Gangan fer fram sunnudaginn 2. mars og er gengin 90 km leið. Gengið er milli bæjanna Sälen og Mora í Svíþjóð. Þeir sem hraðast fara yfir eru rúmlega fjóra tíma og þeir sem ganga hægast eru allt upp í tólf tíma að skila sér í mark. Þess má geta að klára þarf gönguna á innan við tólf tímum og á hverri drykkjarstöð detta þátttakendur úr keppni sem ekki eru komnir á tilsettum tíma - lenda á kaðlinum eins og það er kallað. Þetta er mjög krefjandi ganga og ætti enginn að taka þátt sem ekki er vel undirbúinn. Sigurinn er líka mun sætari fyrir vikið. Munið að rétti áburðurinn skiptir mjög miklu máli.
Vefsíða keppninnar
Við kaup á númeri þarf að gefa upp hvort keppandi óskar eftir að sækja númerið í Sälen (þar sem keppnin hefst) eða í Mora (við markið). Algengast er að keppendur vilji sækja númerið í Mora.
Hafi keppandi tekið þátt í Worldloppet göngu síðustu 2 ár, er mikilvægt að láta þær upplýsingar einnig fylgja, þar sem þátttakendum er raðað í starthólf samkvæmt árangri í öðrum Worldloppet göngum.
Saga keppninnar nær aftur til 14. aldar, þegar Svíar voru þvingaðir í þjóðarbandalag með Dönum og Norðmönnum, sem margir Svíar voru ekki ánægðir með. Á 16. öld sauð upp úr með bardaga og gekk Gustav Vasa þar hvað harðast fram en þurfti að lúta í lægra haldi. Vasa hélt af stað á skíðum norður á bóginn frá Mora, en á eftir honum voru sendir tveir skíðamenn sem náðu honum við bæinn Sälen, þar sem þeir tilkynntu honum um blóðbað í Stokkhólmi sem Danakonungur hafði fyrirskipað. Þeir töldu hann á að snúa við því hann væri kominn með bandamenn sem myndu berjast við Dani við hlið hans. Vasa sneri við og náði ásamt bandamönnum sínum að losa Svíþjóð undan Danakonungi og varð hann síðan sjálfur konungur Svíþjóðar.
Þessa sögu skrifaði og birti ristjóri Vestmanslands Läns Tidning árið 1922 og mánuði síðar var ákveðið að fyrsta Vasagangan færi fram. Ári síðar, 1923, tók fyrsta konan þátt í keppninni, en konum var síðar meinuð þátttaka, og það var ekki fyrr en 58 árum síðar, árið 1981 að konum var leyft að taka þátt. Ebenez Þórarinsson tók árið 1952, fyrstur Íslendinga, þátt í Vasagöngunni og síðan þá hafa fjölmargir Íslendingar spreytt sig á þessari krefjandi göngu.