Grikklandsævintýri

Í þessari mögnuðu ferð munum við kynnast einstöku samspili náttúru og sögu Grikklands. Við skoðum þorpin Fira og Oia á eyjunni Santorini, þar sem húsin eru eins og bláir og hvítir sykurmolar og hanga á gígbarmi stærsta gígs í heimi. Á eyjunni Naxos njótum við þess að ganga eftir mjóum götum gamla kastalans og upplifum túrkísbláan sjóinn og náttúrufegurðina í Eyjahafinu. Merkar fornminjar verða á vegi okkar á meginlandinu og við hlustum á sögur um goð og menn, hetjur og hetjudáðir. Hof Appollós og véfréttin í Delfí töfra ferðamenn enn í dag og miðaldaklaustrin í Meteora láta engan ósnortinn. Aþena er svo heill heimur út af fyrir sig með gömlu konungshöllinni, Akademíunni, marmaraleikvangnum, Akrópólís og töfrandi gamla bænum í Plaka. Ferðinni lýkur með nokkurra daga dvöl í Vouliagmeni, strandbæ í grennd við höfuðborgina, þar sem stöðuvatn, strönd og náttúra kemur saman í fögru samspili. Frá Vouliagmeni höldum við í skoðunarferðir m.a. að stærsta útileikhúsi Grikklands frá 4. öld f. Krist og í siglingu til þriggja einstaklega sjarmerandi eyja í Saróníska flóanum.

Verð á mann í tvíbýli 719.000 kr.

Vinsamlegast hafið samband ef óskað er eftir einbýli.


Innifalið

  • 16 daga ferð.
  • Allt flug og flugvallaskattar samkvæmt ferðalýsingu.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Morgunverður allan tímann á hótelum.
  • Tíu hádegis- eða kvöldverðir.
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Ferjusiglingar samkvæmt ferðalýsingu.
  • Aðgangseyrir að Akrópólis.
  • Aðgangseyrir inn í klaustur og fornminjar.
  • Skemmtisigling til þriggja eyja samkvæmt ferðalýsingu.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hádegis- og kvöldverðir fyrir utan þá sem eru innifaldir. 
  • Þjórfé.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

7. júní | Flug til Aþenu

Brottför frá Keflavík kl. 6:00 með Play Air. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lent á flugvellinum í Aþenu kl. 14:50 að staðartíma. Við ökum inn til Aþenu þar sem við dveljum á hóteli í miðbænum í tvær nætur. Sameiginlegur kvöldverður.

8. júní | Skoðunarferð um Aþenu

Farið verður í skoðunarferð um borgina þar sem við sjáum háskólabyggingarnar, gömlu konungshöllina sem hýsir þingið í dag og Ólympíuleikvanginn sem byggður var fyrir fyrstu Ólympíuleika okkar tíma, árið 1896. Þar á eftir göngum við upp á Akrópólishæðina til þess að skoða hið fræga Parþenonhof. Ferðinni lýkur með hádegismat og síðan frjálsum tíma í Plaka, elsta hverfi Aþenu sem er eins og eyland inni í miðri borginni með sjarmerandi verslunum, kaffihúsum og veitingastöðum.

9. júní | Siglt til Santorini

Í dag siglum við yfir til eyjunnar Santorini sem löngum hefur verið kölluð fegursta eyja í heimi en hún sprakk í loft upp í einu mesta sprengigosi heims, árið 1628 f. Krist. Þegar við erum búin að koma okkur fyrir verður haldið í stutta gönguferð um bæinn Fira. Bærinn státar af stórfenglegu bæjarstæði en hann er staðsettur uppi á 400 m háum kletti og kúra hvítkölkuð húsin sem bærinn er hvað þekktastur fyrir í klettahlíðinni á gígbarmi stærsta gígs í heimi. Í bænum er margt að skoða, þar er að finna margar minjagripaverslanir, gullsmiði og listamannabúðir. Hægt að fara í reiðtúr á asna niður að höfninni og njóta síðan stórfenglegs útsýnisins í ferð með kláfi upp hlíðina. Gist verður í þrjár nætur á góðu hóteli í útjaðri bæjarins. Sameiginlegur kvöldverður.

Opna allt

10. júní | Hápunktar Santorini

Við höldum í rútuferð um eyjuna og heimsækjum bæinn Pyrgos, fornminjauppgröftinn í Akrótiri og síðar listamannabæinn Oia sem er staðsettur á norðvesturodda Santorini. Við stoppum á Akrotiri til að fá okkur hádegismat og höldum síðan til Oia sem er undurfagur bær þar sem myndefnið er óþrjótandi og birtan einstök. Við þræðum mjóar götur bæjarins, göngum út í Feneyska virkið og njótum þess að vera á þessum yndisfagra stað.

11. júní | Frjáls dagur

Frjáls dagur á Santorini til að njóta höfuðborgarinnar í Fira, fara í göngutúr til Imerovigli eða bara liggja við sundlaugina og sleikja sólina.

12. júní | Siglt til Naxos & skoðunarferð um bæinn

Snemma morguns er siglt til eyjarinnar Naxos þar sem gist verður næstu þrjár nætur. Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir á hótelinu förum við í skoðunarferð um bæinn á Naxos. Gengið verður um þröngar götur, upp í Feneyska virkið, um bogagöng og umlukta húsagarða. Haldið verður út á tangann Portarea þar sem stóra hurðin stendur enn, einu minjar um hof Appóllos sem byggt var hér á 5. öld f. Krist. Að skoðunarferðinni lokinni er sameiginlegur kvöldverður á einum af sjarmerandi veitingastöðum bæjarins.

13. júní | Skoðunarferð um Naxos

Eftir morgunverð förum við í skoðunarferð um eyjuna. Höldum upp í fjöll til þorpanna Halki og Apiranþos sem eru eins og tíminn hafi þar staðið í stað. Fólkið í þorpunum lifir á landinu og kyrrð og ró einkennir alla þeirra lífshætti. Á leiðinni skoðum við gamla ólífuvinnslu og komum við í keramíkverksmiðju. Í Halki eru litlar fallegar verslanir og handverksbúðir en þar getum við fylgst með hvernig Naxosbúar laga drykkinn Kitron sem er eingöngu búinn til á þessari sérstöku eyju. Þorpið Apiranþos, þar sem við borðum hádegisverð, er frægt fyrir það að þar eru allar götur og mörg hús lagðar marmara. Marmarinn var ódýrt byggingarefni og stutt yfir í stóra marmaranámu þar sem getur vel verið að við stöldrum við á leið okkar. Í lokin keyrum við á norðurodda eyjunnar til þorpsins Apollonia, en þar rétt hjá er gömul marmaranáma þar sem risastór marmarastytta var skilin eftir í fornöld vegna þess að hún brotnaði. Við komum til baka á hótelið í eftirmiðdaginn.

14. júní | Frjáls dagur

Frjáls dagur á Naxos til að njóta við sundlaugina, fara á ströndina eða rölta um fallega bæinn.

15. júní | Flogið til Aþenu & ekið til Delfí

Að morgunverði loknum höldum við af stað út á flugvöll og fljúgum um hádegisbilið til Aþenu, þaðan sem við förum með rútu til Delfí. Keyrslan þangað tekur um 3 klst. með stuttu kaffistoppi á leiðinni. Til Delfí komum við seint um eftirmiðdaginn en gist verður eina nótt á góðu hóteli í bænum. Sameiginlegur kvöldverður.

16. júní | Hof Appóllos & Meteora

Í dag skoðum við okkur um í Delfí en svæðið var til forna einn af helgustu stöðum Grikklands. Í hofi Appollós, spáði hin dulúðlega véfrétt fyrir almenningi og aðalsmönnum í hundruðir ára. Við skoðum hofið, leikhúsið, leikvanginn og förum svo í safnið sem hefur að geyma þá dýrgripi sem fundist hafa í jörðu í Delfí. Eftir hádegishressingu verður haldið áfram með rútu til Meteora. Komið verður á hótel rétt fyrir kvöldverð og dvalið eina nótt. Sameiginlegur kvöldverður á veitingastað í sveitinni.

17. júní | Meteora klaustrin & Aþena

Við hefjum daginn á því að skoða Meteora en þar er að finna sérstakt náttúrufyrirbæri af himinháum sandsteinsdröngum. Á miðöldum byggðu munkar og nunnur klaustur uppi á þessum dröngum og eru sum þeirra starfrækt enn í dag. Eftir að hafa skoðað sandsteinsdrangana og tvö af klaustrunum sem þarna standa, verður keyrt áleiðis til Aþenu, höfuðborgar Grikklands en gist verður skammt frá í strandbænum Vouliagmeni í 5 nætur. Sameiginlegur kvöldverður.

18. júní | Gönguferð & frjáls dagur í Vouliagmeni

Frjáls dagur í Vouliagmeni en við byrjum á að fara í stutta gönguferð um bæinn til þess að átta okkur á staðháttum. Bærinn Vouliagmeni er í einstöku uppáhaldi hjá heimamönnum en þar eru fagrar strendur og heilsulind sem upplagt er að njóta í dag. Þar er einnig að finna skemmtilega veitingastaði sem bjóða upp á gríska rétti, ásamt líflegum kaffihúsum. Stutt er til bæjarins Glyfada þar sem finna má gott úrval af verslunum fyrir þá sem vilja kíkja í búðir, ásamt kaffihúsum og veitingastöðum.

19. júní | Epidárus, Nafplíon & Mýkena

Að loknum morgunverði höldum við til Kórinþu þar sem við stöldrum við samnefndan skipaskurð sem grafinn var á síðari hluta 19. aldar. Þaðan höldum við til Epidárus, þar sem gefur að líta stærsta útileikhús Grikklands frá 4. öld f. Krist en leikhúsið státar af besta hljómburði allra fornaldarleikhúsa heimsins. Við höldum áfram til Nafplíon, lítils bæjar frá tímum Feneyjarmanna sem var fyrsta höfuðborg hins frjálsa gríska ríkis. Eftir stutt stopp og hádegishressingu höldum við leið okkar áfram til Mýkenu, þar sem við skoðum háborg Agamemnons, ljónahliðið og eina af fjöldamörgum býkúpulsgröfum svæðisins. Komið verður á hótel fyrir kvöldverð.

20. júní | Sigling til þriggja eyja

Árla morguns verður keyrt til hafnar í Paleo Faliro og stigið um borð í skip sem siglir til þriggja eyja í Saróníska flóanum. Fyrsti áfangastaður er litla og huggulega eyjan Hydra þar sem engir bílar eru og aðeins hægt að ganga um mjóar hellulagðar göturnar eða leigja sér asna. Næst er stutt stopp á eyjunni Poros með sín óteljandi sítrónutré og snoturt þorp. Siglt verður í gegnum mjótt og fallegt sund sem skilur eyjuna frá Pelópsskaganum. Hádegisverður á skipinu og síðasti áfangastaðurinn er eyjan Aegina sem er fræg fyrir mikla ræktun á pistasíuhnetum en einnig fyrir þorpið sem er afskaplega hlýlegt í bláum og hvítum tónum. Í bakaleiðinni er skemmtun á skipinu með grískri tónlist og dönsum.

21. júní | Frjáls dagur í Vouliagmeni

Frjáls dagur í Vouliagmeni þar sem upplagt er að njóta enn betur líflegra kaffihúsa, fagurs umhverfis eða heilsulindarinnar.

22. júní | Heimferð frá Aþenu

Eftir þessa úrvalsferð er komin tími til að kveðja. Að loknum morgunverði höldum við á flugvöllinn í Aþenu þar sem flogið verður með Play til Íslands kl. 10:00 og lending að staðartíma í Keflavík kl. 13:20. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 36 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti