Dalmatíuströndin í Króatíu

22. september - 1. október 2021 (10 dagar)

Glæsileg ferð um töfrandi svæðið við Dalmatíuströndina í Króatíu þar sem menning forfeðra svífur yfir. Sögulegir staðir frá tímum Rómverja, litríkar borgir og fagrar strendur taka á móti okkur.

Við hefjum ferðina í Linz og ökum því næst til fallegu borgarinnar Maribor við ána Drau í Slóveníu. Borgin er einstaklega áhugaverð og var kjörin ein af menningarborgum Evrópu árið 2012. Áfram heldur för okkar til Biograd í Króatíu, þar sem gist verður í fimm nætur á góðu hóteli. Þaðan höldum við í fjölmargar skoðunarferðir, m.a. til bæjarins Zadar og sögufrægu borgarinnar Split, þar sem við heimsækjum höllina Diokletian sem er einn merkasti minnisvarði byggingarlistar frá tímum Rómverja. Því næst höldum við til Trogir, lítils bæjar á smáeyju sem tengd er meginlandinu en þar eru fjölmargar merkar byggingar varðveittar á heimsminjaskrá UNESCO. Við upplifum ótrúlegt sjónarspil þegar við virðum fyrir okkur hina frægu fossa í Krk þjóðgarðinum. Ferðina endum við í fæðingarborg Mozart, Salzburg í Austurríki.

Verð á mann í tvíbýli 236.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 42.400 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 10 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Siglingar.
 • Hádegisverðir.
 • Vínsmökkun
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Krka þjóðgarðurinn og fossar ca Kn 150 (ca € 20).
 • Hohensalzburg ca € 13.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

22. september | Flug til München & akstur til Linz í Austurríki

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan ekið til Linz, heillandi borgar á bökkum Dónár í Austurríki, þar sem gist verður fyrstu nóttina.

23. september | Linz & Maribor í Slóveníu

Eftir góðan morgunverð kveðjum við Linz og ökum fagra leið til borgarinnar Maribor sem stendur við ána Drau í Slóveníu. Allt umhverfis borgina vex ein elsta vínviðartegund í heimi sem setur svo sannarlega svip á stórfallegt umhverfi borgarinnar. Borgin var tilnefnd sem menningarborg Evrópu árið 2012 og er ein af vinsælustu ferðmannaborgum landsins. Þegar komið er til Maribor verður farið í skemmtilega skoðunarferð um áhugaverðustu staði borgarinnar. Gist verður í eina nótt í miðbæ Maribor.

24. september | Biograd í Króatíu

För okkar heldur áfram suður til Króatíu og verður ekið eftir Dalmatíuströndinni til Biograd. Þar verður gist í fimm nætur á hóteli við sjóinn. Frá hótelinu er stuttur gangur í miðbæ Biograd en bærinn býr yfir mörgum sögulegum fjársjóðum og er umlukinn mikilli náttúrufegurð. Komið verður til Biograd um miðjan dag svo tími verður til að kanna nánasta umhverfið í þessum töfrandi strandbæ fyrir kvöldverð.

Opna allt

25. september | Krka þjóðgarðurinn & Krka fossarnir

Dagsferð um gimstein Dalmatíu, sjálfan Krka þjóðgarðinn sem heitir eftir 73 km langri á með sama nafni. Hér skoðum við hina frægu Krka fossa. Þarna blasir við ólýsanleg fegurð, fossar, stallar og hyljir mynda saman stórkostlegt náttúrusjónarspil sem hrífur alla sem staðinn heimsækja. Hér er um að gera að klæðast góðum skóm, því eina leiðin til að virða fyrir sér dýrðina er fótgangandi.

26. september | Frjáls dagur í Biograd

Frjáls dagur og hverjum og einum gefst tækifæri til að skoða Biograd betur á eigin vegum, kanna umhverfið eða njóta aðstöðunnar við hótelið. Upplagt er að fara í göngutúr eftir ströndinni og njóta fegurðar þessa dásamlega staðar.

27. september | Split & Trogir

Dagsferð til sögufrægu borgarinnar Split, sem er hrífandi borg. Virðulegar byggingar og minjar frá tímum Rómverja prýða Split og hefur elsti hluti hennar verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan árið 1979. Borgin er eins og lifandi safn. Við heimsækjum Diokletianhöllina, sem er einn af merkilegustu minnisvörðum byggingarlistar frá tímum Rómverja en hún var byggð á mettíma á árunum frá 295 – 305 e. Kr. Höllin er líflegur staður og er hún oft nefnd „hjarta borgarinnar“. Eftir góðan tíma í borginni verður ekið til Trogir, snoturs bæjar úti á smáeyju, sem tengd er meginlandinu. Elsti hluti Trogir er einnig varðveittur á heimsminjaskrá UNESCO.

28. september | Dagur í Zadar

Í dag er áætluð ferð til aldagömlu lista- og menningarborgarinnar Zadar en þaðan er einstakt útsýni yfir hinar fjölmörgu króatísku eyjar. Við hefjum heimsóknina á stuttri skoðunarferð um borgina og að henni lokinni gefst hverjum og einum tími til að skoða borgina á eigin vegum. Upplagt er að fá sér hressingu, fylgjast með lífi bæjarbúa og líta inn til kaupmanna. Komið verður snemma heim á hótel og getur fólk tekið það rólega það sem eftir er dagsins.

29. september | Biograd & Salzburg í Austurríki

Nú er komið að því að kveðja þetta yndislega land. Eftir morgunmat verður ekin falleg leið til fæðingarborgar Mozarts í Salzburg. Borgin er þekkt fyrir byggingar í barokkstíl og er í hugum margra hin sannkallaða perla Austurríkis.

30. september | Dagur í Salzburg

Við hefjum daginn á fróðlegri skoðunarferð um borgina, skoðum Mirabellgarðinn og göngum eftir Getreidegasse en hún er með elstu og þekktustu götum borgarinnar. Þar er að finna mjög áhugavert Mozartsafn. Í góðu veðri er gaman að koma upp í kastalann Hohensalzburg en þar var hluti kvikmyndarinnar Söngvaseiður eða Sound of Music tekinn upp. Þaðan er falleg sýn yfir borgina, Salzburgerland og stórfenglegt umhverfi Alpanna í kring sem eru aðdráttarafl fjölda ferðamanna ár hvert. Síðdegis gefst tími til að kanna mannlíf borgarinnar á eigin vegum.

1. október | Heimferð frá München

Eftir frábæra ferð verður ekið frá Salzburg til München. Brottför er kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Sveinsdóttir

Ég heiti Íris Sveinsdóttir og er hárgreiðslumeistari að mennt. Ég rek hárgreiðslustofur bæði á Íslandi og í Þýskalandi, en þar bjó ég í rúm 20 ár þangað til að ég ákvað að flytja aftur heim til Íslands 2007. Eftir heimkomuna hóf ég leiðsögunám í Endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2009. Síðan þá hef ég starfað sem leiðsögumaður bæði hér heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir