Hjólað & siglt um perlur Dónár

Hér fer saman einstaklega þægileg hjólaferð í bland við skemmtisiglingu með fljótaskipi eftir ánni Dóná, næstlengstu á Evrópu, sem hlykkjast um fjölda landa og á milli spennandi borga. Nýir áfangastaðir mæta okkur á hverjum degi án þess að skipta þurfi um gististað og munu heimsborgirnar Passau, Bratislava, Búdapest og Vín verða á vegi okkar. Vínekrur, sveitaþorp, kastalar og virki bera fyrir augu á yndislegum hjólaleiðum með fram árbakkanum. Um borð í 4* fljótaskipinu MS Vivienne er mjög góður aðbúnaður, notalegar káetur, veitingastaður og útsýnisdekk. Siglt verður frá Passau til Búdapest og aftur til baka en áð á mismunandi stöðum hvora leið. Þegar skipið leggst að landi er hjólunum raðað upp á bryggjuna og hjólað verður að næsta áfangastað skipsins. Dagleiðirnar spanna að meðaltali 40 - 50 km og eru miðlungserfiðar en þægilegur ferðahraði tryggir að farþegar njóti umhverfisins og því sem fyrir augu ber í þessu dásamlega umhverfi. Síðustu nótt ferðarinnar verður dvalið í bæverska heilsudvalarbænum Bad Griesbach.

Verð á mann 484.900 kr. í tvíbýli í standard káetu á aðal þilfari.

550.400 kr.  á mann í tvíbýli í comfort káetu á miðju þilfari.

591.100 kr.  á mann í tvíbýli í superior káetu á miðju þilfari.

Vinsamlegast hafið samband ef óskað er eftir einbýli.

Vinsamlegast athugið að dagskrá ferðarinnar getur raskast vegna breytinga á vatnsyfirborði siglingaleiða, bilunar í skipastigum eða annarra óvæntra aðstæðna.


Innifalið

  • 9 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í München og hafnarinnar í Passau.
  • Móttaka hjá skipstjóranum fyrsta daginn um borð með fordrykk.
  • Gisting í tveggja manna káetu með sturtu á MS Vivienne.
  • Herbergisþjónusta og fersk handklæði á hverjum degi.
  • Fullt fæði allan tímann; morgunverðarhlaðborð, hádegisverður eða nestispakki fyrir hjólaferðir, kaffi og kökur síðdegis, kvöldverður með vali um 2 – 3 aðalrétti og miðnætursnarl.
  • Hátíðarkvöldverður með kveðjukokteil síðasta kvöldið.
  • Skemmtiatriði og lifandi tónlist um borð.
  • Hjólaprógramm með upplýsingum og kortaefni fyrir hverja káetu.
  • Ein nótt í tveggja manna herbergi á 4* hóteli  með morgun- og kvöldverði í Bad Griesbach.  
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Leiga á trekkinghjóli í 6 daga. Hverju hjóli fylgir rúmgóð vatnsheld hjólataska, handhæg stýristaska, hjólapumpa og lás 24.700 kr.
  • Leiga á rafhjóli í 6 daga. Hverju hjóli fylgir rúmgóð vatnsheld hjólataska, handhæg stýristaska, hjólapumpa og lás 37.400 kr.
  • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 35 -57 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að æfa sig vel fyrir ferð, fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan. Öll hjólin á skipinu koma með rúmgóðri 20 l hliðartösku og tösku á stýrið. Farþegar þurfa að koma með eigin hjálm og hjólafatnað en slíkt er einnig selt um borð.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að slappa af á skipinu eða fara í bæjarferðir á eigin vegum.

1. september | Flug til München & ekið til Passau

Flogið verður með Icelandair til München. Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 150 km til Passau svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 2 klst. Borgin Passau stendur við ármót Dónár, Inn og Ilz í Bæjaralandi og setja árnar þrjár einstaklega fallegan svip á borgina og eru margir þeirrar skoðunar að bæjarstæðið sé eitt það fallegasta í Evrópu.

2. september | Frá Engelhartszell til Aschach

Þegar við vöknum af værum svefni hefur skipið lagt að bryggju í Engelhartszell í Austurríki. Nú hefjum við fyrsta hjóladaginn og njótum dýrðarinnar sem fyrir augu ber. Við hjólum yndislega leið eftir árbakkanum um Dónárbugðuna sem er einn fegursti hluti árinnar. Leið okkar liggur fram hjá krúttlegum bóndabýlum og kyrrlátum þorpum. Hér og þar bjóða veitingastaðir við vegkantinn upp á hálfgerjað vín sem kallað er Most eða Sturm og annað góðgæti af svæðinu. Þegar við höfum náð áfangastað í bænum Aschach verður stigið um borð og siglt inn í nóttina. Vegalengd dagsins er um 42 km.

Opna allt

3. september | Virki Devin & Bratislava

Hjólaleið dagsins hefst á mjóum stígum á svæði þar sem járntjaldið varnaði leið hér áður. Við hefjum ferðina við Devin virki og hjólum að glæsilegum barrokkgarði kastalans Hof sem er einn tilkomumesti lystigarður Evrópu. Áfram er haldið um óspillta náttúru en skömmu seinna komum við inn í ys og þys Bratislava. Áhugasamir geta farið í skoðunarferð um borgina. Vegalengd dagsins er um 43 km.

4. september | Búdapest & listamannabærinn Szentendre

Þegar siglt er inn til Búdapest blasir við okkur stórkostleg sýn yfir allar frægustu byggingar borgarinnar. Dóná aðskilur borgarhlutana tvo, hallarhverfið og borgarhlutann, Búda og Pest, en fjöldi voldugra og fallegra brúa tengja þá saman og setja sterkan svip á þessa fallegu borg. Þegar akkerum hefur verið kastað er möguleiki að fara í skoðunarferð um borgina. Frá Búdapest hjólum við með fram skógum og eyrum á árbakka Dónár uns við komum að listamannabænum Szentendre. Bærinn á sér meira en 1.000 ára sögu og bera þröng stræti og lítil torg þess merki. Í Búdapest verður hægt að njóta kvöldsins og m.a. fara á sýningu heimamanna með hefðbundnum söng og dansi, þar sem skipið fer ekki frá borginni fyrr en eftir miðnætti. Vegalengd dagsins er um 54 km.

5. september | Dónáhnéð & Esztergom

Á þessu svæði er Dóná umvafin snarbröttum fjöllum og aflíðandi hólum í heillandi umhverfi sem við njótum í hjólaferð dagsins. Við höldum til bæjarins Esztergom þar sem við stígum aftur um borð í fljótaskipið. Bærinn er einn af elstu bæjum Ungverjalands en basilíkan þar var vígð árið 1869 með flutningi tónverks sem var sérstaklega samið við þetta tilefni og stjórnað af Franz Liszt. Vegalengd dagsins er um 43 km.

6. september | Frídagur í Vínarborg

Í dag eigum við frídag í hinni dásamlegu Vínarborg. Það er upplagt að taka lestina inn í bæ og njóta þessarar fögru borgar en fallegar byggingar skreyta borgina og má þar til að mynda nefna Schönbrunn höllina, eina íburðarmestu höll landsins, Belvedere höllina og hið þekkta hús Hundertwasser. Áhugasamir geta líka hjólað eftir Dounauinsel, bíllausri 22 km langri eyju sem liggur mitt í Dóná og er algjör útivistarparadís. Um kvöldið er hægt að panta miða á tónleika í Schönbrunn höllinni áður en skipið leysir landfestar og siglir sem leið liggur til Wachau.

7. september | Konungsleiðin

Síðasta hjólaleið þessarar ferðar er kölluð konungsleiðin. Hjólað er milli notalegra þorpa sem kúra í hæðóttu landslaginu, fram hjá fornum virkjum og glæstum höllum. Svæðið er þekkt fyrir ávaxtarækt og þá sérstaklega vínrækt og þekja vínekrurnar hæðirnar í stöllum eins langt og augað eygir. Tilvalið er að staldra við og hvíla lúin bein á einni af þeim fjöldamörgu vínkrám sem standa við veginn og bragða á framleiðslu heimamanna. Vegalengd dagsins er um 37 km.

8. september | Passau & Bad Griesbach

Að morgunverði loknum leggst skipið að bryggju í Passau. Eftir stutt stopp í Passau verður haldið til Bad Griesbach þar sem gist verður í eina nótt. Hér er tilvalið að nýta eftirmiðdaginn í glæsilegri heilsulind hótelsins.

9. september | Heimferð

Nú er ferðin á enda og að loknum morgunverði munum við aka út á flugvöll í München. Brottför er þaðan kl. 14:05 og er áætluð lending í Keflavík kl. 16:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Árni Ingólfsson

Árni Ingólfsson er fæddur 1961 í Kópavogi. Hann er vélvirki, vinnur í vélsmiðjunni Héðni hf og sér um gæða- og öryggismál fyrirtækisins. Hann hefur verið félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi um 30 ára skeið og starfar þar með rústaflokki sem er hluti af íslensku alþjóðasveitinni. Útivist hefur hann stundað alla tíð og farið í jeppaferðir, gönguferðir, skíðaferðir og kayakferðir.

Skip

MS Vivienne

MS Vivienne var endurnýjað árið 2020 og er einstaklega glæsilegt 4* fljótaskip. Þar er frábær veitingastaður, setustofa og bar ásamt rúmgóðu útsýnisdekki þar sem notalegt er að sitja og njóta útsýnisins. Káeturnar eru 15 m² að stærð og allar hafa þær sérbaðherbergi, hárþurrku, sjónvarp og öryggishólf. Stilla má hitastig í hverri káetu fyrir sig. Nettenging er um borð en hafa skal í huga að gæði tengingarinnar fer mjög eftir því hvar skipið er staðsett. 

Hér má sjá nánari upplýsingar um MS Vivienne.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti