Flórens & Caprí

Flórens, Sorrento, Amalfíströndin og eyjan Caprí eru sannkallaðar draumaperlur Ítalíu en kynngimögnuð fegurð þessara staða umvefur okkur í þessari glæsilegu ferð. Ferðin byrjar í strandbænum Forte dei Marmi á Versilíaströndinni en þaðan förum við í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Við dveljum einnig í hinni fögru borg Flórens, eða La Bella eins og hún er oft nefnd, sem er ein glæsilegasta lista- og menningarborg Ítalíu. Í Flórens upplifum við skemmtilega daga á meðan við fræðumst um sögu, listir og mannlíf borgarinnar. Þessi menningarborg er einstök og hreint ótrúlegt að slíkur fjöldi listaverka sé varðveittur á einum og sama staðnum. Verk listamanna á borð við Leonardo da Vinci og Michelangelo, auk svo margra annarra, gæða borgina slíkum töfrum að enginn fer héðan ósnortinn. Nú bíður okkar hinn dásamlegi Napólíflói og Sorrento, eftirsóttasti ferðamannabær hans, þar sem við njótum ljúfra daga. Boðið verður upp á ævintýralega siglingu til sæbrattrar klettaeyjunnar Caprí þar sem siglt verður í Bláa hellinn og farið með stólalyftu upp á hæsta fjall eyjunnar, Monte Solaro. Við bæði siglum og ökum með Amalfíströndinni, sem er ein fallegasta strönd Ítalíu, með viðkomu í bæjunum Amalfí og Positano, og skoðum okkur um í Pompei þar sem finna má eina af frægustu fornminjum veraldar.

Verð á mann 549.000 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 198.600 kr.


Innifalið

 • 13 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgunverður allan tímann á hótelum.
 • Tíu kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Ferja til og frá Caprí og litlir strætisvagnar um Caprí.
 • Sigling og ferð með smárútum meðfram Amalfíströndinni. 
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Þrír kvöldverðir í Flórens.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. 
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

 • Aðgangur að fornminjum í Pompei u.þ.b. € 20. 
 • Blái hellirinn u.þ.b. € 30. 
 • Stólalyfta upp á Monte Solaro fjallið á Caprí u.þ.b. € 13. 
 • Aðgangur inn í Galleria deglia Uffezi listasafnið í Flórens u.þ.b. € 33.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

11. maí | Flug til Mílanó & Forte dei Marmi

Brottför frá Keflavík kl. 8:30 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:45 að staðartíma. Þaðan liggur leið okkar að Versilíaströndinni í Toskanahéraði, nánar tiltekið til strandbæjarins Forte dei Marmi þar sem gist verður í þrjár nætur á hóteli sem er í um 2 mínútna göngufjarlægð frá ströndinni.

12. maí | Sigling við Cinque Terre ströndina

Í dag verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar. Það er svo sannarlega ekki að ástæðulausu að Cinque Terre svæðið fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Siglt verður til Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað til að fá sér hádegishressingu og kanna líf bæjarbúa í nokkrum vel völdum bæjum strandarinnar.  

13. maí | Frjáls tími í Forte dei Marmi

Við hefjum daginn á góðum morgunverði og njótum þess að vera á þessum fagra stað sem er einn af glæsilegustu ferðamannstöðunum við Versilíaströndina og er þekktur fyrir lúxusverslanir, -veitingastaði og -villur. Nú ætlum við að rölta saman inn í miðbæ Forte dei Marmi og kanna líf bæjarbúa. Eftir það er hægt að líta inn í fínar verslanir, á kaffihús og veitingastaði.

Opna allt

14. maí | Flórens

Í dag verður ekið til borgarinnar Flórens sem staðsett er í hinu víðfræga héraði Toskana. Flórens er með glæsilegustu lista- og menningarborgum Ítalíu og ein af fjölsóttustu borgum veraldar. Lega borgarinnar er með eindæmum fögur en hún stendur beggja vegna Arno fljótsins. Í Flórens verður gist í þrjár nætur á hóteli í miðbænum, stutt frá demöntum listasögunnar.

15. maí | Skoðunarferð í Flórens & frjáls tími

Við hefjum daginn á fróðlegri skoðunarferð um Flórens með heimamann í fararbroddi sem mun leiða okkur í allan sannleikann um sögu og mannlíf borgarinnar. Fáar borgir komast í hálfkvist við Flórens en ótrúlegt er að slíkur fjöldi fágætra listaverka finnist á jafn litlu svæði. Að skoðunarferðinni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna borgina betur á eigin vegum og fá sér hressingu.

16. maí | Frjáls dagur í Flórens

Hver kannast ekki við snillinga á borð við Leonardo da Vinci, Michelangelo, Botticelli, Galileo Galilei, Dante og Machiavelli? Allir mörkuðu þeir spor sín í menningar- og listasögu Flórens. Í dag er upplagt að skoða sig betur um í töfrandi borginni og verja t.d. drjúgum tíma á Galleria deglia Uffezi listasafninu, sem er eitt glæsilegasta listasafn landsins. Það var áður stjórnsýsluhús en er nú málverkasafn með 4.500 myndum sem sýna þróun menningar í Flórens og málaralistar í Feneyjum. Svo má ekki gleyma glæsilegustu höll borgarinnar, Palazzo Pitti, og yndislegum garði hennar. Kaupmenn borgarinnar eru á sínum stað og leggja sitt af mörkum til að gera þetta að ógleymanlegum degi.

17. maí | Sorrento við Napólíflóa

Nú kveðjum við Flórens og ökum til Sorrento við Napólíflóa, eins fallegasta flóa landsins. Sorrento er hrífandi bær í bröttum hlíðum en þar vaxa ólífu-, appelsínu- og sítrónutré og þess má geta að Limoncello líkjörinn frægi kemur frá þessu svæði. Á þessum dásamlega stað verður gist í 7 nætur á góðu hóteli.

18. maí | Skoðunarferð í Sorrento & frjáls tími

Við ætlum að eiga skemmtilegan dag í Sorrento en eftir góðan morgunverð býður fararstjórinn upp á skoðunarferð um bæinn og eftir það er upplagt að kanna dásamlegt umhverfið í Sorrento, eins eftirsóttasta ferðamannabæjarins á Sorrento skaganum. Í bænum er fjöldinn allur af einstaklega heillandi, þröngum, gömlum götum, fögrum kirkjum og glæstum byggingum. Eftir það er frjáls tími til að kanna iðandi mannlíf bæjarins.

19. maí | Sigling til Caprí

Nú höldum við í siglingu til Caprí, perlu Napólíflóans. Við skoðum fallegu eyjuna, siglum að Bláa hellinum, Grotta Azzurra, og förum upp til Caprí og Anacapri þar sem við njótum stórfenglegs útsýnis. Áhugasömum gefst tækifæri til að fara með stólalyftu upp á fjallið Monte Solaro. Jafnframt verður hægt að fá sér hressingu og skoða alls kyns handunnar vefnaðarvörur eins og kniplinga, dúka, klæði og fatnað.

20. maí | Rólegheit & slökun í Sorrento

Þennan dag gefst heill dagur til þess að slaka á og njóta þess að vera á þessum yndislega stað. Sorrento er líflegur og skemmtilegur bær, þar er margt að skoða og tilvalið að kíkja í verslanir og á kaffi- og veitingahús. Einnig er hægt að slaka á við sundlaug hótelsins eða ganga með strandlengjunni.

21. maí | Sigling & rúta með Amalfíströndinni

Haldið verður í töfrandi dagsferð um Amalfíströndina þar sem fegurðin er svo sannarlega einstök. Við hefjum daginn á ferð með smárútum með fram ströndinni og hvarvetna gefur að líta dásamlegt landslag á þessari fallegu leið til bæjarins Amalfí, þar sem við stoppum og skoðum okkur um. Á rölti um bæinn sjáum við fallega dómkirkju frá 10. öld, lífleg veitinga- og kaffihús og litlar verslanir sem gaman er að kíkja inn í. Því næst verður farið í hrífandi siglingu með Amalfíströndinni til Sorrento en þaðan gefur að líta ægifagurt útsýni yfir fallegustu strandlengju Ítalíu og sjáum við þar litskrúðug hús, hótel og smábæi sem hanga utan í klettabrúninni. Á þessari ljúfu siglingu verður áð í Positano, einum þekktasta og vinsælasta ferðamannabæ Amalfístrandarinnar áður en siglt verður til Sorrento. Við mælum eindregið með því að gestir gæði sér á grilluðum sjávarréttum í hádeginu en þeir eru einn helsti sérréttur svæðisins.

22. maí | Dagur í Sorrento

Dagurinn er tilvalinn til afslöppunar. Skemmtilegt er að upplifa bæinn og hinar gróðursælu ólífu-, appelsínu-, og sítrónuhæðir fyrir ofan hann með því að taka litlu lestina. Einnig er tilvalið að kíkja í verslanir og á kaffi- og veitingahús. Eftir hádegi er upplagt er að nota aðstöðuna við hótelið eða fara niður að gömlu bátahöfninni en þar er úrval góðra veitingarstaða. Svo er líka hægt að fara á fallegu baðströndinna og taka sundsprett.

23. maí | Fornminjar í Pompei

Í dag höldum við til Pompei þar sem skoðaðar verða einhverjar frægustu fornminjar veraldar. Rústir gömlu Pompei eru eitt stórkostlegasta dæmið um fornleifauppgröft heillar byggðar og mun heimamaður leiða okkur í allan sannleikann um söguna. Eftir það verður gefinn frjáls timi til að slaka á og fá sér hressingu áður en haldið verður aftur til Sorrento.

24. maí | Heimflug frá Róm

Nú er komið að heimferð eftir glæsilega ferð. Ekið verður á flugvöll í Róm og er brottför þaðan kl. 16:00. Áætluð lending í Keflavík kl. 18:50 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00
Póstlisti