Alsace & Bodensee

Miðaldabæir, vínakrar, bindingsverkshús, kastalar og einstök náttúrufegurð. Það er ævintýri líkast að ferðast um Alsace héraðið í Frakklandi og Bodensee vatn í Þýskalandi og við kynnumst sögu og menningarlífi þessara áhugaverðu svæða. Fyrst verður dvalið í yndislega bænum Colmar sem er þekktur fyrir bindingsverkshús, kræklóttar, þröngar götur og ekki síst listamannahverfið, litlu Feneyjar, sem er eitt fallegasta hverfi bæjarins. Farið verður í ljúfar og skemmtilegar dagsferðir, m.a. til Strassburg, höfuðborgar Alsace héraðsins, og í hrífandi siglingu á ánni Ill. Við ökum Vínslóðina í Alsace til Riquewihr sem er ein af perlum héraðsins og þræðum falleg smáþorp á leið okkar til bæjarins Obernai sem er við rætur St. Odile fjallsins og er með vinsælustu ferðamannabæjum Alsace héraðsins. Seinni hluta ferðarinnar dveljum við í Konstanz, stærstu borginni við Bodensee vatn en vatnið á landamæri að Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Á leiðinni þangað upplifum við borgina Freiburg sem er borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Sögulegar miðaldabyggingar setja svip sinn á borgina og margt er að skoða og dást að. Frá Konstanz verður siglt yfir á blómaeyjuna Mainau þar sem við skoðum glæsilegan lystigarð og njótum náttúrufegurðar staðarins

Verð á mann 334.600 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 73.300 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverðir á hótelum. 
  • Þrír kvöldverðir á hótelum.
  • Sigling á ánni Ill.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Siglingar og ferjur. 
  • Vínsmökkun.
  • Hádegisverðir.
  • Fjórir kvöldverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Valfrjálst

  • Blómaeyjan Mainau u.þ.b. € 25.
  • Ferja frá Konstanz til Mainau og til baka u.þ.b. € 7. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

20. ágúst | Flug til Zürich & Colmar

Brottför frá Keflavík kl. 7:20. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Zürich kl. 13:05 að staðartíma. Nú verður stefnan tekin á Colmar sem er hrífandi borg í Frakklandi. Hér verður gist á góðu hóteli í fjórar nætur. Á leiðinni þangað verður stoppað við frægan storkagarð en storkurinn er tákn Alsace héraðsins.

21. ágúst | Ævintýrabærinn Colmar

Glæsilegur dagur í Colmar en þessi einstaklega fallegi bær er þekktur fyrir bindingsverkshús, kræklóttar, þröngar götur og ekki síst listamannahverfið, litlu Feneyjar. Það er eitt fallegasta hverfi bæjarins og upplifunin er ævintýri líkust. Auðvitað verður gefinn tími eftir ljúfa skoðunarferð til að líta inn í skemmtilegar, litlar verslanir og setjast inn á notaleg kaffi- eða veitingahús í gamla bænum.

22. ágúst | Skemmtilegur dagur í Strassburg

Strassburg er einstaklega áhugaverð borg með sjarmerandi, gömlum húsum og síkjum. Þessi höfuðstaður Alsace héraðsins í Frakklandi stendur rétt við landamæri Þýskalands. Nú verður farið í skemmtilega siglingu á ánni Ill sem rennur um borgina en þar sést glöggt hvernig gljáandi ný háhýsi eins og Evrópubyggingin kallast á við eldri hluta borgarinnar með sínum sögulegu bindingsverkshúsunum. Að siglingunni lokinni göngum við inn í gamla hluta borgarinnar og skoðum sögufrægu Münsterkirkjuna en inni í kirkjunni er að finna mjög merkilegt stjörnu- og sólúr. Frjáls tími gefst síðan fyrir hvern og einn að fá sér hressingu, líta inn til kaupmanna eða ganga um listamannahverfið sem nefnist litla Frakkland.

Opna allt

23. ágúst | Vínslóðin í Alsace vínhéraðinu

Nú verður ekin töfrandi leið um Vínslóðina í Alsace, eins þekktasta vínhéraðs heims. Við byrjum á að stoppa í Riquewihr, sem er með vinsælli ferðamannabæjum svæðisins, og hrífumst af einstökum ævintýrablæ bæjarins. Bærinn er staðsettur í hjarta héraðsins og er nánast í óbreyttri mynd síðan á 16. öld. Á svæðinu fer fram háklassa vínrækt og afurðin drýpur af hverju strái. Eftir góðan tíma höldum við áfram um vínslóðin í Alsace og þræðum falleg smáþorp, svo sem bæina Ribeauvillé og Barr á leið okkar til Obernai sem er staðsettur við rætur St. Odile fjallsins. Hér gefum við okkur tíma til að að kanna líf bæjarbúa og njóta lífsins áður en ekið verður til baka.

24. ágúst | Freiburg & Konstanz við Bodensee vatn

Nú kveðjum við Colmar eftir yndislega daga og stefnan verður tekin á Bodensee vatnið í Þýskalandi. Á leiðinni þangað verður stoppað í Freiburg sem er borg skógarins, gotneskrar listar og víns. Freiburg hefur verið háskólaborg frá fornu fari en þessi borg hinna frjálsu á sér langa sögu. Sögulegar miðaldabyggingar setja svip sinn á borgina og margt er að skoða og dást að. Gefinn verður tími til að kanna borgina á eigin vegum og jafnvel líta inn á kaupmenn hennar. Því næst verður ekið um blómleg ávaxtahéruð til Konstanz í Þýskalandi við Bodensee vatnið þar sem gist verður í þrjár nætur á hóteli.

25. ágúst | Sigling frá Konstanz yfir á blómaeyjuna Mainau

Það býður okkar töfrandi dagur því eftir morgunverð verður siglt frá Konstanz yfir á blómaeyjuna Mainau. Eyjan er um 45 hektarar en fyrir 2000 árum var hún virki Rómverja og á 9. öld tilheyrði hún hinu volduga klaustri nágrannaeyjunnar Reichenau. Sænski greifinn Lennart settist þar að og á heiðurinn af þessum einstaklega glæsilega lystigarði sem við skoðum. Upplagt er að fá sér hádegishressingu í garðinum og njóta náttúrufegurðar staðarins áður en siglt verður aftur yfir til Konstanz.

26. ágúst | Stutt rölt í Konstanz & frjáls tími

Listir, menning og vatn einkenna Konstanz, stærstu borgina við Bodensee vatn, en vatnið á landamæri að Sviss, Austurríki og Þýskalandi. Mjög lífleg og áhugaverð borg þar sem gaman er að rölta um og skoða óvenjuleg útilistaverk eða njóta gamla bæjarins með sínum hrífandi litlu götum, fallega myndskreyttum húsum og glæstum byggingum. Farið verður í stutta skoðunarferð en síðan verður tími á eigin vegum til að dekra við sjálfan sig.

27. ágúst | Heimferð frá Zürich

Eftir yndislega og skemmtilega ferð verður ekið til Zürich. Brottför þaðan kl. 14:05 og lending í Keflavík kl. 15:55 að staðartíma.

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Unnur Jensdóttir

Unnur Jensdóttir hefur undanfarin 30 ár starfað sem tónlistarkennari á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Hún er fædd og uppalin á Íslandi en er færeysk í móðurætt, talar færeysku og lítur á Færeyjar sem sitt annað heimaland. Unnur er einnig frönskumælandi og hefur dvalið langdvölum bæði í Frakklandi og Sviss.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti