Hjólað um fjallasali Valencia

Í þessari nýju og spennandi hjólaferð verður farið um Valencia og Alicante héruð á Spáni. Þau eru bæði í sjálfstjórnarsvæðinu Valencia sem liggur með fram Miðjarðarhafsströnd Spánar en svæðið er mikil perla fyrir náttúruunnendur og býður upp á fjölmörg tækifæri til útivistar. Hér líðum við um slóða undurfagra fjallasala austurhluta Spánar, rennum í gegnum forna furuskóga, njótum stórbrotinnar náttúru og notalegs hjólaveðurs. Fyrstu fjórar nætur ferðarinnar dveljum við í bænum Alcoy sem er þekktur sem brúarbærinn en fjölmargar tilkomumiklar brýr tengja saman ýmsa hluta bæjarins. Bærinn er umvafinn töfrandi landslagi og fallegum náttúrugörðum. Frá Alcoy höldum við í hjólaferðir meðal annars í Sierra de la Mariola náttúrugarðinn, þar sem vex ótrúlegur fjöldi trjá- og plöntutegunda. Einnig hjólum við eftir Vía Verde del Río Serpis leiðinni sem er söguleg leið á landamærum Alicante og Valencia héraðanna og liggur við forna járnbrautarlínu. Seinni hluta ferðar verður dvalið í Morella sem er forn bær staðsettur á hæðartoppi og umkringdur virkisveggjum. Morella er af mörgum talinn einn fegursti bær Spánar og héðan liggja fallegar hjólaleiðir. Við munum njóta stórbrotins útsýnis yfir meðal annars Morella og fjallahafið þar í kring. Hér munum við stunda útivist í heillandi umhverfi og góðum félagsskap og að sjálfsögðu gefst okkur tækifæri til að snæða þjóðarrétt Spánverja, paellu sem kemur upprunalega frá Valencia. Njóttu einstakrar hjólaupplifunar á Spáni í dymbilvikunni.

Verð á mann 489.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 68.600 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir á milli flugvallarins í Alicante og hótela.
  • Gisting í 2ja manna herbergi með baði á góðum hótelum.
  • Morgun- og kvöldverður allan tímann á hótelum.
  • Leiga á rafhjóli.
  • Nesti á hjóladögum.
  • Spænsk paella máltíð.
  • Hjóladagskrá í 5 daga. 
  • Innlend leiðsögn í hjólaferðum.
  • Stuðningsbifreið á hjóladögum.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Aðgangseyrir inn í söfn, hallir og kirkjur.
  • Hádegisverðir.
  • Þjórfé.
  • Ferða- og forfallatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Dagleiðirnar í þessari hjólaferð spanna um 40 - 73 km og hækkanirnar eru frá +120 – +1900 m. Hjólað verður bæði á stígum og moldartroðningum (e. dirt tracks) og aðeins er boðið upp á að leigja rafhjól. Við ráðleggjum gestum okkar að æfa sig vel fyrir ferðina, fara í nokkra lengri dagstúra og festa kaup á gelhnakki eða hjólabuxum. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir hjólaferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina. Fararstjóri mun boða farþega í stutta hjólaferð eða ferðir hér heima áður en haldið verður utan.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir hjóladaga ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í hjólaferðir á eigin vegum.

Tillaga að dagleiðum

Bjarni Torfi Álfþórsson fararstjóri er reyndur hjólamaður og mun hann skipuleggja hjólaferðirnar eftir aðstæðum hverju sinni í samráði við enskumælandi innlendan leiðsögumann sem fylgja mun hópnum alla hjóladagana. Eftirfarandi eru leiðarlýsingar til viðmiðunar fyrir hjóladaga sem fararstjóri getur skipulagt eftir aðstæðum ásamt því að breyta eða bæta við stöðum.

22. mars | Flug til Alicante & ekið til Alcoy

Flogið verður með Icelandair til Alicante. Brottför frá Keflavík kl. 08:40 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Alicante kl. 14:10 að staðartíma. Frá flugvellinum eru u.þ.b. 70 km til hótelsins í Alcoy. Alcoy er þekktur sem brúarbærinn en fjölmargar tilkomumiklar brýr tengja saman ýmsa hluta bæjarins. Bærinn er umvafinn töfrandi landslagi og fallegum náttúrugörðum og í miðbænum má sjá fallega móderníska byggingarlist.

Opna allt

23. mars | Sierra de la Mariola náttúrugarðurinn

Hjólaleið dagsins er í gegnum Sierra de la Mariola náttúrugarðinn en í þessum fjallgarði vex ótrúlegur fjöldi trjá- og plöntutegunda. Stærstur hluti fjallgarðsins er þakinn skógi og eru ýviður og Aleppo furutré áberandi ásamt ýmsum runnategundum. Hinn sanni auður Sierra liggur án efa í blómadýrðinni. Um 1200 tegundir hafa verið auðkenndar og margar þeirra staðbundar á Valencia svæðinu eða jafnvel fjallgarðinum sjálfum.

