Konunglega Marokkó

Ævintýraleg ferð til konungsríkisins Marokkó, sem kynnir okkur hrífandi sögu og töfrandi menningarheim landsins. Við upplifum miklar andstæður, fagrar strendur, pálmatré, eyðimerkur og stórbrotin fјöll og heimsækjum heillandi þorp þar sem stundum virðist sem daglegt líf hafi staðið í stað í gegnum aldirnar. Margt er að sjá, skoða og upplifa þ.á m. fornminjar rómversku borgarinnar Volubilis, sem komnar eru á heimsminjaskrá UNESCO. Komið er til Meknes, með sína miklu virkisveggi, og konungsborgin Fes er heillandi, gömul og rík af andalúsískri-márískri byggingarlist. Við kynnumst töfrum sandsins í Merzouga sandöldunum við rætur Sahara eyðimerkurinnar og njótum þess að fylgjast með sólsetrinu í úlfaldaferð. Marrakech er afar töfrandi borg, þar er engu líkara en við séum stödd í ævintýrum Þúsund og einnar nætur. Borgin byggðist upp í eyðimörk og rauðleitu leirhúsin í borginni eru til vitnis um það. Margir þekkja Casablanca sem er litrík og skemmtileg borg og eins förum við til Rabat sem er höfuðborg landsins. Ferðin byrjar og endar á Malaga á Spáni og þaðan verður sigld stutt leið yfir til Tangier í Marokkó. 

Verð á mann í tvíbýli 629.700 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 175.500 kr.

 
Innifalið

  • Áætlunarflug með Play til og frá Malaga og flugvallaskattar. 
  • Ferjusigling til og frá Marokkó.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði.
  • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
    (M = morgunverður, H = hádegisverður, K = kvöldverður).
  • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
  • Innlend staðarleiðsögn í Marokkó.
  • Íslensk fararstjórn.
  • Eftirfarandi skoðunarferðir og aðgangseyrir:
    • Volubilis – rómverskar minjar 
    • Fez – Bouanania Medersa (Kóran skólinn)
    • Jeppaferð í eyðimörkunni
    • Ouarzazate - Taourirt Kasbah
    • Marrakech – Bahia Palace & Dar si Said safnið
    • Malaga – Alcazaba virkið
    • Malaga – Dómkirkjan

Ekki innifalið

  • Þær máltíðir sem ekki eru taldar upp í innifalið, drykkjarföng og persónuleg útgjöld.
  • Þjórfé.
  • Forfalla- og ferðatryggingar. 

Valfrjálsar skoðunarferðir (hægt að bóka á staðnum)

  • Úlfaldaferð í eyðimörkinni við sólarlag – 2 tímar u.þ.b. € 30 á mann. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

9. apríl | Flug með Play til Malaga

Brottför frá Keflavík kl. 10:00. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Malaga á Spáni kl. 16:40 að staðartíma. Haldið á hótel í Malaga þar sem gist verður í eina nótt.

  • Kvöldverður

10. apríl | Ferjusigling til Tangier í Marokkó

Eftir morgunverð ökum við til Algeciras þar sem verður haldið um borð í ferju sem siglir með okkur yfir til borgarinnar Tangier í Marokkó. Við komuna til Tangier verður haldið á hótel þar sem gist verður í eina nótt.

  • Morgun- og kvöldverður

11. apríl | Borgirnar Volubilis, Meknes & Fez

Eftir morgunverð höldum við af stað og skoðum fyrst minjar um hina fornu, rómversku borg Volubilis en þær fóru á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997. Byggingar hennar eru frægar fyrir stórbrotin mósaíkgólf og hefur þetta svæði verið vandlega varðveitt. Héðan verður ekið til borgarinnar Meknes sem er oft kölluð Versalir Marokkó. Hér snæðum við hádegisverð og skoðum m.a. mikilfenglega virkisveggi og stærsta hlið Marokkó, Bab Mansour. Loks verður ekið til borgarinnar Fez þar sem við gistum í tvær nætur.

  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 345 km
Opna allt

12. apríl | Skoðunarferð um konungsborgina Fez

Dagurinn er tileinkaður skoðunarferð um borgina Fez, elstu menningarborg Marokkó sem stundum er kölluð konungsborgin. Við förum í miðalda medina hverfið en hér er m.a. mikilvægur Kóran skóli sem kominn er á heimsminjaskrá UNESCO og háskóli frá 9. öld, sem talinn er vera sá elsti í heimi. Sjáum einnig hinn fræga Nejjarine gosbrunn. Lífið í gamla bænum með óteljandi litlum verslunum er hrífandi og þar finnum við líka fjölmörg lítil, áhugaverð verkstæði þar sem handverksmenn vinna enn eftir forn austurlenskum aðferðum. Hér er mögulega hægt að sjá trésmiði, málara, fatahönnuði og koparsmiði að ógleymdri leðurvinnslu.

  • Morgun- og kvöldverður

13. apríl | Ifrane, Midelt & Merzouga

Nú kveðjum við Fez eftir góða daga og höldum til bæjarins Ifrane sem liggur í Mið-Atlasfjöllum Marokkó. Hann er þekktur fyrir byggingarlist í alpastíl og nærliggjandi skíðabrekkur og skóga. Við stoppum því næst í bænum Midelt og snæðum þar hádegisverð áður en ekið verður áfram til litla bæjarins Merzouga þar sem við gistum næstu tvær nætur.

  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 465 km

14. apríl | Dagur í eyðimörkinni

Spennandi dagur framundan en nú förum við í skoðunarferð á jeppum að Merzouga sandöldunum þar sem við kynnumst töfrum sandsins við rætur Sahara eyðimerkurinnar. Seinnipartinn getur fólk skoðað sig um á eigin vegum en um kvöldið er hægt að bóka ferð á úlföldum þar sem við upplifum frið og tímaleysi og njótum þess að fylgjast með sólsetrinu.

  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður

15. apríl | Todra gljúfrið, Kelaa M‘gouna & Ourzazate

Eftir morgunverð er stefnan tekin á borgina Ouarzazate sem liggur suður af Há-Atlasfjöllunum. Á leiðinni sjáum við stórkostlegt landslag Todra gljúfursins sem varð til þegar áin Todra skar sig öldum saman í gegnum kalksteininn. Gilið lítur næstum því forsögulega út með allt að 400 m háum gljúfurveggjum. Einnig verður áð í borginni Kelaa M‘gouna sem stundum er kölluð Rósardalurinn en árlega er þar haldinn sérstök rósahátíð. Ouarzazate tekur svo á móti okkur en við dveljum þar í eina nótt.

  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 400 km

16. apríl | Ourzazate & Marrakech

Í dag förum við í skoðunarferð um Ouarzazate og heimsækjum Taourirt Kasbah virkið sem er að mestu leyti gert úr þjöppuðum jarðvegi og moldarmúrsteinum og er meðal glæsilegustu og best varðveittu bygginga sinnar tegundar. Förum einnig að Ait Benhaddou en báðir þessir staðir eru á heimsminjaskrá UNESCO. Eftir hádegisverð er ferðinni haldið til Marrakech í gegnum Há-Atlasfjöllin og Tizi-n-Tichka fjallskarðið sem er í 2260 m hæð og býður okkur upp á frábært útsýni. Komum til Marrakech þar sem við gistum í þrjár nætur.

  • Morgun-, hádegis- og kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 195 km

17. apríl | Keisaraborgin Marrakech

Hvergi í Marokkó eru eins mikil áhrif frá afrískri og austurlenskri menningu og í Marrakech. Þessi næst elsta keisaraborg landsins er litrík, heillandi og iðar af mannlífi. Um 100.000 pálmatré umlykja virkisveggi borgarinnar og setja fagran svip á umhverfið. Marrakech byggðist upp í eyðimörk, eins og sést á rauðleitum leirhúsunum, og var stofnuð á 11. öld. Merkasti listaarfur hennar er spænsk-máríski arkitektúrinn. Dagurinn verður viðburðaríkur en við förum á Dar si Said safnið sem upprunalega var höll, sjáum Koutoubia moskuna, eitt af meistaraverkum márísks arkitektúrs, og Bahia höllina. Seinnipart dags röltum við um hlykkjóttar götur borgarinnar og lítum við á Djemaâ El Fna markaðinum. Hann iðar af mannlífi, tónlistarmenn spila og slöngutemjarar og eldgleypar sýna listir sínar.

  • Morgun- og kvöldverður

18. apríl | Frjáls dagur í Marrakech

Nú er komið að því að slaka á eftir annasama daga og njóta þess að skoða Marrakech á eigin vegum. Það er gaman að rölta um borgina og einnig er hægt að slaka á og nýta sér aðstöðuna á hótelinu en þar er m.a. heilsulind og útisundlaug þar sem gott er að hvíla lúin bein.

  • Morgun- og kvöldverður

19. apríl | Casablanca & Rabat

Eftir yndislega daga verður nú ekið til Casablanca. Nafn borgarinnar kemur úr spænsku og þýðir „hvíta húsið“. Borgin er ein helsta viðskipta- og iðnaðarborg Marokkó og þar er stærsta höfn Norður-Afríku. Við skoðum okkur um í þessari glæsilegu borg en hér má meðal annars sjá Mohamed V torgið, sem skilur á milli gamla og nýja hluta borgarinnar, og Hassan II moskuna sem er ein af stærstu moskum í heimi en þar geta 105.000 manns komið saman. Röltum að lokum meðfram Aïn Diab ströndinni þar sem finna má fjölmarga veitingastaði og upplagt er að fá sér hádegisverð áður en ferðinni verður haldið áfram til Rabat, höfuðborgar Marokkó. Gist í eina nótt í Rabat.

  • Morgun- og kvöldverður

20. apríl | Rabat & Tangier

Höfuðborgin Rabat er hrífandi borg og við förum í skoðunarferð um borgina en við elsta hluta hennar eru ævintýralegir virkisveggir. Við sjáum m.a. konungshöllina að utan, Kasbah of the Udayas virkið og hálfbyggðan Hassan turninn. Einnig förum við að Mohamed V Mausoleum minnismerkinu þar sem finna má grafhýsi marokkóskra konunga en hönnun minnismerkisins er gott dæmi um hefðbundna marokkóska list. Að skoðunarferð lokinni höldum til Tangier þar sem við gistum í eina nótt.

  • Morgun- og kvöldverður
  • Akstursvegalengd u.þ.b: 250 km

21. apríl | Ferjusigling til Algeciras & Malaga

Við kveðjum nú Marokkó eftir yndislega daga og ógleymanlega upplifun. Siglum frá höfninni í Tangier yfir til Algeciras á Spáni og ökum þaðan áfram til Malaga. Við gistum í tvær nætur á hóteli í miðbæ Malaga þar sem hægt er að njóta stórkostlegs útsýnis yfir alla borgina frá þaksvæði hótelsins.

  • Morgun- og kvöldverður

22. apríl | Malaga

Eftir morgunverð verður farið í skemmtilega skoðunarferð um hina líflegu Malaga sem er borg bæði listamanna og sjómanna. Við skoðum meðal annars þekktasta aðdráttarafl Malaga, Alcazaba virkið, en bygging þess hófst á 12. öldinni og er þetta einn best varðveitti sögulegi minnisvarði Spánar. Einnig munum við skoða dómkirkjuna í Malaga en barokk-endurreisnararkitektúr hennar hrífur flesta. Eftir skoðunarferð verður tími til að slaka á, skoða sig um á eigin vegum og fá sér hressingu. Kvöldverður á eigin vegum.

  • Morgunverður

23. apríl | Heimferð

Nú er komið að því að halda heim á leið en brottför frá flugvellinum í Malaga er kl. 17:40 og lending í Keflavík kl. 20:30 að staðartíma. 

Fararstjóri getur fært dagskrárliði á milli daga eftir þörfum þegar komið er á staðinn.

  • Morgunverður

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hólmfríður Bjarnadóttir

Hólmfríður Bjarnadóttir (Hófý) heiti ég og er fædd árið 1960 á Patreksfirði. Ég er móðir þriggja drengja og er búsett í Bæjaraskógi í Þýskalandi um þessar mundir með yngsta drenginn, Gabríel Daða. Eiginmaður minn er Norbert Birnböck sem er einn af bílstjórum Bændaferða.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00




Póstlisti