Hvernig er best að undirbúa sig fyrir gönguferðir?

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir gönguferðir?

Bændaferðir bjóða upp á fjölbreyttar gönguferðir um ævintýraleg svæði víðsvegar í Evrópu. Gönguferðir hafa vaxið í vinsældum síðastliðin ár enda fátt sem veitir manni jafn mikið frelsi og að ferðast á tveimur jafnfljótum. Það er þó að mörgu að huga við undirbúning fyrir lengri gönguferðir. Ein besta leiðin til að koma sér í fjallgönguform er að fara í fjallgöngur. Í fjallgöngum reynir á allt aðra þætti en í annarri líkamsrækt. Það reynir ekki eingöngu á þol heldur líka á jafnvægi og seiglu. Við höfum tekið saman nokkur ráð sem við teljum gott að hafa til hliðsjónar áður en lagt er af stað í nokkurra daga gönguævintýri.

Gönguferðir

Gönguformið

Gönguferðir Bændaferða henta flestum þeim sem eru við góða heilsu, njóta þess að hreyfa sig utandyra og eru örugg í göngu í ójöfnu landslagi. Þó það sé vissulega ánægjulegra að fara í göngu þegar þolið er gott þá er það ekki þolið sem er það mikilvægasta heldur að geta gengið í lengri tíma á einum degi. Oft er gengið í 5-6 klst. á hverjum degi. Leiðsögumaður og fararstjóri gefa þátttakendum þó góðan tíma til hvíldar með reglulegu millibili og til að nærast og njóta útsýnisins.  

Njóta en ekki þjóta

Gönguferðirnar okkar eru engar keppnisferðir heldur eru þær hugsaðar til að njóta náttúrunnar og kynnast betur landi og þjóð.

Gönguferðir

Safnaðu kílómetrum í aðdraganda ferðar

Þó öll hreyfing sé góð hreyfing þá er mikilvægt að fara í fjallgöngur til að komast í fjallgönguform. Best er að fara í göngur í þeim skóm sem þú ætlar að vera í í ferðinni og með þann bakpoka sem þú ætlar að hafa meðferðis. Gott er að fara í að minnsta kosti tvær fjallgöngur á viku mánuðinn fyrir ferðina. Þess á milli er til dæmis hægt reyna að flétta gönguferðir inn í daglegt líf. Til dæmis með að ganga til og frá vinnu, fara fótgangandi í matvöruverslunina og bera innkaupin heim í bakpoka. Ekki gera þau mistök að ætla þér of mikið í byrjun. Esjan er til dæmis ekki besti staðurinn til að fara í sína fyrstu undirbúningsgöngu. Byrjið smátt og byggið þolið upp smám saman. 

Tillaga að göngum á höfuðborgarsvæðinu

Vika 1: Úlfarsfell og Mosfell
Vika 2: Helgafell í Hafnarfirði og Grímannsfell
Vika 3: Vífilsfell og Esjan upp að Steini
Vika 4: Akrafell og Móskarðshnúkar

Gönguferðir

Búnaður

Listinn hér að neðan telur upp það helsta sem fólk ætti að taka með sér en hann er ekki tæmandi og aðeins leiðbeinandi því markmiðið er að hverjum líði sem best á ferðalaginu

Bakpokinn

Stærð og gerð bakpoka er smekksatriði. Fyrir dagsgöngur er 20-30l hæfileg stærð og óþarfi að taka stærri bakpoka meðferðis nema annað sé tekið fram. Aðalatriðið er að bakpokinn passi notandanum vel og sé rétt stilltur. Þess vegna er gott að hafa hann meðferðis í allar undirbúningsgöngurnar í aðdraganda ferðar.

Gönguskór

Það er mismunandi eftir tegund göngu hvaða skór henta best. Í sumum göngum getur verið nóg að vera í léttum skóm, jafnvel utanvegahlaupaskóm og fyrir aðrar göngur er nauðsynlegt að hafa hálfstífa skó meðferðis. Fyrir sumar ferðir gæti verið gott að hafa bæði létta og hálfstífa skó. Það mikilvægasta er að vera búin að venjast skónum vel og að þeir henti þínum fæti.

Fatnaður

Það er til ógrynni af fatnaði fyrir fjallgöngur og sem betur fer enda höfum við öll mismunandi óskir um fatnað. Gott er að vera í fatnaði sem er léttur og úr efni sem þornar fljótt. Bómull er á algjörum bannlista í göngum. Veljið heldur fatnað úr gerviefni, léttri ullarblöndu og flísefni fyrir pásurnar. Derhúfur geta gert gæfumuninn á sólríkum dögum og eyrnabönd eða létt húfa koma sér vel enda hvessir eftir því sem ofar er komið.

Göngustafir

Göngustafir eru smekksatriði en geta komið sér mjög vel. Ef þið ætlið að taka göngustafi með mælum við með að nota þá í undirbúningsgöngunum ykkar til að venjast því að vera með þá. Göngustafir dreifa álaginu betur um líkamann og geta dregið úr líkum á hnémeiðslum í gönguferðum.

Sólarvörn (helst númer 50)

Það gefur auga leið að við svitnum talsvert á göngu og enn frekar í hlýju loftslagi. Þumalputtareglan er að smyrja sig með sólarvörn á að minnsta kosti þriggja tíma fresti í fjallgöngum.

Sólgleraugu

Þau eru nauðsynlegur búnaður.

Stór drykkjarflaska eða tvær minni

Mikilvægt er að vökva sig vel í göngum. Hafið meðferðis tvær hálfs lítra flöskur eða eina 1l flösku. Einnig er hægt að kaupa vatnspoka í langflesta göngubakpoka.

 

Tengdar ferðir




Póstlisti