Snæfellsnes, Flatey & Dalirnir

Sindrandi firðir, áhrifamiklir fjallstindar, þverhníptir hamrar, gylltar strandir og falleg sjávarþorp. Þessar lýsingar eru engar ýkjur, Snæfellsnesið er stórkostlegt! Kynngikraftur Snæfellsjökuls dregur margan ferðamanninn að ár hvert og var jökullinn til að mynda kveikjan að vísindaskáldsögu Jules Verne, Ferðin að miðju jarðar, árið 1846. Förum undir leiðsögn Sigrúnar Valbergsdóttur í þessa frábæru ferð en hún er öllum hnútum kunnug á svæðinu og hafsjór af fróðleik. Við fræðumst um berserki og vatnaskrímsli, fiskbyrgi og verbúðir en síðast en ekki síst fáum við notið þessa fjölbreytta landslags sem Snæfellsnesið hefur upp á að bjóða. Heimsækjum líka Flatey á Breiðafirði sem hefur skemmtilega ásýnd litríkra húsa og þar er einstakt andrúmsloft og gaman að koma. Landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna á Grænlandi, í Kanada og Bandaríkjunum eru gerð góð skil á Vínlandssetrinu Leifsbúð og einnig verður farið um fallegu Dalina þar sem Sauðafell í Miðdölum og margir fleiri þekktir sögustaðir eru við þjóðveginn. Ekið um Bröttubrekku og niður í Norðurárdal í lok ferðar. Við gistum í tvær nætur á fjölskyldurekna sveitahótelinu Langaholti sem er staðsett á sunnanverðu Snæfellsnesi en allt umhverfið þar í kring er sönn náttúruparadís. 

Verð á mann 89.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 16.800 kr.

Athugið að ef til þess kemur að Bændaferðir þurfi að fella niður ferðina er hún endurgreidd að fullu.


Innifalið

 • 3 daga ferð.
 • Gisting í 2ja manna herbergi með baði í tvær nætur á Hótel Langaholti.
 • Tveir morgunverðir. 
 • Þriggja rétta kvöldverður 25. júní á Hótel Langaholti. 
 • Ferð með ferjunni Baldri úti í Flatey og til baka 26. júní. 
 • Aðgangur á hákarlasafnið í Bjarnarhöfn 26. júní.
 • Þriggja rétta kvöldverður 26. júní á Hótel Langaholti. 
 • Aðgangur að Vínlandssetrinu Leifsbúð 27. júní.
 • Súpa og brauð í hádeginu á Vínlandssetrinu Leifsbúð 27. júní.
 • Allar skoðunarferðir með rútu samkvæmt ferðalýsingu.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Hádegisverðir 25. og 26. júní. 

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

25. júní | Vatnaleiðin – Djúpalónssandur – Malarrif - Arnarstapi

Brottför frá Reykjavík kl. 09:00. Við höldum vestur á bóginn sem leið liggur til Snæfellsness. Ökum hina fögru Vatnaleið, fram hjá Baulárvallavatni og heyrum söguna um hið ægilega Baulárvallaskrímsli. Áfram höldum við og fræðumst m.a. um fiskbyrgin svokölluðu, utarlega á Snæfellsnesinu, sem eru jafnvel talin vera leifar írskra bænahúsa og þá keltnesk að uppruna. Um miðja leið verður stoppað til að fá sér hádegishressingu. Djúpalónssandur tekur á móti okkur með sínar fallegu hraungjár en þar voru áður miklar verbúðir þar sem dvöldu tugir ef ekki hundruð manna þegar mest lét. Ökum um Malarrif, syðsta hluta Snæfellsness en þar stendur Malarrifsviti sem reistur var árið 1917 og gestastofa þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Stoppum einnig á Arnarstapa sem er lítið en fallegt fiskiþorp við rætur Stapafells. Seinni part dags komum við að sveitahótelinu Langaholti, snæðum þar kvöldverð og eigum notalega kvöldstund saman.

26. júní | Ferja út í Flatey – Stykkishólmur – Berserkjahraun – Bjarnarhöfn

Morgunverður í fyrra lagi í dag og eftir hann verður ekið rakleitt út í Stykkishólm. Þaðan tökum við ferjuna Baldur út í Flatey kl. 09:00. Ferðin út í Flatey tekur rúman klukkutíma og við stoppum í eyjunni í u.þ.b. 2,5 klst. Flatey á Breiðafirði er talin hafa myndast undir afli skriðjökla á ísöld og hún svo risið upp úr sjónum þegar jöklarnir bráðnuðu. Eyjan er um 2 km á lengd og 0,5 km þar sem hún er breiðust. Mikið fuglalíf er úti í eynni og er hluti hennar friðaður. Litrík, gömul hús einkenna ásýnd eyjunnar og líkist hún einna helst leikmynd í kvikmynd! Göngum um gamla byggðarkjarnann, skoðum kirkjuna og hægt verður að fá sér hádegishressingu eða kaffisopa úti í eynni. Komum aftur til Stykkishólms um kl. 14:30, ökum að Berserkjahrauni og stoppum við götu Berserkja. Þessi 4000 ára hraunbreiða er kennd við berserki tvo sem bóndi einn flutti til landsins frá Svíþjóð. Hann gaf þá síðar bróður sínum, Víga-Styr, sem bjó hinum megin við hraunið. Sá samdi við annan þeirra um hönd dóttur sinnar ef þeir leggðu veg yfir hraunið á milli þeirra bræðra. Þegar verkinu lauk, sveik Víga-Styr berserkina, drap þá báða og gróf þá við vegslóðann. Á leiðinni til baka að Langaholti stoppum við á hákarlasafninu að Bjarnarhöfn.

27. júní | Búðardalur – Vínlandssetrið – Dalirnir – Brattabrekka

Í dag ökum við um Heydali og Skógarströnd með einstakt útsýni yfir Breiðafjarðareyjarnar og Hvammsfjörð. Við fræðumst um landnema á þessum slóðum og þau hlunnindi sem drógu fyrst athygli manna að Íslandi. Í Búðardal heimsækjum við Vínlandssetrið Leifsbúð þar sem landafundum Eiríks rauða og Leifs heppna á Grænlandi, í Kanada og Bandaríkjunum eru gerð skil á áhrifamikinn og sjónrænan hátt. Hér snæðum við hádegisverð áður en við höldum til baka til Reykjavíkur. Ökum um Dalina þar sem Sauðafell í Miðdölum og margir fleiri þekktir sögustaðir eru við þjóðveginn. Leiðin til Reykjavíkur liggur síðan um Bröttubrekku og niður í Norðurárdal.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Sigrún Valbergsdóttir

Sigrún Valbergsdóttir er fædd í Hafnarfirði og alin upp í Reykjavík. Sem barn dvaldi hún öll sumur í Svarfaðardal en á unglingsárunum rak móðir hennar sumarhótel í Grundarfirði og þar gekk hún um beina á daginn en upp til fjalla þegar kvöldaði. Sigrún hefur verið fararstjóri hjá Bændaferðum í aðventuferðum til Þýskalands og Austurríkis, einnig í Gardavatnsferðum og gönguferðum um Austurríki, Suður-Tíról og Færeyjar. 

Hótel

Hótel Langaholt

Langaholt er staðsett miðsvæðis á sunnanverðu Snæfellsnesi, við bæinn Garða í Staðarsveit sem er núna hluti Snæfellsbæjar. Svæðið umhverfis er sannkölluð náttúruperla, tignarlegur fjallgarður, jökullinn í allri sinni dýrð og gullin strönd við Faxaflóa. Í Langaholti hefur sama fjölskyldan tekið á móti ferðamönnum síðan 1978 og er hótelið nú rekið af Þorkeli Símonarsyni. Árið 2017 var gistirýmið stækkað um helming og gist verður í nýja hluta hótelsins þar sem eru 20 rúmgóð og falleg herbergi sem öll eru með útgengi á svalir eða verönd og magnað útsýni að Snæfellsjökli. 

Skoða Hótel Langaholt nánar.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00