Ferðalýsing & verð

Ferðalýsing & verð

 
27. ágúst           Flug til BarcelonaAndorra

Brottför frá Keflavík kl. 16.40. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst. fyrir brottför. Lending í Barcelona kl. 22.40 að staðartíma og gist verður í heimsborginni Barcelona fyrstu nóttina.

 
 
28. ágúst           Dvergríkið Andorra

Við ökum fallega leið til dvergríkisins Andorra í austanverðum Pýreneafjöllunum. Furstadæmið Andorra var stofnað árið 1278 til að sætta átök milli biskupsins af Urgell og greifans af Foix. Í dag stjórnar biskupinn af Urgell Andorra ásamt forseta Frakklands. Við gistum 2 nætur í höfuðborginni Andorra la Vella sem er í 1029m hæð og er sú höfuðborg Evrópu sem stendur hvað hæst yfir sjávarmáli. Bærinn er mjög líflegur og mannlífið blómstrar. Hótelið sem er í miðbænum býr yfir heilsulind með sauna, tyrknesku gufubaði, nuddpotti og líkamsræktaraðstöðu.

 
 
29. ágúst           Dagur í AndorraAndorra

Við hefjum daginn á fróðlegri skoðunarferð um borgina með heimamann í fararbroddi. Í Andorra, sem liggur í hjarta voldugra Pýreneafjallanna, búa um 85.000 manns. Sveitasjarminn er hér allsráðandi og á leið okkar um sveitir landsins verða á vegi okkar töfrandi bæir sem búa yfir langri og merkri sögu. Öllu þessu kynnumst við nánar sem og menningu þessarar smáþjóðar. Eftir hádegi gefst tími til að rölta um borgina Andorra la Vella og kanna umhverfið nánar á eigin spýtur. Upplagt er að líta inn til kaupmanna, en verslanir í borginni eru um 1.500 talsins með nánast allt sem hugurinn girnist.

 
 
30. ágúst           Tossa de Mar á Costa Brava ströndinni á Spáni

Nú kveðjum við Andorra og fjöllin og stefnum til strandar. Þar bíður okkar miðaldabærinn Tossa de Mar sem stendur við hina glæsilegu Costa Brava strönd. Hér munum við gista í 4 nætur á góðu hóteli nálægt miðbænum. Á hótelinu er frábær aðstaða, útisundlaug með sólbaðsaðstöðu og heilsulind með innisundlaug, sauna og nuddpotti. Boðið er upp á ýmsar heilsumeðferðir gegn gjaldi. Ströndin er í göngufæri.

Tossa de Mar

 
 
31. ágúst           Rólegur dagur í Tossa de Mar - gönguferð

Við kynnum okkur Tossa de Mar nánar á rólegri gönguferð um bæinn. Í gamla bænum er Vila Vella, hverfi byggt á kletti og er það elsti hluti bæjarins. Þar er að finna borgarmúra frá miðöldum og enn er búið í gömlu húsunum innan virkisveggjana. Frá Vila Vella gefur að líta stórkostlegt útsýni yfir klettaströndina. Eftir gönguferðina er tilvalið að rölta um og kanna þetta skemmtilega umhverfi. Finna má margar áhugaverðar litlar verslanir í þessum viðkunnanlega bæ og ströndin er dásamleg. Í nágrenni hótelsins eru minjar frá rómverskum búðum sem vert að skoða.

 
 
1. september           Heimsborgin Barcelona

Á dagskránni í dag er ferð til heimsborgarinnar Barcelona,Kirkjan La Sagrada Familia höfuðborgar Katalóníu, sem er með fegurstu borgum álfunnar. Borgin er þekkt fyrir verk arkitektsins Gaudi, en glæsilegar byggingar hans og annara skreyta borgina hvert sem litið er. Borgin er mjög gömul og með merkilega sögu, en ásýnd hennar og gestrisni íbúanna gera heimsóknina einstaka. Af merkum byggingum má nefna kirkjuna La Sagrada Familia og húsin Casa Battló, Casa Milá og garðinn Güell. Við endum á því að aka upp á hæðina Montjuïc, en þaðan gefur að líta stórkostlegt útsýni yfir borgina.

 
 
2. september           Töfrandi sigling til Lloret de Mar - vínsmökkun

Farið verður í siglingu til Lloret de Mar, eins vinsælasta ferðamannabæjarins við ströndina. Þetta er mjög huggulegur og skemmtilegur bær sem gaman er að rölta um. Þar er að finna fallegu kirkjuna Sant Roma frá 16. öld. Einnig er hægt að fara í skemmtilega göngu eftir ströndinni upp að miðaldavirkinu frá 10. öld. Að lokinni skoðunarferð um bæinn kemur rútan og nær í hópinn, en á leið okkar til baka verður stoppað á markaði þar sem okkur verður boðið upp á vínsmökkun, pylsur og fjölmargar tegundir af salamí.

 
 
3. september           Barcelona - heimferðGaudi

Nú er komið að því að kveðja þennan yndislega stað við Costa Brava ströndina. Um hádegisbilið verður ekið til Barcelona, en þar verður frjáls tími til að kíkja á kaupmenn og skoða sig betur um í borginni sem iðar af mannlífi. Upplagt er að borða kvöldverð á notalegum veitingastað í borginni áður en ekið verður út á flugvöll. Brottför frá Barcelona er kl. 23.45 og lending í Keflavík kl. 02.00 að staðartíma.

 
 
Fararstjóri getur fært dagskrárliði milli daga eftir því sem þörf þykir þegar komið er á staðinn.

 
  
  
Verð: 169.900 kr. á mann í tvíbýli.           Mikið innifalið – athugið sérstaklega!

Aukagjald fyrir einbýli er 32.200 kr.

 
 Spánn
 
Innifalið: 

• Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
• Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
• Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
• Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
• Vínsmökkun og snarl á markaði hjá Lloret de Mar.
• Íslensk fararstjórn.

 
 
Ekki innifalið:

Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur. Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll. Siglingar. Hádegisverðir. Þjórfé.

 
 
Valfrjálst:

Sigling til Lloret de Mar ca. € 20.


Ferðaskilmálar Bændaferða

 

Tengdar ferðir