Útivist við Gardavatn

Í þessari útivistarferð við Gardavatn verða helstu dásemdir svæðisins kannaðar og náttúrunnar notið til hins ýtrasta. Við munum ganga á stórkostlegum útsýnisvegum með fram hlíðum vatnsins og fara með kláfi upp á hinn forna eldfjallahrygg Monte Baldo sem umlykur vatnið og njóta þar víðrar sýnar yfir hið ægifagra Gardavatn. Einn hápunktur ferðarinnar er tvímælalaust smaragðsgræna vatnið Tenno en við þræðum einnig þröngar og undnar götur gamla bæjarins Canale di Tenno og göngum forna sögulega slóða á Ponale veginum sem höggvinn var inn í bergið. Til þess að ná enn betri yfirferð um svæðið og sjá fleiri spennandi staði þá er einn hjóladagur á dagskrá þar sem við hjólum í gegnum aldagamla ólífuakra með fram ánni Sarca og fram hjá miðaldakastalanum Arco. Í ferðinni er áhersla lögð á að njóta fjölbreyttrar útivistar á þessu yndislega svæði. Gist verður á 4* hóteli með sundlaug og garði í bænum Limone sul Garda þar sem gott er að slaka á eftir útivist dagsins. Ferð fyrir alla sem vilja njóta hressandi hreyfingar í einstöku umhverfi og góðum félagsskap.

Verð á mann í tvíbýli 294.700 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 46.500 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair til Mílanó og flugvallarskattar. 
 • Ferðir á milli flugvallar í Mílanó og hótelsins við Gardavatn. 
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á 4* hóteli.
 • Morgun- og kvöldverðir allan tímann á hóteli.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin á hótelinu hefur upp á að bjóða. 
 • Bátsferð milli Limone og Malcesine samkvæmt ferðalýsingu. 
 • Bátsferð milli Limone og Riva del Garda samkvæmt ferðalýsingu. 
 • Útsýniskláfur á Monte Baldo.
 • Leiga á 21 gíra hjóli í einn dag. Hjálmar innifaldir en ekki töskur. 
 • Göngu- og hjóladagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í göngu- og hjólaferðum.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Kláfar eða stólalyftur upp á fjöll annað en tekið er fram í ferðalýsingu.
 • Hádegisverðir og annar tilfallandi kostnaður á göngunum. 
 • Ferða- og forfallatrygging.
 • Þjórfé.

Valfrjálst

 • Hádegisverður hjá vínbónda vínhéraðinu Vino Santo u.þ.b. € 22.

Kort af ferðinni

FerðalýsingPrenta ferðalýsingu

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í góðu gönguformi en besti undirbúningurinn er að ganga reglulega á fjöll. Fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er gott að fara t.d. upp að Steini í Esjunni vikulega í u.þ.b. 6-8 vikur fyrir ferð. Ágætis viðmið er að geta gengið upp að Steini Esjunnar og niður aftur á innan við 2 klst. og líða vel eftir gönguna. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Einnig er mikilvægt að undirbúa sig og hjóla fyrir ferð til að aðlagast álagi og núningi, auk þess sem það eykur öryggi og gleði. Því fylgir mikil ánægja að æfa fyrir útivistarferð af þessu tagi og farþegar njóta sjálfrar ferðarinnar miklu betur ef þeir æfa og undirbúa sig vel fyrir ferðina.
Vinsamlegast athugið að ef þátttakendur hafa ekki þá getu sem nauðsynleg er fyrir göngur ferðarinnar getur fararstjórinn farið fram á að viðkomandi sleppi einhverjum degi/dögum. Í staðinn er hægt að nýta sér aðstöðu hótelsins eða fara í léttar gönguferðir á eigin vegum.

Flugið

Flogið verður með Icelandair til Mílanó þann 3. júní. Brottför frá Keflavík kl. 08:30. Mæting í Leifsstöð u.þ.b. 2,5 klst. fyrir brottför. Lending í Mílanó kl. 14:45 að staðartíma. Frá flugvellinum í Mílanó að Gardavatni eru rúmlega 200 km og má því gera ráð fyrir því að rútuferðin taki um þrjár klst. Þann 10. júní höldum við heim á leið. Flogið verður með Icelandair frá Mílanó kl. 15:45. Lending á Íslandi kl. 18:00 að íslenskum tíma. 

Svæðið

Gardavatnið eða Lago di Garda á móðurmálinu er stærsta stöðuvatn Ítalíu og liggur í skjóli Alpanna fyrir norðan og Pósléttunnar fyrir sunnan. Norðurbakkinn er umlukinn 2000 metra háum fjöllum, líkt og Monte Baldo fjallgarðinum, á meðan lágsléttan tekur við á suðurbakkann. Gardavatnið er vinsæll ferðamannastaður og er norðurhlutinn einkar vinsæll á meðal klifur-, hjólreiða- og göngufólks. Í nágrenni vatnsins er ræktun ýmiskonar, m.a. ólífur og sítrónur við austur- og suðurbakkann og vín við norðurbakkann en á meðal þekktra vínhéraða má nefna Bardolino og Valpolicella. Loftslagið við vatnið er miðjarðarhafsloftslag.

Opna allt

Tillögur að dagleiðum

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og öðrum aðstæðum. Með í för verða bæði íslenski fararstjórinn og innlendur staðarleiðsögumaður. Þá er einn frídagur í ferðinni en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu.

1. Gengið um Limone

Þennan fyrsta göngudag okkar förum við frá hótelinu með fram fallegum vatnsbakkanum og þaðan fylgjum við San Giovanni árfarveginum að ólífuolíu myllu. Hér er hægt að fara aukakrók og halda inn í Alto Garda náttúrugarðinn sem er einn af helstu görðum Lombardy héraðsins. Því næst förum við frá gamla bæ Limone að gamalgrónum sítrónugarði en sítrónur hafa verið ræktaðar á vesturströnd Gardavatns síðan á 15. öld. Göngum svo aftur á hótelið.

 • Göngutími: u.þ.b. 2,5 klst. 
 • Hækkun: 350 m

2. Útsýniskláfur upp á Monte Baldo og gönguferð

Við hefjum daginn á bátsferð til bæjarins Malcesine en þar liggur leiðin með útsýniskláfi upp á topp fjallsins Monte Baldo í 1.650 m hæð. Hér göngum við um græna grundu og njótum ægifagurs útsýnis yfir Gardavatn. Leið okkar hlykkjast ýmist eftir gömlum hestaslóðum eða yfir tún og engi þar sem við kynnumst helstu blómategundum árstíðarinnar. Að lokum göngum við í gegnum skóglendi að biðstöð kláfsins sem ferjar okkur aftur niður til bæjarins Malcesine. Upplagt er að spássera um miðaldabæinn, virða fyrir sér kastalann eða fá sér hressingu við sjávarsíðuna áður en við höldum með bátnum aftur á hótel í Limone.

 • Göngutími: u.þ.b. 3 klst.
 • Hækkun: 400 m

3. Hjólaferð með fram Sarca ánni

Í dag reynum við annan ferðamáta og hjólum frá Torbole í gegnum vínekrur og ólífulundi með fram ánni Sarca, aðalrennslisá Gardavatns. Við hjólum á þægilegum hraða, fram hjá miklu klifursvæði og miðaldakastalanum Arco sem stendur hátt uppi á bjargi og komum að hrjóstrugu landslagi Marocche sem oft er líkt við tunglið. Þetta stórgrýtta svæði sem ótal skriður hafa fallið á er ólíkt öllu því sem sést í nágrenninu. Þegar við komum að vínhéraðinu Vino Santo getum við snætt léttan hádegisverð í vínkjallara á svæðinu þar sem tækifæri gefst að smakka afurðir svæðisins. Hjólum í rólegheitum með fram Cavedine vatninu til baka til Torbole.

 • Hjólaleið: u.þ.b. 45 km 
 • Hækkun: 450 m 

4. Gengið um hinn forna Ponale veg

Gönguleið dagsins er Ponale vegurinn til Pregasina. Við höldum með báti til Riva del Garda þar sem gönguferð okkar hefst. Göngum með fram strandlengjunni og áfram veginn sem var höggvinn inn í bergið og var sérstaklega mikilvægur í hernaðarlegum tilgangi í fyrri heimstyrjöldinni. Vegurinn er í dag lokaður fyrir bílaumferð og er því aðeins nýttur sem göngu- og hjólreiðastígur. Þetta er ein fallegasta, sögulega gönguleið Evrópu og einn vinsælasti áfangastaðurinn við Gardavatn, enda er útsýnið þaðan mikilfenglegt. Við göngum þessa fallegu leið sem liðast utan í fjallsveggnum í átt að Pregasina. Á leiðinni er að finna fjöldann allan af hvíldar- og útsýnisstöðum, tilvöldum til myndatöku. Við stöldrum við á Café Ponale Alto þar sem gott er að setjast niður með kaffibolla og dást að fallegu útsýninu yfir Monte Baldo. Þaðan göngum við svipaða leið til baka til Riva del Garda þar sem gefst tími til að skoða gamla miðbæ bæjarins sem stundum er kallaður perla Gardavatns.

 • Gönguleið: u.þ.b. 4 klst.
 • Hækkun: 450 m 

5. Tenno vatnið og miðaldabærinn Canale

Einn hápunktur þessarar ferðar er tvímælalaust smaragðsgræna vatnið Tenno. Við förum með rútu til Passo Ballino þaðan sem við göngum eftir göngustígum að vatninu. Eftir afslappandi hvíld við vatnsbakkann fylgjum við fornum múlasnaslóðum til sjarmerandi miðaldabæjarins Canale þar sem þröngir stígar og húsasund, lítil torg og steinhús leiða okkur aftur til fornaldar. Við fáum okkur dæmigerða hádegishressingu fyrir þetta svæði áður en haldið verður að Tenno kastalanum sem var byggður á 13. öld. Á heimleið til Limone er upplagt að stoppa í heillandi bænum Arco og fá sér dýrindis handgerðan ís.

 • Göngutími u.þ.b. 3,5 klst. 
 • Hækkun u.þ.b. 400 m 

Myndir úr ferðinni

Ponale vegurinn

Ponale vegurinn

Ponale vegurinn

Ponale vegurinn

Monte Baldo

Monte Baldo

Monte Baldo

Monte Baldo

Arco

Arco

Limone sul Garda

Limone sul Garda

Tenno vatnið

Tenno vatnið

Limone sul Garda

Limone sul Garda

Riva del Garda

Riva del Garda

Limone sul Garda

Limone sul Garda

Limone sul Garda

Limone sul Garda

Ponale vegurinn
Ponale vegurinn
Monte Baldo
Monte Baldo
Arco
Limone sul Garda
Tenno vatnið
Limone sul Garda
Riva del Garda
Limone sul Garda
Limone sul Garda

Fararstjórn

Elísabet Sveinsdóttir

Elísabet er mikil útivistarmanneskja, hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur starfað sem markaðsstjóri ýmissa fyrirtækja stærstan hluta síns vinnuferils. Hún bjó í Þýskalandi um árabil ásamt fjölskyldu sinni og ferðaðist víða um Evrópu meðan á dvölinni stóð. Hún, ásamt manni sínum Aðalsteini Jónssyni sem einnig er fararstjóri, hefur tekið þátt í fjölda ferða á vegum Bændaferða við góðan orðstír. Elísabet hefur m.a. látið til sín taka í góðgerðarmálum og stofnaði ásamt vinkonum sínum Á allra vörum, sem margir þekkja.

Hótel

Hotel Alexander

Gist verður á 4* hótelinu Hotel Alexander, sem staðsett er steinsnar frá vatnsbakka Gardavatnsins og miðbæ Limone. Herbergin eru öll með loftkælingu, sjónvarpi, hárþurrku, míníbar, frírri nettengingu og öryggishólfi. Á hótelinu er að finna líkamsrækt og heilsulind með saunu þar sem gestir geta látið líða úr sér og í garði hótelsins er sundlaug og nuddpottur á fallegu svæði umkringt skrautplöntum.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 08:30-16:00

 

Tengdar ferðir