Útivist við Achensee

Vatnið Achensee liggur í fögrum dal í Austurríki, innrammað af fjallgörðum Karwendel- og Rofanfjalla. Á svæðinu eru meira en 500 km af merktum gönguleiðum og möguleikarnir eru því fjölbreyttir. Gengið verður um græna dali í hlíðum Karwendelfjallanna sem búa yfir stærsta náttúruverndarsvæði norðurhluta Alpafjalla og á vesturbakka Achensee sem er með öllu laus við bílaumferð. Við göngum um hásléttur svæðisins og á engjum og í skógum milli fjallasela en þar fáum við laun erfiðisins í formi góðra veitinga úr heimabyggð. Landslagið er hrífandi og útsýnið á fjöllunum stórkostlegt. Innlendur staðarleiðsögumaður, í samvinnu við íslenska fararstjórann, mun velja hentugar gönguleiðir hvern dag og þeir leiða hópinn í sameiningu um þessa heillandi fjallasali. Einn dag nýtum við okkur reiðhjól til að komast yfir stærra svæði. Gist verður allar næturnar á 4* hóteli í nágrenni vatnsins þar sem vel búin heilsulind með innilaug og ýmsum tegundum gufubaða eykur enn á ánægjulega upplifun. 

Verð á mann 315.500 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 29.000 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Ferðir milli flugvallarins í München og hótelsins í Achenkirch. 
  • Gisting í 7 nætur í tveggja manna herbergi með baði.
  • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð.
  • Síðdegishressing.
  • Fimm rétta kvöldverður með salatbar.
  • Aðgangur að innisundlaug og heilsulind hótelsins. 
  • Afnot af baðslopp á meðan á dvöl stendur.
  • Leiga á rafhjóli og hjálmi í einn dag.
  • Göngudagskrá. 
  • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Kostnaður vegna lestarferða, bátsferða og strætisvagna.
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
  • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum.
  • Forfalla- og ferðatryggingar.
  • Þjórfé.

Valfrjálst

  • Sigling á Achensee ( hringferð um vatnið ) u.þ.b. € 48.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Tillaga að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og öðrum aðstæðum. Með í för verða bæði íslenski fararstjórinn og innlendur staðarleiðsögumaður. Þá er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu.

24. ágúst | Flug til München & Achenkirch

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekið á hótel í litla þorpinu Achenkirch þar sem gist verður í sjö nætur.

Opna allt

25. ágúst | Rofanspitze

Nú göngum við á þriðja hæsta tind fjallakeðju Rofan fjallanna en Rofanspitze er mjög vinsæll áfangastaður göngufólks enda er þaðan frábært útsýni. Við tökum kláf frá Maurach upp í 1.800 m og göngum þaðan á toppinn á Rofanspitze (2.259 m). Gengið verður frá Erfurter Hütte eftir breiðri og vel viðhaldinni gönguleið sem er hluti af Eagle Walk gönguleiðinni sem þverar Tíról frá austri til vesturs.

  • Göngutími: u.þ.b. 4-5 klst.
  • Lengd: 9-10 km
  • Heildarhækkun: 645 m
  • Erfiðleikastig: létt til miðlungserfið

26. ágúst | Kögljoch fjall

Frá verönd hótelsins má sjá meirihluta dagleiðar okkar. Við göngum gegnum þorpið Achenkirch og síðan á hlykkjóttum skógarhöggsvegi upp hlíðina. Eftir um klukkustundar göngu er komið að Kaiser Max útsýnisstaðnum við lítið vatn. Hér er sannarlega keisaralegt útsýni yfir vatnið og dalinn. Um hálftíma síðar er komið að Kögl seli þar sem ómissandi er að fá sér hressingu, þó ekki væri nema glas af heimagerða snapsinum þeirra. Einnig er hér dásamleg fjallasýn af staðnum. Við höldum áfram upp fjallið og komum að öðru seli, Schönjochalm, þar sem einnig mætti fá sér hádegismat. Á leiðinni niður er gengið á skógarvegum framhjá fóðurstöðvum fyrir villt dýr. Með fjallasýnina allt um kring er gengið um rjóður og skóga uns komið er að litla þorpinu Steinberg. Göngunni lýkur niður í dalnum við upphafspunkt skíðalyftunnar. Þaðan er tekinn strætó aftur á hótelið.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Lengd: 10 km
  • Hæðarmunur: 660 m
  • Erfiðleikastig: létt

27. ágúst | Hringur um Zwölferkopf

Við tökum strætó að upphafspunkti göngunnar í nágrenni Pertisau. Ganga okkar hefst á svokölluðum íhugunarvegi þar sem spakleg máltæki hvetja til skjálfsskoðunar og hugleiðslu. Stígurinn er í aflíðandi halla í skugga trjánna en síðan er komið á gamlan kerruveg þar sem fögur sýn er yfir dalinn. Yfir skíðaslóð og eftir skógarvegi er komið að Bärenbad seli þar sem boðið er upp á dásamlegar veitingar úr hráefni af svæðinu. Aðeins örlítið lengra er útsýnispunktur og þar er það er hreinlega skylda að taka mynd af þessu ógleymanlega útsýni! Svo er gengið aftur niður í dalinn á hlykkjóttum stíg í gegnum skóginn. Þegar niður er komið verður farið með strætó heim á hótel.

  • Göngutími: u.þ.b. 3 klst.
  • Hæðarmunur: 500 m
  • Erfiðleikastig: létt

28. ágúst | Frídagur

Nú eigum við frídag og njótum þess að vera á þessum fagra stað. Tilvalið er að hvíla lúin bein í heilsulind hótelsins eða fara í stutta gönguferð á eigin vegum.

29. ágúst | Hjóladagur – Achensee vatnið

Á hjólunum komumst við yfir stærra svæði og við nýtum okkur það til að kanna nánar hið dásamlega Achensee vatn og stórkostlegt umhverfi þess. Við vatnið liggur þægilegur hjólavegur á jafnsléttu. Hjólað verður með fram vatninu, allt til Pertisau en þar endar vegurinn og getum við annað hvort tekið bát yfir vatnið til baka, eða hjólað til baka sömu leið.

  • Hjólaleið Achenkirch – Pertisau: u.þ.b. 1,5 tímar önnur leið.

30. ágúst | Meðfram Achensee

Nú kynnumst við næsta nágrenni hótelsins og þessu fallega vatni enn nánar. Gengið er frá hótelinu á grænum engjum og gegnum skógarspildu. Fylgjum svo litlum læk upp að fjöllum en þar mjókkar vegurinn meðfram fjallshlíðinni og verður að einstigi yfir kristaltæru vatninu. Hér er vissara að vera fótviss og ekki mjög lofthræddur en dásamleg sýn er yfir vatnið og alla seglbátana frá stígnum. Komið verður að Gaisalm seli sem er einungis hægt að nálgast fótgangandi eða frá vatninu. Bakvið selið er áhugaverð gjá þar sem oft má sjá geitur stökkva listilega milli stalla. Eftir því sem við nálgumst Pertisau þorpið verður stígurinn breiðari og fjölfarnari. Við skoðum okkur um í Pertisau og svo er val um að taka bát til baka og ganga í 20-30 mín í viðbót eða taka strætó alla leið.

  • Göngutími: u.þ.b. 3,5 klst.
  • Lengd: u.þ.b. 10 km
  • Hæðarmunur: 260 m
  • Erfiðleikastig: létt

31. ágúst | Heimferð

Við leggjum af stað út á flugvöll að loknum morgunverði en flogið verður heim kl. 14:05 frá München Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem ljósmóðir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Hótel

Hotel Achentalerhof

Gist verður allar næturnar á 4* útivistarhótelinu Achentalerhof í þorpinu Achenkirch,  800m frá Achensee vatninu. Hótelið liggur beint að náttúruverndarsvæðinu og er með stórum garði þar sem legubekkir eru til reiðu fyrir gesti. Á kvöldin er fimm rétta kvöldverður með valréttum eða þemahlaðborð og morgunverðarhlaðborðið er fjölbreytt með úrval afurða frá lífrænum framleiðendum á svæðinu. Á hótelinu er heilsulind með innisundlaug, sauna, eimbaði, innrauðum klefa og hvíldarherbergi. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Gestir fá afnot af slopp á meðan á dvöl þeirra stendur. Á hótelinu er líkamsræktaraðstaða. Herbergin eru öll með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi og öryggishólfi. 

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti