Vordagar í Stresa & Lerici

Glæsileiki, rómantík og ölduniður Lago Maggiore vatnsins undirstrika fegurð Ítalíu og töfra Alpafјallanna í þessari skemmtilegu ferð þar sem fyrri hluta ferðar verður dekrað við okkur í bænum Stresa. Við njótum þess að slaka á í vatnaparadísinni, sem rómuð er fyrir fegurð, og láta dásamlegan suðrænan blæ leika um okkur. Töfrandi skoðunarferðir standa til boða, svo sem hrífandi sigling á Lago Maggiore vatni til eyjunnar Isola Bella sem er ein Borromeo eyjanna. Þar sjáum við glæsilega höll í miðjum lystigarði, einum þeim fegursta sunnan Alpafјalla. Við munum einnig fara til bæjarins Como við Comovatn sem er rómað fyrir fegurð. Seinni hluta ferðar verður dvalið í bænum Lerici við La Spezia flóann á Ítalíu en hann ber viðurnefnið Skáldaflóinn. Þaðan verður farið í ævintýralega siglingu úti fyrir brattri klettaströnd Cinque Terre með viðkomu í fallegum þorpum. Einnig verður komið til gömlu virkisborgarinnar Lucca í Toskana héraði sem er fæðingarborg tónskáldsins Puccini og þar um slóðir förum við í skemmtilega heimsókn til vínbónda

Verð á mann í tvíbýli 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 75.200 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður og kvöldverður allan tímann á hóteli.
  • Sigling út í Borromee eyjarnar og aðgangseyrir í garðinn og höllina.
  • Heimsókn og snarl hjá vínbónda.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatrygging.

Valfrjálst

  • Sigling við Cinque Terre u.þ.b. € 35.

Nánari upplýsingar

Vert er að hafa í huga að þrátt fyrir að Bændaferðir séu alla jafna þægilegar rútuferðir er alltaf einhver ganga, t.d. í bæjarferðum. Margar evrópskar borgir eru bæði hæðóttar og ójafnar undir fæti og aðgengi að áfangastöðum þannig að leggja þarf rútunni mislangt frá. Ef þú hefur einhverjar vangaveltur varðandi þetta vinsamlegast ekki hika við að hafa samband við skrifstofu Bændaferða.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. apríl | Flug til Mílanó & Stresa við Lago Maggiore vatn

Brottför frá Keflavík kl. 08:00 og mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:10 að staðartíma. Þaðan verður ekið til bæjarins Stresa, við vatnið Lago Maggiore, sem er umvafið fjallafegurð. Þetta er annað stærsta vatn Ítalíu en tæpur fimmtungur vatnsins tilheyrir Sviss. Frá 18. öld hefur fegurð og lega vatnsins dregið til sín baðgesti og ferðamenn hvaðanæva úr heiminum. Þar verður gist í fjórar nætur á góðu hóteli í miðbæ Stresa. Eftir að allir eru búnir að koma sér upp á herbergi verður farið í stutta göngu með farastjóranum ykkar um Stresa sem er yndislegur lítill bær.

26. apríl | Sigling á Isola Bella eyjurnar

Dagurinn byrjar á siglingu yfir til Isola Bella sem er ein Borromee eyjanna. Fegurð hennar er ólýsanleg en hún ber nafn Isabellu eiginkonu Carlo III. Borromeo ættin byggði höll á eyjunni sem er þekkt fyrir að hafa verið gististaður Napóleons og eiginkonu hans, Jósefínu. Það er mjög skemmtilegt að skoða Borromee höllina, svo ekki sé talað um garðinn umhverfis hana, stórglæsilegur lystigarður á nokkrum hæðum. Eftir það verður siglt til eyjunnar Pescatori sem tilheyrir Borromee eyjunum en búseta hefur verið stöðug þar frá 14. öld. Mannlífið á eyjunni heillar en tilvera eyjarskeggja byggist á fiskveiðum í Lago Maggiore vatni. Þar er upplagt að fá sér hádegishressingu áður en siglt verður til baka.

27. apríl | Slökun & rólegheit í Stresa

Í dag slökum við á og njótum þess sem bærinn hefur upp á að bjóða. Tilvalið að fara í skemmtilega gönguferð meðfram vatninu eða kanna einstaklega sjarmerandi mannlíf bæjarins. Einnig er upplagt að nota aðstöðuna við hótelið okkar.

Opna allt

28. apríl | Dýrðardagur í Como við Comovatn

Nú bíður okkar borgin Como sem er staðsett á einum fallegasta staðnum við Comovatnið. Hér upplifum við fegurð nánast sama hvert litið er, fallegt landslag umlykur okkur, líkt og mynd á póstkorti. Meðal fegurstu staða og kennileita í Como er strandgöngustígurinn við vatnið með Volta hofinu og Cattedrale Santa Maria Assunta kirkjan. Þar að auki er gamli bærinn yndislegur en hann á rætur sínar að rekja til forn Rómar. Einnig er upplifun að taka lyftu upp í úthverfið Brunate með Faro Voltiano vitanum, þaðan sem hægt er að njóta óviðjafnanlegs útsýnis yfir Comovatnið. Borgin er litrík og skemmtileg og byrjað verður á stuttri skoðunarferð um borgina en síðan er dásamlegt að njóta lífsins í þessari skemmtilegu borg í kring um fallegar verslanir, veitinga- og kaffihús.

29. apríl | Lerici við La Spezia flóann

Nú kveðjum við Stresa og höldum til Lerici sem er yndislegur bær á austurhluta ítölsku rivíerunnar við La Spezia flóann. Þessi fallegi flói ber viðurnefnið Skáldaflóinn. Þar verður gist í þrjár nætur á góðu hóteli. Við komuna til Lerici fer fararstjóri með hópinn í stutta gönguferð en glæstar byggingar og kastalavirki frá veldi Pisa- og Genúabúa prýða bæinn.

30. apríl | Ferð til Lucca í Toskana & hádegissnarl hjá vínbónda

Í dag heimsækjum við gömlu virkisborgina Lucca í Toscana héraði sem er rómað fyrir fegurð, en á 13. og 14. öld var Lucca ein valdamesta borg Evrópu. Tilkomumiklir virkisveggir hennar standa enn frá því á miðri 17. öld, vitnisburður um glæsta tíma. Tónskáldið Puccini er fæddur í borginni og hefur fæðingarstaður hans verið gerður að áhugaverðu safni. Við höldum í stutta skoðunarferð um helstu staði og að henni lokinni gefst tími til að kanna borgina á eigin vegum. Á leið aftur á hótel munum við heimsækja vínbónda í bænum Montecarlo í nágrenni Lucca, þar sem boðið verður upp á dæmigert ítalskt snarl og auðvitað fáum við að bragða á framleiðslu bóndans.

1. maí | Sigling við Cinque Terre ströndina

Þessi dagur er heilt ævintýri því nú verður farið í ótrúlega siglingu úti fyrir brattri Cinque Terre ströndinni, einu stórfenglegasta svæði ítölsku rivíerunnar þar sem litríkum húsunum er tyllt utan í klettana. Siglt verður til bæjanna Porto Venere, Riomaggiore, Manarola, Corniglia, Vernazza og Monterosso. Auðvitað verður stoppað einhvers staðar til að fá sér hádegishressingu og til að kanna líf bæjarbúa í nokkrum bæjum.

2. maí | Heimferð frá Mílanó

Það er komið að heimferð eftir ljúfa daga. Ekið verður út á flugvöll í Mílanó og brottför þaðan kl. 15:10 og lending í Keflavík kl. 17:25 að staðartíma

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Hótel

  • Stresa - Hotel Regina Palace
  • Lerici - Hotel Grand Europa

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem var einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti