Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
20. ágúst           Reykjavík – Narsarsuaq

Flogið er með Flugfélagi Íslands frá Keflavíkurflugvelli. Brottför er kl.16.45 og er mæting síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lent verður í Narsarsuaq kl.17.30 að staðartíma. Hópurinn verður fluttur af flugvelli á hótel Narsarsuaq þar sem gist verður í 3 nætur.

 
 
21. ágúst           Qoornoq – IgalikuQoornoq – Igaliku

Að loknum morgunverði er komið að siglingu. Siglt er frá Narsarsuaq að mynni Qoornoq fjarðar milli voldugra ísjaka sem brotnað hafa úr Grænlandsjökli. Marga hefur tekið niðri á grynningum og er vandfarin leiðin. Það er tilkomumikil sjón að sjá alla þessa jaka, mismunandi stóra og ólíka á litinn. Sagt er að allt að 200.000 tonn af ís brotni árlega í þennan fjörð. Góður tími gefst til að staldra við, drepa á bátsvélinni og leggja við hlustir. Af og til er dauðaþögnin rofin þegar ís brotnar úr jöklinum og skellur í sjóinn. Á siglingunni tökum við litla ísjaka um borð, myljum þá og notum í drykki á leiðinni. Það er magnað að standa með drykk í hendi, heyra svolítinn hvell og verða vitni að því þegar þúsund ára gamalt loft losnar skyndilega úr ísmola. Förinni er heitið til Igaliku (Garða) sem er við Eiríksfjörð. Höfnin er lífæð þorpsins, sem er eitt fallegasta þorp Grænlands. Gengið er til þorpsins eftir svonefndum Kóngsvegi. Þar sem hann er hæstur er fallegt útsýni yfir þorpið. Þök húsanna eru máluð í margvíslegum litum, fagurgrænt undirlendi er milli þorps og fjöru og síðan tekur fagurblár sjórinn við. Handan fjarðarins gnæfir fjallið Illerfissalik með hvítum kolli. Hér var forðum þingstaður og dómkirkja norrænna manna og eru merkilegar minjar um veru þeirra víða. Nú eru hér skóli, kirkja og verslun en glöggt má sjá að íbúar stunda sauðfjárrækt. Við snúum til baka til Narsarsuaq að loknum viðburðaríkum degi.

 
 
22. ágúst           Qaqortoq – HvalseyjarkirkjaQaqortoq sem er stærsti bærinn í Suður Grænlandi með um 3500 íbúa

Það er komið að mannlífinu í Grænlandi, við siglum til Qaqortoq sem er stærsti bærinn í Suður Grænlandi með um 3500 íbúa. Hingað koma börn og unglingar til náms því hér eru grunnskóli, verslunarskóli og alþýðuskóli. Bærinn státar af ýmsum iðnfyrirtækjum, þeirra merkast er eflaust Great Greenland, sútunar- og hönnunarfyrirtæki sem framleiðir afbragðs flíkur úr selskinni. Hvarvetna í bænum reka gestir augun í höggmyndir en fjölmargir listamenn hafa tekið þátt í verkefninu, Steinn og maður og eru verk þeirra af ýmsum stærðum og gerðum. Segja má að bærinn sé einn magnaður höggmyndagarður. Í miðbænum er elsti brunnur Grænlands og þar er gaman að tylla sér um stund og fylgjast með veiði- og fiskimönnum koma að landi með afla dagsins sem þeir selja strax á markað. Eftir áhugaverða dvöl í bænum er enn lagt á haf út og nú er stefnan tekin á Hvalseyjarfjörð. Á einum stað standa rústir Hvalseyjarkirkju sem mun hafa verið byggð á 14. öld. Landnámabók segir Þorkel farserk hafa numið land á þessu svæði en hann var einn manna Eiríks rauða. Ekki er talið að hann hafi verið kristinn, hann dó áður en kristni barst til Grænlands. Kirkjan umrædda er hlaðinn úr steini og hafa veggir verið þykkir og allt að 6m háir. Degi er tekið að halla og tími kominn til að snúa við og sigla á náttstað.

 Grænland Brattahlíð 
 
23. ágúst           Brattahlíð

Í dag verður farið í stutta siglingu þvert yfir fjörðinn til Qassiarsuk sem fyrrum hét Brattahlíð. Þetta er landnám Eiríks rauða sem við skoðum í dag. Það er gaman til þess að hugsa að sauðfjárbændur í héraðinu heyja í dag á sama svæði og menn Eiríks gerðu fyrir meira en þúsund árum. Hér eru ótal mannvistarleifar sem vert er að skoða m.a. rústir af bæ Eiríks rauða. Við snúum aftur til Narsarsuaq og snæðum síðbúinn hádegisverð, en höfum þá ennþá góðan tíma til að kanna nágrennið á eigin vegum. Upplagt er að fá sér göngutúr, en þótt ótrúlegt kunni að virðast er svolítill skógur fyrir aftan hótelið sem gaman er að skoða og fallegt útsýni er frá hæðinni. Vert er að líta inn á kaffihúsið og minjagripaverslunina Blue Ice Café, sem selur veitingar og handverk. Brottför frá Narsarsuaq er kl. 18.15 og verður lent á Keflavíkurflugvelli kl.22.45 að íslenskum tíma.

 
 

  
 
 
  
 
Verð: 237.800 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 20.000 kr.

 
Grænlensk stelpa 
 
Innifalið:

• Flug með Flugfélagi Íslands og flugvallaskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Ferðir til og frá flugvelli.
• Allar skoðunarferðir samkvæmt ferðalýsingu.
• Bátsferðir samkvæmt ferðalýsingu.
• Morgunverður allan tímann á hóteli.
• 2 hádegisverðir.
• 2 kvöldverðir.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Þjórfé. Máltíðir aðrar en þær sem taldar eru upp undir innifalið. Forfalla- og ferðatryggingar.

 

 
 
  
 

 

 Ferðaskilmálar Bændaferða

  
 

 

 

Tengdar ferðir