Georgía & Armenía

26. ágúst – 8. september 2018 (13 dagar)

Í þessari margt merkilegu ferð, munum við fræðast um Georgíu og Armeníu, kynnast skemmtilegri blöndu af menningu, kryddi og trúarbrögðum hinna ýmsu þjóðabrota.

Við hefjum ferðina í hinni glæsilegu höfuðborg Georgíu Tbilisi, kynnumst frjósama Kakheti, sem liggur við hinn magnþrungna Kákasus fjallgarðinn. Við heimsækjum eina elstu borg landsins, Mtskheta, sem er ótrvíræð miðstöð menningar og trúarbragða og hefur verið varðveitt á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1994. Í litla bænum Stepantsminda gefur að líta hið tignarlega eldfjall Mount Kazbek, sem er eitt elsta fjall Kákasusfjalla og í bænum Borjomi heimsækjum við Stalin safnið. Þegar við höfum þrætt bæi og borgir Georgíu höldum við yfir til Armeníu, en þar bíður okkar heill heimur menningar þessarar þjóðar sem var ein sú fyrsta til að taka upp kristni sem ríkistrú. Við heimsækjum bæinn Giumri og dáumst að dómkirkjunni Etchmiadzine Cathedra, sem varðveitt er á heimsminjaskrá UNESCO. Við ökum um fagurt svæði við rætur fjallgarðsins Aragats og i borginni Yerevan heimsækjum við minnisvarðann Tsitsernakaberd, handritasafnið Matenadaran, hofið Garni – Hellenistic og klaustrið Geghard. Í fjarska ber snæviþakta tinda Ararat við heiðan himinn. Í þessari borg dylst engum að í Armeniu býr þjóð sem á sér einstaklega merkilega sögu. Við njótum þessara dásamlegu landa, föngum einstakt andrúmsloftið og upplifum menningu og gestrisni fólksins í fjöllunum.   

Verð á mann í tvíbýli 448.800 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 98.800 kr.

 
Innifalið

 • Flug með Icelandair Keflavík – Amsterdam – Keflavík.
 • Áætlunarflug á almennu farrými Amsterdam – Tbilisi – Amsterdam.
 • Flugvallarskattar fyrir ofangreind flug.
 • Allar rútuferðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Skoðunarferðir og aðgangseyrir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Gisting á góðum hótelum samkvæmt landsmælikvarða.
 • Máltíðir samkvæmt ferðalýsingu.
 • Enskumælandi staðarleiðsögn.
 • Íslensk fararstjórn.
 • Undirbúningsfundur með fararstjóra fyrir ferð.

Ekki innifalið

 • Máltíðir og drykkir annað en það sem tilgreint er í ferðalýsingu.
 • Þjórfé.
 • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

26. ágúst | Flug til Amsterdam og dagur í borginni

Flug með Icelandair frá Keflavík kl. 7:40. Mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Amsterdam kl. 12:40. Gist verður í Amsterdam eina nótt áður en ferðast verður áfram til Tbilisi og því tilvalið að njóta dagsins í þessari skemmtilegu borg með alla sína vatnavegi og skökku hús. Kvöldverður á eigin vegum.

27. ágúst | Flug til Tbilisi

Að loknum morgunverði í Amsterdam verður flogið með Georgian Airlines til Tbilisi kl. 10.40. Þótt flugið taki eingöngu um 4,5 tíma er lent kl. 17.15 að staðartíma. Ekið á hótel miðsvæðis í Tbilisi þar sem gist verður 3 nætur. Eftir að hafa komið okkur fyrir og hvílt okkur nokkra stund verður kvöldverður á veitingahúsi í borginni.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

28. ágúst | Skoðunarferð um Tbilisi

Í Tbilisi renna saman fjölbreyttir menningarheimar og framandi kryddilmur liggur í loftinu. Ólík þjóðerni og trúarbrögð mætast hér á hverju götuhorni. Svona er þessi borg sem stjórnað hefur verið af kaupmönnum, hermönnum, harðstjórum og einræðisherrum í gegn um tíðina. Við hefjum skoðunarferðina á göngu um kræklóttar götur gamla miðbæjarins sem er í þrengsta hluta dalsins sem borgin stendur í. Farið verður um hverfi baðhúsanna, en þau standa beint yfir um 40°c heitum hverum. Eins og gefur að skilja angar allt hverfið af hveralykt og er því kallað brennisteinshverfið. Þjóðminjasafnið Janashia verður heimsótt, gengið meðfram ánni og margt áhugavert verður á vegi okkar í kynnisferð um þessa framandi borg.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur
Opna allt

29. ágúst | Dagsferð í vínhéraðið Kakhet

Undir Kákasusfjallgarðinum með tinda upp fyrir 3000m er Alazani dalur, einn frjósamasti og fegursti dalur landsins. Hér er sagt að víngerð eigi sinn uppruna í heiminum. Við könnum þetta gróðursæla hérað og heimsækjum víngerð. Áð verður í bænum Signagi sem stendur í fjallshlíð og er umkringdur fornum virkisveggjum. Einnig verður komið við í Bodbe klaustri og á ættaróðalinu Tsinandaly. Hádegismaturinn verður skemmtileg upplifun þar sem við tökum þátt í að baka brauð í jarðofnum og búa til sætindi sem nefnast Churchkhela hjá heimamönnum.

 • Morgunmatur
 • Hádegisverður
 • Kvöldmatur

30. ágúst | Tbilisi - Mtskheta - Stepantsminda

Þá hefst ferðalagið um landið og fyrsti áfangastaður dagsins er borgin Mtskheta, sem er einn af elstu bæjum Georgiu og miðstöð menningar og trúarbragða. Á 3. öld var þetta höfuðborg ríkisins. Hér renna árnar Aragvi og Mtkvari saman og því mætast hér sögulegar verslunarleiðir. Saga borgarinnar drýpur af hverjum steini og er hún því á heimsminjaskrá UNESCO. Áfram er haldið inn í Mtiuleti og Khevi héruð eftir einum elsta vegi landsins. Við okkur blasa fagrir fjallatindar, fossandi ár og rómantísk fjallahéruð. Kvöldverður og gisting í þorpinu Stepantsminda tvær nætur.

 • Morgunmatur
 • Hádegisverður
 • Kvöldmatur

31. ágúst | Skoðunarferð um Stepantsminda

Yfir þessu fjallaþorpi gnæfir Mkinvartsveri, útdautt eldfjall sem er 5047m á hæð. Fjallið er þó oftar kallað Kazbek sem merkir ístoppur og yfirleitt er það nafn líka notað um þorpið. Kazbek er þriðji hæsti toppur Kákasusfjallgarðsins og einn sá frægasti. Við kynnum okkur næsta nágrenni á gönguferð um þorpið, en svo verður farið í jeppaferð að Gergety Trinity kirkjunni sem stendur á fallegum stað á hæð í nágrenninu. Umhvefið og náttúrudýrðin hér í skugga fjallanna er hrífandi. Um kvöldið gefst færi á að kynnast handverki heimamanna. Við sjáum felt vinnslu og brögðum á tei gerðu úr jurtum og ávöxtum.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

1. september | Stephantsminda - Gori - Borjomi

Frá fjallahéruðunum er ekið gegnum frjósamar lendur Kartrli héraðs þar til komið er í gróskumikla skóga á hæðunum umhverfis Borjomi dalinn. Borgin Uplistsikhe samanstendur af fjölda hella og varð til á síðustu öld fyrir krist þar sem mikilvægar verslunarleiðir mættust. Hér er flókið kerfi húsakynna eins og finna má í flestum borgum, heimili, götur, leikhús, fangelsi, apótek, heiðin altari og kirkja frá 10. öld. Hellarnir ná yfir 4 hektara og á blómatíma borgarinnar bjuggu hér um 20.000 manns. Einnig verður komið við í Stalin safninu. Gisting eina nótt og kvöldverður í Borjomi.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

2. september | Borjomi - Vardzia

Í næsta nágrenni við Borjomi eru kaldar uppsprettur með steinefnaríku vatni sem er úrvals drykkjavatn. Á steppunum er þurrt og þægilegt loftslag og því besta heilsubót að dvelja hér og drekka gott vatn. Sögulegar minjar, virki og kirkjur bera glæstri fortíð vitni. Rabati kastali í bænum Akhaltsikhe er sannarlega heimsóknarinnar virði með tjarnir, súlugöng, musteri og virkisveggi sem heilla. Í Vardzia er borgarvirki frá 12. öld, hoggið í stein, sem hýst hefur klaustur og aðra mennta- og menningastarfsemi í gegn um aldirnar. Töluverður gangur er skoða þessa borg, um 2-3 tímar. Í hádegisverð er silungur ræktaður á svæðinu sem við neytum undir berum himni. Kvöldverður og gisting eina nótt í Varzia.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

3. september | Varzia – Echmiadzin - Yerevan

Að morgunverði loknum verður ekið að landamærum Armeníu þar sem skipt verður um rútu, staðarleiðsögumann og bílstjóra. Í Armeníu byrjum við á að skoða bæinn Giumri. Gengið verður um elsta hluta bæjarins að dómkirkunni Etchmiadzine sem hefur verið miðstöð þjóðkirkunnar í Armeníu frá 4 öld, en Armenía hefur verið kristin þjóð í 1700 ár og var fyrst allra þjóða að taka upp kristni sem þjóðtrú. Þessi töfrandi bygging er á heimsminjaskrá UNESCO og er einstök sjón sem enginn gestur til Armeníu má missa af. Frjáls tími verður í Echmiadzin til að kanna þennan sögufræga bæ á eigin vegum og fá sér hádegissnarl áður en haldið verður áfram til Yerevan þar sem gist verður 3 nætur.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

4. september | Dagsferð um Yerevan, Garni og Geghard

Fyrir hádegi förum við í fróðlega skoðunarferð um borgina Yerevan og skoðum meðal annars Tsitsernakaberd minnismerkið sem byggt var í minningu þjóðarmorðs Tyrkja á Armenum árið 1915. Bókasafnið í Maternadaran er eitt hið merkasta í heimi með yfir 17000 ævagömul handrit á hinum ýmsu tungumálum og varðveitir merka sögu. Síðdegis verður farið til Garni þar sem við sjáum hellenískt hof frá fyrstu öld eftir Krist. Þetta er eina hof landsins þar sem hin voru lögð í eyði er þjóðin tók upp kristni. Hofið var áður sumarhús armeníukonunga. Í Geghard sjáum við byggingar frá 10.-13. öld hoggnar í stein. Þetta er merkur staður með margt að sjá, en nafn bæjarins þýðir spjót og heitir eftir spjótinu sem var stungið í síðu Krists. Spjótið var varðveitt hér í margar aldir áður en það var flutt á safn í Echmiadzin dómkirkjunni.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

5. september | Dagsferð til Khor Virap

Þótt nafn þessa staðar þýði djúpa dýflissan er þetta hrífandi staður með fallegu útsýni yfir sléttur Tyrklands, allt til Ararat fjalls, þar sem þykir móta fyrir örkinni hans Nóa í snjóalögum nærri toppinum. Klaustrið Khor Virap er byggt á stað þar sem dýrðlingurinn Grigor upplýsandi var hafður í haldi í djúpri holu í 13 ár. Tókst honum þá loks að snúa þjóðhöfðingjanum til kristni og hefur þjóðin verið kristin síðan. Áfram gegn um stórbrotið landslag að klaustrinu í Noravank sem er umvafið náttúrufegurð á kyrrlátum stað. Um kvöldið gefst kostur á að bragða á innlendu konjaki.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

6. september | Yerevan – Sevan -Sadakhlo - Tbilisi

Á leið okkar að landamærunum sjáum við Sevan vatn sem oft er nefnt perla Armeníu. Þetta er eitt stærsta fjallavatn Evrasíu, en vatnið er í 1900m hæð. Hér eru að sjálfsögðu nokkur klaustur sem standa á fegurstu stöðunum við vatnið þar sem kjörið er að njóta dýrðarinnar. Síðdegis verður aftur skipt um rútu, bílstjóra og staðarleiðsögumann á landamærunum. Kvöldverður og gisting í Tbilisi. Gist þar síðustu 2 næturnar.

 • Morgunmatur
 • Hádegismatur
 • Kvöldmatur

7. september | Tbilisi

Við eyðum deginum í að kanna þessa ævintýralegu borg nánar. Farið verður á útisafnið Ethnographical Museum þar sem sjá má tréhús og húsbúnað frá ýmsum tímabilum og svæðum landsins. Dómkirkjan í Tbilisi er gott dæmi um Georgískan arkítektúr. Þessi merka bygging liggur í kross með kúpli yfir miðjunni. Svo er kjörið að bregða sér á Tbilisi Dry Bridge markaðinn en þar er auðvelt að gleyma tímanum innan um sölubása með fornmuni, skartgripi, gólfdregla, myndum af Stalín og margt fleira. Þetta síðasta kvöld verður hátíðlegur kveðjukvöldverður í borginni.

 • Morgunmatur
 • Kvöldmatur

8. september | Heimferð

Dagurinn hefst fyrir allar aldir og haldið á flugvöll fyrir brottför flugs kl. 6:30 til Amsterdam. Lent verður þar kl. 9:40 að staðartíma. Flogið áfram til Íslands kl. 14:00. Lent í Keflavík kl. 15:10 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Þóra Björk Valsteinsdóttir

Þóra Björk Valsteinsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð lá leiðin  til Grikklands þar sem að hún festi rætur og býr enn eftir 35 ár, gift og á 2 börn. Í Grikklandi nam hún m.a. grísku við háskólann í Aþenu, tók kennarapróf í ensku og fór á leiðsögumannanámskeið á vegum Aþenuháskóla. Þóra er einnig nýorðin sagnfræðingur eftir að hafa stundað fjarnám í þeirri fræðigrein við Háskóla Íslands.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir