Gengið í Pýreneafjöllunum

Í þessari spennandi gönguferð verður farið um fjölbreytt svæði í nágrenni Pýreneafjallanna á Spáni. Pýreneafjöllin mynda náttúruleg landamæri á milli Spánar og Frakklands og eru í heild sinni um 490 km löng. Stórbrotið landslag fangar hér augað hvert sem litið er. Við göngum eftir fornum göngustígum og njótum dásamlegs útsýnis meðal annars frá Alberg Pic de l'Àliga, í átt að Empordà og yfir Ull de Ter og Roses flóann. Við skoðum Ermita de Sant Antoni kirkjuna og fræðumst um vatnsaflsvirkjanir sem hafa tíðkast á svæðinu síðan í byrjun síðustu aldar. Göngum fallega leið á milli lítilla þorpa og komum meðal annars í litla fallega bæinn Setcases sem er umkringdur mikilli og fagurri náttúru. Gist verður á 4* hóteli með innisundlaug og heilsulind í hjarta Pýreneafjallanna. Á heimferðardegi kynnumst við sögulegu virkisborginni Girona sem er ein af stórborgum Costa Brava strandarinnar.

Verð á mann í tvíbýli 329.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 73.500 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair til Barcelona og flugvallaskattar. 
  • Rútuferð frá Barcelona upp í Pýreneafjöllin og til baka út á flugvöll.
  • Gisting í 7 nætur á 4* hóteli með morgunverði. 
  • Sex kvöldverðir á hótelinu.
  • Tveir hádegisnestispakkar.
  • Lestarmiði upp í Núria dalinn. 
  • Rútuferðir á göngudögum skv. ferðalýsingu.
  • Göngudagskrá.
  • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir, einn kvöldverður og annar tilfallandi kostnaður á göngunum sem ekki er tiltekið undir innifalið.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir gönguferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

13. september | Flug til Barcelona

Brottför frá Keflavík kl. 14:50 Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 21:10 að staðartíma. Haldið með rútu til Hotel Grèvol Spa í Llanars sem er í um 150 km fjarlægð frá flugvellinum. Gist verður hér í sjö nætur.

14. september | Jaça de Noufonts & Alberg Pic de l'Àliga

Á þessum fyrsta göngudegi mun rúta flytja okkur á upphafsstað í Ribes de Freser. Þaðan verður tekin lest inn í Núria dalinn og göngum við upp á Jaça de Noufonts þar sem við munum borða hádegisnesti ef veðrið er gott. Höldum áfram eftir Camí del Bosc gönguleiðinni upp á Alberg Pic de l'Àliga þaðan sem við dáumst að dásamlegu útsýninu. Á leiðinni aftur niður í Núría dalinn stoppum við á útsýnisstaðnum Creu d‘en Riba en í Ribes de Freser bíður okkar rútan sem flytur okkur heim á hótel.

  • Vegalengd: u.þ.b. 6,5 km
  • Hækkun u.þ.b. 380 m
Opna allt

15. september | Ull de Ter

Í dag förum við í skoðunarferð upp að rústum gamla Ull de Ter skálans sem var fyrsta fjallasæluhúsið á Íberíuskaganum. Þar fræðumst við um sögu skálans, sem og sögu ferðaþjónustu í dalnum á sama tíma og við dáumst að stórbrotnu útsýninu í átt að Empordà. Rúta flytur okkur milli staða í upphafi og lok göngu og við höfum með okkur hádegisnesti frá hótelinu.

  • Vegalengd: u.þ.b. 5 km
  • Hækkun u.þ.b. 400 m

16. september | Frídagur

Í dag slökum við á og njótum þess sem hótelið og nágrenni þess hefur upp á að bjóða. Hægt er að fara í stutta gönguferðir á eigin vegum og tilvalið að láta gönguþreytu liðinna daga líða úr sér í heilsulind hótelsins. Eins væri hægt að fara með strætisvagni í næsta bæ, Camprodon, sem er einstaklega sjarmerandi fjallabær með litlum verslunum og veitingastöðum. Kvöldverður á eigin vegum.

17. september | Ermita de Sant Antoni

Eftir góðan morgunverð göngum við af stað frá hótelinu til Ermita de Sant Antoni kirkjunnar en þar er 360° útsýnisstaður yfir dalinn. Ef dagurinn er bjartur munum við sjá héðan fjöllin í Ull de Ter, Ripollés og Montseny svæðið og jafnvel yfir Roses flóann. Við kynnumst sögu Ermita de Sant Antoni, hvernig hún var endurbyggð og þjóðsögum svæðisins.

  • Vegalengd: u.þ.b. 13 km
  • Hækkun u.þ.b. 400 m

18. september | Vatnsaflsvirkjanir & La Roca

Við kynnumst enn betur sögu svæðisins og fræðumst um vatnsaflsvirkjanir frá upphafi síðustu aldar í göngu dagsins sem hefst og endar við hótelið. Á göngunni komum við meðal annars að fallega bænum La Roca.

  • Vegalengd: u.þ.b. 5 km
  • Hækkun u.þ.b. 250 m

19. september | Tregurà & Setcases

Nú göngum við frá hótelinu forna gönguleið á milli Tregurà og Setcases. Við komum að Catllar læknum þar sem við fræðumst um Catllar bæinn, kastalann og stórkostlegan stíg sem liggur þarna í grendinni. Göngum svo nálægt Ter ánni að litla bænum Setcases sem er umkringdur mikilli og fagurri náttúru.

  • Vegalengd: u.þ.b. 7 km
  • Hækkun u.þ.b. 500 m

20. september | Heimferð frá Barcelona

Það er komið að heimferð. Eftir morgunverð höldum við til sögulegu virkisborgarinnar Girona sem er ein af stórborgum Costa Brava strandarinnar. Fallegar miðaldabyggingar prýða borgina og í arkitektúrnum má finna rómversk, márísk og gyðingleg áhrif sem skapa einstakt andrúmsloft. Á tímum Rómverja blómstraði borgin sem verslunarborg og einnig á miðöldum þegar gyðingar voru ríkjandi í borginni. Farið verður í skemmtilega göngu um elsta hluta borgarinnar og um gyðingahverfið Call sem er líklega eitt best varðveitta gyðingahverfi Evrópu. Eftir það verður frjáls tími til að kanna borgina á eigin vegum, líta inn á kaupmenn borgarinnar sem eru litríkir og skemmtilegir eða fá sér hressingu. Seinnipartinn verður farið með rútu út á flugvöll í Barcelona þaðan sem flogið verður heim kl. 22:10. Lent er í Keflavík kl. 00:45 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sonja Sif Jóhannsdóttir

Sonja Sif Jóhannsdóttir er fædd 1975, er gift og á fjögur börn. Hún ólst upp á sveitabæ í Skagafirði og hefur náttúran alltaf átt stóran sess í hennar lífi. Sonja er íþróttafræðingur að mennt og starfar sem framhaldsskólakennari í Menntaskólanum á Akureyri, þar sem hún er búsett. Sonja æfði hinar ýmsu greinar íþrótta á sínum yngri árum þó að frjálsar íþróttir hafi vegið þyngst. Undanfarin ár hefur útivistin verið fyrirferðamikil í hennar lífi þar sem hún stundar fjallgöngur, hlaup og hjólreiðar. Hún leggur rækt við að blanda hreyfingu og náttúruupplifun saman, sér til gleði og yndisauka bæði heima og erlendis.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti