Í tröllahöndum í Noregi

Í stórbrotinni söguferð um vogskornar strendur Noregs heimsækjum við marga af markverðustu stöðum landsins og fáum atburði úr sögu Noregs, og jafnvel Íslands, beint í æð. Eftir flug til Bergen munum við skoða okkur um í bænum, virða fyrir okkur Hansabyggingarnar í Bryggen og eiga einnig frjálsan dag til að njóta í Bergen. Á leið okkar frá Bergen til Sognefjord förum við í stórkostlega lestarferð frá Voss, yfir Myrdal og áfram til Flåm. Á leiðinni gefst tækifæri til að upplifa mikilfenglegt landslag Noregs; fјöll með snæviþöktum tindum, fallega fossa og sveitabæi sem byggðir eru utan í snarbröttum fјallshlíðunum. Við höldum ferðinni áfram eftir þröngum fјörðum, yfir há fјöll og inn skjólsæla dali. Við skoðum stærsta víkingaskip sem fundist hefur í Noregi og heimsækjum hinn einstaka stað Loen. Farið verður í dásamlega siglingu um Geirangursfjörð, þar sem gestir njóta einstaks útsýnis til stórbrotinna fjallanna og sjá þar dásamlega fossa steypast fram af fjallsbrúninni. Við ökum eftir hinum hrikalega Tröllastíg og til Ringebu þar sem ein af hinum merku stafkirkjum landsins verður skoðuð og höldum þaðan til Lillehammer sem hýsti vetrarólympíuleikana árið 1994. Ferðin endar í höfuðborginni Osló áður en haldið er heim á leið.

Verð á mann í tvíbýli 355.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 93.700 kr.


Innifalið

 • 9 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Allir morgunverðir á hótelum.
 • Sex kvöldverðir á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Lestarferð með Flåm lestinni.
 • Ferja frá Hellesylt til Geiranger.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Tveir kvöldverðir.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Ringebu stafkirkjan ca NOK 100.
 • Holmenkollen ca NOK 160.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

2. ágúst | Flug til Bergen

Brottför frá Keflavík kl. 10:15. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Bergen kl. 14:35 að staðartíma. Við gistum í tvær nætur í Bergen og borðum í kvöld sameiginlegan kvöldverð á hótelinu.

3. ágúst | Bergen – frjáls dagur

Eftir morgunverð röltum við af stað með fararstjóranum í gönguferð um miðbæ Bergen en meðal þess sem þar er að sjá eru Hansabyggingarnar í Bryggen. Endum skoðunarferðina á því að fara með Fløibanen járnbrautarlestinni upp á fjallið Floyen þar sem sést vel yfir borgina. Að þessu loknu er frjáls dagur þar sem upplagt er að skoða sig betur um í borginni og njóta þess sem hún hefur upp á að bjóða. Það er t.d. tilvalið að heimsækja líflegan fiskmarkaðinn. Kvöldverður á eigin vegum.

4. ágúst | Bergen – Myrdal – Sognefjord – Leikanger

Næsta morgun yfirgefum við Bergen og ökum til Voss þar sem farið verður í stórfenglega lestarferð frá Voss í gegnum Myrdal og áfram til Flåm. Á þessari leið upplifum við eitt mikilfenglegasta landslag sem Noregur hefur upp á að bjóða, há fjöll með snæviþöktum tindum, fallega fossa og sveitabæi sem hafa verið byggðir utan í fjallshlíðunum. Flåm járnbrautin er eitt af meistaraverkum norskrar verkfræði en lagning hennar í erfiðu landslaginu hófst árið 1920 og lauk 20 árum seinna. Frá Flåm verður ekið til Fodnes þar sem við tökum ferju yfir til Manheller. Við höldum för okkar áfram með fram undurfögrum Sognefjord þar til við komum að náttstað okkar í Leikanger þar sem við gistum eina nótt. Kvöldverður á hótelinu.

