Maraþon í London 2019

Maraþon í London 2019

Felix Sigurðsson er reyndur hlaupari með mörg maraþon á sinni afrekaskrá. Hann er einn 14 vaskra hlaupara sem tóku þátt í maraþoninu í London þann 28. apríl sl. Metfjöldi hlaupara tók þátt í hlaupinu að þessu sinni, eða 42.906 manns. Þess má til gamans geta að 7.000 manns tóku þátt í fyrsta London maraþoninu þegar það var haldið árið 1981. Bændaferðir létu sig að sjálfsögðu ekki vanta og leiddu rúmlega 20 manna hóp sem samanstóð af hlaupurum og dyggum stuðningsmönnum. Við báðum Felix að segja okkur sína ferðasögu.

 
Felix, segðu okkur aðeins frá sjálfum þér

Ég er 56 ára Reykvíkingur, giftur og á tvö uppkomin börn. Ég starfa sem lagerstjóri í stóru bakaríi og hef unnið þar undanfarin fjögur ár. Áður hafði ég starfað í áratug við dreifingu Fréttablaðsins og þar á undan hjá Eimskip við ýmis störf. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á íþróttum og þær hafa verið mitt helsta áhugamál lengi. Ég stundaði boltaíþróttir hjá Fylki fram á fullorðinsár, en svo fóru dætur mínar að æfa frjálsar íþróttir hjá ÍR og því prófaði ég að byrja hlaupa með skokkhóp ÍR og er þar enn. 

 
Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og af hverju?

Fyrsta stóra hlaupið mitt hljóp ég árið 1994, en þá hljóp á hálft maraþon í Reykjavík og náði fínum tíma. Ég hljóp þá á 1:42 en hélt ekki áfram að hlaupa eftir maraþonið, hefði líklega þurft að tilheyra góðum hópi á þessum árum. Í raun gerðist svo ekki meira fyrr en félagi minn skoraði á mig að hlaupa með sér maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu 15 árum seinna. Árið var 2009 og ég var orðinn 114 kg og hann sá góða sigurmöguleika með því að skora á mig. Ég skoraðist ekki undan heldur setti allt í gang, kláraði maraþonið á rúmum fjórum tímum og leið alveg stórkostlega á eftir. Þarna var ég búinn að finna hillu sem mér leið vel á, byrjaði að hlaupa með skokkhóp ÍR og hef ekki hætt síðan.

Maraþon í London 2019

 
Hver eru þín helstu hlaupaafrek hingað til?

Ég vil ekki gera upp á milli afreka því þau hafa öll merkingu í mínum huga. Ég er búinn að hlaupa 11 maraþon, 5 hér heima og 6 erlendis. Ég hef hlaupið í Kaupmannahöfn, Berlín, Barcelona, Garda, Chicago og London. Ég hef líka hlaupið Laugaveginn tvisvar, sem var mjög skemmtilegt. Þar að auki hljóp ég eitt ultra hlaup á Tenerife, sem er líklega erfiðasta hlaup sem ég hef farið. Ég hef verið duglegur að prófa ný og skemmtileg hlaup og hef haft mjög gaman af því.

 
Af hverju ákvaðstu að taka þátt í maraþonin í London og hvernig undirbjóst þú þig fyrir það?

Margir félagar mínir í skokkhópnum hafa hlaupið maraþon í London og hrósuðu því í hástert. Ég og félagi minn ákváðum því að slá til og skrá okkur. Við vorum í lottóinu fyrir hlaupið en komumst ekki að. Við ákváðum þess vegna að skrá okkur á biðlista hjá Bændaferðum upp á von og óvon um að einhverjir dyttu út og við kæmumst að. Sú varð svo raunin, en við komumst báðir inn í hópinn og skelltum okkur. Af ýmsum ástæðum náði ég ekki að æfa mjög mikið fyrir hlaupið og stuttu fyrir hlaup þóttist ég finna á mér að ég myndi ljúka hlaupinu á rúmlega 4 klst. Þarna reyndist ég sannspár, en tími minn í hlaupinu var 4:04.

 
Hvað var skemmtilegast/eftirminnilegast við hlaupið og hvað var mest krefjandi/óvæntast?

Það skemmtilegasta við hlaupið fannst mér vera fjöldi áhorfenda á hliðarlínunni allan tímann og öll hvatningin sem hlauparar fengu út hlaupið. Þetta var alveg hreint stórkostlegt. Ég hef aldrei áður náð að hlaupa heilt maraþon skærbrosandi allan tímann. Þetta var alveg magnað hlaup og ég skráði mig strax mánudaginn á eftir í lottóið fyrir næsta ár. Mér fannst í raun ekkert krefjandi í þessu hlaupi vegna þess að gleðin og hvatningin var svo mikil. Hún yfirvann öll erfiði og fyrir vikið fannst mér hlaupið ekki krefjandi.

 
Hvaða ráð myndir þú vilja gefa þeim sem eru að hugsa um að taka þátt á næsta ári?

Fyrst og fremst að muna að njóta, njóta og njóta. Fólk sem er að fara í sitt fyrsta maraþon má ekki gleyma sér í að hugsa of mikið um tímann í hlaupinu, heldur hvet ég það til að njóta stundarinnar og koma brosandi í mark. Mann á að langa strax til að gera þetta aftur. Það var líka svo gott í þessu hlaupi að það voru drykkjarstöðvar víða og allt vatn í flöskum þannig að maður gat alltaf verið með flösku í hendinni. Það eina sem fólk þarf að hafa með sér eru einhver gel ef fólk notar svoleiðis.

 
Ert þú með einhverja ákveðna hluti sem þú gerir alltaf áður en þú ferð af stað í stór hlaup? Hvað fer í gegnum hugann á þér meðan á hlaupi stendur?

Eftir öll þessi hlaup er margt komið í fastar skorður hjá mér og það er ýmislegt sem ég geri alltaf eins. Ég geng frá fatnaði, skóm og flögu kvöldið áður og ég borða aldrei neitt nýtt í ferðinni. Í hlaupinu sjálfu gæti ég þess að eyða ekki orku í að fara krókaleiðir fram úr öðrum hlaupurum heldur nota tímann til þess að skoða mig aðeins um og tek jafnvel myndir og selfies þegar ég er ekki að flýta mér.

Maraþon í London 2019

 
Áttu þér einhverja möntru sem þú ferð með þegar þú ferð í gegnum erfiða hluta hlaups?

Ég skipti oft hlaupinu niður í 6x7 km hlaup (Icelandair hlaup) og þegar róðurinn fer að þyngjast, þá minni ég mig á að ég á aðeins eitt Icelandairhlaup eftir og það er nú ekki mikið mál.

 
Hvernig verðlaunaðir þú þig að hlaupi loknu?

Ég byrjaði á að verðlauna mig með einum bjór að hlaupinu loknu, en svo fórum við á flott steikhús um kvöldið þar sem við borðuðum vel og lengi. Ég átti það svo sannarlega skilið og líka hlaupafélaginn og hvatningasveitin. Mig langar að þakka Bændaferðum fyrir að halda utan um þessa frábæru ferð. Allt sem sneri að Bændaferðum í ferðinni stóðst algjörlega, bæði hvað varðar hótelið og allt sem tengdist hlaupinu. Ég mæli hikstalaust með því að fólk velji að fara í hlaupaferðir á þeirra vegum.

Maraþon í London 2019

Átt þú skemmtilega ferðasögu sem þig langar að deila með okkur? Þá þætti okkur vænt um að heyra frá þér.

Tryggðu þér örugga skráningu í vinsælustu maraþon heims!

 
Bændaferðir bjóða upp á spennandi og fjölbreyttar hlaupaferðir.

Bændaferðir skipuleggja einnig hópferð í önnur hlaup, hafðu samband með ykkar óskir!

 

 

Tengdar ferðir