Kínverskur matur í Kína

Kínverskur matur í Kína

Sú fróma ósk birtist á vef Bændaferða, að ferðalangar myndu senda inn ferðaminningar og var gefinn tónninn með broti af gömlum pistli Ingu Ragnarsdóttur fararstjóra. Nafn Ingu vakti hjá mér minningu um ferð til Kína, hrunárið 2008, þegar allt fór úrskeiðis í fjármálum Íslands, rétt á meðan hópur valinkunnra Íslendinga tölti á eftir Ingu um kínverskar grundir. Ég ætla þó ekki að rifja upp hrunið, enda engar góðar minningar tengdar því, heldur rifja upp eitt af mörgu sem enn býr í minninu, eftir þessa Kína-reisu. 


Ég hafði hlakkað til þessarar Kína-ferðar og varð ekki fyrir vonbrigðum, hvorki með ferðina eða Ingu, hvorutveggja stóðst allar væntingar og rúmlega það - nema hvað maturinn í Kína-landinu var ekki fyrir minn smekk. 

Matvendni?

Ég hef alla mína tíð haft góðan smekk fyrir mat og ekki látið ofan í mig hvað sem er. Konan mín segir að þetta sé matvendni, sem er auðvitað rangt, enda borða ég allt sem mér finnst gott en læt annað eiga sig. Ég er ef til vill dálítið íhaldssamur í ýmsum efnum, þannig að ég er lítið fyrir að prófa eitthvað nýtt þegar kemur að matarmálum, enda eru nýjungar og breytingar, í þessum málum sem öðrum, bæði óþarfi og nánast aldrei til góðs.


Sem fyrr segir þá kunni ég lítt að meta þann mat sem á borð var borinn í Kína. Þetta var alltaf kínverskur matur, já ég segi ykkur satt, hvern dag í hádegi og að kvöldi var farið á veitingastaði sem buðu ekki annað en kínverskan mat. Þetta varð sem sagt að vandamáli hjá mér, ég borða ekki kínverskan mat, nema þá helst venjuleg hvít hrísgrjón (hef reyndar aldrei smakkað neitt af þessum mat, en það er aukaatriði).

Hrísgrjón við hringborð

Dag eftir dag var farið á kínverska veitingastaði, sem allir voru nokkurn veginn eins. Setið var við hringborð og á miðju borði var heljar mikil glerplata á snúningsfæti, þar sem matinn var að finna í ótal skálum. Það var sama hvað ég snéri þessari fjárans glerplötu, allt var þetta alls kyns furðulegur matur, ef mat skyldi kalla, sem ég gat ekki hugsað mér að snerta. Ef heppnin var með, gat ég náð mér í hrísgrjón, en ferðafélagarnir litu mig hornauga þegar ég tæmdi hrísgrjónaskálina ef ég náði til hennar. Reyndar man ég eftir að í eitt eða tvö skipti mátti finna venjulegar franskar kartöflur á glerborðinu - sem var ótrúlegt, því þær áttu ekki heima með neinu þarna. En, þarna fékk ég þó eitthvað að borða, en aðrir minna af frönskum. 


Eitt sinn var farið í mat, að mig minnir um hádegi - á einhverskonar sveitaveitingastað, sem var afar sérstakur svo ekki sé meira sagt og ekki með snúningsborðum. Þar eða þessi pistill fjallar um matarminningar, sleppi ég lýsingum á staðnum sjálfum, en rifja hér upp að það varð uppi fótur og fit hjá Kína-fólkinu, þegar íslenskir ferðalangar báðu um hnífapör. Eitthvað var til af slíkum tólum á staðnum, en þeir leystu málið með því að hlaupa í næstu hús og fá lánuð hnífapör, til að geta orðið við óskum skrítinna útlendinga. 


En aftur að matnum sjálfum þarna í sveitinni. Sem fyrr var nánast ekkert sem mig fýsti að borða fremur en áður, allt kínverskir kjúklingar og allskonar annað sem ég vissi ekki hvað var. Í lokin var borin fram súpa í stórri skál, kjúklingasúpa (nema hvað) og virtust allir nema ég taka því vel. Ekki snerti ég súpuna, en það skal játað að það hló dálítill púki á öxlinni á mér þegar borðfélagar mínir fóru að fá sér súpu. Kjúklingabitar komu upp í ausuna hjá nokkrum, sem mun víst tíðkast - en þegar eitt okkar veiddi upp haus af hænu, sem horfði illilega framan í viðkomandi - þá misstu fleiri en ég alla lyst. Kvikindið gaggaði þó ekki, enda steindautt og vel soðið.

Hrísgrjón við hringborð

Loksins nautasteik

Undir lok ferðar vorum við á dýrindis hóteli í Peking og við lauslega könnun á aðbúnaði þar, sá ég að þar var matsalur og ákvað að skoða matseðilinn. Það get ég sagt ykkur, að eftir þá hungursneyð sem mig hafði hrjáð fram að þessu í ferðinni, gladdist ég eins og barn þegar ég sá hvað í boði var. Þarna voru m.a. í boði nautasteikur, sem bæði myndir og lýsing sögðu til um, að væru fram bornar á ekta vestrænan máta. Þarna yrði loksins alvöru matur á borðum.
Um kvöldið varð ég fyrir vonbrigðum, þegar Inga sagðist ætla með hópinn burt af hótelinu, á enn einn hringborðsstaðinn úti í bæ. Eftir að hafa séð hvað hótelið bauð upp á, ákvað ég að fylgja ekki hópnum, en fara þess í stað og fá mér alvöru nautalund, með frönskum og öðru tilheyrandi, á veitingastað hótelsins. 


Þegar hópurinn var farinn, þ.m.t. konan mín sem var yfir sig hrifin af þessum kínversku hringborðum og sullinu sem þar var í boði - klæddi ég mig upp á og hélt af stað í matsalinn. Nú skyldi fá sér vel að borða, sem aldrei fyrr. Heldur þótti mér þó skrítið þegar ég gekk inn í matsalinn, að þar var lítið um ljós og ekki nokkurn mann að sjá, hvorki gesti eða þjóna. Þó virtist vera opið, þannig að ég gekk inn og settist við borð, í þeirri trú að ég væri bara svona snemma á ferð. 


Er ég hafði setið skamma stund og skoðað matseðilinn sem á borðinu var, birtist þjónn og var sá hinn elskulegasti eins og Kínverja er siður. Á matseðlinum var heil opna sem sýndi nautasteikur af öllu tagi, þannig að nú yrði veisla. Ekki gat ég mikið rætt við þjóninn, hann skildi ekki mikið í íslensku eða ensku og ég ekkert í kínversku - sem ekki var þó vandamál, því ég benti á stærstu og dýrustu nautasteikina sem á seðlinum var, nautafillé 400 grömm. Þessi kurteisi maður varð fremur kindarlegur og svo mikið skildi ég af orðum hans og bendingum, að því miður væri þessi réttur ekki til. 


Það gerði svo sem ekki mikið til, nóg var af girnilegum réttum þannig að ég benti á aðra nautasteik, en uppskar þá aftur vandræðalegt bros og bendingar - þessi réttur var heldur ekki til. Svo fór að enginn af þeim dýrindis réttum sem ég hafði allan daginn hlakkað til að fá á þessu kvöldi, reyndist vera tiltækur á veitingastað hótelsins. Fór nú í verra og lá við að ég brysti í grát, þarna á þessum flotta en mannlausa veitingastað þessa fína hótels í Peking. 


Þjónninn, sem hafði orðið að valda mér vonbrigðum nokkrum sinnum þetta kvöld, sá hvað mér leið og skyndilega birti yfir honum og hann fletti á næstu síðu matseðilsins og benti þar á rétt, sem ég skildi að myndi vera fáanlegur úr eldhúsi hótelsins. Ég leit á myndina og sá að þarna var um að ræða alvöru hamborgara, sem hefði getað verið ættaður úr Staðarskála. Þótti mér nú hagur minn nokkuð hafa vænkast, ég fengi þó a.m.k. eitthvað annað en endalausan kínverskan mat af hringlaga glerborði þetta kvöld. Skömmu síðar kom þjónninn með stærðar hamborgara og mikið af frönskum - og reyndist þetta með betri hamborgurum sem ég hef fengið.

Óvænt megrun

Rétt og skylt er að geta þess, að bæði konan mín og að ég held allir aðrir ferðafélagar, kunnu vel að meta kínverska hringborðsmatinn, það var bara ég sem hafði annan og betri smekk en þau hin og fór í óvænta megrun í þessari ferð (sem ég mátti svo sem við). En fyrir utan þessar matarhremmingar mínar - sem Inga blessunin hafði sífelldar áhyggjur af - þá var stórkostlegt að koma til Kína og mæli ég hiklaust með slíkri ferð við alla sem vilja fara í ógleymanlegt ferðalag og sjá eitthvað annað en sólarstrendur á Tene. 


Við hjónin höfum farið nokkuð víða og svo vill til að nokkrar eftirminnilegustu ferðirnar höfum við farið með Bændaferðum. Af ferðum til framandi landa nefni ég ferðir til Egyptalands, Jórdaníu, Grikklands, Rússlands og Kína - en margar fleiri ferðir hafa verið ánægjulegar.


Bestu kveðjur,

Birgir Sigmundsson

Birgir Sigmundsson - Ferðasaga frá Kína

 

Tengdar ferðir