Á gönguskíðum í Ramsau 2

Vetrarlandslagið í bænum Ramsau við Dachstein er einstaklega fallegt. Bærinn liggur á Ramsauer hásléttunni í 1000 –1300 m hæð og tignarlegir hvítir alpatindar gnæfa yfir til suðurs. Svæðið, sem er snjóöruggt og sólríkt, er með betri skíðagöngusvæðum Alpanna. Skíðagöngubrautirnar teygja sig yfir þrjú mismunandi hæðarsvæði og því er svo sannarlega hægt að finna brautir við allra hæfi. Gist verður 7 nætur á ekta austurrísku 4* alpahóteli sem býr yfir glæsilegri heilsulind. Skíðagöngubrautir liggja beint við hótelið og stutt er í verslanir og aðra þjónustu. Í þessari ferð fer saman útivist, hreyfing, góður matur og skemmtilegur félagsskapur í sannkölluðu ævintýralandslagi. Flogið er með Icelandair til Salzburg og ekið sem leið liggur til Ramsau en þangað eru um 90 km.

Í þessari ferð er skipulögð skíðagöngukennsla og því hentar hún bæði byrjendum sem lengra komnum. 

Fararstjórn: Íris Marelsdóttir

Skíðakennsla: Katrín Árnadóttir & Ólafur Th. Árnason

Verð á mann 349.900 kr.

Aukagjald fyrir einbýli 25.400 kr.


Innifalið

  • 8 daga ferð.
  • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
  • Ferðir milli flugvallarins í Salzburg og hótelsins í Ramsau.
  • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
  • Glæsilegt morgunverðarhlaðborð með heilsuhorni.
  • Fjögurra rétta kvöldverður með valmatseðli, forrétta- og salatbar.
  • Aðgangur að heilsulind.
  • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

  • Hádegisverðir.
  • Kaupa þarf sérstakt kort fyrir skíðagöngubrautir svæðisins (vikukort u.þ.b. € 38).
  • Aukagjald fyrir skíði í flug, 4.700 kr. á fluglegg.
  • Forfalla- og ferðatrygging.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Nánar um ferðina

Í ferðinni verða bæði fararstjóri og skíðakennarar. Fyrir þá sem það vilja verða skíðakennarar með æfingar og kennslu flesta daga, bæði fyrir og eftir hádegi. Því er upplagt að nýta sér kennsluna hálfan daginn og æfa sig sjálfur hálfan daginn. Kennslan verður fjölbreytt og skipt er í hópa eftir getu. Þeir sem vilja frekar njóta þess að skíða á sínum eigin forsendum í dásamlegu umhverfi gera það. Markmiðið er að allir njóti sín á gönguskíðum við góðar aðstæður.

Skíðasvæðið

Ramsau er snotur 2.800 íbúa bær sem liggur við rætur Dachstein jökulsins. Bærinn stendur á bjartri og sólríkri hásléttu sem er eins og risastór verönd hátt í fjöllunum. Þetta snjóörugga svæði er með sérlega góðar og fjölbreyttar skíðagöngubrautir sem spanna samtals um 220 km og liggja á þremur mismunandi hæðarsvæðum; Ramsauer Hochplateau í 1.200 m hæð, Almenregion í 1.700 m hæð og Dachsteingletscher í 2.700 m hæð yfir sjávarmáli. Allar þessar brautir hafa fengið gæðastimpil austurríska svæðisins Steiermark. Á Dachstein jöklinum er útsýnispallur með veitingaskála en þangað er hægt að fara upp með kláfi og njóta stórfenglegs útsýnis til allra átta; það sést til Slóveníu til suðurs og Tékklands til norðurs. Á jöklinum er einnig að finna skíðagöngubrautir sem gaman er að spreyta sig á. Hið einstaka samspil ljóss og lita sem endurspeglast í jöklinum gerir Ramsau við Dachstein að sérlega fögrum stað sem eftirsóknarvert er að heimsækja. 

Vefsíða Dachstein svæðisins.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Salzburg þann 27. janúar. Brottför frá Keflavík kl. 8:00 en mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst fyrir brottför. Lending í Salzburg kl. 12:50 að staðartíma. Frá flugvellinum í Salzburg eru um 90 km til Ramsau svo gera má ráð fyrir að rútuferðin taki um 1,5 klst.  Á brottfarardegi er flogið heim kl. 14:00 frá Salzburg. Lending á Íslandi kl. 17:15. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Íris Marelsdóttir

Íris er sjúkraþjálfari og leiðsögumaður og starfar sem yfirsjúkraþjálfari hjá Reykjavíkurborg. Hún hefur verið gönguskíðaleiðsögumaður hjá Bændaferðum síðan 2005 og farið fjölmargar gönguskíðaferðir til Ramsau, Toblach og til Seefeld. Íris lauk leiðsögumannsprófi frá MK árið 2015 og hennar aðaláhugamál er útivist af öllu tagi og gönguleiðsögn að sumri sem að vetri. Hún fékk gott veganesti inn í fjallalífið sem björgunarsveitarmaður í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. 

Katrín Árnadóttir

Katrín Árnadóttir er fædd og uppalin á Ísafirði. Hún lauk námi í hjúkrunarfræði árið 2011 og hefur starfað við hjúkrun að mestu síðan. Hún er gift Jens Þór og saman eiga þau tvo syni og fjárhundinn Nap. Katrín átti sínar helstu fyrirmyndir í skíðagöngu á uppvaxtarárunum á Ísafirði og fór svo sjálf að æfa íþróttina um 10 ára aldur. Hún keppti á unglingsárum og fram á fullorðinsár með góðum árangri og fékk inngöngu í fjölþrautarfélagið Landvættir árið 2013. Í dag nýtur hún hverskyns hreyfingar og útivistar með fjölskyldunni, á skíðum, hlaupum, fjallahjólreiðum eða göngum.

Ólafur Thorlacius Árnason

Ólafur Thorlacius Árnason er fæddur og uppalinn á Ísafirði. Frá 9 ára aldri hefur skíðaganga verið partur af lífi Ólafs á einn eða annan hátt. Skíðagönguáhugi Ólafs jókst með árunum og árangurinn í keppnum líka. Á framhaldskólaaldri sannfærði Ólafur foreldra sína um að það væri komið nóg af skóla í bili og flutti til Noregs. Í Noregi naut Ólafur aðstoðar sumra af færustu þjálfurum Noregs og keppti í fjölda keppna þar í landi, víða í Evrópu og auðvitað heima á Íslandi. Í dag er Ólafur virkur meðlimur í Skíðagöngufélaginu Ulli þar sem áhuginn liggur aðallega í uppbyggingu skíðagöngustarfs fyrir börn og unglinga á höfuðborgarsvæðinu. Ólafur hefur lengi starfað sem leiðbeinandi bæði fyrir fullorðna og börn.

Hótel

Hotel Matschner í Ramsau Skíðaferð

Gist verður allar næturnar á Hotel Matschner. Þetta hlýlega fjölskyldurekna 4* hótel í bænum Ramsau er vel staðsett, en skíðagöngubrautirnar liggja beint fyrir utan hótelið. Á hótelinu eru hugguleg herbergi með baði/sturtu, sjónvarpi, síma, öryggishólfi og netaðgangi. Öll herbergin eru reyklaus og með svölum. Á hótelinu er bar og verönd þar sem upplagt er að hittast og eiga notalega stund. Gestir hafa aðgang að stórri heilsulind sem er tengd við hótelið með undirgöngum. Þar er hægt að slaka á eftir góðan skíðadag. Í heilsulindinni er m.a. að finna innisundlaug, setlaug, barnalaug og 600m2 saunasvæði með ýmis konar gufuböðum. Enn fremur er hægt að bóka ýmsar tegundir af nuddi gegn gjaldi.


Vefsíða hótelsins.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-14:00