Opna allt

5. ágúst | Leikanger – Nordfjordeid

Við byrjum daginn á að aka upp með firðinum og höldum svo áfram upp Gaula fjallið og upp á hásléttuna. Þetta er einstaklega spennandi og fjölbreytt leið eftir þröngum fjörðum, yfir há fjöll og inn í skjólsama dali. Við förum með fram Jølster vatninu sem er þekkt fyrir sinn ljúffenga silung. Við tökum svo ferju frá Anda yfir til Lote og ökum þaðan til Loen sem er einstakt svæði og að koma þangað er eins og að ganga inn í póstkort. Við Loen er ein brattasta kláfferja í heimi en þar er hægt að fara upp í 1100 metra hæð og njóta útsýnis sem er einstakt. Því næst ökum við yfir í Nordfjordeid þar sem við gistum eina nótt. Í Nordfjordeid verður farið í stutta gönguferð þar sem við skoðum meðal annars Myklebusthauginn en þar voru á 19. öld grafnar upp leifar af stærsta langskipi sem fundist hefur í Noregi. Við göngum einnig gegnum miðbæinn og að höfninni þar sem hægt er að skoða Sagasted víkingasafnið. Þar er endurgerð af Myklebustskipinu og hægt að fræðast um hina miklu skipasmíðahefð sem enn er við haldið á svæðinu en hér hafa langskip verið smíðuð í meira en 1000 ár. Kvöldverður á hótelinu.

6. ágúst | Nordfjordeid – Geirangursfjörður

Frá Nordfjordeid ökum við með fram dýpsta stöðuvatni Evrópu; Hornindalsvatnet og í gegnum bæinn Stryn. Höldum til Hellesylt en þaðan förum við í yndislega ferjuferð til Geiranger. Á þessari rúmlega klukkutíma löngu siglingu er hægt að njóta einstaks útsýnisins til stórbrotinna fjallanna og dásamlegra fossa sem falla fram af fjallsbrúnunum. Kvöldverður og gisting eina nótt á hóteli í Geirangri.

7. ágúst | Geirangursfjörður – Lillehammer

Í dag verður ekinn Örnevegen til Eidsdal og tökum þar ferju til Linge. Síðan er komið að því að aka eftir hinum hrikalega Tröllastíg sem er í 1000 metra hæð og er hæsti klettaveggur Evrópu. Þaðan verður ekið til Lillehammer með viðkomu í Ringebu þar sem skoðuð verður stafkirkja frá 12. öld. Lillehammer er gamaldags norskur bær sem hýsti vetrarólympíuleikana 1994. Gist í eina nótt í Lillehammer og kvöldverður á hótelinu.

8. ágúst | Lillehammer – Osló

Ekið verður sem leið liggur til Oslóar. Farið gegnum Hamar og með fram Mjösa, stærsta vatni Noregs. Á leiðinni verður stoppað við Ólympíuskautahöllina í Hamri sem er stórglæsilegt mannvirki. Þaðan verður farið upp til Holmenkollen, sem er þekkt fyrir skíðastökkpallinn og flott útsýni yfir Osló og Oslófjörðinn. Komum við í Vigelandsgarðinum sem er höggmyndagarður sem samanstendur af yfir 200 skúlptúrum úr m.a. graníti og bronsi gerðum af Gustav Vigeland. Gist í tvær nætur í Osló. Sameiginlegur kvöldverður á hótelinu.

9. ágúst | Osló

Við munum verja deginum í Osló, höfuðborg Noregs. Höldum í skoðunarferð um borgina þar sem m.a. má sjá höllina og Akershus virkið. Skoðunarferðinni lýkur við hið glæsilega óperuhús Oslóar. Seinni hluta dags gefst frjáls tími í borginni. Hægt er að mæla með gönguferð á Karl Johan, sem er helsta verslunar- og lystigata Oslóborgar, eða gönguferð niður á Aker bryggju. Kvöldverður á eigin vegum.

10. ágúst | Heimferð frá Osló

Nú er komið að heimferð og haldið verður út á flugvöll og flogið heim kl. 13:50, með lendingu í Keflavík kl. 14:45.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Gísli Einarsson

Gísli Einarsson hefur unnið ýmiskonar störf, lengst af þó við fjölmiðla. Hann er í dag dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu en kemur einnig reglulega fram sem skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og hvers kyns skemmtunum. Þá hefur Gísli tekið að sér að staðarleiðsöng fyrir hópa um Vesturland.
 
Gísli er eins og fleiri sveitamenn alinn upp við að menn fari ekki á fjöll nema eiga þangað erindi, annað hvort til að leita sauða eða skjóta rjúpur. Í seinni tíð hefur hann þurft að kúvenda i þeirri afstöðu því hans aðaláhugamál í dag eru fjallgöngur, innanlands sem utan.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

 

Tengdar ferðir
Póstlisti