Útivist í Ölpunum

24. júní – 1. júlí 2018 (8 dagar)

Hohe Tauern þjóðgarðurinn er einn ákjósanlegasti staður sem um getur fyrir skemmtilega göngu í Ölpunum. Gróður og dýralíf í þjóðgarðinum er einstakt og hrikalegt landslag fjallanna er sérlega heillandi, enda er hér að finna alla hæstu tinda Austurríkis.

Gönguferðirnar verða meðfram lækjum, upp með fossum, um græna dali, grösug engi, hlíðar, barrskóga, klettabelti og fjallstinda. Með í för verður staðarleiðsögumaður sem deilir með okkur fróðleik og veitir innsýn í sérstöðu svæðisins. Einn dag nýtum við okkur reiðhjól til að komast yfir stærra svæði. Þorpið Neukirchen er í rúmlega 800 m hæð og er staðsett í hjarta þjóðgarðsins í fallegum dal sem fjöllin tróna yfir. Þar munum við gista á 4* fjallahóteli með dásamlegri heilsulind þar sem gott er að slaka á eftir göngu dagsins, eða njóta útsýnisins með drykk á veröndinni. Þessi ferð býður upp á allt sem til þarf fyrir hressandi útivist og hreyfingu í góðum félagsskap.

Verð á mann í tvíbýli 188.600 kr. 

Aukagjald fyrir einbýli 17.400 kr.

Innifalið

 • 8 daga ferð.
 • Flug með Icelandair og flugvallarskattar.
 • Ferðir á milli flugvallarins í München og hótelsins í Neukirchen.
 • Gisting í tveggja manna herbergi með baði á fjögurra stjörnu hóteli.
 • Morgunverðarhlaðborð.
 • Fimm rétta kvöldverður.
 • Aðgangur að öllu því sem heilsulindin hefur upp á að bjóða.
 • Göngudagskrá.
 • Leiðsögn staðarleiðsögumanns í gönguferðum og hjólaferð.
 • Leiga á hjóli og hjálmi einn dag.
 • Íslensk fararstjórn.

Ekki innifalið

 • Aðgangseyrir inn á söfn, í hallir og kirkjur.
 • Leigubílaakstur.
 • Lestarferðir.
 • Hádegisverðir.
 • Þjórfé.

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis hjóla- og gönguformi, en besti undirbúningurinn fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er að ganga upp að Steini í Esjunni einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Sé undirbúningurinn góður og nýttur sem hvatning í hreyfingu áður en farið er í ferðina, bæði að ganga á fjöll sem og hjóla mun ferðin verða leikur einn!

Undirbúningur

Mikilvægt er að þátttakendur séu í ágætis hjóla- og gönguformi, en besti undirbúningurinn fyrir þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu er að ganga upp að Steini í Esjunni einu sinni í viku, a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum fyrir ferðina. Þeir sem búa fjær velja sér sitt staðarfjall til að ganga á og sameina þar með undirbúning og útiveru. Sé undirbúningurinn góður og nýttur sem hvatning í hreyfingu áður en farið er í ferðina, bæði að ganga á fjöll sem og hjóla mun ferðin verða leikur einn!

Kort af ferðinni

Ferðalýsing

Prenta ferðalýsingu

Ferðatilhögun

Flogið verður með Icelandair til München þann  24. júní. Brottför frá Keflavík kl. 7:20 og lending í München kl. 13:05 að staðartíma. Frá flugvellinum í München eru um 220 km til Neukirchen. Gera má ráð fyrir að rútuferðin þangað taki um 3,5 klst með stuttu stoppi. Á heimleið þann 1. júlí leggjum við af stað út á flugvöll strax eftir morgunverð en flugið heim er kl. 14:05 frá München. Áætluð lending á Íslandi kl. 16:00 að staðartíma.

Útivist á svæðinu Hohe Tauern

Þjóðgarðurinn Hohe Tauern nær yfir 1.800 ferkílómetra af einstöku fjalllendi með þrönga dali, friðsæl þorp og gróskumikla barrskóga. Þetta er stærsta náttúruverndarsvæði landsins. Hæsta fjall Austurríkis, Grossglockner sem er 3.798 m að hæð er innan svæðisins, en fjallgarðurinn er hluti af hinum stórfenglegu Alpafjöllum. Í þjóðgarðinum er mikil áhersla lögð á náttúruvernd og umhverfisvæna framleiðslu.

Gönguleiðir verða skipulagðar eftir veðri og aðstæðum hvern dag. Fjóra daga göngum við, en einn dag þeysum við um á hjólum og upplifum svæðið á nýjan máta. Við höfum einn frjálsan dag en þá mætti t.d. bregða sér með lest til Zell am See og skoða svæðið þar betur. Alltaf er í boði að taka sér frí frá göngunum og njóta þess sem heilsulind hótelsins hefur upp á að bjóða eða kanna nærliggjandi umhverfi í rólegheitum.

Tillögur að dagleiðum 25. -30. júní

Eftirfarandi eru mögulegar leiðir á svæðinu fyrir fjóra göngudaga og einn hjóladag, en í raun verður ekki ákveðið fyrr en með skömmum fyrirvara nákvæmlega hvaða leiðir verða valdar og fer það eftir veðri og aðstæðum. Að auki er einn frídagur í ferðinni, en auðvitað geta þátttakendur hvenær sem er valið að taka daginn rólega á hótelinu og njóta aðstöðunnar.

Opna allt

Dagleið 1 | Dalganga um Trattenbachtal

Farið verður með strætó til Rechtegg, sem er fjallasel í 1.253m hæð. Þaðan er gengið inn eftir dalnum, meðfram læk og gegnum skóg. Áð verður í Trattenbachalm selinu í 1.718m hæð, en þar er m.a. boðið upp á landbúnaðarvörur úr framleiðslu heimamanna. Áfram er haldið á sérstökum slóða þar sem fræðast má um umhverfisvæna menningu, sem og samspil náttúrunnar og byggingartækni. Þessi leið þykir vera vel til þess fallin að fá fólk til að finna innri ró í ys og þys nútímans. 

 • Göngutími: ca. 4 klst.
 • Erfiðleikastig: Létt, síðasti spölurinn brattur.

Dagleið 2 | Ganga að fjallaseli

Farið verður með leigubíl að Krimmler Tauernhaus í 1.622 m hæð þar sem gangan hefst. Á göngunni verður farið framhjá Rainbachfossi í undurfögrum dal með sama nafni. Leiðin liggur upp á við og þegar komið er að Rainbach selinu sækir á brattan síðasta spölinn yfir steinótta slóð að fjallaseli þar sem áð verður drykklanga stund. Ánægja erfiðisins er svo stórkostlegt útsýni yfir fjallasalina í 2.367 m hæð. Farið verður til baka með strætó að Krimmler Tauernhaus og svo tekinn leigubíl þaðan á hótelið. Kostnaður við leigubíla þennan dag er áætlaður um € 25 á mann.

 • Göngutími: ca. 5-6 klst.
 • Erfiðleikastig: Meðalerfitt, úthald og fótvísi nauðsynleg.

Dagleið 3 | Á toppi Wildkogel

Það er þægilegt ferðalag að líða með Wildkogelbahn kláfinum upp að miðjustoppinu á Wildkogel fjalli í 1.600 m hæð. Þaðan er gengið á yndislegum vegum í skógum og á engjum upp á toppinn í 2.224 m hæð. Við hvílum okkur aðeins við krossinn á fjallstoppinum og njótum útsýnisins. Síðan er haldið aftur niður á við til Wildkogelscharte og að endastöð kláfsins sem við tökum svo aftur niður í dalinn. Ekkert kostar í kláfinn vegna sérkjarakortsins sem við fáum á hótelinu og kláfurinn er örstutt frá hótelinu.

 • Göngutími: ca. 3 klst.
 • Erfiðleikastig: Létt, kaflar sem krefjast fótvísi.

Dagleið 4 | Untersulzbachtal til Finkalm

Farið verður með strætó til Schütthof í Sulzau. Frá fossinum Untersulzbahfall verður gengið upp dalinn Untersulzbachtal. Á þessu fallega svæði finnast eðalsteinar í jörðu og áður voru koparnámur á svæðinu. Áð verður í Finkalm, en þar má sannarlega njóta útsýnisins og kyrrðarinnar.

 • Göngutími: ca. 4-5 klst.
 • Erfiðleikastig: Létt, en bratt á köflum.

Dagleið 5 | Hjólaferð

Á hjóladeginum förum við með lest í hjólabúðina í bænum Zell þar sem hver og einn fær hjól við sitt hæfi. Síðan kynnum við okkur umhverfið nánar og hjólum umhverfis þetta yndislega vatn. Farið verður um fallegt svæði á góðum hjólastígum og fyrir augu bera byggingar og kastalar. Möguleiki er að fara í skemmtilega bátsferð um vatnið að lokinni hjálaferð eða skoða sig um í þessum fallega bæ áður en haldið er heim á hótel. 

Myndir úr ferðinni

Fararstjórn

Aðalsteinn Jónsson

Ég heiti Aðalsteinn Jónsson, kvæntur og þriggja sona faðir sem allir eru á kafi í fótbolta og fleiri íþróttum. Ég er lærður íþróttakennari og starfa við það í dag.

Ég starfaði í 10 ár sem fararstjóri, m.a. í Kempervennen Hollandi þar sem stílað var inn fjölbreytta afþreyingu fyrir barnafjölskyldur. Mikið var lagt upp úr alhliða hreyfingu - göngu- og hjólaferðir fyrir alla aldurshópa.

Senda fyrirspurn um ferð

bokun@baendaferdir.is
Síðumúla 2, 108 Reykjavík
Sími: 570 2790

Opnunartími þjónustusíma:
Mán.-fös. 09:30-16:00