Jónas Þór

Jónas Þór

Jónas Þór er fæddur í Reykjavík. Hann lauk prófi frá Háskóla Íslands árið 1977 og flutti það ár til Winnipeg í Manitoba. Að loknu framhaldsnámi í sagnfræði frá Manitobaháskóla var Jónas ráðinn ritstjóri Lögbergs-Heimskringlu og kenndi um leið við íslenskudeild Manitobaháskóla. Hann bjó Í Kanada í tíu ár.

Saga Íslendinga í Vesturheimi hefur lengi átt hug hans allan og liggja eftir hann nokkur rit, fjölmargar greinar og útvarpsþættir. Íslendingadagsnefndin á Gimli réði Jónas til að skrifa sögu hátíðarinnar á ensku og kom bók út árið 1987. Hann lauk við landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi , Icelanders in North America: The First Settlers, sem kom út hjá University of Manitoba Press árið 2002. Loks komu út tvö rit um styttu Jóns Sigurðssonar árið 2011. Í Kanada undir nafninu Monument in Manitoba en á Íslandi kom út Varðinn í vestri, sem Ormstunga gaf út.

Jónas hefur um árabil skipulagt ferðir sem á einn eða annan hátt tengjast sögu íslensku vesturfaranna í Vesturheimi. Hann hefur farið með hópa á nánast alla staði í Norður-Ameríku þar sem Íslendingar settust að á vesturfaratímabilinu. Þá hefur hann skipulagt ferðir til Íslands fyrir afkomendur vesturfaranna.

Umsagnir farþega

Frábær fararstjóri sem hugsar vel um hópinn, er fræðandi og skipulagður. Jónas er einnig mjög hlýr maður og ánægjulegt að njóta þekkingar hans af Vesturheimi.

Skemmtilegur fararstjóri sem blandar saman fróðleik og gríni. Alltaf tilbúinn til að redda öllu.

Hefur mikinn áhuga á að fræða farþega um sögu Vestur Íslendinga. Er skipulagður og passar vel uppá alla ferðalangana.

Fróður um svæðið, þægilegur í umgengni og almennilegur í alla staði.