Töfrandi Toskana

Töfrandi blær Toskana héraðsins og yndislegt andrúmsloft ítölsku rivíerunnar, með blaktandi pálmatrjám og hrífandi ströndum, leika við okkur í þessari ferð. Á leið okkar um hina undurfögru Versilíaströnd látum við fara vel um okkur í Forte dei Marmi sem er með þekktustu ferðamannabæjum strandarinnar. Á leiðinni þangað verður siglt frá Rapallo til fræga og fagra bæjarins Portofino. Farið verður í ævintýralegar ferðir þar sem við kynnumst menningu og listum landsins. Við siglum úti fyrir Cinque Terre ströndinni með viðkomu í þorpunum Riomaggiore, Monterosso og Porto Venere og upplifum einstaka fegurð Ítalíu. Við komum til Lucca, sem er ein af gömlu virkisborgunum og eigum góða stund hjá vínbónda í litla bænum Montecarlo. Einnig heimsækjum við Flórens, eina glæsilegustu lista- og menningarborg landsins. Einnig verður staldrað við í Pisa og skakki turninn, basilíkukirkjan og skírnarkapellan skoðuð. Áður en haldið verður heim á leið gefst tækifæri til að kynnast heimsborginni Mílanó. Í þessari töfrandi og skemmtilegu ferð verður jafnframt hægt að slaka á og njóta þessa heillandi svæðis við Miðjarðarhafið.

Verð á mann 284.500 kr.

29.900 kr. aukagjald fyrir einbýli.


Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á öllum hótelum.
 • Sigling frá Rapallo til Portofino.
 • Sigling við Cinque Terre ströndina.
 • Heimsókn og snarl hjá vínbónda. 
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Aðgangur í kirkjuna og skírnarkapelluna í Pisa og smálest u.þ.b. € 14.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. júní | Flug til Mílanó & Piacenza

Brottför frá Keflavík kl. 15:45 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 22:00 að staðartíma. Þaðan verður ekið á hótel í Piacenza þar sem gist verður fyrstu nóttina.

12. júní | Rapallo, Portofino & Forte dei Marmi

Í dag liggur leið okkar að Versilíaströndinni í Toskanahéraði, nánar tiltekið til strandbæjarins Forte dei Marmi þar sem gist verður í sex nætur á hóteli sem er í um 2 mínútna göngufjarlægð frá ströndinni. Á leiðinni til Forte dei Marmi verður stoppað í bænum Rapallo við ítölsku rivíeruna. Þar verður farið í skemmtilega siglingu með fram Portofino skaganum sem dregur nafn sitt af bænum fræga Portofino sem við komum til með að njóta í allri sinni dýrð. Upplagt að fá sér hressingu þar og kanna líf bæjarbúa sem er litríkt og skemmtilegt.

13. júní | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Cinque Terre svæðið fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Siglt verður til Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum vel völdum bæjum strandarinnar.

Opna allt

14. júní | Forte dei Marmi, útimarkaður & frjáls tími

Við hefjum daginn á góðum morgunverði og njótum þess að vera á þessum fagra stað sem er einn af glæsilegustu ferðamannstöðunum við Versilíaströndina og er þekktur fyrir lúxusverslanir, -veitingastaði og -villur. Nú ætlum við að rölta saman inn í miðbæ Forte dei Marmi og kanna líf bæjarbúa. Eftir það er hægt að líta inn í fínar verslanir, á kaffihús og veitingastaði. Einnig er upplagt er að skoða markaðinn í bænum sem opinn er frá kl 8:00 – 14:00.

15. júní | Ferð til Lucca & hádegissnarl hjá vínbónda

Við heimsækjum borgina Lucca í dag. Borgin er helst þekkt sem gömul virkisborg en á 13. og 14. öld var hún ein af valdamestu borgum Evrópu. Mikilfenglegir virkisveggir hennar frá miðri 17. öld eru enn uppistandandi. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og er húsið sem hann fæddist í safn í dag. Við höldum í stutta skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Eftir það verður vínbóndi sóttur heim þar sem boðið verður upp á smá snarl og auðvitað vín bóndans.

16. júní | Dagur í Flórens

Nú er komið að einum hápunkti ferðarinnar. Það eru fáar borgir sem komast í hálfkvisti við Flórens. Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli en allir mörkuðu þeir sögu borgarinnar. Flórens er höfuðborg Toskanahéraðs og liggur á hásléttu rétt sunnan við Appenínafjöllin. Farið verður í skoðunarferð og að henni lokinni gefst fólki tækifæri til að upplifa borgina eftir eigin hentisemi, skoða áhugaverð kennileiti enn frekar, fara á söfn eða kynna sér framboð fjölmargra verslana eða veitingastaða borgarinnar.

17. júní | Pisa & Kraftaverkatorgið

Það er alltaf svo yndislegt að koma til borgarinnar Pisa sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173 og var þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, ætlað að standa lóðrétt en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Við höldum í góða skoðunarferð um svæðið en eftir það er tími til að kanna staðinn á eigin vegum og fá sér hressingu.

18. júní | Mílanó & heimferð

Við kveðjum Toskana eftir dásamlega ferð og ökum til heimsborgarinnar Mílanó. Þar verður farið í stutta skoðunarferð og gefinn frjáls tími til að líta inn til kaupmanna borgarinnar eða skoða sig betur um í borginni. Upplagt er að fá sér kvöldverð í borginni áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför kl. 23:00 og lending í Keflavík kl. 01:15 að staðartíma aðfaranótt 19. júní.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Pavel Manásek

Pavel Manasek hóf píanónám sex ára gamall. Hann lagði stund á orgelleik í Konservatoríinu í Kromeris og síðan í Prag-akademíunni. Pavel starfaði sem organisti og söngstjóri við Háteigskirkju 1993-1999 og á árunum 1991-1993 sem organisti og skólastjóri Tónlistarskólans á Djúpavogi. Jafnframt var hann undirleikari og hjá leiklistardeild Listaháskóla Íslands. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00