flórens, einni glæsilegustu lista- og menningarborg landsins sem og einni fjölsóttustu borg veraldar. Einnig verður staldrað við í Pisa og skakki turninn, basilíkukirkjan og skírnarkapellan skoðuð. Toppum ferðina með því að heimsækja San Gimignano, borg hinna þúsund turna. Áður en haldið verður heim á leið gefst tækifæri til að kynnast heimsborginni Mílanó. Í þessari töfrandi og skemmtilegu ferð verður jafnframt hægt að slaka á og njóta þessa heillandi svæðis við Miðjarðarhafið.

Verð á mann 239.900 kr.

29.900 kr. aukagjald fyrir einbýli.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á öllum hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Siglingar.
 • Vínsmökkun.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Sigling frá Rapallo til Portofino ca €15.
 • Sigling við Cinque Terre ströndina ca € 33.
 • Létt hádegissnarl hjá vínbónda og lifandi tónlist ca € 22.
 • Aðgangur í kirkjuna og skírnarkapelluna í Pisa og strætisvagn ca € 12.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

28. maí | Flug til Mílanó & Turate

Brottför frá Keflavík kl. 15:40 og mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 21:55 að staðartíma. Þaðan verður ekið á hótel í Turate sem er í nágrenni flugvallarins, þar sem gist verður fyrstu nóttina.

29. maí | Rapallo, Portofino & Marina di Pietrasanta

Í dag liggur leið okkar að Versilíaströndinni í Toskanahéraði, nánar tiltekið til strandbæjarins Marina di Pietrasanta þar sem gist verður í átta nætur á hóteli um 400 m frá ströndinni. Á þaki hótelsins er fallegur sólpallur með stólum, borðum, útisundlaug og sólbekkjum og síðast en alls ekki síst glæsilegu útsýni. Á leiðinni til Marina di Petrasanta verður stoppað í bænum Rapallo við ítölsku rivíeruna. Þar verður farið í skemmtilega siglingu meðfram Portofino skaganum sem dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. Upplagt að fá sér hressingu þar og kanna líf bæjarbúa sem er litríkt og skemmtilegt.

30. maí | Frjáls dagur í Marina di Pietrasanta

Við hefjum daginn á góðum morgunverði og njótum þess að vera á þessum fagra stað þar sem við höfum útsýni á ítölsku Alpana, furulundir og gullnu sandströndina sem er u.þ.b. 150 m breið. Nú ætlum við að rölta saman inn í miðbæ Marina di Pietrasanta sem er í um 10 mínútna göngufæri frá hótelinu og kanna líf bæjarbúa í þessum vinsæla ferðamannabæ. Eftir það er hægt að líta inn í fínar verslanir, á kaffihús og veitingastaði. Upplagt er að fara í gönguferð með ströndinni eða taka það rólega og nota aðstöðuna við hótelið.

Opna allt

31. maí | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Cinque Terre svæðið fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Siglt verður til Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum vel völdum bæjum strandarinnar. 

1. júní | Ferð til Lucca & hádegissnarl hjá vínbónda

Við heimsækjum borgina Lucca í dag. Borgin er helst þekkt sem gömul virkisborg en á 13. og 14. öld var hún ein af valdamestu borgum Evrópu. Mikilfenglegir virkisveggir hennar frá miðri 17. öld eru enn uppistandandi. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og er húsið sem hann fæddist í safn í dag. Við höldum í stutta skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Eftir það verður vínbóndi sóttur heim þar sem boðið verður upp á smá snarl og auðvitað vín bóndans.

2. júní | Dagur í Flórens

Nú er komið að einum hápunkti ferðarinnar. Það eru fáar borgir sem komast í hálfkvisti við Flórens. Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli en allir mörkuðu þeir sögu borgarinnar. Flórens er höfuðborg Toskanahéraðs og liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin. Farið verður í skoðunarferð og að henni lokinni gefst fólki tækifæri til að upplifa borgina eftir eigin hentisemi, skoða áhugaverð kennileiti enn frekar, fara á söfn eða kynna sér framboð fjölmargra verslana eða veitingastaða borgarinnar. 

3. júní | Pisa & Kraftaverkatorgið

Það er alltaf svo yndislegt að koma til borgarinnar Pisa sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173 og var þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, ætlað að standa lóðrétt, en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Við höldum í góða skoðunarferð um svæðið en eftir það er tími til að kanna staðinn á eigin vegum og fá sér hressingu. 

4. júní | Frjáls dagur, útimarkaður & rólegheit

Í dag tökum við það rólega. Hverjum og einum gefst tækifæri til að kanna bæjarlífið betur og kynna sér áhugaverða staði. Hægt er að nota sundlaug hótelsins en einnig er upplagt að fara niður á flottu baðströndina, sóla sig eða fara í góða göngu eftir ströndinni og njóta náttúrufegurðar staðarins. Einnig er upplagt að skoða útimarkaðinn sem er á laugardögum í bænum frá kl. 7-14.

5. júní | San Gimignano - borg hinna þúsund turna

Dásamlegur dagur þar sem fegurðin lætur ekki á sér standa á leið okkar um Toskana héraðið til borgarinnar San Gimignano, sem stundum er kölluð borg hinna þúsund turna. Áður fyrr voru turnar borgarinnar rúmlega 70 talsins en í dag má sjá 13 til 14 þeirra. Borgin er ein af best varðveittu miðaldaborgum Ítalíu og er hún komin á heimsminjaskrá UNESCO. Hér mun okkur gefast tími til að skoða helstu staði borgarinnar, fá okkur hressingu og auðvitað förum við ekki fyrr en við höfum fengið okkur besta ís í heimi í ísbúðinni Gelateria Dondoli en þeir státa sig af heimsmeistaratitli í ísgerð.

6. júní | Mílanó & heimferð

Við kveðjum Toskana eftir dásamlega ferð og ökum til heimsborgarinnar Mílanó. Þar verður farið í stutta skoðunarferð og gefinn frjáls tími til að líta inn til kaupmanna borgarinnar eða skoða sig betur um í borginni. Upplagt er að fá sér kvöldverð í borginni áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför kl. 23:50 og lending í Keflavík kl. 02:05 að staðartíma aðfaranótt 7. júní.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00