Hjólað um fjallasali Valencia
22. - 29. mars 2024 (8 dagar)
Í þessari nýju og spennandi hjólaferð verður farið um Valencia og Alicante héruð á Spáni. Þau eru bæði í sjálfstjórnarsvæðinu Valencia sem liggur með fram Miðjarðarhafsströnd Spánar en svæðið er mikil perla fyrir náttúruunnendur og býður upp á fjölmörg tækifæri til útivistar. Hér líðum við um slóða undurfagra fjallasala austurhluta Spánar, rennum í gegnum forna furuskóga, njótum stórbrotinnar náttúru og notalegs hjólaveðurs. Fyrstu fjórar nætur ferðarinnar dveljum við í bænum Alcoy sem er þekktur sem brúarbærinn en fjölmargar tilkomumiklar brýr tengja saman ýmsa hluta bæjarins. Bærinn er umvafinn töfrandi landslagi og fallegum náttúrugörðum. Frá Alcoy höldum við í hjólaferðir meðal annars í Sierra de la Mariola náttúrugarðinn, þar sem vex ótrúlegur fjöldi trjá- og plöntutegunda. Einnig hjólum við eftir Vía Verde del Río Serpis leiðinni sem er söguleg leið á landamærum Alicante og Valencia héraðanna og liggur við forna járnbrautarlínu. Seinni hluta ferðar verður dvalið í Morella sem er forn bær staðsettur á hæðartoppi og umkringdur virkisveggjum. Morella er af mörgum talinn einn fegursti bær Spánar og héðan liggja fallegar hjólaleiðir. Við munum njóta stórbrotins útsýnis yfir meðal annars Morella og fjallahafið þar í kring. Hér munum við stunda útivist í heillandi umhverfi og góðum félagsskap og að sjálfsögðu gefst okkur tækifæri til að snæða þjóðarrétt Spánverja, paellu sem kemur upprunalega frá Valencia. Njóttu einstakrar hjólaupplifunar á Spáni í dymbilvikunni.