Maraþon í Tokýó 2019

Maraþon í Tokýó 2019

Þann 3. mars síðastliðinn voru 37.500 hlauparar ræstir af stað í Tókýó maraþoninu, sem er eitt það stærsta í heimi. Borgin iðaði af lífi og Bændaferðir voru að sjálfsögðu á svæðinu með hóp 15 spenntra hlaupara. Einn þeirra var Gunnar Þór Möller sem var að fara í sína fimmtu hlaupaferð á vegum Bændaferða og ljúka við sitt sjötta Abbott World Majors hlaup.

 
Gunnar, segðu okkur aðeins frá sjálfum þér

Ég er 45 ára fæddur og uppalinn Reykvíkingur og fjölskyldumaður, giftur og á tvo heilbrigða stráka. Ég rek mitt eigið fyrirtæki ásamt góðum félögum. Þetta er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig útleigu, ráðgjöf og sölu á tæknibúnaði tengdum hljóði og mynd. Ég hef ávallt haft gaman af íþróttum og hef stundað þær með hléum síðan ég var barn. Helstu áhugamál mín eru fjölskylda, vinir, útihlaup, íþróttir og stangveiði.

Gunnar_3.jpg

Hvenær byrjaðir þú að hlaupa og af hverju?

Ég byrjaði að hlaupa af fullum krafti árið 2010 en þá fór ég mitt fyrsta Ultra Marathon þegar ég hljóp Laugaveginn. Fram að því hafði ég verið að bæta mig í að hlaupa 5 – 10 km æfingahlaup. Það sem dreif mig áfram var að ég vildi koma mér í betra líkamlegt form. Ég hafði ávallt verið þungur og vildi losa mig við einhver kíló. Mér fannst hlaup vera góð aðferð til þess þar sem brennslan er mikil, mér finnst það gaman og fæ  mikið út úr því að hlaupa langt. Ég nýt þess að vera einn með sjálfum mér og ná ákveðinni hugarró, hvort sem er úti í náttúrunni eða á meðal fólks í götuhlaupum.

 
Hver eru þín helstu hlaupaafrek hingað til?

Þau eru nokkur. Frá því að ég byrjaði þessa vegferð hef ég tekið þátt í fjölmörgum hlaupum. Þau sem standa upp úr eru Laugavegshlaupin 2010, 2011, 2013 og 2017. Þegar ég varð fertugur árið 2013 ákvað ég að taka þátt í New York maraþoninu af því að þetta var nú stórafmælisár. Þá ferð fór ég með Matthildi hjá Hlaupaferðum, sem rann svo inn í Bændaferðir. Þetta var frábær hópur og þátttaka í hlaupinu átti heldur betur eftir að vinda upp á sig því ég fór í kjölfarið að safna borgarmaraþonum. Eftir hlaupið langaði mig að ljúka „The Big Six“ í Abbott World Majors Marathon.

Ég fór með Bændaferðum til Berlínar 2014 undir styrkri stjórn Sævars fararstjóra. Þjónustan var algjörlega til fyrirmyndar, hótelið flott og hópurinn æðislegur. Næst fór ég með Bændaferðum í London maraþonið 2015. Hér var það sama uppi á teningnum, frábær upplifun, góð þjónusta, hótelið vel staðsett og allt til fyrirmyndar. Árið 2016 fór ég með hóp á eigin vegum til Chicago til að taka þátt í maraþoninu þar, en við höfðum öll fengið númer í gegnum lottóið. Ég fór í Boston maraþonið með Bændaferðum 2018 þar sem Ívar Adolfs sýndi hvað hann er mikill topp fararstjóri. Rúsínan í pylsuendanum var svo Tókýómaraþonið núna í mars 2019. Við fórum tveir félagarnir með Bændaferðum og svo einn sem var á eigin vegum. Þetta var í alla staði frábær ferð, flott hótel og vel að öllu staðið. Allar upplýsingar frá Bændaferðum mjög fínar og allt stóðst eins og talað hafði verið um í upphafi.

Gunnar_4.jpg

Af hverju ákvaðstu að taka þátt í Tókýómaraþoninu og hvernig undirbjóst þú þig fyrir það?

Með því að fara í Tókýó maraþonið var ég að klára stóran áfanga, einn þann stærsta á minni lífsleið. Tókýó var lokahnykkurinn hjá mér til þess að klára „The Big Six“ seríuna af Abbott World Majors maraþonunum sem ég hafði unnið að frá því ég hljóp New York maraþonið árið 2013.

Undirbúningurinn var með hefðbundnu sniði. Í byrjun nóvember byrjaði ég í hlaupaprógrammi hjá Sigga P. sem samanstóð af útihlaupi 4 x í viku og sprettæfingu í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal 1 x í viku. Undir styrkri handleiðslu Sigga safnaði ég réttum kílómetrafjölda í fæturna og æfði tempó og spretti fyrir hraðabreytingar og til að byggja upp styrk. Svo tók ég auka styrktaræfingar með líka. Stuttu fyrir hlaupið veiktist ég en harkaði það af mér og mætti einbeittur í hlaupið.

 
Hvað var skemmtilegast/eftirminnilegast við hlaupið og hvað var mest krefjandi/óvæntast?

Það skemmtilegasta fannst mér að vera að takast á við þetta með góðum hlaupavinum mínum, þeim Guðjóni Haraldssyni og Ævari Björnssyni. Umhverfið var líka skemmtilegt og það var stórkostlegt að vita af því að með þessu væri ég að klára síðasta stóra hlaupið af þessum sex sem ég er búin að vinna í frá árinu 2013. Það var líka magnað að mæta stórstjörnum úr hlaupaheiminum þar sem brautin var þannig sett upp að maður mætti hlaupurum sem voru á undan.

Það sem var mest krefjandi voru kuldinn og rigningin meðan á hlaupinu stóð. Hitastigið var um 6-8 gráður og létt rigning en sem betur fer var enginn vindur. Við sem erum frá Íslandi erum vön ýmsu og vílum ekki fyrir okkur að hlaupa í kulda og sudda, en þetta var samt krefjandi.

Gunnar_5.jpg

Hvaða ráð myndir þú vilja gefa þeim sem eru að hugsa um að taka þátt á næsta ári?

Ég mæli með því að fólk æfi sem mest úti ef veður leyfir. Ég mæli líka með því að fólk kynni sér borgina vel og komi tímanlega til Tókýó til þess að aðlagast tímamismuninum vel. Það er 9 klukkustunda munur og það getur tekið líkamann smá tíma að jafna sig á því. Það er mikilvægt að hvílast vel fyrir hlaupið og vera tímanlega í öllu, borgin er stór og það tekur tíma að komast á milli staða. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að panta flugsæti með góðu fótaplássi í heimfluginu. Svo má ekki gleyma að njóta menningarinnar í þessari fallegu borg.

 
Ert þú með einhverja ákveðna hluti sem þú gerir alltaf áður en þú ferð af stað í stór hlaup? Hvað fer í gegnum hugann á þér meðan á hlaupi stendur?

Ég er allt með gátlista yfir allt sem ég á að taka með mér o.s.frv. þannig að ekkert í undirbúningnum gleymist. Ég passa líka að ferðast með hlaupagírinn með mér í handfarangri. Reyni að hvílast vel fyrir hlaup, borða hollan og næringarríkan mat og drekka vel.

Á meðan hlaupinu sjálfu stendur er ég að fylgjast vel með fólki sem er að hvetja hlauparana áfram. Ég fylgist með menningunni, stórum byggingum og drekk í mig stemmninguna í hlaupinu. Ég gef mér líka tíma til að tala við aðra hlaupara, hvetja þá áfram og þigg hvatningarorð frá þeim.

Gunnar_2.jpg

Áttu þér einhverja möntru sem þú ferð með þegar þú ferð í gegnum erfiða hluta hlaups?

Það er eitt sem fleytir mér langt á síðustu 10 kílómetrunum. Þá minni ég mig á að ég er vanur að hlaupa 10 km og það er ekkert mál fyrir mig að klára það. Þá fæ ég einhvern drifkraft til þess að klára. Málið er nefnilega að þegar hlaupari er búinn að hlaupa 30 km þá vill líkaminn hætta, en hausinn segir manni að halda áfram.

 
Hvernig verðlaunaðir þú þig að hlaupi loknu?

Ég byrja alltaf á því að samgleðjast með hlaupfélögum mínum og konunni minni. Svo förum við á bar og fáum okkur „verðlauna bjór“! Svo um kvöldið fer hópurinn iðulega út að borða saman. Þá verður góð og safarík nautasteik oft fyrir valinu. Í Tókýó var ekki annað hægt en að leyfa sér vel verðskuldaða Kobe steik.

20190303_205003_KOBE Steik.jpg


Við þökkum Gunnari fyrir að deila ferðasögunni sinni með okkur og erum þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í hans vegferð í átt að „The Big Six“.

Hefur þú skemmtilega Bændaferðasögu að segja sem þú vilt deila með okkur? Þá þætti okkur gaman að heyra í þér.

Tryggðu þér örugga skráningu í vinsælustu maraþon heims!

 
Bændaferðir bjóða upp á spennandi og fjölbreyttar hlaupaferðir.

Bændaferðir skipuleggja einnig hópferð í önnur hlaup, hafðu samband með ykkar óskir!

 

 

Tengdar ferðir