Maraþon í Chicago 2019

Maraþon í Chicago 2019

Ægir Magnússon fór með Bændaferðum í þrjú maraþon á árinu 2019. Hér segir hann okkur frá sinni upplifun af því hvernig var að hlaupa maraþon í Chicago.

Í október var Chicago maraþonið haldið í 42. sinn. Chicago maraþonið er ekki eingöngu þekkt fyrir hraða og flata braut heldur jafnframt ómælda stemningu sem hvetur þátttakendur til dáða og gerir upplifunina einstaka. Maraþon hlaupaleiðin er sannkölluð skoðunarferð um þessa sögufrægu borg en farið er um 29 hverfi borgarinnar og bæði byrjað og endað í Grant Park. Maraþonið er með vinsælustu maraþonum heims og þangað koma keppendur frá öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna og frá yfir 100 löndum heims. Ægir Magnússon var einn þessara fræknu hlaupara en þetta var eitt þriggja maraþona sem hann hljóp með Bændaferðum á árinu. 

 
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og af hverju?

Ég byrjaði að hlaupa öðru hverju fyrir 18 árum en fyrir alvöru árið 2012. Vinnufélagi minn var gamall hlaupari og áhugamaður um hlaup. Hann hvatti mig til þess að taka þátt í keppnum og var hann minn fyrsti þjálfari. Frá árinu 2013 hef ég hlaupið 24 maraþon og 16 af þeim erlendis.
Í febrúar 2017 fékk ég hjartaáfall og var lífgaður við. Ég hljóp maraþon þremur mánuðum seinna og hljóp fjögur maraþon það árið. Árið 2018 hljóp ég 7 maraþon og í ár voru þau 6, þar af 5 erlendis. Ég hef hlaupið í 12 löndum og rúmlega helming þeirra hljóp ég á undir 4 tímum og besti tími minn er 3:47. Mér gengur best þegar það er kalt í veðri en illa þegar hitinn er kominn yfir 20°C og sólin skín. 

 
Af hverju Chicago maraþonið og hvernig undirbjóst þú þig fyrir það?

Það var eiginlega tilviljun sem réð því að ég ákvað að taka þátt. Við hjónin ætluðum til Moskvu og ég í maraþonið þar en svo nenntum við ekki að skipuleggja ferðina sjálf. Við sáum að Bændaferðir buðu upp á þessa ferð til Chicago og ákváðum þá að fara þangað í staðinn. Við sjáum ekki eftir því.

Ég undirbjó mig ekkert sérstaklega fyrir þetta hlaup. Besta formið er nefnilega að vera alltaf í formi og ég æfi jafnt allt árið. Ég hleyp um 3000 km á ári og nota hlaupabretti þegar það er leiðinlegt veður. Ég er með toppaðstöðu í bílskúrnum, þar geri ég líka mikið af styrktaræfingum og teygjum. Ég hleyp oftast einn því það fer minnstur tími í það. Ég hef líka farið á hlaupaæfingar hjá Sigga P. og fengið hjá honum æfingaprógramm, farið á fræðslufundi og hlustað á góð ráð frá reyndum hlaupurum og nýtt mér þau. Ég fer mikið í sund, heitt og kalt og fer í íþróttanudd hálfsmánaðarlega. Ég reyni að hlusta á líkamann og fara vel með hann. Ég er líka bindindismaður.

Í vikunni fyrir maraþonhlaup borða ég pasta á mánudegi og borða ekki þungar máltíðir þá viku aðeins fisk, kjúkling, pasta og pizzu. Ég reyni að sofa vel og hvílast sem mest þessa viku, gera ekkert sem má bíða þangað til seinna.

Á hlaupadegi vakna ég fjórum tímum fyrir hlaup og borða skál af Cheeriosi með mjólk, tvær brauðsneiðar með smjöri og osti, eitt kremkex (Sæmund í sparifötunum) og einn bolla af sterku kaffi. Þegar ég hleyp erlendis þá hef ég allan hlaupamatinn með mér. Svo byrjar stressið að vera búinn að tæma sig fyrir hlaupið. 

 
Hvað fannst þér eftirminnilegast við hlaupið og hvað var mest krefjandi?

Í Chicago maraþoninu voru 46.000 þátttakendur. Það kom á óvart hversu auðvelt var að koma sér í hlaupið og koma sér fyrir við rásmarkið. Allt skipulag í kringum hlaupið var til fyrirmyndar og gekk vel fyrir sig. Það var líka gaman að sjá hve áhorfendur voru margir og fjörið mikið. Ég er samt kannski öðruvísi en aðrir að því leiti að áhorfendur hafa engin áhrif á mig en ég veit um fólk sem velur maraþon eftir stemningu og fjöri. Í mínum huga snýst þetta bara um að byrja og enda.

 
Hvað fer í gegnum hugann þegar þú hleypur maraþon?

Í hlaupinu hugsa ég ýmislegt. Ég get verið að fylgjast með eldsneytisverðinu á bensínstöðunum sem ég hleyp framhjá. Svo er ég að horfa á fatnað og hlaupastíl annarra hlaupara. Þegar ég er búinn með hálft maraþon þá hugsa ég að ég sé kominn í seinni hálfleik. Ég ber hlaupið oft saman við æfingahlaupaleiðina og segi við sjálfan mig að ég eigi bara eftir að hlaupa frá einhverjum stað og heim.
Vaninn er svo að fara eitthvað fínt út að borða að hlaupi loknu og það er skemmtilegast ef hópur af hlaupurum fer saman og gleðst yfir árangrinum.

 
Af hverju valdir þú að fara með Bændaferðum og hvernig upplifðir þú þjónustuna, ferlið og utanumhaldið þar?

Ég er búinn að fara margar ferðir með Bændaferðum og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Fararstjórarnir hafa hingað til verið hver öðrum betri. Skipulagið er alltaf til fyrirmyndar og fararstjórar alltaf til staðar. Ég hef sjálfur farið í nokkur hlaup á vegum Bændaferða og mæli heils hugar með þeim. 

 
Bændaferðir bjóða upp á spennandi og fjölbreyttar hlaupaferðir.

Bændaferðir skipuleggja einnig hópferð í önnur hlaup, hafðu samband með ykkar óskir!

 

 

Tengdar ferðir