Hvernig er best að undirbúa sig fyrir hjólaferð

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir hjólaferð

Bændaferðir bjóða upp á skemmtilegar hjólaferðir um falleg svæði víðsvegar í Evrópu. Vinsældir hjólreiða hafa aukist ár frá ári og sannur hjólreiðakappi á skilið að upplifa vindinn í hárið á fleygiferð, eða í rólegheitum, um sveitir, borgir og bæi. Eins og með flest annað í lífinu þá er uppskera almennt í samræmi við það sem lagt er inn og því nokkuð öruggt að því betur sem hugað er að grunnformi og búnaði því betur nýtur þú ferðalagsins sem framundan er. Við höfum því tekið saman bestu ráðin er varða æfingar og búnað til að leggja grunn að skemmtilegu og ánægjulegu hjólaævintýri.

2018-12-07_11-34-00.jpg
 
Hjólaformið

Hjólaferðir Bændaferða henta flestum þeim sem eru við góða heilsu, njóta þess að hreyfa sig utandyra og finna sig örugga á hjóli. Það kemur mörgum á óvart hversu marga kílómetra er hægt að leggja að baki á einum degi þegar gefinn er góður tími til hvíldar inn á milli til að næra sig og drekka í sig umhverfið. Í ferðunum hefur þú einnig val um rafhjól eða hefðbundið hjól en rafhjólin eru frábær kostur og þú þakkar fyrir þau í brekkunum! 

Enginn asi og markmiðið að njóta

Þessar hjólaferðir eru hvorki keppnisferðir né æfingaferðir heldur eru þær hugsaðar til að njóta alls þess sem fyrir augu ber og upplifa land og þjóð. Fararstjóri ferðarinnar tryggir regluleg stopp þar sem þú hefur tækifæri til að bæði hvílast og skoða umhverfið.

shutterstock_593146151-dóló (Large).jpg

Safnaðu kílómetrum á hnakknum

Það hljómar kannski augljóst en lykilatriðið til þess að vera í „hjólaformi“ er að eyða eins miklum tíma og hægt er á hnakknum. Ekki gera þau mistök að halda að það sé nóg að hlaupa, synda eða ganga. Þetta er ekki ósvipað því að þú ferð ekki í nokkurra daga göngu á nýjum gönguskóm án þess að ganga þá til.

Vissulega er öll hreyfing af hinu góða en það er mjög mikilvægt að gera ráð fyrir æfingum á hjólinu. Það að hjóla reglulega kveikir á öðrum vöðvahópum en t.d. ganga eða skokk en það sem skiptir samt öllu máli er að venjast því að sitja á hnakki í langan tíma í einu. Ef þú hefur ekki tök á að hjóla úti af einhverjum ástæðum þá skaltu kíkja í einn af fjölmörgum spinningtímum líkamsræktarstöðva landsins – sláðu af ákefðinni sem þjálfarinn leggur til og leggðu meiri áherslu á að hjóla jafnt og stöðugt eða taka lengri keyrslur sem hæfa þér.

_data_pic_Ungarn_donauknie_esztergom_Esztergom_CA-Radler_jpg.1526552488.800x600x75.thumb.jpg

Reglubundnar æfingar

Reyndu að hafa festu og hreyfa þig reglubundið í hverri viku, sérstaklega þegar líður að ferðinni. Stöðugleiki og endurtekningar eru mikilvægar til að þess að komast í ásættanlegt hjólaform. Það er gott að setja upp dagskrá sem miðar að því að taka æfingu ávallt á tilteknum dögum og á tímum sem passa inn í dagskrána þína. Það er líka ekki vitlaust að fjarlægja allar hugsanlegar andlegar hindranir eða afsakanir með því t.d. að taka saman fötin sem þú þarft til æfinga kvöldið fyrir æfingu. Reyndu að finna ástæður til þess að vera sem mest á hjóli, t.d. með því að hjóla í vinnuna. 

 
„Í hjólferðum Bændaferða er pláss fyrir alla sem kunna að hjóla og vera öruggir á því. Ég hef í mínum ferðum verið með gesti í öllum stærðum og gerðum á aldrinum frá 15 - 83 ára. Ferðahraðinn á hverjum degi er aðlagaður að hverjum hópi, en sú staðreynd að margir nýta sér rafhjól hjálpar öllum þeim sem vilja hafa ferðina enn þægilegri en ella. Ég ráðlegg mínum gestum að hafa hjólað a.m.k. einu sinni laaaaangan hjóladag til að venja bossann við langa setu.“

 - Bjarni Torfi Álfþórsson – fararstjóri í hjólaferðum Bændaferða

Kynntu þér dagleiðirnar

Það er svo miklu skemmtilegra að vera vel undirbúin. Það er skynsamlegt að kynna sér ferðatilhögun ferðarinnar hvað varðar fjölda kílómetra sem eru hjólaðir á dag og reyna að taka sambærilega hjólatúra í aðdraganda ferðar. Það er gott að hjóla eina og eina brekku til að fá púlsinn upp og láta lærin aðeins erfiða – engan asa heldur bara fara þetta upp eins og gömul díselvél á styrknum enda ert þú á leiðinni í hjólaferð en ekki keppnisferð. Það er svo gaman að hitta á góðar brekkur því þegar við erum búin að hafa okkur upp þær blásum við aðeins og látum okkur svo renna niður og hvílum um leið.

Depositphotos_162451410_xl-2015 (Large).jpg

Búnaður

Listinn hér að neðan telur upp það helsta sem fólk ætti að taka með sér en hann er ekki tæmandi og aðeins leiðbeinandi því markmiðið er að hverjum líði sem best á ferðalaginu.

a. Hjólabuxur – gulls ígildi

Þú skalt ekki vanmeta mikilvægi þess að hjóla í góðum hjólabuxum með púða fyrir það allra heilagasta – þetta getur skipt sköpum fyrir hjólaferðina þína. Vertu búin að venja þig á að sitja á hjóli í hjólabuxunum og vertu viss um að buxurnar henti þér. Margar hjólabuxur eru með „smekk“ sem sumum finnst meiða axlir ef dagleiðir eru langar en gott úrval er til af hjólabuxum án smekks. Það sem öllu máli skiptir er að hjólabuxur eiga að vera innst klæða – já engin nærfatnaður undir buxunum því það eykur líkur á nuddsárum.

b. Hjólatreyja – ekki nauðsyn en óboj svo þægileg

Hjólatreyjur með mörgum vösum á bakinu er frábær viðbót við fataskápinn – bæði til þæginda og svo eru þær einstaklega hagkvæmar á hjólatúrum. Vasar á hjólatreyjum virðist hafa þann einstaka eiginleika að stækka eftir því sem troðið er í þá. Hjólavasarnir eru upplagðir til að geyma síma, snarl, myndavélar, léttan jakka o.s.frv. Hjólatreyjur eru jafnframt hannaðar með það í huga að vernda axlir og háls fyrir sólinni en þótt sólin skíni ekki glatt þá þarf að verja húðina. Hefðbundnar æfingatreyjur, stutt- eða síðerma, duga þó auðvitað til.

„Ég hef keypt mér mjög mikið af hjólatreyjum á netinu en þær hafa allar verið svo fjandi litlar og þröngar. Ég var alltaf frekar feiminn við að nota þær þar til við vorum á Ítalíu, en þar hjóla allir „hjólatöffararnir“ í mjög þröngum bolum. Núna reyni ég s.s. að hjóla „ítalskur“, þ.e. fer hiklaust í alla mína þrengstu boli.“
Bjarni Torfi Álfþórsson – fararstjóri hjólaferða hjá Bændaferðum

c. Hjólavettlingar gera gæfumuninn

Hjólavettlingar er önnur nauðsynleg viðbót við fataskápinn þegar að hjólaferðum kemur. Þótt hjólavettlingar gætu virst léttvægir þá þjóna þeir nokkrum mikilvægum hlutverkum, einkum til að auka grip og sem sólarvörn. Í fyrsta lagi þá verja hjólahanskar handabökin gegn sólinni, en það sem er enn mikilvægara er að þeir verja hendur þínar gegn blöðrum og siggi sem getur myndast vegna stöðugs titrings stýris og nuddsins sem verður við húðina, einkum ef lófar eru sveittir. Hjólahanskar skipta jafnframt máli til þess að vera með gott grip t.d. ef þú lendir í óvæntri ójöfnu og færð snöggt átak á stýrið.

d. Leyndarmálið – það sem allir hjólarar nota en tala ekki um

Þú sérð ekki eftir því að pakka í töskuna „bossakremi“ fyrir helstu snertipunkta líkamans við hnakkinn. Það er of seint að byrja að nota slíkt krem þegar líður á hjólaferðina og hugsanlega farin að myndast núningssár – makaðu á þig frá fyrsta degi!

e. Óþarfi en skemmtilegt

Hjólatölva eða úr til þess að skrásetja kílómetra dagsins og ferðaleiðina og festingar á hjólið fyrir slíkt. Það er gaman að skrásetja ferðalagið og geta rifjað upp leiðina síðar og ekki síður að vita hversu margir kílómetrar voru lagðir að baki dag hvern.

f. Hnakk- eða stýristaska

Sumum finnst gott að hafa litla tösku á hnakknum eða stýrinu til að geyma smá nasl, síma eða annað þess háttar.

g. Hjálmur

Hjálminn þinn þarftu að sjálfsögðu að taka með í hjólaferð.

h. Sólgleraugu

Við erum jú alltaf sólarmegin í hjólaferðum.

i. Stór drykkjarflaska (0,75 - 1 lítri)

Þótt enginn óhemjugangur sé í hjólaferðum Bændaferða þá þarf að huga vel að því frá upphafi dags að nærast – einkum drekka. Íslendingar eru oft ekki vanir að hreyfa sig í tveggja stafa hitatölum og því er aldrei of oft brýnt fyrir fólki að muna eftir vatnsflöskunni – ekki bíða þar til þú ert orðin svöng eða þyrst. Vatnsbrúsar á hjólunum eru nauðsyn og ef heitt er í veðri þá sakar ekki að hafa orku í vatninu.

Kynntu þér hjólaferðir Bændaferða

 

Tengdar ferðir