Hjólað um Suður-Frakkland

8. – 15. september 2018 (8 dagar)

Þessi einstaka hjólaferð um dásamlegar sveitir Provence héraðsins í Suður-Frakklandi er sérhönnuð af alvönum hjólaleiðsögumanni. Í ferðinni munum við hjóla um hugguleg fjallaþorp, fagra dali og frjósamar vínekrur sem laða fólk að svæðinu ár hvert. Farið verður um hina einstöku fjallaþyrpingu Alpilles, þar sem málarinn frægi Van Gogh málaði mörg sinna þekktustu verka. Við sjáum Pont du Gard brúna og klaustur heilags Benedikts Abbaey de Montmajour, en þar má líta minjar allt frá 10. öld. Við hrífumst af fjólubláum lavenderökrum, hjólum um þjóðgarðinn Lubéron og dáumst að ávaxta- og vínrækt svæðisins. Bæirnir Gordes, Menerbes, Bonnieux og Rossillon verða heimsóttir og þar njótum við ógleymanlegs útsýnis yfir Provence héraðið. Dagleiðirnar spanna um 45 - 60 km og eru flestar miðlungserfiðar. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Gist verður á 3* sveitahóteli í úthverfi borgarinnar Avignon. Þessi ferð gefur áhugasömum hjólagörpum frábært tækifæri til að upplifa hrífandi náttúrufegurð Suður-Frakklands og skoða helstu sögulegu minjar svæðisins.

Verð á mann í tvíbýli 229.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 21.800 kr.


Innifalið

 • 8 dagar
 • Flug með Icelandair og flugvallaskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í Genf og hótelsins í Avignon.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með sturtu/ baði á 3 stjörnu hóteli.
 • Morgunmatur allan tímann á hóteli.
 • 6 x 3 rétta kvöldmáltíðir á hóteli.
 • Hjólaprógramm í 5 daga.
 • Flutningur á fólki og hjólum samkvæmt hjólaprógrammi.
 • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Leiga á trekking hjóli í 6 daga 16.900 kr.
 • Leiga á rafhjóli í 6 daga 30.300 kr.
 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll.
 • Leigubílaakstur.
 • Hádegisverður.
 • Þjórfé.

Undirbúningur fyrir ferð

Þetta er miðlungserfið hjólaferð sem ætti að henta flestu hjólafólki. Dagleiðirnar spanna um 50 - 70 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum gestum okkar að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum.  Fararstjóri mun boða farþega sína í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður erlendis. 

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Flogið til Genf 8. september 2018

Flogið verður með Icelandair til Genf þann 8. september. Brottför frá Keflavík kl. 7:20, en mæting í Leifsstöð í síðasta lagi 2 klst fyrir brottför. Lending í Genf kl. 13:00 að staðartíma. Frá flugvellinum í Genf eru um 380 km til Avignon svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki 4 - 5 klst.

Tillaga að dagleiðum 8. – 15. september

Hjalti Kristjánsson er reyndur hjólamaður og mun hann hafa innlendan staðarleiðsögumann sem er alvanur hjólreiðamaður, sér til stuðnings á hjólaleiðunum. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir 5 hjóladaga auk eins hvíldardags. Fararstjóri mun í samráði við staðarleiðsögumann taka endanlegar ákvarðanir um val á dagleiðum eftir aðstæðum og hentugleika hverju sinni. 

Dagleið 1 | Pont du Gard & Uzès

Frá hótelinu liggur leið okkar út í stórkostlega náttúrufegurð Provence héraðsins, sem er með bestu vínhéruðum landsins. Við komum að Pont du Gard, sem er hæsta vatnsleiðslubrú sem Rómverjar byggðu. Þessi tilkomumikla brú er 49 m há, 279 m löng og var byggð á 1. öld eftir Krist til þess að flytja vatn um 50 km leið frá uppsprettu í nágrenni við Uzés, til rómversku borgarinnar Nimes. Brúin er eitt merkasta sögulega mannvirki rómverska tímans og er í dag á heimsminjaskrá UNESCO. Hjólað verður áfram til Uzès sem er einn af huggulegustu miðaldabæjum Frakklands. Þar verður tími til að skoða sig um og fá sér hressingu. Síðan er hópurinn fluttur aftur á hótelið. 

 • Vegalengd: ca. 45 km
 • Hæðarmunur: 260 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið
Opna allt

Dagleið 2 | Bærinn St. Remy & Vincent Van Gogh

Hjólaferð dagsins hefst í bænum St. Remy sem er í hinni mögnuðu Alpilles fjallaþyrpingu. Listmálarinn frægi, Vincent Van Gogh, eyddi sínum síðustu árum í bænum og festi þetta undurfagra landslag á striga. Við hjólum um stórbrotið umhverfi og stoppum meðal annars í fjallaþorpinu Le Baux de Provence, sem hreinlega byggt inn í klettana og er án efa eitt af áhugaverðustu þorpum landsins. Á leiðinni gefst einnig kostur á að heimsækja gotneska klaustrið Abbaey de Montmajour, sem eitt sinn stóð á eyju 5 km úti fyrir Arles. Klaustrið á sér aldagamla sögu og var í miklu uppáhaldi hjá Van Gogh sem sótti hingað oft til þess að láta hugann reika og teikna þetta fallega klaustur. Við endum þennan dásamlega hjóladag í fallegu borginni Arles við bakka Rínarfljótsins og skoðum okkur um í borginni. Þegar orðið er áliðið dags verðum við flutt aftur á hótelið. 

 • Vegalengd: ca. 60 km
 • Hæðarmunur: ca. 290 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 3 | Lubéron þjóðgarðurinn

Þennan dag ætlum við að ferðast og fræðast betur um þjóðgarðinn Lubéron. Svæðið er frægt fyrir einstaka gróðursæld, aldagamla sögu, fjölskrúðugt dýralíf og skemmtilega bæi. Við rennum léttilega eftir hjólastíg í gegnum þétta ávaxtarækt, en á svæðinu eru ræktuð kirsuber, ferskjur og melónur svo eitthvað sé nefnt og svo að sjálfsögðu vínviður, en hér er vínrækt á heimsmælikvarða. Svæðið er einstaklega vinsælt hjá ferðamönnum, en Frakkar hafa einnig í gegnum árin sóst eftir sumarsetu hér og því margfaldast íbúafjöldi þjóðgarðsins yfir sumarmánuðina. Við munum heimsækja miðaldaþorpið Menerbes, virða fyrir okkur glæsivillur á leiðinni til bæjarins Bonnieux og að endingu staldra við í bænum Roussillon og dást að ógleymanlegu útsýninu yfir Provence héraðið.

 • Vegalengd: ca. 50 km
 • Hæðarmunur: ca. 520 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 4 | Litskrúðugi bærinn Gordes & Lavender akrar

Hjólað verður eftir sveitavegum að Gordes, einu fallegasta þorpi Lubéron þjóðgarðsins. Á þriðjudagsmorgnum er hér líflegur útimarkaður við fótskör kastalans í hjarta bæjarins. Hægt er að versla vefnað, fatnað, lavender og sápur en einnig er að finna matvörur af svæðinu s.s. ólívuolíu, lavenderhunang, osta og vín. Frá Gordes liggur hjólaleið um skóglendi að klaustrinu Abbaye de Senanque. Klaustrið er staðsett í fögrum dal sem er einn besti staður til þess að líta umfangsmikla lavenderakra Provence héraðsins. Við munum að sjálfsögðu staldra örlítið við og skoða okkur um. Á leið okkar til baka á hótelið munum við hjóla í gegnum stórfenglega gilið Gorges de Venasque og koma við í sögufræga þorpinu Carpentras, sem er þekkt fyrir að vera aðsetur fyrsta páfans í héraðinu.

 • Vegalengd: ca. 58 km
 • Hækkun: ca. 350 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

Dagleið 5 | Le Thor – Sorgue

Í dag liggur leið okkar meðfram ánni Sorgue sem á sér afar merkilega uppsprettu. Svæðið meðfram ánni Sorgue er með eindæmum fallegt og á leið okkar munum við líta fjölda barrokkbygginga, kastala, vatnsmylla og hlaðnar steinbrýr svo eitthvað sé nefnt. Við heimsækjum meðal annars þorpið Le Thor sem er einskonar Feneyjar Provence héraðsins. Þar er að finna nokkrar skemmtilegar antikbúðir, notaleg kaffihús og veitingastaði. Þetta er tilvalinn staður til að skoða sig um, kasta mæðinni og næra sig.

 • Vegalengd: ca. 65 km
 • Hæðarmunur: ca. 250 m
 • Erfiðleikastig: miðlungserfið

15. september | Heimferðardagur

Þann 15. september verður lagt snemma af stað frá Avignon og flogið heim frá Genf kl. 14:00. Lending á Íslandi kl. 15:50 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Hjalti Kristjánsson

Hjalti Kristjánsson er fæddur 1978. Er giftur og á tvö börn. Hann ólst upp í Kópavogi og hjá íþróttafélaginu Breiðabliki, þar sem stundaðar voru margar íþróttir í mörg ár. Hjalti lauk M.Sc í þjálfunar- og lífeðlisfræðum frá USA, en hann bjó og lærði í Sacramento Kaliforniu og La Crosse Wisconsin. Hjalti hefur unnið á Reykjalundi síðan 2002. Hann er einnig félagi í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi. Hjalti hefur mikinn áhuga á allskyns hreyfingu, útiveru og ferðalögum innanlands sem utan.

Hótel

Hotel Le Petit Manoir

Gist verður á 3* hótelinu Le Petit Manoir í hjarta Provence héraðsins sem er staðsett um 2,5 km frá miðbæ Avignon. Á hótelinu eru 40 herbergi með baði, hárþurrku, sjónvarpi, loftræstingu og síma. Í garðinum er hugguleg sólbaðsaðstaða með bekkjum og útisundlaug. Sælkera veitingastaður er á hótelinu sem leggur ríkulega áherslu á góða þjónustu og ljúffengan franskan mat eins og hann gerist bestur.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00

 

Tengdar ferðir