Páskaganga í Marokkó

Í þessari ævintýralegu gönguferð um suðurhluta Marokkó heimsækjum við nokkrar helstu náttúruperlur svæðisins og kynnumst um leið hrífandi sögu og töfrandi menningarheimi Marokkó. Við upplifum miklar andstæður, lítil þorp á milli tignarlegra granítfjallanna, fagrar strendur, stórbrotna kletta og mikilfeng gljúfur ásamt því að ganga um kyrrlátan dal þar sem pálmalundir og möndlutré mynda fallegar andstæður við rauðan jarðveginn. Atlasfjöllin, hinn mikli fjallgarður sem aðskilur Sahara-eyðimörkina í suðri og austri, setja svip á gönguleiðir ferðarinnar. Ferðin hefst í Marrakesh, borginni sem hrífur öll skilningarvitin. Við skoðum okkur aðeins um í þessari litríku borg þar sem við heimsækjum m.a. tákn Marrakesch, Koutoubia-moskvuna, hina 150 herbergja Bahia höll og gleymum okkur aðeins í Menara görðunum. Mansour gljúfrið sameinar töfrandi náttúrufegurð og stórbotið landslag brattra kletta. Hin risavöxnu granítbjörg, máluð í sterkum djúpum litum, grípa augað þegar gengið er um svæðið við Painted Rocks. Í einstakri kyrrð og ró göngum við um Aday dalinn þar sem aðeins vindurinn í pálmatrjánum og fagur fuglasöngur heyrist. Frá litla sjávarþorpinu í Mirleft röltum við meðfram suðurströnd Marokkó í áttina að klettabænum Legzira og njótum víðáttumikillar sandstrandar. Ferðin endar í Agadir, strandborginni líflegu á milli Atlantshafssins og við rætur Anti-Atlasfjallanna. Gönguleiðir í þessari stórbrotnu ferð um suðurhluta Marokkó eru um kyrrlát svæði í bland við svipmiklar og litríkar náttúruperlur. Stórfengleg gönguferð sem býður upp á djúpa tengingu við náttúru og menningu og hentar fjölbreyttum hópi fólks. Ferðin hefst í Marrakesh og endar í Agadir þaðan sem flogið verður heim.

Verð á mann 599.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 96.700 kr.


Innifalið

  • 12 daga ferð.
  • Áætlunarflug með Play til Marrakech og heim frá Agadir ásamt flugvallarsköttum. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgun-, hádegis- og kvöldverðir.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
  • Innlend staðarleiðsögn í Marokkó.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. reglulega upp að Steini í Esjunni. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

30. mars | Flug með Play til Marrakech

Brottför frá Keflavík kl. 09:00 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Marrakech kl. 15:25 að staðartíma. Haldið á hótel í Marrakech þar sem gist verður í tvær nætur.

31. mars | Marrakech

Eftir morgunverð kynnumst við líflegu Marrakech betur. Hvergi í Marokkó eru eins mikil áhrif frá afrískri og austurlenskri menningu og í Marrakech. Þessi næst elsta keisaraborg landsins er litrík, heillandi og iðar af mannlífi. Um 100.000 pálmatré umlykja virkisveggi borgarinnar og setja fagran svip á umhverfið. Marrakech byggðist upp í eyðimörk, eins og sést á rauðleitum leirhúsunum, og var stofnuð á 11. öld. Merkasti listaarfur hennar er spænsk-máríski arkitektúrinn. Koutoubia-Moskvan, helsta kennileiti borgarinnar, er sannkölluð perla íslamskrar byggingalistar. Moskvan var byggð á 12. öld og hinn 77 metra hái turn blasti við kaupmönnum, pílagrímum og ferðalöngum sem nálguðust borgina. Arkitektúrinn í Bahia-höllinni sameinar andalúsískan og marókkóskan stíl og það er eins og ferðast sé aftur í tímann að ganga um þessa glæsilegu höll. Garðurinn í kringum höllina er ekki síður fagur en hann er umlukinn sítrustrjám, rósum og vatnsbrunnum. Eftir hádegisverð á hótelinu okkar höldum við áfram að njóta þess sem þessi litskrúðuga borg hefur upp á að bjóða. Þröngar og hlykkjóttar göturnar leiða okkur að Jemaa El Fna torginu fræga þar sem m.a. má sjá eldgleypa, snákasýningar og fleira.

Opna allt

1. apríl | Tafraout

Leið okkar í dag liggur með fram strandbænum Agadir og Aït Baha til Tafraout, sem er lítill og heillandi bær í suðurhluta Marokkó. Landslagið er undurfagurt og margbreytilegt, allt frá kaktusökrum, litlum sveitabæjum, útsýni yfir grösuga dali og rauðleita fjallgarða. Á leiðinni verður gert gott stopp fyrir hádegisverð. Bærinn Tafraout þykir einn sá fallegasti og sérstæðasti í suður Marokkó en húsin eru mörg hver gerð úr leir og steinum og umlukin bleikum granítfjöllum er eins og maður hafi ferðast aftur í tímann. Gist verður í fimm nætur á hóteli í Tafraout.

2. apríl | Aït Mansour gljúfrið

Dagurinn er tileinkaður Mansour gljúfrinu, einni af fallegri náttúruperlum Suður-Marokkó. Gangan um gljúfrið tekur okkur um þrönga slóða þar sem rauð-appelsínugulir klettaveggir í bland við pálmatré fanga augað. Inn á milli má sjá lítil og afskekkt samfélög Berba sem reiða sig á vatn úr lindum gljúfursins og stunda lítinn landbúnað. Göngustígar gljúfursins fylgja flestir vegslóða í bland við stíga og eru auðveldir til miðlungserfiðir yfirferðar. Léttur hádegisverður að hætti heimamanna.

  • Göngutími u.þ.b. 4 klst.

3. apríl | Painted Rocks, Aday dalurinn og hattur Napóleons

Það er spennandi dagur framundan en ganga dagsins er m.a. um svæði hinna máluðu kletta, Painted Rocks. Göngu um þessa stóru granítkletta, málaðir í bláum, bleikum og fjólubláum litum eftir belgíska listamanninn Jean Vérame, má líkja við göngu í súrrealísku listaverki. Örlítið norðar við klettana er hinn fagri Aday-dalur. Þar er að finna lítið berbaþorp og hægt skoða handverk heimamanna eða fá sér tebolla. Ekki langt frá dalnum má svo sjá náttúrulegan klett sem stendur upp úr eyðimerkursléttunni og líkist hatti Napóleons. Hádegisverður á hóteli eftir gönguna.

  • Göngutími u.þ.b. 5 klst.
  • Hækkun +250 m/-250 m

4. apríl | Hin hefðbundnu hús

Dagurinn hefst á gönguferð um bæinn og eftir góðan hádegisverð höldum við göngu okkar áfram inn Ameln dalinn. Þar taka á móti okkur hin svokölluðu „hefðbundnu hús“ eða Oumesnat á máli heimamanna en þau draga nafn sitt af litlu hálfyfirgefnu þorpi í dalnum. Hönnun húsanna er gott dæmi um Berber-arkitektúr, þar sem jarðhæðin er notuð til geymslu dýra og korns og efri hæðirnar til íbúðar. Þykkir húsveggirnir veita ótrúlega einangrun, bæði gegn köldum vetrum og heitum sumrum. Þorpið er sérstaklega þekkt fyrir varðveislu á hefðbundinni jarðbyggingarlist og er um leið mikill menningararfur. Þarna má finna lítið safn sem varðveitir handverk og hefðir heimamanna. Upplagt er að njóta friðældar þorpsins og skoða sig um á eigin vegum áður við borðum saman góðan kvöldverð á veitingastað í Ameln-dalnum

5. apríl | Frjáls dagur í Tafraout

Nú er kærkomið að fá frjálsan dag þar sem hægt er að kanna Tafraout betur á eigin vegum. Til að mynda væri hægt að heimsækja markaðinn (souk), fara í rólega göngu um Ameln- dalinn, en þar munum við snæða hádegisverð á veitingastað. Svo er alltaf gott að slaka bara á og njóta þess sem hótelið hefur upp á að bjóða.

6. apríl | Mirleft

Eftir morgunverð er stefnan tekin á strandbæinn Mirleft sem liggur suður af bænum Agadir. Akstursleiðin er ægifögur og fjölbreytt þar sem keyrt verður um klettóttar hæðir í bland við hásléttur. Á vegi okkar verða litlir sveitabæir og litskrúðugt landslagið, allt frá rauðum granítfjöllum yfir í gulbrúnar víðáttur, gerir útsýnið stórkostlegt. Bærinn Mirleft hefur bæði hippalegt og listamannalegt yfirbragð. Hingað kemur fólk sem vill njóta náttúrunnar, fara í brimsund, rölta með fram strandlengjunni og ekki síst njóta fjölbreyttrar matarmenningar. Gist verður í þrjár nætur á 4* hóteli í Mirleft.

7. apríl | Strandganga Mirleft - Legzira

Atlantshafsströndinni milli Agadir og suðurhluta Marokkó má líkja við villt landslag enda er hún afskekkt og á köflum einungis aðgengileg fótgangandi. Á köflum má sjá einskonar sandöldur á víð og dreif sem minna á Sahara fjöllin. Undurfögur appelsínugul sandsteinsklifur sem móta stórkostlegt landslag mynda tvo tignarlega náttúrulega boga. Á leið okkar má sjá lítil svæði Berberafólksins, sem lifir á auðlindum hafsins. Sólarljósið og litir náttúrunnar leika sér hér og móta saman ógleymanlega og friðsæla náttúruperlu. Snæddur verður hádegisverður á veitingastað.

  • Göngutími u.þ.b. 4 klst.

8. apríl | Fjalla- og strandganga

Dagurinn hefst með yndislegri göngu upp nærliggjandi fjall í átt að þorpinu Mirleft. Við upplifum fjölbreytt landslag, afskekkt lítil Berberþorp og fallega strandlengju. Hápunkturinn er síðan útsýnið yfir Anti-Atlasfjöllin en víðáttumikið útsýni yfir þennan magnaða fjallgarð, þar sem skraufþurr fjöllin og dalir mynda einstaklega friðsæla upplifun. Leið okkar niður að strandlengjunni liggur m.a. í gegnum argantrjáskóg þar sem við gætum rekist á geitur klifrandi í klettunum að teygja sig í ávexti. Við njótum síðasta hluta göngunnar með fram strandlengjunni áður en haldið verður aftur á hótelið.

  • Göngutími u.þ.b. 4 klst.

9. apríl | Agadir

Við kveðjum nú Mirleft og höldum til Agadir. Við keyrum með fram Atlantshafsströnd Marokkó og leiðin er litrík og skemmtileg þar sem sjá má litlar víkur, rauðlitaða kletta og lítil sjávarþorp. Á leiðinni snæðum við hádegisverð. Við komuna til Agadir byrjum við á fróðlegri skoðunarferð með heimamanni um þessa yndislegu strandborg. Borgin er staðsett milli Atlantshafsins og róta Anti-Atlasfjallanna. Agadir sker sig úr frá öðrum marokkóskum borgum fyrir líflegar breiðgötur og nútímalega byggingalist sem að miklu leyti mótaðist við enduruppbyggingu borgarinnar eftir eyðileggingu jarðskjálftanna árið 1960. Gist eina nótt í Agadar á 4* hóteli.

10. apríl | Heimferð

Eftir yndislega gönguferð er nú komið að því að halda heim á leið en brottför frá flugvellinum í Agadir er kl. 19:00 og lending í Keflavík kl. 23:40 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Marrakesch – Kenzi Rose Garden
  • Tafraout – Les Amendiers Tafraout
  • Mirleft – Nid D’Aigle
  • Agadir – Agadir Beach Club

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Ósk Vilhjálmsdóttir

Ósk Vilhjálmsdóttir nam myndlist við Hochschule der Künste í Berlín og hefur sinnt leiðsögn frá árinu 1992 meðfram myndlist og kennslu. Lengst af um náttúru Íslands og yfirleitt með franska og þýska ferðamenn. Árin 2003-2006 skipulagði hún ásamt Ástu Arnardóttur leiðangra um náttúrusvæði norðan Vatnajökuls. Í kjölfarið stofnaði hún eigin ferðaskrifstofu með náttúruvernd og slow-travel hugmyndafræði að leiðarljósi. Hún kom meðal annars á laggirnar námskeiðum fyrir börn og unglinga sem fjalla um náttúruskoðun og myndlist, árlegar ferðir um Þjórsárver o.fl. Undanfarinn áratug hefur hún auk þess skipulagt ferðir og námskeið fyrir Íslendinga í Marokkó, Þýskalandi og á Ítalíu. Nú hefur Ósk gengið til liðs við Bændaferðir og hlakkar til samstarfsins.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti