Gengið um Dalmatíuströndina & á eyjunni Brač
18. - 25. september 2025 (8 dagar)
Í þessari einstöku göngferð um nágrenni Split og á eyjunni Brač kynnumst við skemmtilegum gönguleiðum við Dalmatíuströnd Króatíu. Við hefjum ævintýrið með göngu um borgina Split þar sem við skoðum helstu mannvirki, meðal annars Diokletianhöllina frá tímum Rómverja. Við komum í eitt elsta hverfið, Varos, göngum upp á Marjan hæð og náum hæsta toppnum Telelgrin þar sem víðsýnt er yfir Adríahafið og borgina. Leið okkar liggur einnig í dreifbýlið fyrir utan Split þar sem við göngum á Mosor fjallahrygginn en í kring um hann á útivistarmenning Króatíubúa sér djúpar rætur. Þar náum við toppnum Vickov Stup og hæsta tindinum Veliki Kaba. Við förum einnig í Biokovo þjóðgarðinn en þar er að finna hæsta fjall Króatíu og tilkomumikinn útsýnispall sem stendur í um 1200 metra hæð. Við náum toppnum Sveti Jure og njótum stórkostlegst útsýnis. Siglt verður frá bænum Makarska yfir á eyjuna Brač og dveljum við þar í fallega bænum Bol. Við njótum þess að slaka á í þessu fallega umhverfi en skyggnumst einnig inn í fortíð eyjunnar og forna bústaði í Blaca eyðimörkinni og í hellunum við Murvica. Að sjálfsögðu verður gengið á hæsta punkt eyjunnar, Vidova Gora, en þaðan sem er frábært útsýni yfir bæinn Bol og hina skemmtilegu strönd Zlatni Rat. Hér njótum við alls hins besta fyrir göngumanninn í Króatíu. Göngur um fornar borgir, fjalllendi, eyjar og fallegar strendur við blágrænt Adríahafið.