11. - 15. desember 2023 (5 dagar)
Töfrandi aðventuferð til gömlu ríkisborgarinnar Nürnberg, höfuðborgar Franken héraðs. Ilmurinn af jólaglöggi, hunangskökum og steiktum pylsum svífur yfir borginni en hún er fræg fyrir pylsurnar sínar en einnig fyrir fallegt tréhandverk, m.a. hnetubrjóta og spiladósir með kertaljósum. Í þessari yndislegu borg er margt að skoða, t.d. gamla borgarvirkið, kirkjur, söfn og hús Albrecht Dürer málara. Einnig má nefna handverksmarkað, keisarakastalann sem trónir yfir borginni og mjög skemmtilegt verslunarhverfi. Svo má ekki gleyma elsta og stærsta aðventumarkaði landsins. Ferðin hefst á flugi til München en þaðan verður ekið til Nürnberg þar sem gist verður á hóteli í miðborginni. Dásamleg skoðunarferð verður til Bamberg sem byggð er á sjö hæðum en elsti hluti borgarinnar fór á heimsminjaskrá UNESCO árið 1993. Þetta er yndisleg borg sem við njótum og hrífumst af á aðventunni. Aðventumarkaðir borgarinnar eru töfrandi og jólastemningin alltumlykjandi.