Næst á dagskrá Transviamala

Næst á dagskrá Transviamala

Bændaferðir bjóða upp á spennandi og skemmtilega utanvegaveislu í svissnesku Ölpunum þar sem tekist er á við hinar krefjandi og fallegu hlaupaleiðir Transviamala og Transruinaulta. Nú í október fór frækinn hópur hlaupara á vegum Bændaferða í þetta stórkostlega hlaup og var Selfyssingurinn Aðalbjörg Skúladóttir (Abba) ein af þeim. Við vorum fljót að grípa hana þegar heim var komið og báðum hana að segja okkur sína ferðasögu og upplifun af Transviamala og Transruinaulta.

 
Segðu okkur aðeins frá þinni hlaupavegferð

Ég byrjaði að hlaupa um vorið 2011. Þá var ég 40 ára, leið illa andlega og var á erfiðum stað í vinnu. Ég var líka búin að eiga við þráláta verki í mjöðmum og vissi að eitthvað þyrfti að breytast hjá mér. Ég byrjaði þá á algjöru byrjendaprógrammi sem kallast "Úr sófanum í 5 km" sem er 9 vikna prógramm. Ég fylgdi því samviskusamlega og fann hvernig ég varð jafnt og þétt betri og betri í skrokknum.
Markmið mitt þá var að hlaupa 5 km. í Brúarhlaupinu í september en þegar kom að því var ég þegar búin að fara 8 km. svo markmiðið breyttist auðvitað í að hlaupa 10km. sem ég og gerði á tæplega 67 mínútum.

Þarna um sumarið fór ég á þriggja kvölda hlaupanámskeið hjá Torfa í hlaup.is sem var algjörlega frábært. Þar var fjallað vel um um allt sem varðar hlaupin og ég er sannfærð um að þetta námskeið varð til þess að ég hef haldið áfram að hlaupa og gengið svona vel. Eftir mitt fyrsta keppnishlaup fór ég svo að hlaupa reglulega með hlaupahópnum Frískum Flóamönnum hér á Selfossi.

 
Svo fór boltinn að rúlla

Ég tók svo aftur þátt í Brúarhlaupið ári síðar og bætti þá tímann minn um tæpar 9 mín. Aðeins þremur árum síðar fór ég svo mitt fyrsta Laugavegshlaup. Við hjónin höfðum þá í mörg ár farið inn í Þórsmörk til að fylgjast með hlaupurunum koma í mark og okkur þótti þetta spennandi. Þegar ég kom svo sjálf í mark 2014 þurfti ég eiginlega að klípa sjálfa mig til að trúa því að ég hefði náð að klára þetta. Þvílík upplifun og gleði. Mér leið stórkostlega allan tímann og hljóp með góðri hlaupavinkonu úr Frískum Flóamönnum sem var að hlaupa þetta í þriðja sinn. Hlaupahópurinn fór svo með Bændaferðum til München 2015 og þar hljóp ég mitt fyrsta götumaraþon og kláraði það á 4klst. og 37mín. Ég hef svo hlaupið hálft maraþon, nokkrum sinnum í Reykjavíkurmaraþoni, í Haustmaraþoni félags maraþonhlaupara og 2018 fór ég með Frískum Flóamönnum og Bændaferðum til Tallin í Eistlandi og hljóp þar hálft maraþon.

Transviamala hlaupaferð Bændaferða

 
Næst á dagskrá – Transviamala og Transruinaulta

Transviamala hlaupið hafði verið rætt í okkar hópi nokkrum sinnum. Ein í hópnum okkar hafði sagt okkur frá þessu og reynt að fá okkur til að koma með sér í það, en hún hafði heyrt vel af því látið. Þegar kom að því að hópurinn skyldi byrja að skipuleggja næstu utanlandsferð sem átti að fara í tilefni af 20 ára afmæli hópsins ákváðum við að reyna að komast í Transviamala. Við snerum okkur því til Bændaferða og óskuðum eftir því að þau myndu sjá um skipulagninguna fyrir okkur og það gekk nú aldeilis vel upp!

Undirbúningurinn fyrir hlaupið stóð náttúrlega yfir í allt sumar. Ég hljóp jafnt og þétt og jók við. Ég fór sem eftirfari hálft Laugavegshlaup, hljóp hálft maraþon í Reykjavík í ágúst og svo marga túra í Reykjadalinn og á Hengilssvæðið. Hlaupahópurinn fór saman í brekkur í okkar nágrenni, í Ölfusi og Hveragerði þar sem við eigum bara engar brekkur hér á Selfossi. Svo fór ég í Ketilbjöllutíma tvisvar í viku allan september og fram í byrjun október sem hjálpaði gríðarlega mikið en það eru frábærar æfingar með hlaupunum til að styrkja miðjusvæðið og stóru vöðvana í rassi og lærum.

 
Gleðin og félagsskapurinn eftirminnilegast

Ég á erfitt með að segja hvað stóð upp úr í hlaupinu því það var nú bara allt frábært við þessa upplifun í Sviss. Sem betur fer var bjart veður svo við gátum notið stórkostlegs útsýnis í þessu fallega náttúruumhverfi og móttökur á drykkjarstöðvum voru mjög góðar. Það var ótrúlega gaman að hlaupa tvo daga í röð og upplifa hvað það var í rauninni lítið mál. Ég var búin að kvíða smá fyrir því að stígarnir yrðu erfiðir yfirferðar en það var nú aldeilis ekki. Eftirminnilegast var örugglega félagsskapurinn og gleðin í hópnum þar sem allir voru að njóta og skemmta sér allan tímann. Allir komust heilir í mark og kláruðu sín hlaup með stæl sem ekki er endilega sjálfgefið. Það sem kom mér mest á óvart voru móttökurnar á hótelinu en það er fjölskyldurekið og tekið var á móti okkur á persónulegum nótum. Frúin heilsaði öllum með handabandi og herrann gaf góð ráð fyrir hlaupin þar sem hann hafði sjálfur tekið þátt í þeim.

Transviamala hlaupaferð Bændaferða

Stresslaus undirbúningur með Bændaferðum

Ef einhver þarna úti er að velta fyrir sér að taka þátt á næsta ári, þá ráðlegg ég þeim að hugsa sig ekki tvisvar um. Þetta er frábært hlaup og gríðarlega vel skipulagt í alla staði. Það var meiriháttar að vera með Bændaferðum sem voru búnar að skipuleggja allt og það var allt svo vel undirbúið. Hópurinn minn var líka alveg á því að það væri auðveldara að fara í þessa ferð í gegnum trausta ferðaskrifstofu heldur en að þurfa að standa í öllum undirbúningi sjálf fyrir hlaupið. Við sáum fyrir okkur hvað það yrði mikil vinna fyrir okkur og gæti skapað leiðindi innan hópsins ef eitthvað færi úrskeiðis. Við vorum himinlifandi ánægð með alla þjónustu Bændaferða og Kjartan fararstjóri var stórkostlegur!

Staðsetning hótelsins var líka algjörlega frábær en það var ca. 500 m. ganga heim á hótel úr markinu fyrri daginn og síðan hófst seinna hlaupið fyrir utan hótelið.

 
Þakklát og líður vel á hlaupum

Það er ýmislegt sem fer í gegnum hugann þegar maður hleypur svona hlaup. Ég hugsa til dæmis alltaf um það hvað ég er þakklát fyrir að geta tekið þátt í svona viðburðum. Það er ekki sjálfgefið og þetta er lífið í mínum huga. Tíminn skiptir mig ekki máli þótt auðvitað sé gaman að bæta tímann sinn.

Þegar erfiði kaflinn kemur í hlaupum þá er maður yfirleitt búinn með meira en það sem er eftir, svo þá liggur beint við að hugsa bara um hvað það verður mikið æði að komast í mark og leyfa sér að hlakka til. Best er samt ef manni líður svo vel að mann langi helst ekki til að hlaupið taki enda.

Að hlaupi loknu er best að vera í góðra vina hópi og gleðjast saman yfir árangrinum og fá sér a.m.k. einn stóran bjór og gott að borða.

 Adda eða Aðalbjörg í Transviamala hlaupaferð Bændaferða
 

Bændaferðir bjóða upp á spennandi og fjölbreyttar hlaupaferðir.

Bændaferðir skipuleggja einnig hópferð í önnur hlaup, hafðu samband með ykkar óskir!

 

 

Tengdar ferðir