Regína Harðardóttir

Regína Harðardóttir

Regína Harðardóttir hefur unnið í fjöldamörg ár á alþjóðavettvangi. Í rúm 17 ár vann hún hjá UNICEF og Þróunarstofnun Sameinuðu Þjóðanna, UNDP, í Kaupmannahöfn en lét af störfum undir lok 2016. Hún vann hjá báðum stofnunum við starfsmannahald þar sem hennar daglegu störf fólust í að leiðbeina og aðstoða starfsmenn m.a. í Afríku og Miðausturlöndum. Vinnan fór fram a ensku, frönsku og dönsku en Regína lagði einnig stund á spænskunám hjá Sameinuðu Þjóðunum í 5 ár.

Regína útskrifaðist með stúdentspróf frá Menntaskólanum í Hamrahlíð 1971 og fór síðan til starfa í utanríkisráðuneytinu og í íslenska sendiráðinu í Brussel. Hún vann einnig í franska sendiráðinu í Reykjavík í mörg ár, m.a. við þýðingar á íslenskum dagblöðum, bæði í verslunardeildinni og á skrifstofu sendiherrans. Hún var búsett í S-Frakklandi frá 1975 til 1978 þar sem hún vann hjá útgáfu- og kortagerðafyrirtækinu ACTES Sud í Arles.

Regína tók leiðsögupróf á ensku og frönsku frá Leiðsöguskóla Íslands árið 1983 og vann við leiðsögn erlendra ferðamanna á Íslandi í þrjú sumur. Hún var meðstofnandi og framkvæmdastjóri veitingahússins Þrír Frakkar og vann þar í þrjú ár. Mesta ánægjan við það starf var að upplifa daglega ánægju gesta með bæði veitingar og þjónustu.

Aðaláhugamál Regínu eru tungumál, alls konar fróðleikur um alþjóðamál og að umgangast fólk frá sem flestum heimshornum og menningarheimum, gjarnan í eldhúsinu og að kynnast matseld frá framandi slóðum.