Hjólað um Champagne hérað í Frakklandi

Við förum í einstaka hjólaferð um hið dásamlega kampavínshérð Frakklands, Champagne, þar sem smjörið drýpur af hverju strái. Við njótum þess að hjóla um einar fegurstu sveitir Frakklands þar sem vínekrurnar líða um hæðir og dali og heimsækjum fjölmörg heillandi þorp og bæi þar sem allt snýst um kampavín og framleiðslu þess. Við hefjum ferðina í Reims þar sem konungar Frakklands hafa verið krýndir í gegnum aldirnar en borgin er einnig mikilvæg í sögu kampavínsframleiðslu. Undir henni er að finna kalksteinshella þar sem vínið fær að þroskast við kjöraðstæður. Við ferðumst í gegnum Montagne de Reims þjóðgarðinn og í gegnum skóglendið í Domaniale de Verzy þar sem er að finna bar uppi í trjákrónunum. Gist verður í þrjár nætur í nágrenni Épernay í Mutigny og farið þaðan í skemmtilegar dagsferðir. Við hjólum skemmtilega hjólaleið, Route de Champagne í Marne dalnum og komum við í þorpunum Venteuil og Reuil. Við heimsækjum höfuðborg kampavínshéraðsins, Épernay, og skoðum Avenue de Champagne, en þar eiga þekktustu framleiðendur kampavíns á heimsvísu sín kampavínshús. Í Épernay varð kampavínið að þeirri lúxusvöru sem það er í dag. Leið okkar liggur til Hautervillers, fæðingarstaðs kampavínsins en þar fullkomnaði munkurinn Dom Pérignon aðferðina við að freyða vínið. Í þessari ógleymanlegu ferð gefst færi á að njóta fallegrar náttúru í frönskum sveitum, þar sem víðáttumiklar vínekrur, friðsæl þorp og grónar hæðir marka landslagið. Við hjólum um mikilvægustu borgir héraðsins, meðfram gróðursælum árbökkum og víða gefst færi á að njóta lystisemdanna sem ræktaðar eru á svæðinu í mat og drykk. 

Verð á mann 499.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 109.100 kr.


Innifalið

  • 6 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar. 
  • Ferðir á milli flugvallarins í París og hótelsins.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hótelum.
  • Morgunverðir allan tímann á hóteli.
  • Fimm kvöldverðir á hótelum.
  • Leiga á rafhjóli í 5 daga.
  • Hjóladagskrá. 
  • Rútuferðir samkvæmt dagskrá. 
  • Innlend staðarleiðsögn í hjólaferðum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Kvöldverður á frídegi. 
  • Vínsmökkun.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatryggingar.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 42 - 50 km. Ferðahraðinn er ekki meiri en svo að auðvelt er að upplifa umhverfið og njóta þess sem fyrir augu ber. Við ráðleggjum fólki að fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og fólk nýtur sjálfrar ferðarinnar betur ef það æfir og undirbýr sig vel fyrir ferðina. Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillögur að dagleiðum

Anna Sigríður fararstjóri er reynd hjólakona og mun hún skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladagana sem fararstjóri getur skipulagt eftir eigin höfði ásamt því að breyta eða bæta við stöðum.

22. ágúst | Flug til Parísar & Reims

Brottför frá Keflavík kl. 07:35 en mæting er í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í París kl. 13:00 að staðartíma. Þaðan verður ekið til Reims í Champagane héraði en þangað er um 130 km akstur. Í Reims voru konungar Frakklands krýndir í gegnum aldirnar. Við gistum fyrstu nóttina í þessari krýningarborg kampavínshéraðsins en þar eru mörg helstu kampavínshús heims. Undir borginni er að finna marga kalksteinshella sem eru enn þann dag í dag nýttir til þess að þroska kampavín, sumir hafa verið til staðar allt frá tímum Rómverja. Í dag er borgin á heimsminjaskrá UNESCO. Það er mikið af fallegum Art Deco húsum í Reims en sá byggingarstíll var ríkjandi eftir að borgin reis úr rústum fyrstu heimsstyrjaldarinnar. Helst má þar nefna bókasafnið, Bibliothèque Carnegie, Óperuhúsið í Reims, Halles du Boulingrin markaðinn og Villa Douce sem er hluti af háskólanum í Reims. Einn mesti gimsteinn borgarinnar, dómkirkjan Notre-Dame de Reims, skemmdist gífurlega í styrjöldinni og var allt kapp lagt á að endurreisa hana enda gotneskt meistaraverk. Mörg kampavínshúsanna bjóða upp á leiðsögn um kjallarana sína og vínsmökkun. Einnig er hægt er að setjast niður á góðu veitingahúsi og fá sér máltíð úr héraði paraða saman við kampavín.

Opna allt

23. ágúst | Montagne de Reims til Mutigny

Við hjólum af stað frá Reims og tökum stefnuna á Épernay sem er gjarnan kölluð höfuðborg Champagne héraðs. Áfangastaðurinn okkar er fallega þorpið Mutigny rétt fyrir utan Épernay. Við ferðumst í gegnum Montagne de Reims þjóðgarðinn en hann er á heimsminjaskrá UNESCO. Hér sjáum við heilu hlíðarnar og hæðirnar með skipulögðum röðum af vaxandi vínviði og falleg þorp inn á milli. Þetta svæði í heild sinni var eitt sinn kjarni hins franska konungdæmis, menningarlega mikilvægt, frjósamt og auðugt af náttúrúruauðlindum. Við höldum ferð okkar áfram og komum í Domaniale de Verzy skóginn sem er þekktur fyrir Faux de Verzy, ævagömul beykitré sem hafa sérstætt lag og eru einstaklega kræklótt. Hér er gott að hjóla skuggsæla stíga inn á milli trjánna. Inni í skóginum sjálfum er að finna bar uppi í trjákrónunum þar sem hægt er að fá sér hressingu úr héraði. Verzenay vitinn var upprunalega byggður til að leiðbeina þeim sem fóru um Marne ánna. Þar er einnig hægt að fá sér kampavínsglas og dást að ægifögum vínekrunum allt um kring. Við höldum áfram og förum um litla sveitavegi og stíga í landslaginu í gegnum þorp eins og Fontaine-sur-Ay og Avenay-Val-d'Or. Ferð okkar endar í yndislega bænum Mutigny þar sem við gistum næstu þjár nætur.

  • Vegalengd: 42 km
  • Hækkun: 486 m
  • Lækkun: 372 m

24. ágúst | Hringleið um Marne dalinn

Í dag liggur leið okkar um Route de Champagne í Marne dalnum. Í dalnum og meðfram Marne ánni er mikil náttúrufegurð. Vínviðurinn vex um hóla og hæðir en brattinn er nauðsynlegur til að framræsa jarðveginn og nýta sólskinið til að ná sem bestri sprettu. Við komum í þorpin Cumiéres og Damery við Marne ánna og stöldrum þar aðeins við. Við sjáum fallegu höllina, Château de Boursault, bregða fyrir á leið okkar til þorpsins Venteuil sem stendur í hjarta Marne dalsins. Hér í friðsældinni við Marne ánna er að finna marga smærri ræktendur. Við höldum áleiðis gegnum lítil, falleg þorp, vínekrur og skóglendi þar til við komum til vínræktarþorpsins Reuil en þaðan er fallegt útsýni yfir Marne ánna. Við förum yfir ánna og njótum þess að hjóla áfram til höfuðborgar Champagne héraðs, Épernay. Þar komum við á afar merkilega götu, Avenue de Champagne, en þar er að finna kampavínshús einna þekktustu framleiðenda heims svo sem Moët & Chandon, Perrier-Jouët, Pol Roger og De Castellane. Avenue de Champagne er á heimsminjaskrá UNESCO sökum sérstöðu sinnar, mikillar sögu, glæsileika húsanna sem við hana standa og mikilvægi götunnar í að gera Épernay að miðstöð kampavínsframleiðslu í heiminum. Undir forystu framleiðenda í héraðinu varð kampavín að þeirri lúxusvöru sem það er í dag. Undir götunni má finna um 110 kílómetra af kjöllurum þar sem kampavín er þroskað við kjöraðstæður.

  • Vegalengd: 50 km
  • Hækkun: 457 m
  • Lækkun: 458 m

25. ágúst | Frídagur

Í dag er frjáls dagur sem hver og einn getur nýtt eins og honum líkar best. Slaka á eftir ferðir undanfarinna daga eða skoða sig betur um. Það er stutt yfir til Épernay, aðeins um 10 kílómetrar og vinsælt að hjóla eða ganga á milli. Í Épernay er hægt að fara í kynnisferðir um kampavínskjallara og smökkun hjá framleiðendum. Hér standa fallegar byggingar eins og Église Notre-Dame og hér er gnægð góðra veitingastaða þar sem hægt er að fá máltíð paraða með kampavíni. Fyrir áhugasama er hægt að kynna sér möguleika á ferð í loftbelg yfir vínræktarsvæðin.

26. ágúst | Hautvillers & Reims

Við ljúkum einstakri hjólaviku á því að hjóla í gegnum skemmtilegt svæði á leið okkar aftur til Reims. Við kveðjum Mutigny og höldum í átt til Hautvillers skógar þar sem við hjólum til bæjarins Hautvillers sem gjarnan er kallaður fæðingarstaður kampavínsins. Í klaustrinu þar bjó munkurinn Dom Pérignon sem á heiðurinn af uppgötvun aðferðarinnar við að freyða kampavín. Hér eru heillandi litlar götur og fallegt útsýni yfir Marne dalinn og vínekrurnar um kring. Við förum í gegnum þorpið Champillon, yfir hæðirnar í Montagne de Reims og niður hinum megin en þar birtast okkur slétturnar í kring um Reims. Við hjólum í gegnum þorpin Chamery, Écueil og Sacy og endum í Reims og gistum þar síðustu nóttina.

  • Vegalengd: 45 km
  • Hækkun: 670 m
  • Lækkun: 785 m

27. ágúst | Heimflug frá París

Nú er komið að leiðarlokum eftir frábæra ferð um hið dásamlega kampavínshérað Frakklands. Laust fyrir hádegi höldum við af stað með rútu á flugvöllinn í París. Flogið verður heim með Icelandair kl. 17:00 síðdegis. Lending á Íslandi kl. 18:30 að staðartíma.

Hótel

2 nætur- Reims -  Holiday Inn Reims - City Centre (fyrstu og seinustu nóttina)

3 nætur - Mutigny - Loisium Hotel Champagne

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Anna Sigríður Vernharðsdóttir

Anna Sigríður Vernharðsdóttir er hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir og starfar sem ljósmóðir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hún var á árum áður félagi í Hjálparsveit skáta Kópavogi og var um tíma yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í fyrstu hjálp.

Anna Sigga, eins og hún er alltaf kölluð, hefur áhuga á alls konar útivist og nýtir hvert tækifæri til ævintýra og útivistar. Fjallgöngur, hjólreiðar og skíðaganga eru í uppáhaldi.

Hótel

Holiday Inn Reims Centre

Gist verður 2 nætur á 4* hótelinu Holiday Inn Reims Centre sem er vel staðsett í miðbæ Reims (fyrstu nóttina og þá seinustu). Á hótelinu er veitingastaður og bar. Herbergin eru með baði/sturtu, hárþurrku, sjónvarpi og Wifi tengingu.

LOISIUM Hôtel Champagne

Gist verður í þrjár nætur á 4* heilsuhótelinu LOISIUM Hôtel Champagne í Mutigny, sem er staðsett á fallegri hæð rétt fyrir utan Épernay. Það er heilsulind á hótelinu með gufubaði og sundlaug, einnig eru þar veitingastaður og bar. Herbergin eru með baði/sturtu, öryggishólfi, hárþurrku, sjónvarpi og Wifi tengingu.

Senda fyrirspurn um ferð


bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790




Póstlisti