  • Vegalengd: u.þ.b. 42 km
  • Hækkun: +1066 m

24. mars | Furuskógar og Sierra del Quarter

Í dag hjólum við mjög fallega en ívið krefjandi leið þar sem hjólað er til skiptis á breiðum brautum og þrengri stígum. Við tökum krók til að hjóla um Sierra del Quarter og komumst að endingu í tæplega 1100 m hæð þar sem við höfum tækifæri til að dáðst að Aleppo furuskógunum sem eru svo dæmigerðir fyrir svæðið.

  • Vegalengd: u.þ.b. 53 km
  • Hækkun: +830 m

25. mars | Vía Verde del Río Serpis leiðin

Nú liggur leið okkar með fram Vía Verde del Río Serpis sem er söguleg leið á landamærum Alicante og Valencia héraðanna. Leiðin liggur við forna járnbrautarlínu og munum við upplifa fjölbreytt landslag á ferð okkar. Við endum hjólatúrinn á ströndinni í Gandía og einnig gefst okkur tækifæri til að snæða paellu sem er dæmigerð fyrir þetta svæði en paellan kemur upprunalega frá Valencia.

  • Vegalengd: u.þ.b. 57 km
  • Hækkun: +120 m 

26. mars | Rútuferð frá Alcoy til Morella

Eftir góðan morgunverð kveðjum við Alcoy og höldum til Morella. Morella er forn bær, staðsettur á hæðartoppi og umkringdur virkisveggjum í Valencia héraði. Hann er oft talinn í flokki fegurstu bæja Spánar. Eitt af helstu kennileitum bæjarins er kastalinn sem var reistur á 15. öld en virkisveggir hans eru 2,5 km langir og á þeim eru 14 turnar og 6 hlið. Hér gistum við í þrjár nætur á hóteli í miðbæ Morella.

27. mars | Stórbrotið útsýni yfir Morella

Við leggjum af stað út í daginn eftir góðan morgunverð en með því að tengja saman brautir og slóða gefst okkur í dag tækifæri á að heimsækja nokkra staði á svæðinu. Fyrir utan stutta kafla er þessi leið frekar auðveld. Við munum njóta stórbrotins útsýnis bæði frá vindorkugarði og enn hærri svæðum á leiðinni. Leiðin liggur því næst stöðugt upp og niður í gegnum gróskumikla skóga sem eru talsverð andstæða við strjálan gróður hærri svæða nágrennisins. Stórbrotið útsýnið yfir Morella gefur okkur kraft fyrir síðustu niðurleiðina og síðasta klifrið upp að Morella sem er stutt en þónokkuð krefjandi.

  • Vegalengd: u.þ.b. 73 km
  • Hæðarmunur: +1900 m

28. mars | Cervol áin & Vallibona

Í dag hjólum við stórbrotna leið sem á sínum hæstu punktum býður upp á glæsilegt útsýni yfir fjallahaf. Við förum um einstakt landslag þar sem skógar eru ríkjandi einkenni leiðarinnar þar til við komum að Cervol ánni sem við förum nokkrum sinnum yfir áður en við komum að litla bænum Vallibona. Heimferðin til Morella er á moldarbrautum fram á lokakaflann þegar við komum aftur á malbikið þar sem leið dagsins hófst.

  • Vegalengd: u.þ.b. 55 km
  • Hæðarmunur: +1600 m

29. mars | Heimferð

Nú er komið að heimferð og snemma morguns verður haldið til flugvallarins í Alicante. Frá Morella til flugvallarins eru um 350 km svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 4 klst. Brottför er kl. 15:10 og lending í Keflavík áætluð kl. 19:00 að staðartíma.

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Bjarni Torfi Álfþórsson

Bjarni Torfi Álfþórsson er fæddur 1960, menntaður lögreglumaður, grunnskólakennari og kerfisfræðingur. Hann starfaði í átta ár í umferðardeild lögreglunnar í Reykjavík, þrjú ár sem grunnskólakennari og í 11 ár í hugbúnaðargeiranum. Frá árinu 2011 hefur Bjarni verið framkvæmdastjóri Specialisterne á Íslandi.

Hótel

Hotel Sercotel Cuital d'Alcoi

Hotel Sercotel Cuital d'Alcoi er 4* hótel í miðbæ Alcoy, nálægt verslunarsvæði bæjarins. Á hótelinu er líkamsræktaraðstaða með heitum potti og tyrknesku baði. Herbergin eru með loftkælingu, míníbar, hárþurrku, sjónvarpi og þráðlausri nettengingu.

Hotel Cardenal Ram

Hotel Cardenal Ram er 3* hótel staðsett í fyrrum 16. aldar höll í miðbæ Morella. Á hótelinu eru rúmgóð, loftkæld herbergi með míníbar, öryggishólfi, hárrþurrku, snyrtivörum og þráðlausri nettengingu. Á hótelinu er boðið upp á nudd- og snyrtimeðferðir.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00




Póstlisti