Útivist við Bled vatn

Náttúran skartar sínu allra fegursta við hið töfrandi Bled vatn sem er umvafið tignarlegum Ölpunum. Dulúð og rómantík kemur fyrst upp í hugann þegar ekið er að vatninu. Gengið verður um þorpið Bled og upp á hæðina Straza þar sem Bled kastalinn gnæfir yfir á klettahömrunum og litlir bátar renna hjóðlega á vatninu. Í miðju vatninu er eyjan Blejski Otok þar sem Maríukirkjuna með óskabjöllunni frægu er að finna. Við förum í góða göngu upp á Golica fjallið þaðan sem júlíönsku Alparnir og Karavanke fjallgarðurinn rísa í bakgrunninn með sínum voldugu tindum. Hjóluð verður undurfögur leið eftir ánni Bohinjka Sava og við heimsækjum járnsmíðabæinn Kropa. Um Vintgar gljúfrið er heillandi gönguleið þar sem gengið er m.a. yfir ána Rodovna á nokkrum stöðum og mörg undurfögur sjónarhorn gefast. Frá Bohinji vatninu förum við með kláfi upp á Vogel fjallið en þaðan er stórfenglegt útsýni yfir nærliggjandi sveitir. Í þessari ferð er áhersla lögð á að njóta fјölbreyttrar útivistar á þessu yndislega svæði. Gist verður í sjö nætur á 4* hóteli við strönd Bled vatnsins en síðustu nóttina verður gist í München. Ferðin hentar þeim sem vilja njóta hressandi útivistar í einstöku umhverfi þar sem stórkostleg fjallasýn, ár, gil, vötn og barrskógar verða á vegi okkar.

Verð á mann í tvíbýli 264.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 95.400 kr.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Ferðir á milli flugvallar og hótela.
  • Gisting í 6 nætur í tveggja manna herbergi með baði á hóteli í Bled.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hóteli í Bled.
  • Gisting í 1 nótt með morgunverði á hóteli í miðbæ München.
  • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin á hótelinu í Bled hefur upp á að bjóða.
  • Leiga á rafhjóli og hjálmi í einn dag.
  • Akstur til Planina Pod, að Bohinj vatni og kláfur upp til Vogel.
  • Innlend staðarleiðsögn í göngu- og hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Kvöldverður í München 29. júní.
  • Aðgangseyrir inn í söfn og kirkjur.
  • Sigling á Bled vatni. 
  • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll, lestarferðir, leigubílaakstur, hádegisverðir og þjórfé annað en talið er upp undir innifalið.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og öðrum aðstæðum. Með í för verða bæði íslenski fararstjórinn og innlendur staðarleiðsögumaður. Þá er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu.

22. júní | Flug til München & Bled

Brottför frá Keflavík kl. 07:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Þaðan verður ekin um 400 km leið á hótel í Bled þar sem gist verður í sjö nætur.

Opna allt

23. júní | Bledvatn, Bleski Otok eyja & Bled þorp

Rölt verður í rólegheitum inn í fallega þorpið Bled sem staðsett er á bökkum samnefnds vatns. Við förum upp á hæðina Straza, en þaðan er sérlega gott útsýni yfir vatnið, Bled kastalann sem gnæfir tignarlega uppi á hamrinum yfir vatninu og eyjuna Bleski Otok þar sem hin aldagamla Maríukirkja er staðsett. Við siglum út í eyjuna og njótum alls þess sem þessi fallega eyja hefur upp á að bjóða en Maríukirkjan er einkar vinsæl fyrir brúðkaup og þykir það færa gæfu að brúðguminn beri brúði sína upp þrepin 99 og að athöfn lokinni hringja hjónin óskabjöllunni í sameiningu og bera upp ósk sína í kirkjunni.

  • Erfiðleikastig: létt

24. júní | Vintgar gljúfur

Ganga dagsins tekur okkur eftir hinu magnþrungna Vintgar gljúfri. Við verðum keyrð í gegnum gróskumikinn Radovna dalinn þar sem áin Radovna hefur í aldanna rás sorfið 150 m djúpt inn í Vintgar gljúfrið. Gönguleiðin sjálf er á trépöllum í gegnum gilið og á leiðinni njótum við yndislegs útsýnis við Katarina kirkjuna áður en við komum svo að Bled vatni.

  • Göngutími: u.þ.b. 4 klst.
  • Vegalengd: 14 km
  • Hækkun/lækkun: 210 m/320 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs

25. júní | Kropa – Radovljica

Nú er komið að því að skella sér á reiðhjól. Við förum þægilega leið eftir ánni Bohinjka Sava norðvestur af Bled og komum við í járnsmíðabænum Kropa. Hér er safn helgað iðninni og getur fólk m.a. lært að búa til eigin nagla. Í bakaleiðinni er litið við í huggulega miðaldabænum Rodovljica þar sem finna má áhugaverð söfn s.s. býflugnasafnið, en hér eru einnig yndælis kaffihús og ísbúðir.

  • Vegalengd: u.þ.b. 45 km
  • Hjólatími: u.þ.b. 4 klst.
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 550 m/550 m

26. júní | Frídagur

Í dag slökum við á og njótum þess sem hótelið og nágrenni þess hefur upp á að bjóða. Upplagt að slaka á við sundlaug hótelsins eða kanna svæðið á eigin vegum.

27. júní | Golica fjall

Í dag höldum við í skemmtilega fjallgöngu. Ekið verður til þorpsins Javorniški rovt og þar hefst gangan í 980 m hæð. Gengið verður upp á Golica fjall, en áfangastaðurinn okkar er Golica Hut sem stendur í 1.582 m hæð. Hér blasa við okkur júlíönsku Alparnir og Karavanke fjallgarðurinn í öllu sínu veldi og er útsýnið stórfenglegt. Ef fólk vill reyna meira á sig er hægt að ganga alla leið á tind fjallsins upp í 1.835 m hæð, en þaðan nær útsýnið alveg milli Wörthersee vatns, Tauern fjalls í Austurríki og að Ljubljana dalnum. Golica fjallið er þekkt fyrir blómstrandi páskaliljur.

  • Göngutími: u.þ.b. 8 klst.
  • Vegalengd: 13 km
  • Hækkun/lækkun: u.þ.b. 881 m/740 m
  • Erfiðleikastig: krefjandi

28. júní | Bohinj vatn – Vogel

Bohinj vatnið er friðsælt Alpavatn í skugga tignarlegu júlíönsku Alpanna. Hér er hægt að taka sundsprett í vatninu. Við vesturenda vatnsins er stutt leið upp að Savica fossinum og þaðan er hægt að taka kláf upp á 1532 m hátt Vogel fjallið en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir á Triglav fjall, hæst tind júlíönsku Alpanna, og nærliggjandi sveitir.

  • Göngutími: u.þ.b. 6 klst.
  • Vegalengd: 21 km
  • Hæðarmunur: u.þ.b. 330 m/330 m
  • Erfiðleikastig: miðlungs

29. júní | Ekið frá Bled til München

Nú kveðjum við Bled og ökum til München þar sem gist verður síðustu nótt ferðarinnar. Seinni hluta dags er tilvalið að skoða sig aðeins um í borginni. Á torginu Marienplatz er eitt fallegasta ráðhús landsins en úr turninum hljómar ægifagurt klukknaspil tvisvar sinnum á dag. Ekki langt frá ráðhúsinu er kirkjan St. Peter eða Alter Peter eins og borgarbúar kalla hana. Þar er ákjósanlegur útsýnisstaður en þau sem fara upp allar 306 tröppurnar verða ekki svikin af útsýninu yfir miðbæ München. Tilvalið að enda í Hofbräukeller, einu frægasta brugg- og veitingahúsi borgarinnar þar sem bæjarbúar hittast gjarnan og spjalla saman yfir góðum mat og drykk. Kvöldverður á eigin vegum.

30. júní | Heimferð frá München

Brottför frá flugvellinum í München kl. 14:05. Lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Steinunn H. Hannesdóttir

Steinunn H. Hannesdóttir er M.Sc íþróttafræðingur frá Háskóla Íslands. Eftir nokkur ár við skólakennslu og fleira tóku við almenningsíþróttir á líkamsræktarstöðvum og þjálfun hlaupahóps á Seltjarnarnesi í mörg ár. Hún hefur starfað við heilsuþjálfun á Reykjalundi síðan 2010. Áherslan og áhuginn er á gönguferðum og útivist, gönguskíðum og almennri hreyfingu. Steinunn hefur verið fararstjóri í skíðagönguferðum Bændaferða síðan 2006 og í útivistarferðum síðan 2012.

Hótel

Hótel í ferðinni Útivist við Bled vatn

Gist verður í sjö nætur á 4* hótelinu Rikli Balance sem er staðsett við strönd Bled vatnsins. Stórkostlegt útsýni er frá hótelinu yfir vatnið og á fjöllin í kring. Hótelið er afar vel staðsett fyrir útivistarferðir. Öll herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku, baðslopp, sjónvarpi, öryggishólfi, míníbar og frírri nettengingu. Aðgangur að sundlaug hótelsins fylgir.

Gist verður í eina nótt á IBIS Hotel München City.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti