Seiðandi Sardinía

Glæsileg eyjaferð til Sardiníu þar sem við ferðumst um stórbrotna náttúru og gullinn sandur, sægrænt haf og gróðurilmur rammar inn ótrúlega upplifun. Eftir að hafa gist eina nótt í frönsku borginni Orange verður siglt að næturlagi frá meginlandinu yfir á frönsku eyjuna Korsíku, að höfuðborginni Ajaccio en íbúar hennar fullyrða að hún standi við fallegasta flóa veraldar. Þaðan verður ekið til borgarinnar Bonifacio þar sem útsýnið er ólýsanlega fallegt yfir á klettótta kalkströndina og þaðan förum við yfir á ítölsku eyjuna Sardiníu sem verður okkar aðaldvalarstaður. Blær miðalda umvefur okkur í borginni Alghero sem eitt sinn tilheyrði konungsríki Arogons. Þar förum við í siglingu að Neptun helli. Við skoðum konunglegar minjar frá bronsöld í Santa Antine sem eru einhverjar merkustu fornminjar Sardiníu. Á leið okkar um heimahaga hjarðmanna verður bærinn Orgosolo heimsóttur og njótum við þar hressingar að hætti hjarðmanna með söng og dansi. Stórkostlega Costa Smeralda ströndin bíður okkar í allri sinni dýrð en hún státar af einstaklega fögrum bæjum og verða Porto Rotondo og Porto Cervo ásamt fjallaþorpinu San Pantaleo á vegi okkar. Úti fyrir ströndinni siglum við til Maddalenísku eyjanna áður en siglt verður yfir á meginland Ítalíu.

Verð á mann í tvíbýli 299.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 79.900 kr.


Innifalið

 • 11 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
 • Morgun- og kvöldverður á hótelum.
 • Næturferja frá Toulon til Ajaccio ásamt kvöld- og morgunverði.
 • Næturferja frá Golfo Aranci til Livorno ásamt kvöld- og morgunverði.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Stuttar siglingar
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Bátsferð í Neptun helli, hádegisverður að hætti hjarðmanna og sigling til La Maddalena 14.800 kr. ISK, þarf að bókast samhliða ferðinni.
 • Nuragehe, fornminjar frá Bronsöld ca € 7.
 • Smálest upp til Bonifacio ca € 7.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

4. september | Flug til Genf í Sviss & Orange

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Genf í Sviss kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekin falleg leið suður til fornu rómversku borgarinnar Orange í héraðinu Provence-Alpes-Côte d’Azur í Frakklandi og gist þar í eina nótt.

5. september | Aix en Provence & nætursigling frá Toulon

Við höldum ferð okkar áfram til Aix en Provence sem er með stærri háskólaborgum landsins og fæðingarstaður listmálarans Cézanne. Mikill klassi er yfir þessari heillandi borg. Listasöfn og kirkjur borgarinnar bera vitni um glæsta fortíð og ekki síður fjölmargar einkahallir sem byggðar voru í barokkstíl á 17. og 18. öld. Í dag eru þessar einkahallir flestar reknar sem lúxushótel. Borgin Aix, eins og hún er jafnan kölluð, er þekkt fyrir gómsæta möndlukonfektið sitt, Calissons. Hér ætlum við að staldra við góða stund og kynnast þessari klassísku borg á stuttri göngu. Síðan verður gefin frjáls tími til að njóta borgarinnar á eigin vegum. Síðdegis verður komið til Toulon en þar förum við um borð í ferju og siglum til Korsíku. Kvöldverður bíður okkar á ferjunni og munum við eiga notalega kvöldstund yfir góðum mat og drykk. Gist er eina nótt á skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salernisaðstöðu, brottför þaðan um kl. 20:30.

6. september | Ajaccio á Korsíku, Bonifacio & Algehero

Morgunverður verður snæddur á veitingastað í skipinu áður en komið er til Ajaccio um kl. 7:00. Ajaccio er höfuðborg Korsíku og fæðingarborg Napóleons Bónaparte. Borgin er mjög hrífandi og fagur Ajaccio flóinn laðar ferðamenn að sér, enda fullyrða íbúarnir að þeir eigi fallegasta flóa í heimi. En ferðin heldur áfram eftir vesturströndinni meðfram vín- og kívíökrum. Einstakt bæjarstæði Bonifacio er heillandi sjón en borgin trónir upp á 80 m háum kalksteinskletti. Yfir borginni, mjóum götum hennar, virkisveggjum og gömlum turnhúsum er heillandi miðaldablær og miðjarðarhafsstemning. Við höldum upp í borgina með smálest, skoðum okkur um og fáum okkur hressingu. Síðan verður ferja tekin yfir til Sardiníu, sem tilheyrir Ítalíu. Þaðan er stefnan sett á borgina Alghero þar sem gist verður þrjár nætur á góðu hóteli í miðbænum.

Opna allt

7. september | Skoðunarferð í Alghero & frjáls tími

Í dag skoðum við yndislega virkisbæinn Alghero. Hann er norðvestan megin á Sardiníu í Sassari héraði og er vafalaust einn sá fallegasti á eyjunni. Katalónar gáfu bænum þetta nafn og er katalóníska opinbert tungumál eyjarskeggja því borgin tilheyrði um tíma konungsríki Aragons frá Spáni. Við höldum í skemmtilega skoðunarferð um helstu staði borgarinnar og að henni lokinni gefst hverjum og einum tími til að kanna umhverfið á eigin vegum.

8. september | Dagur í Alghero & sigling í Neptun helli

Þennan dag er tilvalið að taka það rólega og slaka á en áhugasamir geta að sjálfsögðu skoðað þessa fallegu miðaldaborg á eigin vegum. Hótelið okkar stendur við litlu bátahöfnina en þaðan er stutt ganga að ströndinni og um 5 mínútur tekur að rölta inn í miðbæinn. Eftir hádegi stendur til boða að fara í skemmtilega siglingu að Neptun helli.

9. september | Santa Antine, Orgosolo með hádegisverði & Costa Smeralda

Nú kveðjum við Alghero og er stefnan tekin á Santa Antine, þar sem finna má einhverjar merkustu fornminjar Sardiníu, konunglegar minjar frá bronsöld sem sýna Nuragehe menninguna sem þróaðist hér á 14. - 8. öld f. Kr. Síðan heldur ferð áfram um heimahaga hjarðmannana til til bæjarins Orgosolo sem er þekktastur fyrir fjölbreytilegar Murales veggteikningar á byggingum borgarinnar. Vegglistaverkin veita innsýn í daglegt líf og skoðanir íbúanna en upphafið að þessum teikningum er frá árinu 1968 þegar leiklistarhópur frá Mílanó hélt sýningu í bænum. Að skoðunarferð lokinni verður boðið upp á hádegisverð að hætti hjarðmanna með þjóðlagasöng og dansi en þessi stund er mikil upplifun og alltaf mjög skemmtileg.

10. september | Porto Rotondo & Porto Cervo

Eftir morgunverð verður farið í dagsferð eftir gullinni Costa Smeralda ströndinni, þar sem sægrænt hafið ber við sjóndeildarhringinn og loftið ilmar af Macchia gróðri. Við ökum til Porto Rotondo sem er huggulegur strandbær við kyrrláta vík og eftir góða stund þar verður haldið áfram til Porto Cervo, hins heimsþekkta og vinsæla ferðamannabæjar með sínum glæsilegu sumarhúsum. Sjórinn glitrar í öllum tónum, hvítar, fallegar strendur og göfugar lúxusverslanir heilla. Porto Cervo laðar ýmsar stjörnur til hinnar frægu Costa Smeralda yfir sumarmánuðina. Meðlimir evrópskra konungsfjölskyldna, alþjóðlegar fyrirsætur og íþróttamenn sem og stjörnur úr kvikmyndum og sjónvarpi slaka á hér. Porto Cervo var stofnað árið 1962 af Karim Aga Khan IV sem lúxus sumardvalarstaður. Hér gefum við okkur góðan tíma til að njóta dýrðarinnar.

11. september | Sigling til La Maddalena

Dagurinn verður sannkallaður ævintýradagur. Við höldum í siglingu yfir til La Maddalena eyjaklasans en hann samanstendur af sjö eyjum. Deginum verjum við á höfuðeyju klasans, La Maddalena. Farið verður í líflega skoðunarferð um eyjuna sem smitar gesti sína af heillandi karabískri stemningu en við munum kynnast sögu og menningu eyjarskeggja. Einnig eyðum við drjúgum hluta dagsins á samnefndum höfuðstað eyjanna. Þar er upplagt að slaka á í dásamlegu miðjarðarhafsloftslaginu undir pálmatré eða líta inn á kaupmenn staðarins.

12. september | Frjáls dagur við Costa Smeralda ströndina

Frídagur til að slaka á og njóta aðstöðunnar við hótelið. Hver ræður sínum degi að vild. Tilvalið að fara í göngu niður að strönd og kanna umhverfið betur.

13. september | Fjallabærinn San Pantaleo, Olbía & nætursigling frá Golfo Aranci

Í kvöld kveðjum við Sardeníu eftir yndislega daga. En dagurinn er rétt að byrja og við ætlum að heimsækja hrífandi fjallabæinn San Pantaleo, listamannabæ með rómverskum minjum, kirkju og híbýlum hirðingja frá miðöldum sem kölluð eru Stazzi. Þetta er litríkur bær þar sem við ætlum að gefa okkur góðan tíma og njóta þessa að skoða lítil gallerí og fjölbreitt handverk íbúanna. Eftir það verður ekið til Olbí sem er hafnarborg Costa Smeralda og fjórða stærsta borg Sardeníu. Séreinkenni borgarinnar er að engin hús mega vera hærri en tveggja hæða. Hér verður gefin frjáls tími til að kanna líf bæjarbúa á eigin vegum, líta inn í skemmtilegar búðir og fá sér hádegishressingu á kaffi- og veitingahúsum borgarinnar. Eftir það verður ekið til Golfo Aranci þaðan sem við kveðjum þessa yndislegu eyju. Við förum um borð í ferjuna en framundan er nætursigling til Livorno. Kvöldverður bíður okkar á ferjunni og munum við eiga notalega kvöldstund yfir góðum mat og drykk. Gist er eina nótt á skipinu í tveggja manna klefum með sturtu og salernisaðstöðu, brottför þaðan um kl. 20:30.

14. september | Toskana hérað, Pisa & heimflug frá Mílanó

Morgunverður verður snæddur á veitingastað í skipinu áður en komið er til Livorno um kl. 7:00. Héðan verður ekið gegnum hið draumfagra Toskana hérað. Það er alltaf svo yndislegt að koma til borgarinnar Pisa sem er þekktust fyrir skakka turninn á torginu, Piazza dei Miracoli. Bygging turnsins hófst árið 1173 og var þessum frístandandi klukkuturni, sem tilheyrir dómkirkjunni í Pisa, ætlað að standa lóðrétt, en eftir byggingu annarrar hæðar hans tóku undirstöður turnsins að síga. Turninn er eitt af þremur mannvirkjum á Campo dei Miracoli eða Kraftaverkatorginu í Pisa. Við höldum í góða skoðun um svæðið en eftir það er tími til að kanna staðinn á eigin vegum og fá sér hressingu. Eftir ljúfan tíma verður ekið til heimsborgarinnar Mílanó en þar verður farið í stutta skoðunarferð og gefinn frjáls tími til að líta inn til kaupmanna borgarinnar eða skoða sig betur um. Upplagt er að fá sér kvöldverð í borginni áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför kl. 22:50 og lending í Keflavík kl. 01:05 að staðartíma aðfaranótt 15. september.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir