Á gönguskíðum í Seefeld 7
11. - 18. febrúar 2023 (8 dagar)
Vetrarfrí á gönguskíðum í skemmtilegum félagsskap og fallegu umhverfi er sannkallaður draumur útivistarfólks. Seefeld býður upp á allt það besta til að gera ferðina að ógleymanlegu vetrarævintýri. Svæðið við Seefeld er einstaklega fallegt og fjölbreytt. Skíðabrautir svæðisins eru rúmlega 245 km langar, þær eru í 1.200 – 1.550 m hæð yfir sjávarmáli og henta jafnt byrjendum sem lengra komnum. Gist verður á glæsilegu 4* hóteli í bænum þar sem fullt fæði er innifalið. Á hótelinu er notaleg heilsulind með sundlaug, sauna og eimbaði. Flogið er með Icelandair til München og ekið sem leið liggur til Seefeld en þangað eru um 160 km.
Hér er boðið upp á skíðagönguferð fyrir lítinn hóp farþega. Í ferðinni verður fararstjóri með skipulega dagskrá, boðið verður upp á styttri og lengri ferðir og gjarnan staldrað við í hádegi á notalegum veitingastað. Þeir sem vilja frekar taka því rólega og njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín við bestu mögulegu aðstöðu sem Alparnir hafa upp á að bjóða.